Beint í efni

Stjórnarfundir – 7. 2008-2009

10.12.2008

Símafundur í stjórn Landssambands kúabænda haldinn miðvikudaginn 10. desember 2008 kl. 15.00. Á línuna voru mættir Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Baldur Helgi Benjamínsson ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna á línuna og gekk til eina dagskrármálsins.

 

1. Vanefndir búvörusamninga. Í morgun, 10. desember 2008, var formaður LK ásamt fulltrúum sauðfjár- og garðyrkjubænda og Bændasamtaka Íslands boðaður á fund ráðherra landbúnaðarmála. Tilefni fundarins var að greina fulltrúum bænda frá áður óþekktri stöðu ríkisfjármála og þeirri fyrirætlan ríkisins að greiða ekki nema hluta verðbóta á opinberan stuðning til mjólkurframleiðenda. Skýrt er kveðið er á um verðbæturnar í 6. grein samnings milli ríkisins og bænda um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar, sem undirritaður var 10. maí 2004. Þar segir að “allar fjárhæðir í samningi þessum skulu miðaðar við verðlag 1. janúar 2004, er var 230,00 stig og taka mánaðarlegum breytingum þaðan í frá skv. vísitölu neysluverðs”.  Fyrir mjólkina kemur þetta þannig út að greiða á 5.425.000.000- á þá liði sem upp eru taldir í 6. grein samningsins. Við lauslega skoðun á málinu virðist þetta fela í sér að allar greiðslur til kúabænda sem samningurinn mælir fyrir um, verða mánuð hvern árið 2009 sama eða mjög svipuð upphæð eins og greitt var fyrir desember 2008, óháð verðbólgu á árinu 2009. Stjórn LK er einróma í þeirri afstöðu sinni að hafna þessari fyrirætlun stjórnvalda, og hún sé því látin vera á ábyrgð stjórnvalda einna. Mögulegt er að ganga til samninga við stjórnvöld um málið en til þess telur stjórn LK sig ekki hafa neitt umboð. Samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar var gerður á hálfu samninganefndar bænda annars vegar og ríkisins hins vegar, settur í almenna atkvæðagreiðslu meðal bænda og staðfestur af ráðherrum landbúnaðar- og fjármála og Alþingi Íslendinga. Ljóst er að þessi gjörð leiðir af sér umtalsvert tekjutap bænda, sem þó fer alveg eftir verðbólgustigi ársins 2009, sem umtalsverð óvissa ríkir um hvert verður. Annað atriði og miklu stærra er að í 22 ár hafa bændur getað treyst því að ríkið muni standa við gerða samninga. Ráðherra landbúnaðarmála sá ástæðu til að geta þess alveg sérstaklega á fyrsta haustfundi LK þann 13. október sl. að það yrði gert. Nú er ljóst að svo verður ekki, og eru það gríðarleg vonbrigði og áfall fyrir kúabændur.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.45.

 

Baldur Helgi Benjamínsson.

Framkvæmdastjóri LK