Stjórnarfundir – 4. 2008-2009
12.08.2008
Stjórnarfundur Landssambands kúabænda 12. ágúst 2008 á skrifstofu framkvæmdastjóra. Mættir eru Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Jóhann Nikulásson, Sveinbjörn Þór Sigurðsson og Guðný Helga Björnsdóttir.
Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.
Fundur settur kl. 11.15.
Formaður bauð fundarmenn velkomna og gekk til dagskrár.
1. Greiðslu- og skuldastaða kúabænda. Staðan hefur versnað með áður óþekktum hraða á síðustu 8-9 mánuðum. Bú sem skuldaði þrefalda veltu í nóvember 2007, skulda í dag um fjórfalda veltu. Að langmestu leyti tilkomið vegna gengisbreytinga á erlendum lánum. Þó eru ekki ennþá komin teljandi vanskil og yfirdráttur hefur ekki aukist að ráði hjá fjármálafyrirtækjum. Mörg lán eru í greiðsluþjónustu, þannig að afborganir lána eru það fyrsta sem fer út af reikningum. Viðskiptaskuldir eru hins vegar að aukast. Gæti komið fram með vaxandi þunga á næstu vikum. Óljóst er um gengisþróun og óttast er að vextir á erlendum lánum gætu hækkað ef bönkunum fer ekki að ganga betur í fjármögnun. Skortur á lánsfé og stóraukinn tilkostnaður geta haft áhrif til lækkunar á greiðslumarksverði á komandi hausti. Fjárstreymi í september og októbermánaða hjá búum sem klára greiðslumarkið í júlí verður mjög erfitt og getur ráðið úrslitum um stöðu þeirra næstu mánuði. Samþykkt að gefa út stöðumat stjórnar á heimasíðunni naut.is og í Bændablaðinu.
2. Greiðslur vegna kynbótastarfs. 25 milljónir auk verðtryggingar verða settar í þann lið á næsta ári. Krafa gerð um skýrsluskil samkvæmt verklagsreglum þ.a.l. hjá BÍ og skil á mjólkursýnum eigi sjaldnar en 8 sinnum á ári. Lítrar mjólkur myndi grunninn að þessum greiðslum.
3. Landbúnaðarsýningin á Hellu og aðkoma LK. Sigurður Loftsson reifaði málið. Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri verði á staðnum, LK veiti verðlaun vegna kúa- og kálfasýningarinnar.
4. WTO. Hvað hefðu þau samningsdrög sem lágu á borðinu í Genf og íslensk stjórnvöld höfðu samþykkt fyrir sitt leyti, þýtt fyrir íslenska kúabændur? Stjórn LK samþykkir að óska eftir við stjórnvöld að þau haldi kynningarfund um málið. Hvaða áhrif hefur þetta á verð, innflutningsmöguleika, opinbera verðlagningu, kvótakerfi o.s.frv? Stefnumörkunarhópur LK verði einnig boðaður á fundinn, ef af verður.
5. Matvælafrumvarpið. Lagt fram og kynnt minnisblað formanns frá kynningarfundi BÍ um umsögn samtakanna um matvælafrumvarp ríkisstjórnar Íslands. Ekki verið að vinna greiningu á efnahagslegum áhrifum frumvarpsins. Sú greining er algjört grundvallaratriði. Ákveðið að senda Landbúnaðarnefnd Alþingis bréf þar sem þetta atriði er áréttað.
6. Stefnumörkun. Það starf er í ákveðinni óvissu vegna núverandi aðstæðna. Mikilvægt að hópurinn mæti á kynningarfund um WTO.
7. Starfið framundan. Framkvæmdastjóri LK fer í fæðingarorlof 1. september. Formaður mun leysa framkvæmdastjóra af á meðan. Vegna utanlandsferðar formanns er stefnt að því að undirbúningi haustfunda verði lokið fyrir 20. september. Ákveðið að styrkja félagsmenn vegna ferðakostnaðar á haustfundi. Til verkefnisins verði varið allt að 1 milljón króna, þó aldrei hærra en 50 kr á km.
8. Önnur mál:
a. Ræktun orkumeiri jurta.
b. Samanburður á kjarnfóðurtegundum. Efla fóðrunarráðgjöf. Er ástæða til að gefa kjarnfjóðurblöndur, ef hægt er að komast af með að gefa hrein efni, með því að skipta mjaltaskeiðnu meira niður.
c. NØK-fundur í Svíþjóð. Eitt af aðalumræðuefnum var velferð nautgripa, sem er heitt umræðuefni hjá kollegum í nágrannalöndunum. Eiga kýrnar að fara út? Almenningur í Danmörku er mjög upptekinn af því að kúnum líði ekki vel á stóru búunum. Mjólk úr kúm sem fara út sérstaklega markaðssett.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.30.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda