Beint í efni

Stjórnarfundir – 8. 2009/2010

07.10.2009

Stjórnarfundur í Landssambandi kúabænda haldinn á skrifstofu framkvæmdastjóra 7. október 2009. Mættir eru Sigurður Loftsson, formaður, Sigurgeir Hreinsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Fundargerð ritaði Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri. Gestur fundarins undir 3. lið var Þórólfur Sveinsson verkefnisstjóri LK og SAM í Evrópusambandsmálum. Um kl. 15 var haldið í Nýja Kaupþing þar sem Helgi Bragason og Hrafn Nikolai Ólafsson kynntu hugmyndir bankans að lausnum fyrir skuldsetta kúabændur, fyrir stjórn LK.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna, setti fund og gekk til dagskrár kl. 10.10.

 

1. a. Fundargerð síðustu tveggja funda og framvinda mála síðan þá. Afgreiddar með minniháttar lagfæringum, verði settar á netið eftir yfirstandandi fund.
b. Búnaðargjaldsnefnd og formannafundur. 1. september sl. var haldinn fundur í búnaðargjaldsnefnd. Niðurstaða þess fundar var að aðhafast ekki í málinu að svo komnu, vegna mikilla skerðinga á framlögum úr búnaðarlagasamningi. Þó þarf að fara í saumana á nýtingu búnaðargjalds, hvaða þjónusta á að vera seld o.s.frv. Sama dag var haldinn formannafundur BÍ. Þar kom í fyrsta skipti fram hvernig Bændasamtökin myndu standa að umsóknarferli Íslands að ESB. Formaður ágætlega sáttur við hugmyndir BÍ hvað þetta varðar, velti fyrir sér hvort eðlilegt hefði verið að setja einn verkstjóra yfir málið af hálfu samtakanna.
c. Málþingið “Litróf landbúnaðarins”. Formaður hefði vænst meiri árangurs af þeirri vinnu sem í verkefnið hefur verið lögð. Svo virðist sem niðurstaða hópsins snúist að miklu leyti um þá skoðun að stuðningskerfi mjólkurframleiðslunnar sé klafi á sveitum landsins.
d. Fundur með alþingismanni. Formaður og framkvæmdastjóri áttu ágætan fund þann 6. október með Róberti Marshall, þingmanni Samfylkingarinnar og nefndarmanni í Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis. Farið yfir breytingar á búvörulögum er varða forgang greiðslumarksmjólkur á innanlandsmarkað, auk annarra atriða er varða greinina.
e. Fundur með ráðherra. Fundur framkvæmdastjóra og Snorra Arnar Hilmarssonar, formanns félags nautakjötsframleiðenda með Jóni Bjarnasyni ráðherra búnaðarmála að morgni 7. október. Holdanautabændur óska eftir að fá nýtt blóð í hjarðir sína með innflutningi á djúpfrystu nautasæði til notkunar heima á búunum. Í málaskrá ríkisstjórnarinnar er boðuð framlagning frumvarps til breytingar á lögum um innflutning dýra, sem heimili innflutning á djúpfrystu svínasæði. Nái það frumvarp fram að ganga, er eðlilegt að innflutningur djúpfrysts nautgripasæðis verði einnig heimilaður. Ráðherra mun ræða málið við yfirdýralækni.

2. Verðlagsmál. Verðlagsgrundvöllur 1. september 2009 liggur ekki enn fyrir. Uppgjör Hagþjónustu landbúnaðarins fyrir árið 2008 liggur heldur ekki fyrir. Stjórn telur algerlega óviðunandi að engar upplýsingar séu orðnar aðgengilegar um afkomu greinarinnar árið 2008 þegar komið er fram í október 2009. Vænst er að upplýsingar úr “Gróða”, gagnagrunni BÍ um verðþróun lykilaðfanga liggi fyrir við upphaf haustfunda. Mikil óánægja er meðal bænda með verð á nautakjöti, sem hefur verið óbreytt síðan í mars 2008. Formaður og framkvæmdastjóri hafa átt fundi með sláturleyfishöfum til að fara yfir stöðuna á kjötmarkaði. Sú spurning er áleitin hvort LK eigi að nýta sér heimild búvörulaga til að gefa út viðmiðunarverð á nautakjöti.

3. Umsókn Íslands að ESB. Unnið er að svörum við spurningunum  ESB þessa dagana. Heldur hefur verið dregið úr hraða þeirrar vinnu, en ljóst að verkstjórnin er ekki eins og utanríkismálanefnd lagði upp með í áliti sínu. Verkefnisstjóri fór yfir minnisblað um framgang verkefnisins síðustu vikur og mánuði. Ljóst að í umsókn um aðild að ESB felast miklar hættur fyrir búgreinina. Viðbrögð LK og SAM við þingsályktunartillögunum hafa skipt máli og náð inn í nefndarálit meirihluta utanríkismálanefndar með jákvæðum hætti. Spurningar eru margar hverjar pólitískar, eins og t.d. framleiðslumarkmið næstu 10 ára. Um málið hefur engin pólitísk stefna verið mörkuð, hafa embættismenn leyfi til að svara slíkum spurningum? Mjög slæmt að samningahóparnir hafi ekki ennþá verið skipaðir. Búast má við að glíman við íslenska embættismenn um að gera kröfur fyrir hönd landbúnaðarins verður erfiðari en við ESB sjálft. Spurningunum verður svarað og svörin send til Brussel. Eru líkur á að tíminn frá því að spurningunum hefur verið svarað, þar til aðildarviðræður hefjast verði stuttur? Það mundi gera svigrúmið til að móta samningsmarkmið, sem er gífurlega mikilvægt fyrir landbúnaðinn, lítið og að niðurstaðan verði eftir því. Þrátt fyrir þetta, á greinin ekki kost á öðru en að vinna málið áfram með faglegum hætti og vera tilbúin með kröfur og samningsmarkmið á hendur stjórnvalda. Mjög margt hvað þetta varðar verður ekki ljóst fyrr en stjórnvöld hafa lagt fram samningsmarkmið, hvað af þeim næst síðan fram og svo hvort samningurinn verður samþykktur. Ýtarlegar umræður urðu um málið.

4. Framleiðsla, sala, markaðs- og útflutningsmál. Ágæt sala á mjólkurvörum í september. Stefnumörkunarhópur vegna útflutningsmála hefur ekki lokið störfum og ekki hefur enn verið gefið út verð á umframmjólk. Framkvæmdastjóra falið að senda Auðhumlu erindi um framleiðslu og verð á mjólk umfram greiðslumark á yfirstandi verðlagsári og hvort bændur eigi að gera framleiðsluáætlanir í samræmi við það.

5. Endurskoðun aðbúnaðarreglugerðar. Snorri Sigurðssyni hjá Landbúnaðarháskóla Íslands hefur verið falið að koma með tillögur að endurskoðun reglugerðar um aðbúnað nautgripa. Eðlilegt að taka einnig mið af vinnu við mat á velferð kúa sem hefur verið í gangi við skólann. Sigurður og Guðný Helga munu lesa yfir reglugerðina ásamt tillögum Snorra.

6. Breyttar flokkunarreglur mjólkur. Verðfelling vegna líftölu, frumutölu og lyfjaleifa verði á vikugrunni í stað mánaðargrunni eins og verið hefur. Skerðingarhlutfallið verði á móti fjórfaldað. Tillögur starfshópsins voru að breytingarnar tækju gildi 1. október 2009. Úr þessu verða þær ekki fyrr en 1. nóvember eða 1. desember 2009. Frumkvæði að þessum breytingum kemur frá bændum sjálfum. Einnig verði komið á flokkun og verðskerðing vegna frjálsra fitusýra. Flokkunin vegna ffs. taki gildi á áðurnefndum dagsetningum en verðskerðing vegna frírra fitusýra taki gildi 1. janúar 2011. Frumkvæði að þessu kemur frá iðnaðinum, þar sem ffs. eru vaxandi vandamál. Viðmiðunargildi fyrir 1. flokk verð 1,1 millimól í lítra. Þá er gerð tillaga um að álagsgreiðsla fyrir 1A mjólk taki mið af þróun mjólkurverðs.

7. Heimavinnsla mjólkur. Sigurður og Guðný Helga sátu fund með forsvarsmönnum Beint frá býli og lögðu fram minnisblað frá honum. BFB telja sig hafa gert það sem í þeirra valdi stendur til að standa eðlilega að skráningu mjólkurframleiðslu félagsmanna vegna heimavinnslu. Eins telja þau sig hafa fengið misvísandi upplýsingar frá SAM og BÍ vegna málsins, en eru áfram um að koma málinu í farveg. Líta svo á að það sé ákveðin viðurkenning á því að ná fram aukinni fjölbreytni á markaði að fá að vinna úr ákveðnu magni mjólkur utan greiðslumarks.
Stjórn ræddi málið frá ýmsum hliðum, mikil jákvæðni er gagnvart þessari starfsemi, en skoða þarf úrlausnir af yfirvegun. Fyrri ákvörðun stjórnar LK varðandi styrk til BFB verður ekki endurskoðuð að sinni. Fram hefur komið að styrkveiting LS er háð því að LK veiti hliðstæðan stuðning. Stjórn LK telur óþægilegt að styrkveitingar séu tengdar saman með þeim hætti.

8. Stefnumörkunarhópur LK. Engin breyting hefur orðið á stefnumörkunarhópi LK frá síðasta fundi. Formaður og framkvæmdastjóri stefna að því að ræða við aðila hópsins fyrir næsta fund. Áformað er að tengja hópinn við þá vinnu sem er í gangi vegna aðildarumsóknar Íslands að ESB.

9. Endurskoðun samþykkta LK. Þarf að hefjast eigi síðar en í byrjun nóvember, nauðsynlegt að kalla formenn aðildarfélaganna saman í upphafi starfsins, ásamt stjórn LK. Sveinbjörn tekur að sér að leiða starfið, ásamt formanni.

10. Haustfundir LK. Farið yfir skipulag haustfundanna. Fyrsti fundurinn í Sveinbjarnargerði 15. október n.k. Fundum síðan fram haldið í viku 43 og 44.

11. Fundur með forsvarsmönnum Nýja Kaupþings um skuldastöðu bænda. Kúabændur með mjög svipaðar tekjur og fyrir hrun, sem auðveldar úrlausn mála. Vandinn er f.o.f. útgjaldavandi. Kaupþingsmenn hafa hitt BÍ og búnaðarsamböndin og kynnt þeim þær lausnir sem mögulegar eru. Almenn úrræði koma frá stjórnvöldum, sértæk úrræði frá bönkum.

a. Greiðslujöfnunarvísitala, sett saman úr launavísitölu og atvinnuleysi.

b. Greiðslujöfnun erlendra lána með viðmiði frá 01.05.2008. Sú greiðsla sem greidd var þá, verður greidd nú. Væntanleg lög um þetta efni, lán lengist á hámarki um 3 ár.

c. Sértækar lausnir fyrir kúabændur.

i. Kaupþing og Landsbanki munu fara svipaðar leiðir. Skuldbreytingaraðgerðir fyrir bændur þar sem skuldsetning er umfram greiðslugetu búsins og mjög oft umfram markaðsvirði eigna og rekstrar.

ii. Greiðsluþol. Byggir á rekstrargreiningu ráðunauta bsb. Bónda og fjölskyldu reiknaðar eðlilegar tekjur. Of lágar tölur settar í það box til þessa. Taka tillit til eðlilegs viðhalds og endurnýjunar. Markaðsvirði jarða að mati fasteigna- eða jarðasala, Kaupþing greiðir kostnað af því. Markaðsvirði kvóta skv. meðalverð á síðustu 500.000 lítrum eins og það er birt hjá BÍ.

iii. Markaðsvirði eigna og rekstrar 100%. Heildar skuldsetning 130% -> núverandi staða skulda og eigna. Á móti kemur langt lán (venjulegt veðlán, verðtryggð lán á 5,8% vöxtum) sem fullnýtir rekstrarþol að fullu. Þar inni eru einnig kaupleigufyrirtæki. Þar næst kemur biðlán 1 frá rekstrarþoli upp að 110% að markaðsvirði eigna og rekstrar (tryggingabréf), biðlán 2 upp að 130% af markaðsvirði (ótryggt). Biðlánin eru án vaxta og verðtryggingar, með gjalddaga eftir 3 ár.

iv. 70 kúabændur þurfa á endurskipulagning skulda að halda, af ca. 280 viðskiptavinum.

d. Aðrar aðgerðir:
i. Kaup á hluta jarðar – sem ekki er í landbúnaðarnotkun?
ii. Stofnun hlutafélags bónda og banka um rekstur jarða ?
iii. Sameining búa?
iv. Sala til þriðja aðila?
v. Sala greiðslumarks?

e. Greinilegur vilji til að fá menn til að færa sig úr erlendu yfir í ISK –  erlend fjármögnun bankanna er engin eins og er. Skuldaálag ríkisins er 3%, bankanna 5%, álag til bænda 2-3%. Krónan má ekki styrkjast að neinu viti, þá verður annað hrun, þar sem skuldir bankanna eru að mestu leyti í ISK en eignir mikið í erlendri mynt.

f. Eiga bú sem voru ekki/varla rekstrarhæf fyrir hrun, erindi eftir hrun, nema með aðkomu nýrra eigenda? Mjög gild spurning, en hvar á að draga línuna?

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.45.

 

Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri LK