Beint í efni

Stjórnarfundir – 1. 2008-2009

15.04.2008

Stjórnarfundur LK haldinn að Bitruhálsi 1, 15. apríl 2008. Mætt eru Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Sveinbjörn Þór Sigurðsson og Jóhann Nikulásson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri LK ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna, setti fund kl. 11.05 og gekk til dagskrár.

 

1. Kosningar. Varaformaður kosinn Sigurður Loftsson með fjórum atkvæðum, einn seðill auður. Ritari kosinn Guðný Helga Björnsdóttir með fjórum atkvæðum, Jóhann Nikulásson fékk eitt atkvæði. Fulltrúi Landssambands kúabænda í verðlagsnefnd búvara: Sigurður Loftsson tilnefndur sem aðalmaður að hálfu LK, Guðný Helga Björnsdóttir tilnefnd sem varamaður. Framkvæmdanefnd búvörusamninga: Þórólfur Sveinsson tilnefndur til setu í nefndinni. Samstarfsnefnd SAM og BÍ: Sigurður Loftsson aðalmaður og Guðný Helga Björnsdóttir til vara. Í ræktunarhópi Fagráðs eru tilnefnd af hálfu LK Guðný Helga Björnsdóttir, Sigurgeir Hreinsson og Baldur Helgi Benjamínsson, til eins árs.

2. Aðdragandi og framkvæmd aðalfundar. Gekk í meginatriðum vel, miðað við hve seint mál komu fram. Truflaði þó aðeins að vera með erlendan gest sem þurfti talsvert að sinna. Vangaveltur um hvort erlendir gestir og erindi eigi við á fundi sem þessum.

3. Árshátíð. Gekk mjög vel og gestir ánægðir. Myndataka á ábyrgð ritara í framtíðinni.

4. Aðalfundur 2009. Verður haldinn 27. og 28. mars 2009. Fundurinn verður haldinn í Reykjavík.

5. Úrvinnsla tillagna og ályktana.
a. Tillaga 1 gegn niðurfellingu tolla. Senda til alþingismanna.
b. Tillaga 2 um aðgerðir Samkeppniseftirlitsins. Senda viðskiptaráðherra.
c. Tillögur 3 og 4 um verðlagningarmál. Ræða við BÍ, SAM, ASÍ, BSRB og ráðherra landbúnaðarmála.
d. Tillaga 5 um möguleika til lækkunar á búnaðargjaldi. Sent til stjórnar LK.
e. Tillaga 6 um tilhögun greiðslu úr lið 6.4 óframleiðslutengds- og/eða minna markaðstruflandi greiðslna í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Ræða tillöguna við BÍ og ráðuneyti landbúnaðarmála. Reglur um jarðræktarstyrki verði auglýstar sem allra fyrst og að ráðstöfun þessa stuðnings verði komið í næstu greiðslumarksreglugerð.
f. Tillaga 7 um bókhaldsmál. Ræða við BÍ.
g. Tillaga 8 um stimpilgjald. Senda þingmönnum og fjármálaráðherra.
h. Tillaga 9 og 10 um örmerki og eftirlit. Ræða við Matvælastofnun. Senda á stofnunina.
i. Tillaga 11. Lýtur að umsögn um þingskjal 825.

6. Umsögn um frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um matvæli og dýralækna. Um þetta þarf að vinna greinargerð að tvennu leyti. Í fyrsta lagi er verið að henda út bannákvæðum sem hafa verið í gildi í áratugi. Hvaða áhrif hefur það? Mun eftirlitsdýralæknum verða heimilt að praktísera? Ef ekki, hvaða áhrif hefur það? Í öðru lagi snýr þetta að forsendum eftirlitsgjalda. Eru þessar forsendur þær sömu og lagðar eru til grundvallar þegar kostnaður við eftirlit með dönskum kollegum okkar er metinn? Afla þarf upplýsinga varðandi þennan þátt hjá Dönum. Vangaveltur um hvort eigi að bæta inn möguleika á að flytja inn erfðaefni.

7. Endurskoðun á aðbúnaðarreglugerð, erindi frá Snorra Sigurðssyni. Verður rætt við Matvælastofnun.

8. Erindi frá Snorra Hilmarssyni varðandi innflutning holdasæðis.

9. Fjárhagsráðgjöf til bænda. Erindi frá Gunnari Guðmundssyni, forstöðumanni ráðgjafasviðs BÍ. Vangaveltur um hvort setja eigi á stofn fjármálaráðgjöf í ætt við Ráðgjafastofu heimilanna. Talsverðar umræður um fjárhagsstöðu bænda og lánafyrirgreiðslu. Ljóst að hækkun mjólkurverðs 1. apríl sl. hefur breytt talsverðu um rekstrarforsendur margra búa, engu að síður er staða einhvers fjölda búa afar erfið. Fari BÍ út í verkefni af þessu tagi er það hið besta mál og ástæða til að greiða fyrir því sem frekast er kostur.

10. Samþykktir LK, með áorðnum breytingum sem samþykktar voru á aðalfundi 2008.

1. gr.
Félög nautgripabænda á Íslandi mynda með sér samtök sem heita Landssamband kúabænda (skammst. LK).

2. gr.
Tilgangur LK er að sameina þá, sem stunda nautgriparækt í atvinnuskyni, um hagsmunamál sín og vinna að framgangi þeirra. Einnig að annast kynningar- og fræðslustarf um málefni búgreinarinnar og afla þeim stuðnings.

3. gr.
3.1. Rétt til aðildar að LK hafa öll félög nautgripabænda á landinu, enda fari samþykktir þeirra ekki í bága við samþykktir LK.
3.2. Nautgripabóndi telst hver sá sem leggur mjólk inn í afurðastöð eða hefur gengið í viðkomandi nautgripabændafélag sem framleiðandi nautgripakjöts.
3.3. Sæki tvö félög um aðild, sem hafa að einhverju eða öllu leyti sama félagssvæði, skal stjórn LK leitast við að ná samkomulagi um málið. Takist það ekki skal stjórnin leggja fram tillögu fyrir aðalfund LK hversu með skuli fara og er afgreiðsla hans fullnaðarúrskurður í málinu.
3.4. LK ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með eignum sínum, en hvorki aðildarfélögin né einstakir félagsmenn.

4. gr.
Aðild LK að öðrum félagasamtökum er háð samþykki aðalfundar.

5. gr.
5.1. Aðalfund skal halda árlega og hefur hann æðsta vald í öllum málefnum LK.
5.2. Aðalfund sitja með fullum réttindum fulltrúar aðildarfélaganna kosnir á aðalfundum þeirra í leynilegri kosningu. Sé starfrækt innan viðkomandi aðildarfélags trúnaðarmannaráð, sem kosið er á aðalfundi með framangreindum hætti og innifelur a.m.k. tvöfaldan þann fjölda fulltrúa sem félaginu ber, er aðalfundi þess heimilt að vísa fulltrúakjörinu þangað. 
5.3. Fjöldi fulltrúa á aðalfundi LK skal vera 33. Hverju aðildarfélagi er heimilt að senda að lágmarki einn fulltrúa á aðalfund. Þeir fulltrúar sem upp á vantar til að fulltrúatalan verði 33 skulu skiptast milli aðildarfélaga eftir fjölda lögbýla á félagssvæðinu, sem hafa skráð greiðslumark í mjólk a.m.k. 5.000 lítra þann 1. janúar næstan á undan fundi, að viðbættum þeim fjölda, sem gengið hafa í félagið sem nautgripabændur en eru ekki handhafar greiðslumarks í mjólk.
5.4. Stjórnarmenn og skoðunarmenn ásamt varamönnum þeirra hafa málfrelsi og tillögurétt á aðalfundi og er hann opinn til áheyrnar öllum félagsmönnum aðildarfélaganna.
5.5. Á dagskrá skal vera:
a) Skýrslur stjórnar og nefnda um félagsstarfið og umræður um þær.
b) Afgreiðsla reikninga fyrir næst liðið almanaksár.
c) Tillögur og erindi til umræðu og afgreiðslu.
d)  Kosningar
I. Kjör formanns til eins árs.
II. Kjör fjögurra meðstjórnenda og 1. og. 2. varamanns til eins árs.
III. Kjör tveggja skoðunarmanna fyrir reikninga LK og eins til vara til eins árs.
IV. Kjör aðal- og varafulltrúa á Búnaðarþing til þriggja ára.
e) Fjárhagsáætlun til næsta árs.
f) Önnur mál.
5.6. Aðalfund skal boða fyrir 10. janúar ár hvert til stjórna aðildarfélaganna. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.

6. gr.
Aukafund skal halda þyki stjórn LK sérstök nauðsyn bera til og jafnan þegar aðildarfélög, eitt eða fleiri, með samtals a.m.k ¼ félagatölu LK, óska þess, enda sé þá fundarefni tilgreint. Aukafund skal boða með minnst 7 daga fyrirvara. Um rétt til fundarsetu á aukafundum gilda sömu reglur og á aðalfundi.

7. gr.
7.1. Stjórn LK skipa fimm menn kosnir á aðalfundi leynilegri kosningu.
7.2. Formaður skal kosinn sérstaklega, en að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum varaformanns, ritara og meðstjórnenda svo fljótt sem kostur er.
7.3. Heimilt er að skipa nefnd á aðalfundi til undirbúnings stjórnarkjörs, en gætt skal jöfnuðar milli landshluta við skipan hennar.

8. gr.
8.1. Hlutverk stjórnar er að annast málefni félagsins milli félagsfunda og sjá um að þau séu jafnan í sem bestu horfi. Hún ræður starfsfólk og veitir prókúru fyrir félagið.
8.2. Undirskriftir þriggja stjórnarmanna þarf til að skuldbinda félagið.

9. gr.
9.1. Formaður boðar til stjórnarfunda þegar ástæða þykir til og stjórnar þeim. Þó er honum skylt að boða fund ef tveir stjórnarmenn óska þess, enda sé þá fundarefnið tilgreint. Stjórnarfundur er lögmætur sé meirihluti stjórnar á fundi.
9.2. Stjórn LK skal halda gerðarbók og skal hver fundargerð staðfest með undirskrift þeirra stjórnarmanna sem fundinn sitja. Fundargerðir stjórnarfunda skulu birtar á heimasíðu samtakanna eftir hvern fund.

10. gr.
Svo fljótt sem við verður komið eftir aðalfund hvers aðildarfélags skal stjórn þess senda LK félagatal, ásamt skýrslu um störf félagsins á liðnu ári, upplýsingar um kosningar í stjórn og fulltrúa á fundi LK og annað sem máli kann að skipta. Þessar upplýsingar skulu hafa borist skrifstofu LK eigi síðar en 20 dögum fyrir aðalfund. Mál sem taka á til afgreiðslu á aðalfundi LK,  skulu hafa borist skrifstofu LK eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund. Aðalfundur getur þó ákveðið að taka til afgreiðslu mál sem koma síðar fram.

11. gr.
Samþykktum þessum má aðeins breyta á aðalfundi eða aukafundi, sem boðaður er til þess sérstaklega. Tillögur þar um skulu kynntar stjórnum aðildarfélganna eigi síðar en með fundarboði. Ná þær því aðeins fram að ganga að meirihluti kjörinna fulltrúa greiði þeim atkvæði.

12. gr.
Leggist starfsemi LK niður og félaginu er slitið skulu eigur þess ganga til aðildarfélaganna í hlutfalli við félagatölu.

 

Samþykkt á aðalfundi LK 2008

 

11. Myndband um mjaltir – LK, Landbúnaðarsafn Íslands og Finngálkn – hreyfimyndagerð. Markmiðið er að ná saman efni í eina stutta mynd til að lýsa vinnubrögðum við mjaltir á öllum helstu tæknistigum sem þekkt hafa verið hérlendis frá landnámi til þessa árs (2008). Leitað hefur verið eftir stuðningi við innflytjendur mjaltabúnaðar vegna þessa. Samþykkt að hrinda verkefninu í framkvæmd.

12. Þóknun fyrir störf árshátíðarnefndar. Ákveðið að greiða formanni 30.000 kr, öðrum nefndarmönnum 20.000 kr.

13. Önnur mál.
a. Vangaveltur um útflutningsverð. Verð til nýsjálenskra bænda er ívið hærra en útflutningsverð MS. Eru útflutningsmál í réttum farvegi? Um mjög brýnt hagsmunamál er að ræða, verðið fyrir síðasta lítrann hefur mikil áhrif á mótun framleiðsluumhverfis framtíðarinnar.
b. Óskað eftir því að boðaður verði fundur með Stefnumörkunarhópi LK og SAM.
c. Fundur í stefnumörkunarhópi 22. apríl. Tvö erindi, annars vegar erindi Daða Más Kristóferssonar og Ernu Bjarnadóttur um kvótakerfið, hins vegar greinargerð Evu Heiðu Önnudóttur og Eiríks B. Einarssonar um ESB og matvælaverð.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14.20.

 

Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK.