Beint í efni

Stjórnarfundir – 5. 2007/2008

27.11.2007

Stjórnarfundur Landssambands kúabænda, haldinn á skrifstofu LK á Bitruhálsi 1. 27. nóvember 2007 kl. 11.15. Mættir eru eftirtaldir stjórnarmenn: Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Jóhann Nikulásson, Sveinbjörn Þór Sigurðsson og Guðný Helga Björnsdóttir. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna, setti fund og gekk til dagskrár.

 

1. Haustfundir 2007.

Formaður fór yfir nýliðna haustfundi, sem voru mjög rólegir og málefnalegir. Mæting var í flestum tilfellum góð eða viðunandi. Undantekning var V-Hún. og Dalir, fundaraðstaða er óviðunandi á síðari staðnum. Spurning hvort dreifing á svo miklu prentuðu efni hefur neikvæð áhrif á umræður. Ákveðið að halda slíku fyrirkomulagi áfram. Eftir hausfundina hafði formaður tekið saman lista með þeim atriðum sem helst höfðu verið rædd á fundunum. Myndar sá listi dagskrá fundarins.

2. Staða verðlagsmála.

Formaður dreifði drögum að samkomulagi um verðlagsmál. Upphafsviðmiðun er staða verðlagsgrundvallar  1. september 2006. Áburðarsalar ekki enn farnir að auglýsa verðskrár, gera það væntanlega mjög fljótlega til að ná viðskiptum fyrir áramót. Fyrirsjáanlegar mjög miklar hækkanir á þeim vettvangi. Kjarnfóður hefur hækkað um þriðjung frá síðasta ári. Mat á afkomu byggir mjög á lausafjárstöðu. Nokkrir bændur hafa fjármagnað rekstur með sölu skika úr jörðum sínum. Ýtarlegar umræður um verðlagsmálin. Staða þeirra mála mun væntanlega skýrast á fundi verðlagsnefndar í viku 50.

3. Fóðurtollar.

Ekki komu fram nokkurs staðar andmæli við því að leggja þá af. Verður að fylgja málinu fast eftir, má ekki taka of langan tíma.

4. Útflutningsskylda.

Liggur þungt á fólki hvort ekki gildi sömu lagaskyldur gagnvart öllum framleiðendur og öllum afurðastöðvum. Stóra málið er hins vegar á hvaða forsendum mjólkuruppgjör þessa verðlagsárs verður gert af hálfu ráðuneytisins. Vangaveltur um hvort einhver greiðslumarkshafi getur farið í mál nú þegar. Lögfræðiálit um þetta mál verður kynnt á fundi SAM 29. nóvember n.k.
5. Afurðasölumálin.

Vangaveltur um eiginfjárstöðu iðnaðarins og fjármagnstekjur af því fjármagni. Kemur hluti af okkar tekjum af afurðasölu sem fjármagnstekjur af eignum?
6. Stuðningskerfið.

Hjá þeim sem mæta á haustfundi og tjá sig um fyrirkomulag á stuðningi hins opinbera við greinina, ríkir mikil sátt um núverandi kerfi.

7. Breytingar á mjólkursamningi.

Greiðslum út á kynbótaskýrsluhaldið og efnamælingar mjög vel tekið en á grundvelli þess að stuðningnum verður þá haldið innan greinarinnar. Einnig út á jarðrækt, bæði kornrækt og grasrækt líka. Mikilvægt að greinin hafi áfram yfirráð yfir þróunarfé eins og var í fyrri samningi. 

8. Skilaði framleiðsluaukning síðasta árs hreinum tekjum?

Var aukningin dýru verði keypt? Fyrir hvaða upphæð er hægt að framleiða síðasta líterinn? Vangaveltur komu um þetta efni á nokkrum fundum. Hvert er meðalverð á lítra? Hvað er síðasti líterinn? Hollt að velta þessu fyrir sér.

9. Takmarkanir á flutningi lifandi gripa.

Nú liggur fyrir lögfræðiálit frá Ólafi Björnssyni hrl. Verið að vinna að samkomulagi við LBS um nýtt áhættumat. Verið að vinna í aðkomu ráðuneytisins að málinu. Lögð fram bókun um að ef samkomulag næst um að ráðast í framangreint verkefni er samkomulag innan stjórnar LK að ráðstafa fjármunum til þess.

10. Rýmkaðar heimildir um innflutning búvara árið 2010.

Bókun 1 við EES samninginn. Mun auka þrýsting talsvert. Hingað munu koma vörur sem ekki hafa komið áður. Ráðuneytið telur þetta hafa nokkrar breytingar í för með sér.


11. Verkefni um innflutning á afkastameira kúakyni.

Ekki mikil gagnrýni á verkefnið sjálft, þó aðeins. Miklar umræður um hver næstu skref í málinu kunna að vera.

12. LBS.

Nokkuð bar á mæðutón í garð Landbúnaðarstofnunar. Flutningar gripa. Merkingar nautgripa. Ekki er eftirlit með aðbúnaði nautgripum þar sem ekki er mjólkurframleiðsla. Tekið fyrir svar frá LBS um erindi Landssambands kúabænda varðandi einstaklingsmerkingar nautgripa. Tryggja verður að raunveruleg talning á kúm, bæði mjólkur- og holdakúm liggi fyrir.


13. Auðmannakúabú. Lítið um þetta rætt á haustfundum ársins. Vangaveltur um hvaða framtíðaráhrif uppbygging auðmanna á kúabúum muni hafa í för með sér, áhrif á greiðslumarksverð, gripaverð, jarðaverð, samningsstöðu gagnvart hinu opinbera.

14. Hver fær jarðræktarstyrki?

Sá sem ræktar, eða sá sem á landið? Mikið um lauslega samninga um land. Mikilvægt að hafa þetta atriði í huga við samningagerð um málið. Mat stjórnar að sá sem stendur í ræktuninni eigi fortakslaust að fá stuðninginn.

15. Endurskoðun á aðbúnaðarreglugerð.

Nýjar innréttingar, nýjungar á innra skipulagi fjósa, málsetningar. Skoðun Snorra Sigurðssonar á 20 nýbyggðum /breyttum fjósum bendir til að margt hefði mátt gera öðru vísi í þeim byggingum. Hvernig er hægt að hagnýta sér þær upplýsingar? Útivist nautgripa? Til umfjöllunar á aðalfundi 2008.

16. Skipan vinnuhóps Fagráðs í ræktunarmálum nautgripa. Hverjir eru í hópnum sjálfum og hverjir eru til ráðgjafar? Er ástæða til að hafa inni aðila sem ekki koma að ákvarðanatöku?

17. Ráðstefna DIN í London 2. nóvember. Framkvæmdastjóri kynnti minnispunkta frá ferð hans og varaformanns á ráðstefnu Dairy Industry Newsletter fyrr í mánuðinum.

18. Biðlistar eftir slátrun?

Aðeins verið hægt á slátrun á kúm hjá einum sláturleyfishafa. Annars ekki hægt að tala um biðlista.

19. Lífræn mjólk.

Markaðurinn þarf að endurspegla aukinn tilkostnað í hærra verði. Ekki áhugi á því innan stjórnar að greiða hluta af stuðningi á lífræna framleiðslu. Þó er mikilvægt að þessum hluta markaðarins sé sinnt með innlendri framleiðslu. Framleiðsla af þessu tagi þarf á klasamyndun að halda. LK sér ekki aðkomu að málinu.

20. Birting verðs á greiðslumarki.

Nýbirtar upplýsingar um verð á greiðslumarki eru í algerri mótsögn við hugmyndir um verðþróun á markaði. Nokkrar umræður um málið.

21. Hvernig á atvinnugreinin að halda í fólkið? Eins og ástand er á vinnumarkaði er núna gengur nautgriparæktinni illa að keppa við aðrar atvinnugreinar. Hvaða áhrif hefur hátt kvótaverð og landverð? Fjárhagslega er sú ákvörðun að hætta framleiðslu mjög auðveld. Landsala til að fjármagna uppbyggingu? Miklar umræður um þennan lið.

22. Skipan árshátíðarnefndar. Árshátíð haldin á Suðurlandi að þessu sinni. Varaformaður mun taka að sér að skipa fólk í árshátíðarnefnd.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.30.


Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri.