Beint í efni

Stjórnarfundir – 3. 2007/2008

12.07.2007

Símafundur í stjórn Landssambands kúabænda, haldinn fimmtudaginn 12. júlí 2007. Á línuna voru mætt Þórólfur Sveinsson, formaður, Sigurður Loftsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

 

Fundur hófst um kl. 20.40 með að formaður bauð fundarmenn velkomna á línuna, setti fund og gekk því næst til dagskrár.

 

1. Skipan í Verðlagsnefnd búvara.

Formaður fór yfir þá stöðu sem upp er komin varðandi skipan í Verðlagsnefnd. Niðurstaða fundarins að Sigurður Loftsson verði varamaður formanns BÍ og að stjórn BÍ skipi sinn fulltrúa sem varamann Þórólfs Sveinssonar í verðlagsnefndina.

2. Greiðslumark næsta árs.

Reglugerð um greiðslumark verðlagsársins 2007/2008 er í burðarliðnum. Ljóst að greiðslumarkið hækkar um 1 milljón lítra og fer því í 117 milljónir lítra. Ekki verða gerðar breytingar á hlutfallslegri skiptingu A, B og C greiðslna. Bændur orðnir langeygðir eftir reglugerðinni og ekki síður eftir upplýsingum um hvaða viðskiptakjör munu gilda um mjólk sem verður framleidd umfram greiðslumark á næsta verðlagsári. Framkvæmdastjóra falið að skrifa bréf til mjólkuriðnaðarins þar sem skorað verður á iðnaðinn að upplýsa um þessi viðskiptakjör hið allra fyrsta.
3. Ráðstöfun á óframleiðslutengdum og/eða minna markaðstruflandi stuðningi.

Formaður reifaði málið. Í ár kemur í fyrsta skipti til ráðstöfunar óframleiðslutengdur og/eða minna markaðstruflandi stuðningur, skv. samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Til hans renna 49 milljónir sem taka verðtryggingu m.v. VNV 230,0. VNV í júlímánuði 2007 er 273,0 stig og því er upphæðin með verðtryggingu tæpar 58,2 milljónir. Vegna þessa bætist ný grein inn í reglugerðina sem er svohljóðandi:
11. gr. reglugerðar um greiðslumark. Ráðstöfun óframleiðslutengds og/eða minna markaðstruflandi stuðnings. Óframleiðslutengdum og/eða minna markaðstruflandi stuðningi að fjárhæð 49 milljónum króna, að viðbættri verðtryggingu samkvæmt vísitölu neysluverðs, er miðast við grunnvísitölu 230,0 stig þann 1. janúar 2004, á verðlagsárinu 2007/2008, skal ráðstafað sem hér segir:

a. Eingreiðsla á greiðslumark. 41 milljón skal greiða út á greiðslumark til mjólkurframleiðenda til samræmis við greiðslumark mjólkur þann 1. september 2007.
b. Þróunarfé. 8 milljónum skal varið til rannsókna- og/eða þróunarverkefna í nautgriparækt.

Beingreiðsluhluti samingsins lækkar sem nemur þessum óframleiðslutengda stuðningi.

4. Önnur mál:
a. Lánakjör fjármálastofnana rædd
. Ljóst er að kjör á fjármálamarkaði eru að þrengjast verulega, bændum eru boðin verðtryggð framkvæmdalán með vöxtum á tíunda prósent.
b. Tíðarfar. Heyskapur bænda hefur gengið afar vel og eru heygæði hjá kúabændum mjög líklega með besta móti. Sífelld þurrkatíð veldur þó talsverðum áhyggjum, þar sem hann bitnar hart á endurvexti túngrasa og flögum sem sáð var í síðla vors.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið um kl. 21.50.

Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri.