Stjórnarfundir – 11. f. 1999/2000
10.08.2000
Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda
Áttundi fundur stjórnar LK var haldinn í fundarsal Bændasamtakanna fimmtudaginn, 10. ágúst 2000 og hófst hann klukkan 11. Fundinn sátu Þórólfur Sveinsson, Gunnar Sverrisson, Kristín Linda Jónsdóttir, Hjörtur Hjartarson, Birgir Ingþórsson og Egill Sigurðsson. Einnig sat fundinn Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð.
Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til boðaðrar dagskrár:
1. Undirbúningur aðalfundar
– Tillögur stjórnar til aðalfundar
Þórólfur fór yfir fyrstu drög að tillögum stjórnar til aðalfundar. Mörg mál voru dregin fram og rædd ýtarlega og þá sérstaklega málefni einstaklingsráðgjafar fyrir kúabændur. Formanni falið að útfæra drögin frekar og ákveðið að ganga frá endanlegum tillögum á næsta stjórnarfundi.
– Starfsmenn og starfsnefndir
Stjórn ákvað að gera að tillögu sinni að Gunnar Kr. Eiríksson, Túnsbergi, verði gerður að fundarstjóra ásamt Árna Sigurðssyni, Marbæli. Til vara verði gerð tillaga um Stefán Magnússon, Fagraskógi.
Þá var og samþykkt tillaga um að í uppstillingarnefnd verði Elvar Eyvindsson, Skíðbakka, Sigríður Bragadóttir, Síreksstöðum og Pétur Diðriksson, Helgavatni.
Í aðrar einstakar nefndir verði gerð tillaga um að eftirtaldir yrðu formenn fag-, félags- og framleiðslunefndar: Sigurður Loftsson, Steinsholti, Birna Þorsteinsdóttir, Reykjum og Gunnsteinn Þorgilsson, Sökku.
– Búnaðarþingskosningar
Málefni búnaðarþingskosninga voru rædd og mun uppstillingarnefnd sjá um tilnefningar á fulltrúum til búnaðarþings.
– Annað
Boðsgestalisti ræddur og yfirfarinn. Einnig rætt um aðkomu fréttamanna að fundinum og gögnum hans. Framkvæmdastjóri mun sjá um að koma nauðsynlegum upplýsingum til fréttamanna.
2. Verðlagsmál
– Mjólkurframleiðsla og -sala
Lagt var fram til kynningar yfirlit yfir innvegna mjólk og sölu.
– Nautakjöt
Rætt um nautakjötsmálin og hvernig framtíðin líti út gagnvart framtíðarframleiðslunni. Ljóst að mikill slagur er framundan með svína- og alífuglakjöt og fyrirséð að það kjöt mun fara lækkandi á komandi misserum. Margar leiðir hafa verið skoðaðar hvort hægt sé að stytta bið eftir slátrun og mun það skýrast á næstunni. Nokkrar umræður urðu einnig um birtingu biðlista eftir slátrun og voru fundarmenn með efasemdir um að rétt væri að birta listann opinberlega og að listinn gæfi rétta mynd af stöðunni. Þá var og lagt til að LK muni halda utan um þau verð sem sláturleyfishafar eru að borga fyrir nautakjöt á hverjum tíma. Áætlað er að það verði gert og birt reglulega á vef LK.
– Drög að nýjum verðlagsgrundvelli
Þórólfur kynnti nýjar upplýsingar frá Hagþjónustu landbúnaðarins og Bútæknideildar varðandi gerð nýs verðlagsgrundvallar. Töluverðar umræður urðu um þá bústærð sem unnið er út frá og með hvaða hætti eigi að standa að gerð útreiknings á þörf kúabænda fyrir afurðaverð. Þá voru ræddir vextir og hvort sá vaxtaútreikningur og vaxtahlutfall sem notað er í líkaninu í dag sé rétt. Einnig urðu umræður um hvort miða ætti grundvallarbúið við fjölskyldubú eða einyrkjabú.
3. Íslenskur landbúnaður og Evrópusambandið
Dreift var útdrætti úr skýrslu utanríkisráðherra og lagt fram til kynningar.
4. Félagsstarfið, hugleiðingar um áherslur kynningarmála
Kristín Linda fór yfir tillögur um hvernig mætti kynna LK betur gagnvart almenningi. Fram komu þar hugmyndir um breytingar á merki LK, framleiðslu á merkjum og ýmsum hlutum. Samþykkt var að framkvæmdastjóri geri áætlun um kostnað við að hönnun á nýju merki og framleiðslu á ýmsum varningi því tengdu. Þá var rætt um hvort LK eigi að veita einhverskonar heiðursverðlaun á aðalfundi LK. Ákveðið var að gera það á komandi aðalfundi og heiðra þar nokkra aðila samkvæmt ákvörðun stjórnarinnar. Einnig var nefnt hvort stofna ætti sérstakan kynningarhóp fyrir LK sem sjá mundi um að koma málefnum stéttarinnar á framfæri.
5. Reikningar LK
Reikningar LK fyrir 1999 voru lagðir fram og höfðu þegar verið yfirfarnir af skoðunarmönnum. Engar athugasemdir komu fram, hvorki hjá skoðunarmönnum né stjórnarmönnum og voru þeir samþykktir samhljóða og undirritaðir.
6. Innsend erindi og bréf
LK hafði borist erindi frá LBH um að Snorra Sigurðssyni yrði heimilt að taka virkan þátt í vinnu við undirbúning kennslu- og rannsóknarfjóss á Hvanneyri. Var það samþykkt samhljóða.
Afrit af ársskýrslu RM var lögð fram til kynningar.
7. Önnur mál
Hjörtur skýrði frá stöðu mála hjá Rannís-nefndinni svokölluðu. Áfangaskýrslu er að vænta í byrjun september og hefur verið samið við danska sérfræðinga um uppgjör. Áætlað er að þeirri vinnu ljúki í lok nóvember. Endanlegri skýrslu Rannís-nefndarinnar er að vænta í lok vetrar.
Egill skýrði frá umræðum sem verið hafa á Suðurlandi varðandi úthlutun greiðslumarks á ríkisjörðum og sölu á slíkum jörðum. Hvað hann menn velta því fyrir sér með hvaða hætti sé staðið að þessum viðskiptum hjá landbúnaðarráðuneytinu. Nokkrar umræður urðu um málið og ákveðið að framkvæmdastjóri óski skýringa hjá ráðuneytinu um málið og fái upplýsingar um fjölda mjólkurframleiðenda á ríkisjörðum.
Birgir óskaði eftir upplýsingum um arðgreiðslur á mjólk til bænda fyrir síðasta ár, skipt eftir svæðum og var framkvæmdastjóra falið að útvega þessar upplýsingar.
Næsti fundur verður haldinn 22. ágúst á Hótel Selfossi.
Fleira ekki bókað og fundi slitið kl.16:30
Snorri Sigurðsson
Snorri Sigurðsson