Stjórnarfundir – 3. 2009-2010
17.04.2009
Stjórnarfundur í Landssambandi kúabænda haldinn 17. apríl 2009. Símafundur. Sigurður Loftsson formaður bauð stjórnarmennina Sigurgeir Hreinsson, Guðnýju Helgu Björnsdóttur, Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson velkomna á línuna og hóf fund kl. 10.05. Baldur Helgi Benjamínsson ritaði fundargerð.
Tekið var fyrir eina dagskrármál fundarins.
1. Breytingar á búvörusamningum. Formaður kynnti útsend drög að breytingum á samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar frá 10. maí 2004. Í drögum að breytingum er gert ráð fyrir að breyta verðlagsáramótum, þannig að þau miðist við almanaksáramót og gert ráð fyrir að breytingarnar taki gildi 1. janúar 2010. Tvær leiðir í stöðunni, fjögurra mánaða verðlagsár 1. sept. 2009-31. des. 2009 eða 16 mánaða verðlagsár frá 1. sept. 2009 til 31. desember 2010. Síðari kosturinn talinn vænlegri, er einnig skoðun mjólkuriðnaðarins.
Árleg framlög samkvæmt 6. gr. samningsins fyrir árin 2009 til 2012 verða sem hér segir, sbr. V-lið ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 99/1993, sbr. 2. gr. laga nr. 173/2008.
2009: 5.425,0 m.kr.
2010: Framlag hækkar um 2% frá árinu 2009 og verður 5.534,0 m.kr.
2011: Framlag hækkar um 2% frá árinu 2010 en auk þess bætist við helmingur af því sem upp á vantar að upphæðin sé samkvæmt 6. grein samnings. Þó skal hækkun milli áranna í heild ekki vera meiri en 5%.
2012: Fjárhæð skv. 6. grein samnings, en þó skal hækkun frá fyrra ári ekki vera meiri en 5%.
Samningsaðilar eru sammála um að framlengja samning þennan um 28 mánuði eða til ársloka 2014. Í töflu 1 bætast þá við 2 ár, 2013 og 2014. Fjárhæðir lækka um 1% á ári hvort ár, að teknu tilliti til uppfærslu samkvæmt vísitölu neysluverðs, sbr. ákvæði 6. gr. samningsins.
Við 6. gr. bætist nýr liður, 6.5., svohljóðandi: „Verði samkomulag með samningsaðilum er þeim heimilt að ákvarða tilfærslu fjárhæða milli einstakra liða í töflu 1.“ LK vill að ekki verði frekari formbreyting stuðningsins en ákveðið hefur verið á næsta verðlagsári, þær formbreytingar sem gert er ráð fyrir í samningi að eigi sér stað árið 2011 og 2012, verði færðar yfir á viðbótarárin 2013 og 2014.
Samningsaðilar eru sammála um að beita sér fyrir könnun á skuldastöðu mjólkurframleiðenda í samvinnu við viðskiptabanka í þeim tilgangi að leita lausna til að bæta stöðu greinarinnar í þeim fjármálaþrengingum sem þjóðin býr nú við. Þá eru samningsaðilar sammála um að hefja vinnu við endurskoðun á landbúnaðarstefnunni í þeim tilgangi að treysta stöðu landbúnaðarins og búa hann undir breytingar á komandi árum. Lykilatriði að slíkar breytingar verði framkvæmdar í samráði við samtök bænda og búgreinafélögin. Ósk um bókun varðandi breytingu á búvörulögum. Reynt að fá inn rauð strik með tilliti til verðlags. Viðsemjendur alveg ófáanlegir að ganga að þessum tveimur atriðum. Langt verðlagsár gæti orðið skuldsettum bændum sem framleiða mikið umfram greiðslumark erfitt, þar sem tímabilið með skertu tekjustreymi lengist sem nemur lengingu verðlagsársins. Of skammur tími til stefnu að breyta verðlagsáramótunum síðla á þessu ári. Dýrmætt að fá 28 mánaða framlengingu. Talsverð áhætta varðandi þróun verðlagsmála. Hvort sem farið verður í langt eða stutt verðlagsár, þarf að hafa talsverðan sveigjanleika í tilflutningi framleiðslu milli verðlagsára. Alþekkt hvað framleiðsluferill mjólkurframleiðslunnar er langur. Þarft að fá viðurkenningu á því að þörf sé á því að skýra réttarstöðu framleiðslu mjólkur innan greiðslumarks. Í rauninni er verið að bæta árum inn í miðjan samning, ekki aftan við hann. Eigum að halda því á lofti hvað þetta þýðir í skertum framlögum, m.v. þann samning sem gerður var 2004. Sú upphæð verður væntanlega 700 milljónir kr árið 2009, ’10 og ’11. Ef verðbólgan fer á flug getur hún orðið meiri. Mikilvægt að vanda alla kynningu á málinu fyrir bændum, ekki síður þá sem sett verður á naut.is heldur en þá sem komi í Bændablaðinu og á væntanlegum kynningarfundum um málið. Stjórn veitir formanni umboð til að samþykkja þessi drög fyrir sitt leyti.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11.00
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri LK