Stjórnarfundir – 5. 2009/2010
10.06.2009
Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda, haldinn á skrifstofu LK Bitruhálsi 1, 10. júní 2009. Mætt eru Sigurður Loftsson formaður, Sigurgeir Hreinsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð. Formaður setti fund kl. 10.10 og gekk til dagskrár.
1. Fundargerð síðasta fundar og framvinda mála síðan þá. Fundargerð frá 20. apríl samþykkt með smávægilegri athugasemd. Mjólkursamningur samþykktur með 83% atkvæða. Ályktun um búnaðargjald hefur verið send BÍ. Fundur 7. maí með Jóni Kr. Baldurssyni og Snorra Sigurðssyni um gæðamál mjólkur, líftölu og fríar fitusýrur. Liggur á málinu vegna endurskoðunar verðskerðingarákvæða. Einn fundur haldinn í stefnumörkunarhópi um útflutningsmál 27. apríl. Gengið frá símamálum stjórnar.
2. Fundur með Sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra 27. maí sl. Formaður og framkvæmdastjóri áttu fund með Jóni Bjarnasyni í lok maí. Rædd var aðkoma ráðuneytisins að umsóknarferlinu um aðild Íslands að ESB. Ráðherra ítrekaði andstöðu sína við umsóknina og mun ráðuneytið að svo komnu ekki taka frumkvæði að gerð samningsmarkmiða. Greinilegt er þó að ríkisstjórnin ætlar að hraða málinu. Ráðherra lýsti yfir að hann myndi ekki leggja “matvælafrumvarpið” fram að nýju með hráu kjöti. Hráa kjötið hefur þó, fram til þessa, verið eitt af grundvallaratriðum frumvarpsins, stutt þeim rökum að EES samningurinn krefðist þess. Athygli vekur að á sama tíma liggur fyrir alþingi þingsályktunartillaga um aðildarumsókn að ESB. Staða opinberrar verðlagningar rædd og mikilvægi þess að treysta búvörulög. Góður skilningur er á mikilvægi þessara mála og hét ráðherra því að taka breytingu á búvörulögum fyrir á haustþingi. Þar sem tími var mjög knappur var ákveðið að fá annan fund með ráðherra sem allra fyrst, framkvæmdastjóra falið að fylgja því eftir. Þar verði m.a. farið yfir skuldsetningu kúabúanna. Lítið að gerast í bönkunum og ekkert ber á samræmdum aðgerðum. Stjórnin sér ástæðu til að fagna afstöðu ráðherra gagnvart innflutningi á fersku kjöti, allar ályktanir bænda lúta í þá átt.
3. Framleiðsla, sala, verðlagsmál og afkoma kúabúa 2008. Áframhaldandi tilflutningur er milli vöruflokka. Mikil aukning í “annarri mjólk” sem fer til frekari vinnslu. 12 mánaða framleiðsla eftir apríl 126,5 milljónir ltr en sala á próteingrunni 116,5 milljónir ltr. Söluyfirlit fyrir maí 2009 liggur fyrir mjög bráðlega. Ljóst er að engar forsendur eru fyrir greiðslumarki yfirstandandi árs. Greiðslumark næsta verðlagsárs var rætt á fundi SAM 8. júní sl. og var óskað eftir því að fá að fresta ákvörðun um greiðslumark næsta árs fram í júlí, þegar sala júnímánaðar liggur fyrir. Mikil óvissa í sölumálum og rekstri mjólkuriðnaðarins. Forgangsmál að taka á framlegðarskekkjunni í drykkjarmjólk og millibúaverði. Ljóst er að í gildi er vinnuregla um ákvörðun á greiðslumarki og mjög haldbær rök þarf til að víkja frá henni. Breytingar á greiðslum fyrir umframmjólk geta haft umtalsverð áhrif.
Lagður fram samanburður sömu búa milli 2007 og 2008 úr Sunnuverkefninu hjá BSSL og Ráðhildi í Búgarði. Framlegð lækkar milli ára, mun minni niðurfærsla á greiðslumarki en fyrri ár, rafmagnskostnaður á uppleið. Hækkun á fjármagnsliðum alveg án dæma. Lagðar fram hugmyndir um möguleg úrræði vegna skuldsetningar búa. Persónuleg tengsl bænda við sína viðskiptabanka skipta meira máli núna en nokkru sinni. Svo virðist sem lítil skipulögð og samræmd vinna sé í gangi hjá fjármálastofnunum varðandi varanleg úrræði fyrir skuldugra bændur.
Óframleiðslutengdur stuðningur næsta árs. Greiddar hafa verið til BÍ rúmar 130 milljónir og þeim ráðstafað eins og samið hefur verið um. Engin ástæða er til að greiða út eingreiðslu eins og fyrri ár, þar sem heimild er nú til að færa á milli flokka, því verði það sem útaf stendur heldur fært yfir á beingreiðslurnar.
4. Aðildarumsókn að ESB. Komnar fram tvær þingsályktunartillögur. Líklegt að úr þeim verði einhver sá bræðingur sem leiði til aðildarumsóknar á þessu ári. Athyglisvert að sjá hverjir eru á lista utanríkismálanefndar yfir umsagnaraðila, t.d. nemendafélög allra háskóla, einnig hverjir eru ekki þar, t.d. Landssamband kúabænda og mjólkuriðnaðurinn. Stjórnir LK og SAM, hafa ákveðið að ráða sameiginlega Þórólf Sveinsson til að semja umsögn um þingsályktunartillögur þessar og fara í nauðsynlega vinnu varðandi framhald málsins. Drög að umsögn liggja nú þegar fyrir. Nauðsynlegt að mjólkurframleiðslan, bændur og iðnaðurinn, hafi aðkomu að málinu frá upphafi. Rætt um að í starfshópi þar að lútandi verði Þórólfur Sveinsson, stjórnarformaður Auðhumlu, stjórnarformaður LK og framkvæmdastjóri LK. Leitast verði við að hafa góð tengsl við BÍ sem og forystumenn annarra búgreinafélaga í þessari vinnu. Trúnaðarmannahópi LK, stjórnum aðildarfélaga, aðalfundarfulltrúum og fulltrúum í stefnumörkunarhópi verði kynnt aðkoma LK að málinu hið allra fyrsta. Kostnaður vegna starfsmanns greiðist hlutfallslega af LK og SAM eftir vinnuframlagi. Hann verði þó aðeins ráðinn hjá öðrum aðilanum.
5. Huppa.is, stuðningur af þróunarfé nautgriparæktarinnar. Í umsókninni er sótt um 3,1 milljón til að greiða notendagjöld í stað þess að innheimta þau af bændum og spurning hvort það sé eðlileg ráðstöfun þessara fjármuna. Þróunarfé er orðið af skornum skammti. Stjórnin telur eðlilegt að greiða af þróunarfé fyrir þróun forritsins, jafnvel í ríkari mæli en sótt er um, en ekki notendagjöld. Spurt hvernig málum er háttað varðandi önnur forrit annarra búgreina hjá BÍ. Lagt til að ef settar verði meira en 4 milljónir í verkefnið, skuli áréttað að það sé til frekari þróunar á forritinu.
6. Fundir með afurðastöðvum á Akureyri, 26. maí sl. Formaður og framkvæmdastjóri heimsóttu Norðlenska, MS Akureyri og Kjarnafæði. Kom til vegna heimboðs framkvæmdastjóra Norðlenska og hugmynda að félagslegri uppbyggingu kjötgeirans. Varðandi sölumálin er greinileg þróun í þá átt að ódýrari hlutar skrokksins seljast, en þeir dýrari sitja eftir. Áhyggjur af flutningskostnaði afurða.
7. Námskeiðahald og endurmenntun kúabænda. Hugmyndir að efni: meðferð á kúm í upphafi geldstöðu, fóðrun á geldstöðunni og burðarhjálp. Votheysstæðugerð. Ferill, endurræktun, rými og ýmis atriði.
8. Önnur mál.
a.Útflutningur mjólkurafurða. Verður ræddur á fundi með stjórn Auðhumlu.
b.Varamaður í samráðsnefnd SAM og BÍ. Jóhann Nikulásson er aðalmaður. Sveinbjörn Þór Sigurðsson tilnefndur sem varamaður.
c.Stefnumörkunarhópur. Endurskoðun á tilnefningum. Verður tekið fyrir í sumar.
d.Fundur á Grand Hótel 9. júní um útiræktun á erfðabreyttu byggi. Málið greinilega í margra huga mjög heitt.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14.19.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda.