Beint í efni

Stjórnarfundir – 2. 2007-2008

05.06.2007

Stjórnarfundur í LK 5. júní 2007. Haldinn á skrifstofu framkvæmdastjóra að Bitruhálsi 1. Mættir eru Þórólfur Sveinsson, formaður, Sigurður Loftsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð. Fundur hafinn kl. 11.10.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna og gekk til dagskrár.

 

1. Húsleit Samkeppniseftirlitsins. Samkeppniseftirlit gerir húsleit hjá MS að morgni þessa dags, 5. júní 2007. Á vafalaust eftir að skapa fjölmiðlaumfjöllun, óvíst með frekari áhrif.

2. Ný ríkisstjórn tók við völdum 24. maí sl. Framkvæmdastjóri hefur hitt bæði fyrrverandi og núverandi landbúnaðarráðherra og fært þeim blómvönd og ostakörfu, þeim fyrrverandi í þakklætisskyni fyrir gott samstarf undangenginna ára og þeim nýja í tilefni af nýju embætti.

3. Staða verðlagsmála. Búið að hækka lágmarksverð um 1,19 kr frá 1. júní 2007, sem nemur hluta afurðastöðvanna í launaliðnum. Yfirlit yfir framlegðarskekkju í mjólkurvörum liggur ekki fyrir. Verðlagsgrundvöllur kúabús er að grunni frá 2001. Meðalnyt ekki verið leiðrétt frá árinu 2000. Verðlagsnefnd hefur hug á að láta rannsaka samhengi bústærðar og framleiðslukostnaðar. Núverandi grundvöllur mælir ekki breytingar á aðfanganotkun. Væntingar um neikvætt samhengi bústærðar og framleiðslukostnaðar, stækkun búanna fylgir hins vegar skuldsetning og tilheyrandi fjármagnskostnaður.  Skipan í verðlagsnefnd. Samkomulag virðist við  BÍ um að Sigurður Loftsson verði tilnefndur þetta árið.

4. Athugun LBHÍ á vinnuþætti við mjaltir og afköst mjaltaþjóna hér á landi og erlendis. Staðreyna á tölur um vinnu við mjaltir sem notaðar voru í verkefni um hagræn áhrif nýs kúakyns. Brýnt að fá fram nýtingarstuðla mjólkur milli mismunandi kynja frá SAM. Niðurstöður verða kynntar fyrir Landbúnaðarráðherra. Dagur nautgriparæktarinnar etv. að hausti, snemma í október, hægt að kynna þetta þá, síðan í framhaldi á haustfundum.

5. Kolefnisjöfnuður nautgriparæktarinnar. Málþing í haust ? Nýting á metangasi heima á búunum ?

6.  Heimsókn ÞS og BHB í Landbúnaðarstofnun í maí sl. vegna ályktana síðasta aðalfundar LK.Umræður um merkingar á fóðri. Beðið eftir löggjöf um nýfæði og erfðabreytt matvæli sem tekur gildi á næsta ári hér á landi. Merkingar búfjár. Sýnataka úr áburði. Samrekstur búa. LBS hefur synjað þeim sem eftir því leita varðandi samrekstur. Hægt í flestum tilfellum að ná markmiðum samrekstrar með stofnun sameiginlegs einkahlutafélags. Andstaðan liggur í því að aðilar vilja halda sínu greiðslumarki á sínum jörðum.

7. Útfærsla mjólkursamnings. Formaður kynnti drög að útfærslu þess liðar samings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar sem lýtur að “minna framleiðslutendum” stuðningi. Stjórn heimilaði undirritun bókunar við mjólkursamning vegna þessa.

8. Nýtt skýrsluhaldsforrit fyrir mjólkurframleiðslunnar. Stjórn LK er jákvæð fyrir því að keyptur verði aðgangur að vönduðu, erlendu skýrsluhaldskerfi, til dæmis því kerfi sem í notkun er í Danmörku.

9. Greiðslumark verðlagsársins 2007-2008. Formaður kynnti áætlun um sölu og birgðir mjólkurafurða vegna ákvörðunar um greiðslumark næsta árs. Stjórnin lagði sérstaka áherslu á ákvæði reglugerðar um greiðslumark þarsem segir ,, Framleiðsla, umfram greiðslumark skal fara á erlendan markað á ábyrgð hvers fram¬leiðanda og viðkomandi afurðastöðvar. Framkvæmdanefnd búvörusamninga getur þó gefið skriflega heimild til sölu þessara vara innanlands ef heildarframleiðsla verður minni en sala og birgðastaða gefa tilefni til. Greiðslumark verður væntanlega 117 milljónir lítra, 116 milljónir vegna samlaga innan SAM og 1 milljón vegna annarra afurðastöðva.

10. Efni haustfunda. Stefnumörkun Dansk kvæg frá því í febrúar sl. Er þetta eitthvað sem við höfum í að sækja? Lagt til að framkvæmdastjóri þýði efnið og leggi fyrir stjórn. Miklar umræður um framtíðarskipan framleiðslumála. Þörf að fara fljótlega í undirbúning að nýjum samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Hvað gerist í kvótamálum ESB 2015 ? Setja þarf á stofn 10-12 manna vinnuhóp til að koma málinu af stað.

11. Erindi frá Sverri Heiðari kennara á Hvanneyri. Lagt til að LK leggi fram stuðning  til að prufukeyra námskeið af þessu tagi til að sjá hvort áhugi á því sé fyrir hendi.

12. Fundur Tæknifélags mjólkuriðnaðarins 1. júní sl.

a. Byggingaráform Auðhumlu/MS á Selfossi. Stendur til að byggja pökkunarstöð, skyrgerð og umbúðalager. Alls 5.139 fermetrar. Birgir Guðmundsson gerði grein fyrir þessum áformum.
b. Lean creme mysusíunarbúnaður í stöð MS á Akureyri. Afar áhugavert tæki til vöruþróunar og sennilega það mest spennandi sem fram hefur komið lengi. Síar prótein úr mysu sem jafngildir 3 milljónum lítra af undanrennu á ári. Nær allt að 93% af próteininu úr mjólkinni. Kemur í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif af 10 milljónum lítra af mysu sem til þessa hafa farið í svelginn. Oddgeir Sigurjónsson og Auðunn Hermannsson fluttu erindið.
c. Framkvæmdastjóri LK kynnti niðurstöður skoðanakannana og rýnihópa Capacent Gallup á viðhorfi landsmanna til mjólkur og mjólkurafurða, ásamt innflutningi á mjólk og nýju mjólkurkúakyni.

13. Europ mat á nautakjöti. Framkvæmdastjóri greindi frá kynnisferð í sláturhús SS á Selfossi 31. maí sl. þar sem 15 skrokkar af holdablendingum voru metnir bæði með hefðbundnu íslensku kjötmati og EUROP mati. Fóru allir í sama holdfyllingarflokk eftir íslenska matinu, UN úrval, en þrjá mismunandi holdfyllingarflokka eftir hinu síðarnefnda, R, R- og O+. Ljóst að mun nákvæmari skilaboð eru falin í EUROP mati, bæði til framleiðandans og einnig til kaupanda og vinnsluaðila kjötsins.

14. Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri sendi öðrum stjórnarmönnum minnispunkta eftir fundi sem þeir hafa setið.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15 að staðartíma.

Baldur Helgi Benjamínsson