Beint í efni

Stjórnarfundir – 5. 2006-2007

17.11.2006

Stjórnarfundur LK haldinn í norðursal Bændahallarinnar 17. nóvember 2006. Mættir eru Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Egill Sigurðsson, Jóhannes Jónsson og Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð.. Fundur settur af formanni kl. 12.20 og þá þegar gengið til dagskrár.

 

1. Haustfundir. Formaður fór yfir haustfundina. Fundarsókn góð, nema í tveimur héruðum, V-Skaft. og Húnaþingi.

2. Aðkoma LK að innflutningi á nýju kúakyni. Líklegast  að um verkefnið verði stofnað einkahlutafélag. Rætt um aðkomu LK að slíku félagi, t.d. fjármögnun með hlutafé, slíkt þarf að vera ákvörðun aðalfundar.


3. Gripagreiðslur og MARK. Ekki hafa komið athugasemdir til LK vegna MARK eftir að fyrstu greiðslur voru greiddar. Meintir gallar hafa komið fram vegna reglugerðar um gripagreiðslur, t.d. hvenær á réttur til gripagreiðslna að falla niður? Sá sem kaupir kýr um síðustu verðlagsáramót fær ekki gripagreiðslur út á þær fyrr en í mars 2007, hann er hins vegar búinn að taka á sig skerðingu A-greiðslna. Sá sem selur, er búinn að fá A-greiðslurnar og fær gripagreiðslurnar meðan hann er að fjara út úr kerfinu. Yfirstandandi verðlagsár er því einstakt að þessu leyti. Kemur fram á fundinum vilji til þess að gripagreiðslurnar verði bundnar rekstri á lögbýli, í hvaða formi sem er.

4. Minna markaðstruflandi greiðslur. Stjórn vill fara fram á eins mikla frestun og unnt er á upptöku þeirra greiðslna skv. mjólkursamningi.


5. Málefni Bjargráðasjóðs. Senda formlegt erindi til stjórnar sjóðsins um bótareglur sem miði að starfslokum hans um áramótin 2007-2008. Varaformanni og framkvæmdastjóra falið að ganga frá málinu.

6. Framleiðsluheimildir og útflutningsmöguleikar. Á haustfundunum var talsverð umræða um hvers væri að vænta í framleiðsluheimildum og útflutningsmöguleikum mjólkur næstu ár. Ákveðið að ræða þennan möguleika við stjórn SAM.

7. Greiðsluyfirlit frá BÍ. Þar sem greiðslur vegna mjólkursamningins eru bundnar vísitölu neysluverðs er ákveðið að beina því til stjórnar BÍ að grunnvísitala og vísitala neysluverðs viðkomandi mánaðar fylgi yfirliti frá BÍ.

8. Útskolunartími lyfjaleifa.  Formaður og framkvæmdastjóri halda málinu áfram.

9. Rætt um opinbera verðlagningu mjólkur. Erum við komin í það umhverfi að opinber verðlagning til framleiðenda sé úrelt? Hvað verður um verðlagsgrundvöll? Verður nokkur friður um heildsöluverðlagningu öðru vísi en til sé módel um framleiðslukostnað stærsta útgjaldaliðar mjólkuriðnaðarins? Líftími verðlagsmódela er að hámarki 5 ár, þau eru liðin í tilfelli núverandi verðlagsgrundvallar. Á þeim árum hefur orðið veruleg breyting í framleiðslunni. 25% af mjólkinni kemur úr mjaltaþjónum. Allt önnur kostnaðarsamsetning á slíkum búum.

10. Viðurkenning til veitingahúsa sem eingöngu bjóða upp á íslenskt nautakjöt. Hvaða kröfur á að gera? Hvernig á að hafa eftirlit með slíku? Á hvaða hendi á það að vera? Kröfur um að nautakjöt sem á boðstólum er skal vera íslenskt. LK þarf að fá heimild hjá öllum birgjum til að kanna hver seldi viðkomandi veitingastað hvaða vöru. Fá sjónarmið veitingastaðanna varðandi eftirlitið.

11. Fjölmiðlavaktin ehf. Ákveðið að kaupa heildarvöktun í fjölmiðlum hjá Fjölmiðlavaktinni ehf til maíloka 2007. Fréttir sendar í tölvupósti fyrir kl. 8 á morgnana.

12. Nefnd um tollalækkanir. Eigum að hafa samleið með hinum kjötgreinunum. Formaður og framkvæmdastjóri komi á fundi þessara aðila.

13. Stofnun rekstarfélags mjólkuriðnaðarins. Stjórn LK óskar hinu væntanlega félagi allra heilla í sínum störfum.

14. Framleiðsla og sala mjólkur. Sala 113,35 milljónir lítra á próteingrunni. Innvigtun 115,4 milljónir lítra.

15. Önnur mál.
a. Jóhannes skýrði frá hópferð norðlenskra kúabænda til Suðurlands sem fyrirhuguð er á næstunni.
b. Framkvæmdastjóri sagði frá rannsóknaráætlun um þauleldi nauta. Sótt er um styrk til verkefnisins frá LK upp á 1.000.000 kr. Viðbrögð fremur jákvæð.
c. NLK er í andarslitrunum.
d. Við fyrstu sýn virðist 2000 árgangur nauta fremur slakur.
e. Undirbúningur mála fyrir búnaðarþing. Könnun á afstöðu félagsmanna BÍ til sölu á hóteleignum samtakanna.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.

 

Baldur Helgi Benjamínsson.