Beint í efni

Stjórnarfundir – 09. f. 1999/2000

08.06.2000

 

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda


Sjötti fundur stjórnar LK var haldinn í fundarsal Bændasamtakanna fimmtudaginn, 8. júní 2000 og hófst hann klukkan 11. Fundinn sátu Þórólfur Sveinsson, Gunnar Sverrisson, Kristín Linda Jónsdóttir, Hjörtur Hjartarson og Birgir Ingþórsson. Á fundinn kom einnig Jón Gíslason, formaður Fagráðs, sem sat fundinn undir umfjöllun um liði eitt, tvö og fimm. Einnig sat fundinn Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð.

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til boðaðrar dagskrár:

1. Álit dýralæknaráðs um tilraunainnflutning á NRF
Snorri kynnti stöðu álit dýralæknaráðs og kom þar fram að nokkurt ósamræmi er í álitinu og fyrra áliti dýralæknanefndar sem fjallaði um tilraunainnflutninginn. Sérstaklega varðandi þær kröfur sem gerðar eru til aðstæðna í Noregi. Yfirdýralæknir hefur kynnt sér vel aðstæður ytra og það vandaða kerfi sem Norðmenn viðhafa við fósturvísaflutninga og var það mat fundarmanna að auðvelt ætti að vera að lenda málinu með farsælum hætti og með stuðningi yfirdýralæknis, sem hefur lögsögu í málinu.

2. Álit mjólkurgæðanefndar um sérstöðu íslenskrar mjólkur
Snorri kynnti málið og störf nefndarinnar, sem væntanlega mun skila áliti til landbúnaðarráðherra næstu daga. Stjórn LK lítur svo á, að er ráðherra hafi fengið álitið í hendur, muni ekkert lengur standa í vegi fyrir ákvarðanatöku í tilraunainnflutningsmálinu. Var framkvæmdastjóra falið að senda ráðherra bréf þess efnis, þegar þar að kemur.

3. Framleiðsla og sala í apríl
Fundarmenn fóru yfir yfirlit yfir sölu og framleiðslutölur nautgripaafurða í apríl. Enn er verulegur vandi með að fá slátrað nautgripum og var ákveðið að setja enn meiri þunga í markaðsstarfið.

4. Málefni aðalfundar
Þórólfur fór yfir stöðu mála og voru rædd ýmis tæknileg atriði varðandi fundinn. Ákveðið var að fá erindi yfir afkomu síðasta árs og að fá yfirlit yfir vinnu hins s.k. Ranníshóps, sem hefur verið að vinna að faglegri úttekt á nautgriparæktinni. Einnig var ákveðið að fá erindi um viðskiptaumhverfi nautgriparæktarinnar á komandi árum. Fleiri atriði voru rædd s.s. fundarstjórar, ritarar, uppstillingarnefnd ofl. Nokkrar umræður urðu einnig um tilhögun kosninga fulltrúa LK til búnaðarþings og kjörtíma þeirra sem valdir verða. Miklar umræður urðu svo um tillögur stjórnar LK til aðalfundar, en ákveðið að útbúa þær á næsta fundi. Einnig var ákveðið að óskað verði eftir því við aðildarfélög að þau sendi tillögur fyrir aðalfundinn til LK fyrir mánaðarmótin júlí/ágúst. Framkvæmdastjóra og formanni var falið að vinna áfram að undirbúningi aðalfundarins.

5. Ráðgjafaþjónusta, svar LK til BÍ
Þórólfur kynnti bréf frá BÍ, sem inniheldur spurningar um hvernig þjónustu búgreinin vilji fá af hálfu búnaðarsambandanna, hvaða breytingar eigi að gera og hvernig eigi að fjármagna þjónustuna. Einnig kynnti hann drög að svari til BÍ um málið. Miklar umræður urðu og dregnir fram ýmis þættir sem betur mega fara og hvaða þjónustu þörf sé á að sinna heima í héraði og hvaða þjónustu ætti að leggja til að sinna mætti hvaðan sem er af landinu. Kostun ráðgjafaþjónustunnar einnig mikið rædd. Ljóst er að fjölmörg atriði þarf að ræða í víðum skilningi og að svar LK þurfi fyrst og fremst að byggjast á skilgreiningu á hvaða þjónustu kúabændur þurfi. Málið verður tekið til framhaldsumfjöllunar á næsta fundi.

6. Staðan á skuldabréfamarkaðnum og Lánasjóður landbúnaðarins
Þórólfur kynnti stöðu mála og hvaða áhrif ástandið á skuldabréfamarkaðinum hefur haft á Lánasjóðinn. Ljóst er að ef fram fer sem horfir munu vextir sjóðsins hækka.

7. Reglugerð um greiðslumark mjólkur næsta verðlagsárs
Þórólfur fór yfir tillögur að greiðslumarki næsta árs og rætt var um C-greiðslumál. Ljóst er að á núlíðandi verðlagsári var of hátt hlufall mjólkur lagt inn á C-greiðslutímabilið. Málið hefur áður verið á dagskrá og vangaveltur um að breytingar á tilhögun C-greiðslunnar. Meirihluti stjórnar ákvað að leggja til 2% lækkun C-greiðslunnar, sem bætist við B-greiðsluna í staðinn. Ennfremur var ákveðið að taka málið upp á aðalfundi í ágúst og ræða þar í víðu samhengi framleiðslustýringu mjólkurframleiðslunnar, s.s. hvort greiða eigi álag á aðra framleiðslumánuði en núverandi C-greiðslumánuði, s.s. í ágúst, en þá er helst er vöntun á mjólk. Kristín Linda tók undir álit meirihlutans, þ.e. að málið verði tekið upp á aðalfundi, en greiddi atkvæði gegn lækkun C-greiðslunnar. Einnig var rætt um mögulegar breytingar á síðasta sölutilkynningardegi vegna viðskipta með greiðslumark. Tillaga LK er að færa þessa dagsetningu frá 20. apríl og aftur í júní. Með því móti ættu þensluáhrif þessarar dagsetningar á kvótaverð að vera minni.

8. Gæðastýring í mjólkurframleiðslu, staða málsins
Þórólfur kynnti málið og hvað gerst hefði undanfarnar vikur, en til stendur að tveir hópar bænda á Suður- og Norðurlandi taki upp gæðastýringu til reynslu á komandi vetri. Ólafur Jónsson, KEA, sér um stjórnun verksins fyrir norðan, en ekki er búið að ákveða nánar með stjórnun á Suðurlandi. Hjörtur kynnti áþekkt mál sem verið er að vinna að hjá RALA af Grétari Hrafni, tilraunastjóra að Stóra Ármóti. Formaður og framkvæmdastjóri munu áfram fylgjast með málinu ásamt Gunnari Guðmundssyni.

9. Ný aðferð við gerlatalningu í mjólk
Undanfarnar vikur hefur Þórólfur unnið með s.k. BactoScan hóp að aðlögun þess kerfis og gömlu gerlatalningaraðferðanna. Þessa dagana er verið að koma BactoScan tækinu fyrir hjá RM í Borgarnesi og verður hún prufukeyrð á næstu vikum.

10. Innsend erindi og bréf
Fyrir fundinum lá bréf frá kúabændafélaginu í Dölunum, þess efnis að LK beitti sér fyrir því að bændum yrði gert kleyft að senda mjólkursýni inn til skoðunar oftar en 8 sinnum á ári. Samkvæmt upplýsingum frá RM ætti ekkert að standa veginum fyrir því að fá greind sýni oftar en 8 sinnum. Framkvæmdastjóra falið að svara erindinu og skýra betur frá möguleikum bænda á sýnatöku og greiningum í Bændablaðinu.

Fyrir fundinum lá að tilnefna fulltrúa í samráðsnefnd BÍ og SAM. Ákveðið var að skipa Gunnar Sverrisson í nefndina í fyllingu tímans.

Fyrir fundinum lá einnig bréf frá Guðmundi Jóhannessyni, ráðunaut hjá BSSL. Óskaði hann eftir því að LK myndi koma að opinni kúasýningu á Suðurlandi í lok ágúst. Samþykt var að styrkja sýninguna með því að LK legði til alla verðlaunagripi sem gefnir eða afhentir verða.

11. Önnur mál
Þórólfur kynnti námskeið sem hann sótti á Hvanneyri um hlutverk, ábyrgð og skyldu stjórnarmanna. Námskeiðið var haldið af Jóhannesi Sigurðssyni, hæstaréttarlögmanni, og var að sögn mjög fróðlegt. Ákveðið var að kynna efni námskeiðsins fyrir aðalfundarfulltrúum og kynna í bændablaðinu með haustinu.

Snorri kynnti stöðu mála hjá vinnuhópi LK og yfirdýralæknis um smitgát á kúabúum. Framundan er útgáfa á bæklingi sem dreift verður til allra kúabænda, umfjöllun um smitvarnarmál á vefsíðum LK ofl.

Snorri kynnti fundargerð síðasta stjórnarfundar NLK ehf, en rekstur stöðvarinnar gengur ágætlega um þessar mundir eftir að landbúnaðarráðuneytið ákvað að styrkja reksturinn.

Snorri kynnti yfirlit frá BÍ um framleiðsluverðmæti nautgriparæktarafurða á síðasta ári.

Grein úr dönsku dagblaði um mjólkurgæði í Danmörku var lögð fram til kynningar, en þar kemur fram að danska hrámjólkin er sú þriðja lélegasta í EB að teknu tilliti til frumutölu. Einnig kemur þar fram að stórar danskra verslunarkeðjur eru farnar að kaupa mjólk frá Þýskalandi.

Snorri fór yfir stöðu mála fyrir BÚ-2000, en vinna við bás búgreinafélaganna gengur vel. LK fær í sinn hlut boðsmiða á sýninguna og var framkvæmdastjóra falið að sjá um að senda þá til gesta LK á sýningunni.

Birgir kynnti fyrir fundinum það vandræðaástand sem er í dýralæknamálum sumsstaðar á landinu, en víða gengur illa að fá almennilega þjónustu. Fundarmenn töldu að gera þyrfti athugun á því hvaða áhrif hin nýju dýralæknalög hafi haft og hvernig gengið hafi að vinna samkvæmt lögunum. Ákveðið að framkvæmdastjóri hafi samband við yfirdýralækni um málið og málið verði aftur tekið upp á næsta fundi.

Næsti fundur verður haldinn 10. ágúst.
Fleira ekki bókað og fundi slitið kl.16:30

Snorri Sigurðsson