Stjórnarfundir – 08. f. 1999/2000
13.04.2000
Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda
Sjötti fundur stjórnar LK var haldinn í fundarsal Mjólkursamsölunnar að Bitruhálsi fimmtudaginn, 13. apríl 2000 og hófst hann klukkan 11. Fundinn sátu Þórólfur Sveinsson, Gunnar Sverrisson, Egill Sigurðsson, Kristín Linda Jónsdóttir, Hjörtur Hjartarson og Birgir Ingþórsson. Einnig sat fundinn Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð.
Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til boðaðrar dagskrár:
1. Framleiðsla og sala nautgripaafurða í febrúar
Þórólfur fór yfir stöðu mála og voru fundarmenn yfirleitt ánægðir með nýja framsetningu framleiðslu- og sölumála.
2. Innflutningur mjólkurafurða
Snorri kynnti málið og fór yfir stöðuna á markaðinum í dag. Mikil umræða varð um málið og kom fram í máli fundarmanna að innflutningur sé greinilega kominn til að vera og koma þurfi eftirliti með þessum málum í fastari skorður innan geirans og Markaðsnefnd mjólkuriðnaðarins (MMÍ) og SAM nefnd í þessu sambandi. Eins og staðan er í dag er þó ljóst að þrátt fyrir að innflutningur hafi vofað yfir undanfarin misseri hafi þetta komið inn af meiri krafti en menn gerðu ráð fyrir og greinilegt að bæði iðnaðurinn, LK og BÍ hafa verið illa undirbúin.
3. Reikningar ársins 1999
Guðbjörn Árnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri LK, mætti á fundinn og lagði fram fyrstu drög að reikningum árins 1999; annarsvegar fyrir Afleysingasjóðinn og hinsvegar fyrir Landssamband kúabænda. Ýmis atriði voru rædd og lagðar til smávægilegar breytingar. Gert er ráð fyrir að endanlegir reikningar liggi fyrr um miðjan maí.
4. Ostur – kartöflur – hross
Þórólfur kynnti fund forsvarsmanna flestra búgreina um þær áætlanir landbúnaðarráðuneytisins um samninga við Norðmenn s.br. lið 2 stjórnarfundar LK frá 20. mars 2000. Framundan eru viðræður milli LK og ráðuneytisins um málefni mjólkurframleiðslunnar og hugsanlegs útflutnings mjólkurafurða.
5. Fundur með nautakjötsframleiðendum
Í mars var haldinn fundur, í mjög góðri fundaraðstöðu Osta- og Smjörsölunnar, með forsvarsmönnum LK og nautakjötsframleiðendum. Gestafyrirlesari á fundinum var Þóroddur Sveinsson, sviðsstjóri RALA. Fundurinn var vel sóttur, þrátt fyrir skamman fyrirvara á fundarboðun. Ljóst er að þessi hópur nautgripabænda þarf nokkuð aðra þjónustu frá LK en aðrir nautgripabændur. Fram kom m.a. vilji bændanna að virkja vinnuhóp nautakjötsbænda sem gæti starfað að faglegum málefnum þessara hóps bænda. Einnig var vilji til að fá fósturvísa úr holdastofnunum í Hrísey, sem og að núverandi kjötmat verði tekið til endurskoðunar. Stjórnin fjallaði um málið og var formanni og framkvæmdastjóra falið að vinna áfram að málinu.
6. Ályktanir aðalfundar 1999 – staða mála
Ályktanir síðasta aðalfundar voru ræddar og staða þeirra metin:
· Ályktun um að nákvæmar innihaldslýsingar séu á tilbúnum áburði. Ályktuninni var komið á framfæri við Aðfangaeftirlitið, RALA, Áburðarverksmiðjuna og helstu innflutningsaðila áburðar. Vitað er af reglugerðarsmíði á borði Landbúnaðarráðuneytis.
· Ályktun um að fagefni um landbúnað verði gert aðgengilegra á netinu. Var komið á framfæri við LBH, BÍ og Fagráðs í nautgriparækt og er forritið Ískýr og möguleikar þess, dæmi um gagnaflutning með nettenginum. Vitað er að ýmislegt er í deiglunni, en ekki komið til framkvæmda. Ræddar voru hugmyndir um námskeiðahald í tölvunotkun og heimanámskeið á myndbandaformi.
· Ályktun um samræmda gæðastýringu í nautgriparækt. Var komið á framfæri við BÍ, SAM, Yfirdýralækni, Landssamtök sláturleyfishafa og Fagráðs í nautgriparækt og kynnti Þórólfur vinnuhóp Landbúnaðarráðuneytis, sem er að vinna að reglum fyrir vistvæna framleiðslu. Komið hefur í ljós að afurðastöðvarnar hafa mikinn áhuga á málinu og vonandi verður gæðastýringarkerfi tekið í notkun hjá prófunarhóp bænda norðan og sunnan heiða í haust. Vinnuhópur ráðuneytisins mun væntanlega bíða með frekari vinnu þar til reynsla fæst á vinnu afurðastöðvanna. Þessu til viðbótar er tekin til starfa nefnd sem mun gera drög að reglugerð um einstaklingsmerkingu búfjár.
· Ályktun um markvissa uppbyggingu fyrir kennslu og rannsóknir á Hvanneyri. Var komið á framfæri við Fagráð í nautgriparækt, LBH og Landbúnaðarráðuneytisins, auk þess sem fjallað hefur verið ítarlega um málið á vettvangi LK. Ekki er vitað frekar af stöðu málsins.
· Ályktun um leyfi til innflutnings á NRF fósturvísum. Var komið á framfæri við Landbúnaðarráðuneytið. Staða málsins er kunn (sjá fyrri fundargerðir stjórnar LK). Sá starfshópur sem fjallar um gæði og hollustu mjólkurinnar, sem fulltrúi LK situr í, mun skila nefndaráliti á næstunni. Stjórn LK lítur svo á að þegar nefndin hefur skilað af sér, sé gagnaöflun lokið og væntir niðurstöðu strax í kjölfarið.
· Ályktun til SAM vegna loforða um greiðslu fyrir umframmjólk. Var komið á framfæri við SAM. Tekið fyrir undir öðrum lið fundarins.
· Ályktun um að afurðastöðvar í mjólkuriðnaði verði í eigu framleiðenda. Var komið á framfæri við SAM. Margt gerst í þessum málum undanfarin misseri og hefur LK komið með virkum hætti að málinu, s.s. í Vestur-Húnavatnssýslu.
· Ályktun til stjórnar LK um aðgerðir á nautakjötsmarkaði. Fjölmargt hefur verið gert og er verið að gera, sbr. fundargerðir fyrri stjórnarfunda LK.
· Ályktun um niðurfellingu tolla af innfluttum kjarnfóðurblöndum. Verið er að vinna að gagnaöflun í málinu hjá LK, en ljóst að hér er um gríðarlega mikilvægt hagrænt mál fyrir íslenska mjólkurframleiðslu.
· Ályktun um að auka enn frekar áherslu í sölu og markaðsmálum mjólkur. Var komið á framfæri við forstjóra MS og SAM. Sjá einnig aðra liði þessarar fundargerðar.
· Ályktun um tryggingarsjóð sjáfstætt starfandi einstaklinga. Málið rætt og jafnvel talið að nýtt frumvarp um fæðingarorlof muni breyta töluverðu um tryggingasjóðinn.
· Ályktun um breytingar á tilraunastarfsemi í nautgriparækt. Var komið á framfæri við formann Fagráðs í nautgriparækt. Nefnd LK (skipuð á síðasta Aðalfundi 1999) er að fjalla um málið. Tengist ályktun um uppbyggingu Hvaneyrar.
· Ályktun um leiðbeiningaþjónustuna. S.k. Rannís-nefnd er að störfum og hefur verið leitað til erlends ráðgjafa. Störfum nefndarinnar hefur seinkað töluvert og ólíklegt að endanleg niðurstaða muni liggja fyrir, fyrir næsta aðalfund LK.
· Ályktun um símakerfið og bætt tölvusamkipti í dreifbýli. Var komið á framfæri við Landssímann hf, samgönguráðherra og formanns samgöngunefndar Alþingis. Töluvert gerst í málinu síðastliðin misseri, s.br. umræður á Alþingi og víðar.
· Ályktun til verðlagsnefndar búvara um að ljúka gerð á nýjum verðlagsgrundvelli. Málið er í vinnslu.
· Ályktun um endurskoðun á reglum afleysingasjóðs kúabænda. Komið til framkvæmda, sbr. fyrri fundargerðir stjórnar LK.
· Ályktun til stjórnar LK um bætt kjör kúabænda. Ályktunin kemur inn á ýsimlegt sem gert hefur verið og er í gangi. Fyrstu upplýsingu um afkomu kúabænda á árinu 1999 eru jákvæðar.
7. Skoðanakönnun hjá kúabændum
Þórólfur kynnti hugmynd um að gera skoðanakönnun meðal kúabænda, um þau málefni sem telja má brýn fyrir greinina í heild. Minnst var á í þessu sambandi viðhorfskönnun sem gerð var af LK, BÍ og Búvísindadeild á Hvanneyri sem gaf góða raun. Stjórnarmenn tóku undir málið og töldu það brýnt. Formanni og framkvæmdastjóra falið að vinna frekar að málinu.
8. Forfallatrygging – næstu skref
Þórólfur kynnti stöðu málsins, m.a. þá forvinnu sem Vildarkjör hafa unnið í málinu. Ljóst er að málið er mjög brýnt og hafa því miður margir orðið fyrir tekjuskaða vegna sjúkdóma viðkomandi eða í fjölskyldunni. Formanni falið að vinna frekar að málinu og leyta tilboða á fyrirliggjandu forsendum.
9. Afdrif mála á Búnaðarþingi
Þórólfur fór yfir útsend gögn og kynnti afdrif tillagna stjórnar LK fyrir Búnaðarþing 2000. Málin voru mikið rædd og m.a. sá aðstöðumunur sem er kominn upp milli búgreininganna varðandi þjónustu s.s. í tengslum við nýjan samning um sauðfjárframleiðslu. Lækkun búnaðargjalds var rædd og með hvaða hætti standa eigi að slíkri lækkun, en ljóst að þrátt fyrir mikinn stuðning kúabænda við málið eru margir bændur annarra búgreina mjög efins. Auk fleiri mála voru málefni Bændahallarinnar einnig rædd en það mál er nú til umfjöllunar hjá stjórn BÍ.
10. Innflutningur á fósturvísum af NRF-kúakyni
Málið er enn í vinnslu, sbr. lið 6.5.
11. Breytingar á reglugerð um greiðslumark til mjólkurframleiðslu
Þórólfur kynnti og velti upp þeirri stöðu sem mjólkurframleiðslan er í í dag, þ.e. þær miklu sveiflur sem eru í framleiðslunni inn á s.k. C-greiðslutímabil. Miklar umræður urðu um málið og ljóst að núverandi kerfi fylgja bæði kostir og gallar. Margar hugmyndir að breytingum komu fram og ljóst að fjölmargar leiðir eru færar, aðrar en núverandi leið, og brýnt að skoða hvort ástæða sé til að breyta kerfinu eða ekki. Jafnframt kom fram að breytingar, ef gerðar verði, þurfi að gera með góðum fyrirvara.
Tilkynningarfrestur með viðskipti með greiðslumark (20. apríl) var ræddur og rætt um hvort hvort ekki sé hægt að hafa þessi tímamót nær lokum greiðslumarksársins. Margir telja að þessi tímafrestur hafi, ásamt öðrum þáttum, haft áhrif til hækkunar á verði greiðslumarks. Ákveðið var að fara fram á breytingar á þessum tímafresti og unnið verði að því færa þessi skil a.m.k. aftur til 20 júní.
Einnig var nefndur sá möguleiki að reglum með viðskiptin verði breytt þannig að ekki þurfi uppáskrift Lánasjóðs landbúnaðarsins (þ.e. ef veð hvílir á jörðinni) vegna viðskipta með hluta (10-15%) greiðslumarks.
Þá var fjallað um ákvörðun heildargreiðslumarks, þar sem í dag er miðað við próteinsölu x 0,75 og fitusölu x 0,25. Þegar mismunur á sölu þessara tveggja þátta verður jafn mikill og raun ber vitni í dag, er í raun verið að senda röng skilaboð til bænda um það hvaða mjólkurmagn sé nauðsynlegt fyrir innlenda markaðinn. Þetta kallar svo á þörf fyrir umframjólk til að uppfylla próteinþörfina. Í ljósi reynslu síðasta verðlagsárs verður að telja nauðsynlegt að fara aðrar leiðir en gert hefur verið í þessu efni. Mjög miklar umræður urðu og ákveðið að fela formanni og framkvæmdastjóra að vinna að tillögugerð í málinu.
12. Stefnumörkun fagráðs og ræktunarmál nautgriparæktarinnar
Stefnumörkun fagráðs lögð fram til kynningar. Ræktunarmálin tekin til umræðu og ræddar umræður á fjölmörkum aðalfundum aðildarfélaga LK um að LK komi með virkari hætti að ræktunarmálum nautgriparæktarinnar. Fundarmenn sammála um að þessi liður mjólkurframleiðslunnar þurfi að tengjast starfsemi LK með virkari hætti en nú er. Formanni og framkvæmdastjóra falið að vinna að framgangi málsins.
13. Önnur mál
· Vinnuhópur um BactoScan. Dreift var gögnum um málið. Um þessar mundir er verið að undirbúa notkun á BactoScan tæki sem mun einfalda til muna gerlagreiningu mjólkursýna. Gera þarf samanburðarmælingar til að gera líkingu til að geta borið niðurstöður saman við fyrri mælingar, en hið nýja tæki gefur mun hærri tölur en fyrri greiningar.
· Athugun á hreinleika afurða. Gögn um mælingar sem gerðar eru á mjólkurgæðum lagðar fram til fróðleiks.
· Búrektor – Ískýr. Þar sem stjórn LK ákvað að hætta frekari vinnslu með Búrektor og LK stendur að nýju forriti var ákveðið að bjóða þeim bændum sem keypt hafa Búrektor, fái hið nýja forrit á uppfærsluverði. Einnig var ákveðið að leggja til við tölvudeild BÍ að bændur geti notað forritið Ískýr án aðgengis að veraldarvefnum og fyrir þá bændur sem ekki taka þátt í skýrsluhaldi BÍ.
· Netklúbbur LK á veraldarvefnum. Snorri kynnti hugmynd um að LK stæði að stofnun einskonar fréttahóps kúabænda á veraldarvefnum. Skipulag fréttahópsins verði sambærilegt við fjölmörg erlend kerfi. Framkvæmdastjóra falið að vinna áfram að málinu.
· Aðkoma LK að Markaðsnefnd mjólkuriðnaðarins. Rædd var fjárhagsleg aðkoma LK að MMÍ og með hvaða hætti stjórnskipulag MMÍ er í dag. Formanni og framkvæmdastjóra LK falið að vinna að niðurstöðu málsins.
· Þjónusta LK við félagsmenn. Ræddir voru möguleikar á breytingu á þeirri þjónustu sem veitt er í dag, s.s. bjóða upp á viðtalstíma annarsstaðar en í Reykjavík. Málið verður skoðað nánar.
· Stjórnarseta Hjartar. Hjörtur vakti máls á því, að þar sem hann er að hverfa frá búskap, væri e.t.v. rétt að hann hætti í stjórn LK. Þórólfur benti á að Hjörtur er kjörinn í stjórn af aðalfundi LK og því í raun ekki vettvangur stjórnar að fjalla um málið. Hins vegar lagði hann áherslu á að Hjörtur haldi áfram starfi sínu í Ranní- hópnum. Aðrir stjórnarmenn tóku undir þessa skoðun og töldu rétt og eðilegt að Hjörtur sini þeim trúnaðarstörfum sem hann gegnir nú fyrir LK, fram að næsta aðalfundi.
· Aðstoð við Félag kúabænda í A-Hún. Birgir kynnti stöðu mála í A-Hún., þar sem nokkurt fé liggur í sjóði sem er í vörslu Sölufélags A-Hún. Kúabændur á svæðinu telja að þennan sjóð eigi að nota til starfsemi og uppbyggingar í tengslum við kúabændur A-Hún., og óska aðstoðar LK við að fá þessum kröfum framgengt. Stjórn LK tók vel í málið og hvetur Félag kúabænda í A-Húnavatnssýslu til að sækja formlega um málið til skrifstofu LK.
· Málefni mjólkursamlags KEA. Kristín Linda fór yfir stöðu mála á samlagsvæði KEA og hvað framundan er í málunum. Stjórn LK mun fylgjast náið með framvindu mála.
Næsti fundur verður í júní, nánari fundartími ákveðinn síðar.
Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 17:25
Snorri Sigurðsson
Snorri Sigurðsson