Beint í efni

Stjórnarfundir – 8. 2008-2009

29.01.2009

Stjórnarfundur LK var haldinn að Bitruhálsi 1 fimmtudaginn 29. janúar 2009. Mætt eru Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Jóhann Nikulásson, Guðný Helga Björnsdóttir og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK ritaði fundargerð.

 

Formaður LK bauð fundarmenn velkomna og setti fund kl. 11.00.

 

1. Staða og horfur í afkomu kúabænda. Nokkuð misvísandi upplýsingar um afkomuna eftir héruðum. Ljóst að allmörg bú eru tæknilega gjaldþrota. Að því gefnu að fjármálastofnanir geti starfað eðlilega, ætti að vera hægt að fleyta langflestum búum inn í nýtt framleiðslutímabil. Erlend lán verða væntanlega fryst áfram. Horfur á verulegum hækkunum á áburði á næstu dögum. Styrking krónunnar undanfarna daga er þó mikið fagnaðarefni hvað þetta varðar. Ljóst er þó að næsti vetur verður afkomulega afar erfiður. Æskilegt að bændur færi bókhald mun oftar en nú er gert, á tveggja mánaða fresti eða jafnvel mánaðarlega. Sama gildir með úrvinnslu gagnanna. Með því sést miklu betur hvernig þróunin í greininni er. Stjórnin velti fyrir sér hugsanlegum hvatningargreiðslum í þessu sambandi.
2. ESB mál. Miðað við þróun stjórnmála á undanförnum dögum eru snöggtum minni líkur á að sótt verði um aðild að ESB á þessu ári en fyrir nokkrum vikum. Engu að síður er skynsamlegt að greiningarvinnu sem að þessu lýtur haldi áfram, aðildarviðræður eru ekki útilokaðar. Sama gildir með WTO. Hvort tveggja verður viðfangsefni stjórnmálanna áfram. Hefur einnig áhrif á stefnu LK í verðlagningarmálum.
3. Staða í sölumálum mjólkur og kjöts. Biðlistar fyrir gripi til slátrunar eru frá því að vera nánast engir upp í rúman mánuð. Framleiðsla og sala mjólkurafurða gengur vel. Sala á próteingrunni 117,1 milljón lítra og 112,3 milljónir lítra á fitugrunni. Innvigtun 126,1 milljónir lítra árið 2008, hefur verið góð fyrstu vikur ársins 2009, 1,5-2% yfir sambærilegum vikum sl. árs.
4. Húsleit hjá fóðursölufyrirtækjum og tengd mál. Óvenjulegt að skoðanir framkvæmdastjóra LK sé lagður að jöfnu við aðgerðir opinberrar eftirlitsstofnunar.
5. Ályktanir vegna Búnaðarþings 2009.

a. Ályktun um ráðstafanir í fjármálum.
b. Ályktun um Bjargráðasjóð og málefni hans.

 

6. Tilnefning eins stjórnarmanns í stjórn SAM, annars til vara. Tilnefning þarf að liggja fyrir eigi síðar en 1. febrúar. Samþykkt að tilnefna Sigurð Loftsson sem aðalmann og Jóhann Nikulásson til vara.
7. Fjósbrunar, tryggingamál kúabænda og skyld mál. Tvíþætt mál, hvernig hefur gengið að fá greiddar tryggingabætur, hvernig er réttarstaða bænda og tryggingavernd þeirra. Hins vegar forvarnaverkefni varðandi tjónaáhættu, t.d. með uppsetningu viðvörunarkerfa. Þátttakendur í forvarnarverkefnum fengju hugsanlega afslátt af iðgjöldum. Huga verður að gengisáhættu varðandi brunatryggingar. Þær taka mið af þróun byggingavísitölu, sem hefur hækkað mun minna en t.d. verð á innfluttum fjósbúnaði.
8. Ráðstöfun minna framleiðslutengds stuðnings. Ræktun mun meiri en ráð var fyrir gert, 12.166 ha, fjárþörf allt að 160 milljónir. Stjórnin taldi vænlegt að tvöfalda jarðræktargreiðslur, úr 40 milljónum í 80 og setja 80 milljónir í skýrsluhaldsgreiðslurnar. Þó háð því að sauðfjárbændur geti komið með meira fé inn í jarðræktarstyrkina, þannig að framlag búgreina sé í svipuðu hlutfalli við útgreiðslur. Eðlilegt í ljósi sífellt hækkandi áburðarverðs að styrkja ræktun, til að stuðla að því að það land sem borið er á, skili sem mestri uppskeru. Óhjákvæmileg aðgerð að ýta við skýrsluhaldinu, t.d. með greiðslum.
9. Samþykktir LK, lágmarksfjöldi í aðildarfélögum. Ræða við Nautgriparæktarfélag Vopnafjarðar. Skilgreinar í samþykktum að stjórn LK hafi úrskurðarvald varðandi félagafjölda á aðalfundi. Samræma skilgreiningu á aðild nautakjötsframleiðenda að aðildarfélögum LK.
10. Aðalfundur LK, nokkur minnisatriði: Ályktanir frá stjórn. Tilnefning fulltrúa LK á Búnaðarþing. Hugsanlegar viðurkenningar, bein útsending verði tryggð. Huga að fyrirlesurum. Fjárhagsáætlun liggi fyrir nokkru fyrir aðalfund. Kvöldverður á föstudagskvöldi verður í boði LK. Aðkomu stjórnar að Árshátíð LK verður að ræða við árshátíðarnefnd.
11. Fagráð. Vinnulag ræktunarhóps og ákvarðanataka við val nautkálfa var rædd. Ársfundur Fagráðs haldinn að Löngumýri í Skagafirði 2. apríl. LK þarf að skipa einn fulltrúa í Fagráð til eins árs í stað Þórólfs sem hættir eftir ársfund.
12. Efnagreiningar fóðurs. Fá tilboð í þessar greiningar erlendis frá.
13. Ályktun frá Félagi kúabænda á Suðurlandi um meint brot ríkisins á mjólkursamningi.
14. Stefnumörkunarhópur LK. Kemst mjólkurframleiðslan í gegnum yfirstandandi efnahagsöngþveiti án þess að á henni verði meiriháttar breytingar?
15. Dýralæknamál. Einungis einn héraðsdýralæknir í Suður-Þingeyjarsýslu.
16. Gjöf LK til nýrrar nautastöðvar. Framkvæmdastjóra falið að ganga frá málinu.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.30.

 

Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri LK