Beint í efni

Stjórnarfundir – 7. 2005/2006

14.12.2005

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda

 

Sjöundi fundur stjórnar LK starfsárið 2005/2006 var haldinn í Bændahöllinni miðvikudaginn 14. desember 2005 og hófst hann klukkan 11:00. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Egill Sigurðsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhannes Jónsson og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, sem ritaði fundargerð. Þá var Baldur Helgi Benjamínsson, tilvonandi framkvæmdastjóri LK, einnig á fundinum.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Verðlagsmál
Formaður fór yfir niðurstöður Verðlagsnefndar frá því í fyrri viku en samkomulagið gerir ráð fyrir 2,9 % hækkun á mjólkurverði til framleiðenda frá næstu áramótum sem mun skila um 142 milljónum af þeim 192 milljónum sem framreikningur sýndi. Frá sama tíma hækkar verð á nýmjólk um 1 kr/ltr, en verð á öllum öðrum mjólkurvörum að hámarki um 2,5 %. Þá gerir samkomulagið ráð fyrir afnámi verðskerðingargjalds á mjólk skv. 19. grein búvörulaga og átti það að gerast um áramótin. Hinsvegar er þegar komið í ljós að landbúnaðarráðherra náði ekki að koma breytingum á lögum í gegnum þingið í tíma fyrir jólaleyfi og því verður einhver bið á þessari breytingu. Á móti niðurfellingu verðskerðingargjaldsins átti mjólkurverðið að hækka á móti þannig að iðnaðurinn fengi þær tekjur. Jafnframt er í samkomulaginu gert ráð fyrir því að stjórn SAM mælist til þess við aðildarfélögin að ekki verði greitt yfirverð vegna framleiðsluársins 2005.
 Fram kom í máli fundarmanna að líklega hefði vart verið hægt að komast lengra áfram í samkomulagsátt að þessu sinni. Fundarmenn töldu að skoða þyrfti vandlega kosti og galla kerfisins. Ljóst er að óvenju mikil harka var í viðræðum á milli aðila að þessu sinni í nefndinni og töldu fulltrúar bænda að verkalýðsforustan sýna mikla óbilgirni gagnvart greiðslu yfirverðs frá afurðastöðvum til kúabænda þar sem ekki einusinni er svigrúm til þess að greiða arðgreiðslu upp í reiknaða hækkunarþörf.

2. Staða og úrvinnsla þingmála sem lúta að nautgriparækt
Formaður greindi frá afgreiðslu þeirra mála sem afgreidd voru frá Alþingi s.s. breytingar á búnaðargjaldi. Nokkur mál bíða afgreiðslu á vorþingi.

3. Framleiðsla og sala mjólkur og nautgripakjöts
Framleiðslutölur fyrir mjólk og nautgripakjöt voru lagðar fyrir fundarmenn og er ljóst að mjólkurframleiðslan er enn töluvert undir því sem hún ætti að vera, þó mismunur frá fyrra ári fari minnkandi. Ljóst er að hvatningarálag, sem greitt verður á alla innvegna mjólk í nóvember, desember og janúar, er mikilvægt og voru stjórnarmenn sammála um að beina því til stjórnar SAM að strax verði hugað að því að halda áfram með hvatningarálagið eftir að fyrrgreindu þriggja mánaða tímabili líkur og var framkvæmdastjóra falið að senda erindi þess efnis til stjórnar SAM.
 Framleiðsla nautgripakjöts hefur verið töluvert meiri síðustu 12 mánuði en sama tímabil árið áður og sjaldan verið jafn góður stígandi í framleiðslunni. Salan hefur hinsvegar gengið vonum framar og svo vel að sumir söluaðilar kalla nú eftir innflutningi á nautgripahakki. Framkvæmdastjóri greindi frá því að svo virtist sem einstaka aðili eigi til lítið af hakkefni á meðan aðrir eigi nóg til að svara eftirspurn. Ánægjulegt sé hve íslenskir neytendur hafi tekið vel við sér og vilji kaupa meira nautgripakjöt og það hljóti að skila sér í góðum verðum til nautakjötsframleiðenda.

4. Gripagreiðslur
Formaður kvað málið í ákveðnum farvegi. Drög að reglugerð liggi nú fyrir og þar sé m.a. gert ráð fyrir því að þeir bændur sem í dag fá ekki beingreiðslur, þurfi að sækja sérstaklega um gripagreiðslurnar samkv. tillögu landbúnaðarráðherra. Lögfræðingar ráðuneytisins séu nú að yfirfara drögin og skoða hvort einhverjir annmarkar kunni að vera á því að sækja þurfi sérstaklega um gripagreiðslur.

5. Breyting á reglugerð um mjólk og mjólkurvörur
Formaður kynnti niðurstöður starfshóps fyrirtækja í mjólkuriðnaði sem fjallað hefur um reglugerðina og nauðsynlegar breytingar á henni. Fundarmenn töldu tillögur starfshópsins á margan hátt góðar, en gerðu þó athugasemdir við tvö atriði sem starfshópurinn gerir tillögu um varðandi breytingar á gæðakröfum.
Starfshópurinn leggur til breytingar á 2. gr. reglna nr. 1027/2004 um flokkun og verðfellingar. Ekki voru gerðar athugasemdir við gæðaflokkunina, en starfshópurinn leggur hinsvegar til verðfellingu af lágmarksverði mjólkur. Á þetta gátu fundarmenn ekki fallist, enda eru refsingarnar enganvegin í hlutfalli við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Verðfellingu vegna gæða mjólkur ætti hinsvegar að miða við afurðastöðvaverð.
Starfshópurinn leggur jafnframt til að tekinn verði upp aukagæðaflokkur, kallaður A+ og skuli hann miðast við 150 þús. frumur/ml. og lægra. Hópurinn leggur til að greitt verði fyrir þennan gæðaflokk kr. 1,50/lítra. Fundarmenn voru sammála um að fagna beri hækkun á gæðaálagi fyrir úrvalsmjólk, enda hefur gæðaálagið ekki fylgt verðbreytingum afurðastöðvaverðs mjólkur undanfarin ár. Hinsvegar væri enganvegin ásættanlegt að færa gæðamörk niður fyrir þau gæðamörk sem nú eru, eða 220 þús. frumur í ml. Í áliti starfshópsins er vitnað er til gæðareglna hjá mjólkurafurðafyrirtækinu Arla í Skandinavíu, en starfshópurinn leggur þó til enn stífari kröfur til gæða en gert er hjá Arla. Fram kom í máli fundarmanna að óraunhæft væri að gera harðari kröfur til íslenskra kúabænda en í nágrannalöndum okkar, sér í lagi þar sem að júgurbólga og vandamál tengd júgurbólgu eru mun alvarlegra vandamál í íslenskum kúm en þekkist í nágrannalöndunum og því er mun auðveldara og ódýrara fyrir kúabændur með erlend kúakyn að ná niður frumutölu heldur en fyrir íslenska kúabændur. Framkvæmdastjóra var falið að koma sjónarmiðum stjórnar LK á framfæri við stjórn SAM.

6. Breytingar á mjólkuruppgjöri
Í tengslum við nýtilkomna samkeppni um mjólk innan greiðslumarks, með tilkomu afurðastöðvarinnar Mjólku ehf., hafa vaknað spurningar um mjólkuruppgjör að liðnu verðlagsári og ábirgð framleiðenda í því sambandi. Ljóst er að ýmislegt þarf að ræða varðandi skipulag mjólkuruppgjörs í ljósi þessara breyttu aðstæðna og verður málið tekið upp síðar.

7. Mál fyrir Búnaðarþing 2006
Leggja þarf fram mál fyrir Búnaðarþing 2006 í janúar og verða tillögur LK til Búnaðarþings 2006 ræddar á næsta fundi stjórnar LK í janúar.

8. Vefur LK
Breytingum á vef LK (www.naut.is) er nú að verða lokið og stendur til að “opna” fyrir nýtt útlit seinnipart föstudagsins 16. desember. Mjög vel hefur gengið að selja auglýsingar á vefinn. Meðal helstu breytinga á vefnum að þessu sinni má nefna bætt aðgengi fyrir sjóndapra (leturbreytingamöguleikar), smáauglýsingar fyrir notendur, þjónustuskrá fyrirtækja, einfaldara viðmót á forsíðu ofl.

9. Önnur mál
Verkaskiptasamningur LK og BÍ
Vakin var athygli á því að fljótlega upp úr áramótum þurfi að klára endurskoðun á verkaskiptasamningi.

Bjargráðasjóður
Með skertum tekjustofni Bjargráðasjóðs liggur þó fyrir að töluverðir fjármunir eru enn í sjóðinum. Fundarmenn voru sammála um það að gera þurfi átak í því að kynna reglur sjóðsins og var ákveðið að kynna reglurnar vel á vef LK og í Bændablaðinu.

Málþing FKS 31. janúar nk.
Varaform. greindi frá því að Félag Kúabænda á Suðurlandi muni standa fyrir málþingi 31. janúar nk. sem beri heitið: Er hægt að tvöfalda mjólkurframleiðslu á Íslandi? Þingið sé fyrst og fremst ætlað kúabændum.

Aðalfundur FKS
Varaform. greindi frá því að aðalfundur FKS verður að öllum líkindum haldinn 13. febrúar næstkomandi.

NLK ehf.
Framkvæmdastjóri greindi frá því að loks hafi að líkindum tekist að innheimta skuldir vegna sölu á eignum NLK ehf. í Hrísey. Lokagreiðslur verði greiddar til NLK fyrir árslok samkvæmt samkomulagi við kaupendur og fulltrúa í landbúnaðarráðuneytinu.

Árshátíð LK
Formaður árshátíðarnefndar (Jóhannes) kynnti fyrstu hugmyndir nefndarinnar um það með hvaða hætti væri hægt að halda upp á 20 ára afmæli LK og árshátíð kúabænda í kjölfar afmælisins. Ákveðið var að leita eftir tilnefningu SAM í ritnefnd fyrir veggspjöld er varpi ljósi á sögu nautgiparæktarinnar. Nánar verður gerð grein fyrir hugmyndum nefndarinnar þegar útfærsla er lengra komin.

Breytingar á samþykktum MMÍ
Framkvæmdastjóri kynnti lauslega hugmyndir að breytingum á samþykktum Markaðsnefndar mjólkuriðnaðarins, en þar hefur LK átt einn fulltrúa. Í samþykktunum er gert ráð fyrir greiðslu LK til MMÍ vegna seturéttarins en ekki hefur verið unnt að greiða til MMÍ vegna erfiðrar fjárhagsstöðu LK. Þar sem tveir af stjórnarmönnum LK eru jafnframt stjórnarmenn í SAM, sem ber ábyrgð á MMÍ, var þeim falið að ræða málið á vettvangi stjórnar SAM með það að leiðarljósi að ákvæðið um greiðslur frá LK verði fellt niður en í stað þess sett nýtt ákvæði sem opni fyrir mögulegar aukatekjur MMÍ.

Svör yfirdýralæknis vegna flutninga á gripum
Framkvæmdastjóri greindi frá því að skrifstofu LK hafi enn ekki borist svör við spurningum og vangaveltum stjórnar frá þarsíðasta fundi stjórnar LK. Málið er afar brýnt og mikið hagsmunamál kúabænda og var framkvæmdastjóra falið að ítreka fyrra bréf og í framhaldi af því að senda erindi beint til landbúnaðarráðherra ef svör berast ekki innan eðlilegs tíma.

Rannsókn á kálfadauða
Egill vakti máls á því að enn bólaði ekki á rannsóknaráætlunum um ástæður kálfadauða, en verkefnið var falið LBHÍ og BÍ. Vegna gríðarlegs mikilvægis málsins var ákveðið að ítreka nauðsyn þess að vinna meira að málinu.

Síðasti fundur núverandi framkvæmdastjóra
Formaður greindi frá því að þessi fundur stjórnar væri sá síðasti sem núverandi framkvæmdastjóri sæti, en hann hverfur til nýrra starfa um áramót, voru honum þökkuð góð störf í þágu íslenskra kúabænda á liðnum árum. Framkvæmdastjóri þakkaði jafnframt fyrir afar gott og ánægjulegt samstarf við stjórn og umbjóðendur LK, hvaðst hverfa af þessum vettvangi með söknuði og óskaði stjórn, nýjum framkvæmdastjóra og Landssambandi kúabænda farsældar í hagsmunabaráttu öflugustu búgreinar landsins á komandi tímum.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 16:10
Snorri Sigurðsson