Beint í efni

Stjórnarfundir – 1. 2007-2008

25.04.2007

Fundargerð stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2007-2008. 1. fundur haldinn í MS 25. apríl 2007. Mættir eru Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson og Sveinbjörn Þór Sigurðsson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna og setti fund kl. 11. Því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Starfshættir stjórnar. Formaður fór yfir starfshætti stjórnar LK, velti fyrir sér hvort stjórnin ætti að koma sér upp föstum fundartímum. Stundum er æskilegt að geta skipulagt fundartíma með löngum fyrirvara.

2. Kosningar til trúnaðarstarfa. Varaformaður var kjörinn Sigurður Loftsson.  Ritari var kjörin Guðný Helga Björnsdóttir.  Tilnefning LK í verðlagsnefnd. Ákveðið að Þórólfur Sveinsson verði fulltrúi LK í nefndinni og leitað verði samkomulags við BÍ um að Sigurður Loftsson verði sameiginlega valin fulltrúi, eða LK ráði fulltrúanum þetta árið.  Varmaður þeirra er Guðný Helga Björnsdóttir. Framkvæmdanefnd búvörusamninga: Þórólfur Sveinsson verði fulltrúi og Sigurður Loftsson varamaður hans. Samstarfsnefnd SAM og BÍ: Sigurður Loftsson  aðalmaður og Guðný Helga Björnsdóttir varamaður.  Fagráð í nautgriparækt 2007-2010: Fulltrúar LK verða Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson og Þórarinn Leifsson. Samninganefnd um mjólkursamning: Ákveðið að Sigurður Loftsson komi inn í nefndina í stað Egils Sigurðssonar. Vinnuhópur fagráðs um ræktunarmál: Guðný Helga Björnsdóttur kemur inn í nefndina í stað Egils Sigurðssonar

3. Aðdragandi aðalfundar. Mjög æskilegt að öll mál og það hverjir verði fulltrúar liggi fyrir a.m.k.viku fyrir aðalfund LK. Vinna þarf upp nákvæma dagskrá fyrir fundarstjóra. Tilmælum verður beint til aðildarfélaga um skil á málum fyrir næsta aðalfund.

4. Fundur með endurskoðanda varðandi verklagsreglur um bókhald félagsins. Hólmgrímur Pétur Bjarnason, endurskoðandi hjá Deloitte hefur tekið saman minnisblað þar sem farið er yfir ýmis atriði varðandi tilhögun á bókhaldi félagsins. Stjórnarmenn fái greidd laun fyrir aprílmánuð, bæði núverandi og fyrrverandi. Stjórnarmenn á því máli að árshátíð verði ekki hluti af bókhaldi LK.

5. Árshátíð LK. Árshátíðin tókst afar vel og árshátíðarnefnd á miklar þakkir skildar fyrir vel unnin störf. Ákveðið að greiða þóknun hverjum nefndarmanni kr. 10.000- fyrir störf í nefndinni.  Ánægjuleg þróun að þeim fer fjölgandi sem taka alla helgina frá, fylgjast með fundinum og fara á árshátíð.

6. Aðalfundur. Rætt um framkvæmd fundarins sem gekk í öllum meginatriðum mjög vel.

7. Úrvinnsla ályktana.

a. Ályktun um innflutning á nýju mjólkurkúakyni. Ekki hægt að líta framhjá þeim ábendingum sem komu fram varðandi vinnuþáttinn. Ef svo heldur fram sem horfir, gæti meirihluti allrar mjólkurframleiðslu í landinu verið á búum með mjaltaþjóna í lok þessa mjólkursamnings. Því er algert grundvallaratriði að skoða sérstaklega hvernig kúakynin koma út miðað við þá tækni. Sundurliða þarf vinnuþáttinn, gefa upp einingaverð mjólkur, laga töflur ofl.

b. Innflutningur á erfðaefni úr holdanautum. Sjá fyrir endann á ályktun a) áður en þessiályktun kemur til framkvæmda.

c. Niðurstöður efnagreininga. ÞS og BHB heimsæki Landbúnaðarstofnun  vegna þessa.

d. Fóðurtollar, senda landbúnaðarráðherra.

e. Stimpilgjöldin. Senda fjármálaráðherra.

f. Raforkukostnaður. Safna gögnum frá nokkrum fjölda búa, þar sem ekki hafa orðið stórfelldar breytingar á tæknistigi og þar með notkun. Gagnasafnið nái amk tvö ár afturfyrir breytingar á löggjöfinni til dagsins í dag. Fyrirlestur um málið á aðalfundi BSE 24.4.07. fluttur af Sigríði Bjarnadóttur, framkvæmdastjóri setji sig í samband við hana.

g. LK fylgist með verðhækkunum á vörum og þjónustu til nautgriparæktarinnar.

h. Kjaramálaályktun. Til landbúnaðarráðherra. Nú er á vegum SAM verið að vinna yfirlit um ,,framlegðarskekkjuna“ í mjólkurvörunum. Afstaða LK til framleiðslustjórnarinnar verður að vera félagsmönnum ljós. Formaður og framkvæmdastjóri taka að sér þessa vinnu ásamt SAM. Umhugsunarefni hvort á til framtíðar að tengja saman greiðslumark innanlands og hlutdeild í afsetningu á erlenda markaði.

i. Tillaga varðandi kostnað við greiðslumarkskerfið. Hér er í raun verið að leggja drög að undirbúningi næsta mjólkursamnings. Rétt að fá viðbrögð við hugmyndum um framtíðina frá fjármálastofnunum. Verður að leggja í vinnu við að kortleggja hvað er að gerast annars staðar í þessum málum. Samvinnuverkefni SAM og LK.

j. Tillaga um að landbúnaðarráðherra fylgi eftir viljayfirlýsingu sem gefin var við undirritun mjólkursamnings 10. maí 2004. Senda landbúnaðarráðherra.

k. Tillaga um eftirlit með merkingakerfinu. Senda BÍ og LBS. Tengist hugsanlegu nýju skýrsluhaldsforriti. Kerfið verður ekki trúverðugt fyrr en hringnum er lokað og dánarvottorð berast frá sláturleyfishöfum.

l. Tillaga um breytingu á mjólkursamningi. Þó svo tillagan fengi meirihluta atkvæða er þetta of lítill stuðningur til að fara af alvöru í þetta mál. Kynna á haustfundum og sjá svo til. Engin ákvæði í samþykktum um hversu mikinn meirihluta atkvæða þarf til að fá fram breytingar á samningum, án þess að hann fari í almenna atkvæðagreiðslu.

m. Tillaga um minna markaðstruflandi stuðning. Formaður kynnti minnisblað og niðurstöðu viðræðna við Landbúnaðarráðuneytið um málið. Tillögur LK eru að greiðslurnar verði eftirfarandi árið 2007-2008: 10 milljónir í Þróunarsjóð nautgriparæktarinnar, að öðru leyti verði minna markaðstruflandi stuðningur greiddur út sem A-beingreiðslur. 2008-2009 verði 10 milljónir í þróunarsjóð, til eflingar jarðræktar verði varið 30 milljónum. Afdrif afgangs stuðningsins verði ákveðinn síðar. Þá er til umræðu og skoðunar að greiða út á skýrsluhald og niðurstöður efnamælinga og á greiðslumark án framleiðsluskyldu. Æskilegt að þessu máli ljúki sem fyrst.

n. Mál um lagasetningu varðandi undirboð á matvörumarkaði. Senda Landbúnaðarráðherra.

o. Tillaga um eftirlit og leyfisveitingar fyrir framleiðslugreinar landbúnaðar. Ræða við BÍ.

p. Tillaga um að greiða skrokka eftir blautvigt. Ræða við sláturleyfishafa. Rýrnun er mismunandi eftir húsum og flokkum.

q. Tillaga um merkingar matvæla. Senda aðilum í mjólkur- og kjötiðnaði.

r. Heilbrigðiskröfur til innfluttra matvæla. Senda landbúnaðarráðherra.

s. Tillaga um innihald hráefna til kjarnfóðurgerðar á innfluttu sem innlendu kjarnfóðri verði kannað til hlítar með það fyrir augum að gæta að sérstöðu og hreinleika landbúnaðarframleiðslu.

t. Fjárhagsáætlun rædd.

8. Aðalfundur LK 2008. Verður haldinn 4. og 5. apríl 2008. Framkvæmdastjóra falið að leita tilboða vegna aðstöðu fyrir fundinn.

9. Samþykktir LK. Var ekki breytt á nýliðnum aðalfundi. Verður skoðað síðar á þessu ári.

10. Nýtt skýrsluhaldsforrit fyrir nautgriparæktina. Það mál er í vinnslu. Áhugi á að gerast aðilar að danska grunninum að fullu leyti.

11. Fundur með forsvarsmönnum Mjólku ehf. Formaður og varaformaður fóru yfir fund þeirra með Sigurði Óla Ólasyni stjórnarformanni og Ólafi Magnúsi Magnússyni framkvæmdastjóra Mjólku ofl.  30. mars s.l.

12. Verðlagsmál. Af þeim málaflokki er það að frétta að haldinn verður fundur í Verðlagsnefnd búvara föstudaginn 4. maí n.k.

13. Gæði innfluttra fóðurhráefna. LK mun fylgjast með því sem fram vindur í þessu máli. Mikilvægt að bændur hafi tryggingu fyrir því að þau hráefni sem þeir noti séu í lagi.

14. Aðalfundur IDF á Írlandi. Aðalfundur alþjóðasamtaka mjólkuriðnaðarins verður haldinn á Írlandi um mánaðamótin september-október n.k. Dagskrá kynnt. Nokkrir fundarmanna lýstu eindregnum áhuga á að fara á fundinn. Framkvæmdastjóri mun athuga með þátttökugjald.

15. Fundargerðir LK. Fundargerðir þurfa að komast sem fyrst á Netið.

16. Samningur vegna nautakjöts. Áformað er að breyta núverandi mjólkursamningi á þann hátt að tryggt verði aukið fjármagn sem ráðstafað verður til að greiða tvöfaldar gripagreiðslur á holdakýr.

17. Hagnýting upplýsinga úr MARK. Eðlilegt að hagnýta þær upplýsingar til að gera framleiðsluspá sem gerð verði opinber.

18. Skiptir máli hvort kýr fari út á sumrin? Fundarmenn skiptust á skoðunum um málið. Reglugerð kveður á um að kýr fari út, mikilvægt að eitt og hið saman gangi yfir alla. Kýr á beit eru mjög mikilvægur hluti af jákvæðri ímynd mjólkurframleiðslunnar. Samtök lífrænna bænda í Danmörku héldu opinn dag á búunum nýlega þegar kúm var hleypt út þar í landi, fjöldi gesta tæplega 30.000.

19. Önnur mál:

a. Sýnileiki LK. Ræddar leiðir til að efla heimasíðu LK. Framkvæmdastjóra falið að skoða málið.
b. Lítil umfjöllun Bbl. um aðalfund LK.
c. Leiðir og möguleikar í innflutningi á erfðaefni, sæði/fósturvísar. Fyrirspurn um málið var send til yfirdýralæknis. Svar hefur enn ekki borist.
d. Næsti stjórnarfundur ákveðinn þriðjudaginn 5. júní.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.30.

 

Baldur Helgi Benjamínsson.