Beint í efni

Stjórnarfundir – 3. 2008-2009

11.07.2008

Símafundur stjórnar LK haldinn 11. júlí 2008 kl. 9.00. Á línunni voru Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Sveinbjörn Þór Sigurðsson, Jóhann Nikulásson og Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna á línuna og gekk til eina dagskrármálsins, stöðu Doha-viðræðnanna hjá Alþjóða Viðskiptastofnuninni, WTO.

 

1. Staða WTO viðræðna. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær er óvenju mikill skriður á viðræðum um nýjan samning hjá Alþjóða Viðskiptastofnuninni þessa dagana. Er búist við að til mikilla tíðinda geti dregið á ráðherrafundi stofunarinnar þann 21. júlí n.k. Þau samningsdrög sem nú liggja fyrir, gera í stórum dráttum ráð fyrir að heimildir Íslands til tollverndar verði skornar niður um 66-75% og heimildir til framleiðsluhvetjandi innanlandsstuðnings um 52,5%. Þá eru ákvæði í drögunum um sk. “viðkvæmar vörur” sem þurfa ekki að sæta svo miklum tollalækkunum, en þá komi á móti aukinn markaðsaðgangur á lágum tollum. Ef samningar nást núna í júlí, sem er alveg óvíst, þarf vart að fjölyrða um áhrif þeirra á umhverfi mjólkurframleiðslunnar. Slíkt kæmi sem loftárás ofan á þá tangarsókn sem greinin hefur nú slegist við í nokkurn tíma, í formi hækkana á föstum kostnaði eins og fjármagnsliðum og breytilegum kostnaði eins og fóðri, áburði og olíu. Hversu mikil áhrifin verða, fer þó mjög eftir útfærslu stjórnvalda hér heima. Ljóst er að fyrr eða síðar munu þessir samningar nást og því er mikilvægt að mjólkuriðnaðurinn hugi að skilgreiningum á viðkvæmum vörum. Jafnframt liggur fyrir að sú mikla óvissa sem uppi er um hvernig framleiðslumhverfið verður á næstu árum, setur alla stefnumörkunarvinnu í uppnám. Einnig  verður að teljast vafasamt að ráðast í stórar fjárfestingar, t.d. kaup á greiðslumarki, við slíkar aðstæður. Það veldur nokkrum erfiðleikum við kynningu á þessum málaflokki fyrir bændum, hversu oft samningaviðræður hafa siglt í strand og hve mjög þær hafa dregist á langinn. Því hljóma varnaðarorð sem bergmál í eyrum margra.

2. Önnur mál. Staða heyskapar er misjöfn milli landshluta. Í norðaustur- og norðvesturhluta ríkisins er heyskap að ljúka en í Suðuramtinu er honum lokið fyrir nokkru, þar er háarspretta komin nokkuð á leið. Heygæði eru almennt góð, en magnið er ívið minna en í fyrra, bæði sökum tíðarfars en ekki síður vegna þess að bændur spöruðu við sig áburð, í kjölfar geysilegra verðhækkana á undanförnum misserum.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 9.50.

Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK.