Beint í efni

Stjórnarfundir – 5. 2008-2009

13.10.2008

Fundargerð stjórnar LK haldinn að Bitruhálsi 1 mánudaginn 13. október 2008. Mættir eru Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Jóhann Nikulásson, Guðný Helga Björnsdóttir, Sveinbjörn Þór Sigurðsson og Gunnar Jónsson, 1. varamaður. Gestir fundarins eru Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands og Pálmi Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri framleiðslusviðs MS. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK ritaði fundargerð.

 

Formaður LK bauð fundarmenn velkomna og setti fund kl. 11.15.

 

1. Staða verðlagsmála. Formaður reifaði stöðuna í þjóðfélagsmálum sem er algerlega án dæma. Fór yfir forsendur verðlagningar mjólkur sl. vor og stöðu þeirra mála núna. Ljóst er að mjólkuriðnaðurinn stendur frammi fyrir alvarlegum hallarekstri, þar er hækkunarþörf milli 5 og 6 krónur á lítra og 15,60 kr á lítra hjá framleiðendum. Til samans er hækkunarþörf allt að 21,60 kr/ltr. Það sem er verið að vinna með í verðlagsnefnd núna er 8,45 kr/ltr til bænda og 6,50 kr/ltr til iðnaðarins. Nokkur bati í 8 mánaða uppgjöri m.v. 6 mánaða uppgjöri, afkoman eftir sem áður með öllu óviðunandi. Eins og umræðan er í Verðlagsnefnd núna, er geymda stærðin varðandi fjármagnsliðina, geymd áfram. LK mun ekki sætta sig við annað en að um hana verði gerð sérstök bókun, þannig að skýrð verði örlög hennar eru. Hún verði ekki bara geymd næstu misseri og ár. Grundvallaratriðið er þó það, hvað nefndarmenn telja raunhæft að ná í gegnum nefndina. Fulltrúi LK í nefndinni leggur áherslu á að þegar samkomulag verði fyrirliggjandi muni hann hafa samband við stjórn.
2. Matvælaöryggi. Tryggt er að fóðurinnflutningur gangi snuðrulaust fyrir sig. Einn fóðurinnflytjandinn hefur lent í vandræðum með að tryggja gjaldeyri, SLR vinnur að lausn þess máls. Tilflutningur lána, greiðsluaðlögun o.s.frv. BÍ mun eiga fund með ráðherra og nýjum bankastjóra um lán og fjármál bænda. Markar mikilvæga stefnu sem aðrir nýir viðskiptabankar í eigu hins opinbera munu taka mið af.
3. Fjósbrunar. Þrír stórir fjósbrunar hafa orðið á rúmum 2 árum, með gríðarlegu tjóni. Er ekki efni til að gera mikið átak í úttekt á frágangi rafmagnsmála á kúabúum? Ræða við BÍ og Auðhumlu um þessi mál. Athuga sérstaklega til hvaða fyrirbyggjandi aðgerða er hægt að grípa.
4. Tryggingamál kúabænda. Slysatryggingar bænda, rekstrarstöðvunartryggingar og fleiri tryggingar, fyrir hverju er hægt að tryggja sig, hvaða skilmálar fylgja og hvaða áhættu vilja menn taka? Er ástæða til að fara yfir sviðið aftur? Tryggingar í stað Bjargráðasjóðs? Formaður og framkvæmdastjóri munu taka málið upp þegar um hægist í þjóðfélagsmálum.
5. Áhættugreining vegna garnaveiki í nautgripum á Íslandi. Kynnt drög að skýrslu frá Auði L. Arnþórsdóttur, Jóni Viðari Jónmundssyni og Eggerti Gunnarssyni. Stjórn og framkvæmdastjóri munu fara yfir skýrsluna og senda inn athugasemdir.
6. Staða stefnumörkunarhóps LK. Hvaða áhrif hefur gjörningaveður í fjármálaheimi á WTO samninga, stöðu ríkissjóðs Íslands og á stöðu stefnumörkunarhópsins? Óhjákvæmilegt að sjá fram úr afleiðingum núverandi óstöðugleika í fjármálaheiminum og efnahagsmálum í kjölfarið, áður en lengra er haldið. Þó er mikilvægt að gefast ekki upp á verkefninu. Stefnt að kynningarfundum um WTO samningsdrögin sem fyrir lágu í sumar, þann 5. nóvember n.k.
7. Niðurstöður búreikninga 2007. Kynntar þær niðurstöður sem lagðar voru fram 7. október sl. af HÞL.
8. Ráðstöfun á minna framleiðslutengdum stuðningi. Í vinnslu er samkomulag milli LK og BÍ um þau mál.
9. Breytingar á búvörulögum. Verðmiðlunargjald og verðtilfærslugjald. Fyrir liggur frumvarp þess efnis að hið fyrrnefnda gjald verði afnumið.
10. Staða á nautakjötsmarkaði. Framleiðsla og sala hefur haldist í hendur undanfarna 12 mánuði. Birgðir nema 2 daga slátrun, um 30 tonnum. Afkoma þessarar framleiðslu hefur dalað verulega að undanförnu, þar sem áburðarverðshækkunin bitnar mjög hart á þessari framleiðslu.
11. Milliskriftir á kvóta. Greiðslumark selt með baktryggðum samningum sem kveða á um að greiðslumark verði keypt aftur að liðnum tilskyldum tíma.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.00

 

Baldur Helgi Benjamínsson.
Framkvæmdastjóri LK