Beint í efni

Stjórnarfundir – 7. 2007-2008

10.03.2008

Stjórnarfundur LK 10. mars 2008, haldinn á skrifstofu framkvæmdastjóra að Bitruhálsi 1. Mættir eru Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna, setti fund kl. 14.05 og gekk til dagskrár.

 

1. Verðlagsmál. Hækkun framleiðslukostnaðar, án áburðar, er 5,81 kr/ltr. frá 1. september 2007. Áburður kemur ekki inn fyrr en 1. júní, þar sem hann er að stórum hluta ekki greiddur fyrr en í maí. Verið er að vinna í vaxtagrunninum, hluti af vöxtunum er á 5,1% þ.e. gömlu Lánasjóðslánin, sennilega um fimmtungur og síðan hluti í erlendri mynt. Það sem er að setja rekstrargrundvöll kúabúanna á hliðina núna er fjármagnskostnaðurinn f.o.f. Grundvöll hans þarf að endurskoða nú þegar. Mjólkurverðið þarf einnig að hækka sérstaklega vegna þess að stuðningur hins opinbera tekur ekki tillit til hækkun framleiðslukostnaðar. Staða kúabænda hefur ekki verið verri um áraraðir. Ef svo fer fram sem horfir þarf tvær hækkanir til, fyrst þann 1. apríl vegna þegar áfallinna verðhækknana á aðföngum, fóðri, vöxtum, olíu o.fl. Áburður kemur inn í grundvöll 1. júní sem leiðir til hækkunar 1. júlí. Hækkun á t.d. ostum í Danmörku er á bilinu 20-30% á tímabilinu september 2007 til febrúar 2008. Stjórn sér fyrir sér hækkunarþörf fram til 1. júlí n.k. á bilinu 10-12 krónur á lítra.

2. Búnaðarþing. Gott þing og málefnalegt. Kjaramálaályktun þingsins með því betra sem fundurinn hefur skilað. WTO umræður eru í gangi, þær tillögur sem þar eru uppi ganga heldur lengra en áður, vegna þeirra hræringa sem nú eru á heimsmarkaði með landbúnaðarafurðir verður að teljast ólíklegt að samkomulag náist. Það er þó ekki hægt að útiloka.

3. Niðurstöður á rekstri 13 Sunnu-búa árið 2007 og greining á stöðu mjólkurframleiðslunnar. Ítarleg samantekt frá Runólfi Sigursveinssyni og Margréti Ingjaldsdóttur, ráðunautum hjá Búnaðarsambandi Suðurlands.

4. Undirbúningur aðalfundar. Breytingar á samþykktum varðandi félagsaðild, látið standa óbreytt að sinni. Tímafrestur á tillögum fyrir aðalfund LK. Stjórn gerir tillögu um að aðalfundur skuli boðaður fyrir 10. janúar ár hvert til stjórna aðildarfélaganna. Mál sem taka á til afgreiðslu á fundinum skulu hafa borist skrifstofu LK eigi síðar en 7 dögum fyrir fund. Upplýsingar um fulltrúa skulu hafa borist til skrifstofu eigi síðar en 30 dögum fyrir fund. Móta tillögu varðandi skiptingu á óframleiðslutengdum/minna markaðstruflandi stuðningu. Móta tillögu gagnvart skilgreiningu bænda sem fóðurframleiðenda og afar íþyngjandi álögur þar að lútandi. Verðlagsár fylgi almanaksárinu. Ályktun um nauðsyn á nánari sundurgreiningur á fjármagnsliðum í búrekstri. Viðurkenningar: Páll Lýðsson, fyrir að varðveita sögu íslensks landbúnaðar og þar með nautgriparæktarinnar. Ólafur Eggertsson á Þorvaldseyri fyrir að stuðla að vexti og viðgangi jarðræktarmenningar á Íslandi. Helgavatnsbændur fyrir kynningarstarf á íslenskri mjólkurframleiðslu.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.35.

 

Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri.