Beint í efni

Stjórnarfundir – 8. 2005/2006

07.02.2006

Stjórnarfundur 7.2.06 hófst kl. 10.40. Mættir voru Þórólfur Sveinsson, Egill Sigurðsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Sigurður Loftsson, Jóhannes Jónsson og Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna, var síðan gengið til dagskrár.

 

1. Matskerfi á nautakjöti. Lagt verður fyrir aðalfund LK að taka afstöðu til þess að taka upp EUROP mat á nautgripakjöti. Ástæða til að fá holdanautabændur með í samstarf, sem og sláturleyfishafa. Framkvæmdastjóra falið að kalla saman samráðshóp vegna þessa.
2. Umræða um matarverð og skýrslu samkeppnisstofnana. Málið rætt ítarlega og farið yfir þá veikleika sem fram hafa komið í útskýringum eða öllu heldur vöntun á útskýringum af hálfu landbúnaðarins. Fyrir liggur að málið verður rætt á komandi búnaðarþingi og á vettvangi SAM. Stjórnin hefur fengið talsverð viðbrögð frá umbjóðendum sínum sem telja of lítil viðbrögð við umræðunni hálfu samtaka kúabænda.
3. Bréf frá félagi nautgripabænda á Héraði og Fjörðum. Framkvæmdastjóri kynnti bréf frá FNHF vegna stöðu sem upp er komin í dýralæknamálum eystra. Bændur sætta sig illa við mun lakara þjónustustig en verið hefur. Stjórn tekur undir kröfu bænda á Austurlandi um eðlilegt aðgengi að dýralæknaþjónustu.
4. Bréf frá félagi nautgripabænda á Héraði og Fjörðum. Formaður kynnti bréf frá FNHF um tilfærslu á mjólkurkvóta frá ríkisjörð á Austurlandi til skólabúsins á Hvanneyri. Ekki liggja fyrir gegnsæjar verklagsreglur um tilflutning framleiðsluréttar milli ríkisjarða.
5. Verkefni um kálfadauða. Staða rannsókna á kálfadauða er sú að Magnús B. Jónsson er kominn nokkuð á veg með að móta tillögur að verkefnum. Hjalti Viðarsson dýralæknir mun eiga aðkomu að verkefninu. Krufningar, blóðefnamælingar, efnagreining heysýna (snefilefni og vítamín), erfðaáhrif. Stjórnin leggur áherslu á að allir þættir sem geta haft áhrif á málið séu undir í rannsóknunum.
6. Fundur um stöðu framleiðslunnar í OSS 25. janúar sl. Mesti ávinningurinn er fólginn í að ná aukningu í framleiðsluna í vor og sumar. Nú hefur verið ákveðið að hvatningargreiðslur verða greiddar í 3 mánuði í viðbót. Ákvörðun um verð fyrir umframmjólk á þessu verðlagsári verður að liggja fyrir í febrúar.
7. Málefni Kjötframleiðenda ehf. Framtíð fyrirtækisins er í óvissu, framkvæmdastjóri hefur náð samningum við sauðfjárbændur um kaup á þeirra bréfum og hefur lýst vilja til að ná svipuðu samkomulagi við kúabændur. Tekið vel í þá málaleitan en ekki kemur til greina að hverfa frá gerðum sölusamningi um hlutabréfin.
8. Námskeið um skynmat á mjólk. Framkvæmdastjóri kynnti námskeið um skynmat á mjólk sem haldið var í MS 11. janúar sl.
9. Málþing FKS í Þingborg 31. janúar sl. Formaður þakkar FKS fyrir mjög gott framtak. Það sem situr eftir er að við stöndum mjög höllum fæti með hagrannsóknir; rannsóknir á vinnutíma, stærðahagkvæmni og hagkvæmni ýmissa tæknilausna. Velti fyrir sér hvort mögulegt sé að sækja um styrk vegna rannsóknaverkefnis í þessa veru, kortleggja nemendaverkefni um hagkvæmni mismunandi tæknistigs. Einnig var rætt um erindi Daða M. Kristóferssonar um hagfræðilegt vægi eiginleika í ræktunarstarfi nautgripa. Niðurstöður um margt merkilegar en greinilegt að umfang gagna er langt frá því að vera nægjanlegt.
10. Farið yfir afdrif ályktana Aðalfundar 2005.
11. Ráðunautafundur og Fræðaþing.
Skyldleikarækt í ísl. kúastofninum er f.o.f. gömul skyldleikarækt, auking hin seinni ár er minni en gert var ráð fyrir og sjá má í erlendum stofnum. Ekki er þó hægt að draga þá ályktun að áhrif hennar séu minni en sem því nemur. Þéttleiki ætternisgagna er verulega minni en gerist í nágrannalöndunum, PEC5 (þéttleiki ætternisgagna 5 kynslóðir aftur) er 56% hér m.v. tæplega 100% í Skandinavíu. Einstaklingsmerkingar bæta úr hér.
12. Svar Sigurðar Sigurðarsonar dýralæknis á Keldum um flutninga búfjár og tækja milli bæja. Framkvæmdastjóra falið að fylgja svarinu eftir, svo væntanlegar reglur rími við meginreglur stjórnsýslunnar um jafnræði. Þar sem komið er nýtt stjórnvald verður að rekja feril málsins og ítreka fyrri kröfur um svör við spurningum sem lagðar voru fram með bréfi dags. 23. nóvember 2005.
13. Kjarnfóðurtollar. Rætt um nauðsyn þess að kjarnfóðurtollar verði felldir niður.
14. NLK ehf. Nautastöð LK, þurfum að loka því dæmi. Framkvæmdastjóra falið að ræða við forvera sinn um nauðsynlegan aðdraganda þess að ljúka formsatriðum varðandi fyrirtækið.
15. Fjölmiðlamál. Framkvæmdastóri tilkynnti að bein útsending yrði frá mjöltum í Kastljósi 16. febrúar n.k.
16. Aðalfundur LK. Rætt var um innlegg á aðalfundi, nokkrir kandídatar nefndir.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.30

 

Baldur Helgi Benjamínsson.