Stjórnarfundir – 9. 2008-2009
11.03.2009
Stjórnarfundur LK haldinn á skrifstofu framkvæmdastjóra 11. mars 2009. Mættir voru Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.
Formaður setti fund kl. 10.30 og gekk til dagskrár.
1. Ársreikningur LK 2008. Er í vinnslu og skal liggja fyrir endurskoðaður eigi síðar en 20. mars n.k.
2. Staða verðlagsmála. Framreikningur verðlagsgrundvallar liggur ekki fyrir. Afkoma afurðastöðva slæm árið 2008, til viðbótar því rýrnuðu séreignasjóðir Auðhumlu um nálægt 300 milljónir. Afkoma iðnaðarins hefur verið mjög erfið síðan ákvörðun var tekin um verðstöðvun haustið 2006. Markaðurinn farinn að gefa eftir í framlegðarhærri vörum en gengur mjög vel í þeim framlegðarlægri. Verkefnið um breytingu á verðhlutföllum mjólkurvara verður sífellt brýnna en jafnframt erfiðara í framkvæmd. Afkoma kjötafurðastöðva er mjög þung um þessar mundir. Aðstæður á kjötmarkaði. Á LK að gefa út viðmiðunarverð á nautakjöti? Standa samtökin sterkar að vígi til að fylgja málinu eftir, ef þau nýta lagaheimild til útgáfu viðmiðunarverðs.
3. Búnaðarþing 2009. Rólegt, allt að því dauflegt þing. Afkoma Lífeyrissjóðs bænda bærileg m.v. aðstæður á fjármálamörkuðum, afkoma Hótels Sögu hins vegar mjög slæm.
4. Álit Samkeppniseftirlitsins. Staða búnaðarþingsfulltrúa skiptir miklu máli, þeir fulltrúar sem eru stjórnarmenn í afurðastöðvum eru í allt annarri stöðu en aðrir fulltrúar. Staða kúabænda einnig sérstök að því leyti að mjólkin er háð opinberum verðlagsákvæðum. Hlýtur að kalla á uppstokkun í vinnubrögðum Búnaðarþings. Hvaða áhrif hefur álitið á áhuga kúabænda á að fara út úr opinberri verðlagningu? Atburðir haustsins 2008 breyttu samfélaginu. Ólíklegt að færi gefist á að fara út úr þessu miðstýrða kerfi, m.v. andrúmið í samfélaginu.
5. Fundur formanns og framkvæmdastjóra með Brunatæknifélagi Íslands 18. febrúar. Tvö atriði sem vöktu mesta athygli. Í fyrsta lagi er heimilt að selja byggingarefni sem ekki standast kröfur um brunavarnir. Hitt er rafmagnið, það er algert forgangsmál að ráða bót á frágangi raflagna í fjósum, þar eru eldsupptök í langflestum tilfellum. Fulltrúi Neytendastofu kom fyrir nefnd á Búnaðarþingi og ræddi brunaeftirlit sveitarfélaga, sem er notendum að kostnaðarlausu. Samstarf við Auðhumlu um þessi mál, hefur augljóslega áhrif á iðgjald rekstrarstöðvunartrygginga sem Auðhumla greiðir.
6. Fundur Landssamtaka landeigenda. Ákveðið að útvíkka samþykktir félagsins í þá veru að vera hagsmunasamtök allra þeirra sem eiga land. LK þarf að hafa tengingu við samtökin.
7. Hvað kostar greiðslumarkið? Við birtingu BÍ á verði greiðslumarks fyrir janúar og febrúar 2009 urðu mistök við útreikning meðalverðs á greiðslumarki, þannig að birt var verð sem reyndist vera um 30 krónum/ltr lægra en það sem raunin var. Þetta er afar óheppilegt og skorar LK á BÍ að koma málum þannig fyrir að mál af þessu tagi endurtaki sig ekki.
8. Ráðstöfun minna framleiðslutengds stuðnings. Kynnt tillaga að samkomulagi BÍ, LS og LK um ráðstöfun framlaga til jarðræktargreiðslna. Úr mjólkursamningi koma 82 milljónir, úr sauðfjársamningi koma 35 milljónir og 13 milljónir úr búnaðarlagasamningi. Uppskera er kvöð. Eftirlit framkvæmt með stikkprufum. Stjórn LK leggur til að framlögð tillaga verði samþykkt.
9. Stefnumörkunarhópur. Rædd samantekt á störfum stefnumörkunarhóps og úrvinnsla á aðalfundi. Skipan í nefndir og umræðuhópa.
10. Aukafundur vegna samþykktabreytinga. Ekkert er því til fyrirstöðu að halda aukafund að morgni 27. mars. Ákveðið að boða til hans kl. 10 árdegis þann dag. Aðalfundur settur í beinu framhaldi af aukafundi þessum. Lagt til að kjörbréfanefnd á aukafundi verði skipuð þeim Pétri Diðrikssyni á Helgavatni, Magnúsi R. Sigurðssyni á Hnjúki og Ragnari Magnússyni í Birtingaholti IV. Kynntar tillögur að samþykktabreytingum.
11. Hagnýt atriði varðandi aðalfund. Kvöldverður á föstudagskvöldinu verður í boði LK. Fundarstjórar á aðalfundi verði Jón Gíslason og Valdimar Guðjónsson. Hópstjórar verði Jóhannes Jónsson, Þórarinn Leifsson og Guðrún Sigurjónsdóttir. Ákveðið að óska eftir því við Gylfa Magnússon viðskiptaráðherra að hann flytji erindi á fundinum.
12. Hugmyndir að ályktunum.
a. Ályktun um búnaðargjald.
b. Ályktun um þjónustu fjármálastofnana
c. Ályktun um Bjargráðasjóð
d. Tillaga um endurskoðun og samræmingu samþykkta aðildarfélaga
e. Tillaga um greiðslur til að flýta uppgjöri á gögnum um afkomu kúabænda
f. Brunavarnir í útihúsum
g. Vaxtalækkun – stýrivextir
h. Gæðamál mjólkur, gerlatala, fríar fitusýrur.
13. Fjármögnun áburðarkaupa. Auðhumla býður upp á fastar millifærslur vegna áburðarkaupa, engar ábyrgðir eða lán vegna áburðarkaupa.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.40.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri LK