Beint í efni

Stjórnarfundir – 5. fundur 2005/2006

08.11.2005

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda

 

Fimmti fundur stjórnar LK starfsárið 2005/2006 var haldinn þriðjudaginn 8. nóvember 2005 og hófst hann klukkan 11:00. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Egill Sigurðsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhannes Jónsson og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, sem ritaði fundargerð. Þá sat fundinn Baldur Helgi Benjamínsson, tilvonandi framkvæmdastjóri LK. Einnig mætti Magnús Ólafsson, forstjóri Osta og smjörsölunnar sf., undir 2 lið dagskrárinnar.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Nýr framkvæmdastjóri

Formaður bauð Baldur Helga Benjamínsson, verðandi framkvæmdastjóra LK, velkominn til starfa um komandi áramót.

 

2. Staðsetning skrifstofu LK

Framkvæmdastjóri kynnti hugmyndir hans og forstjóra Osta og smjörsölunnar sf. (OSS) um skrifstofu LK í húsnæði OSS að Bitruhálsi 2. Magnús fór yfir hugmyndir hans um þjónustu OSS við LK s.s. við bókhald, símsvörun, netþjónustu, fundaraðstöðu ofl. Húsaleigan yrði svipuð og LK greiðir í dag. LK hefði fullt aðgengi að allri aðstöðu, starfsmannafélagi OSS ofl. Stjórn taldið boð OSS gott og var framkvæmdastóra falið að ganga endanlega frá málinu með forstjóra OSS.

 

3. Haustfundir LK

Formaður og aðrir frummælendur á haustfundunum fóru yfir helstu atriði sem kúabændur ræddu á haustfundum LK en fyrir fundinn var fundarmönnum sent yfirlit formanns og varaformanns með minnispunktum frá fundunum. LK hélt þetta haustið 14 fundi með aðildarfélögum sínum og var fundarsókn í slöku meðallagi, en rétt tæplega 400 sóttu fundina.

 

Fram kom hjá fundarmönnum að nokkuð ólíkt var eftir landsvæðum hver helstu áhyggjuefni kúabænda eru, en almennt var mikið rætt um mjólkurframleiðsluna á þessu verðlagsári. Kálfadauði er jafnframt stórt vandamál sem margir gerðu að umtalsefni. Ýmis önnur mál voru eðlilega rædd og fengu fulltrúar LK góðar ábendingar um þörf verkefni sem vinna þarf að á komandi misserum.

 

4. Mjólkurframleiðslan. Sala mjólkur innan lands og utan

Salan mjólkurvara hefur gengið vel í haust en framleiðslan er enn undir væntingum. Enn hafa ekki borist til LK upplýsingar um væntanlega framlegð sem getur fengist úr mögulegum útflutningi.

 

5. Kálfadauðinn

Á liðnum misserum hefur kálfadauði verið stigvaxandi vandamál í mjólkurframleiðslunni hérlendis og ljóst að staðan er alvarleg. Þegar hefur Fagráð í nautgriparækt sent erindi til BÍ og LBHÍ um að þær stofnanir geri gangskör í rannsóknum á vandamálinu en jafnframt þarf að huga að möguleikum á kyngreiningu á sæði. Ákveðið var að senda erindi til BÍ um málið og óska eftir upplýsingum um reynslu og kostnað við kyngreiningu á sæði erlendis.

 

6. Tillögur um innflutning erfðaefnis

LK hefur borist tvær tillögur frá aðildarfélögunum í Borgarfirði og Eyjafirði um að strax beri að huga að undirbúningi innflutnings nýs erfðaefnis vegna framleiðsluaðstæðna hér á landi nú um stundir. Fram kom hjá fundarmönnum að ekki væri hægt að bregðast við þessum ályktunum með beinum hætti án þess að bera það undir félagsmenn LK enda hefði innflutningsmálið verið fellt af þeim árið 2001. Þar til aðalfundur, eða atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna LK ákveður annað, geti stjórn LK ekki brugðist við erindunum.

 

7. Gripagreiðslur haustið 2006

Samkvæmt upplýsingum kúabænda um skráningu gripa í gagnagrunninum MARK hefur komið í ljós að enn eru nokkrir vankantar varðandi skráningu kúa. Jafnframt hafa margir efasemdir um að skráning gripa í sláturhúsi um áramótin komandi verði í lagi. Í  ljósi þess að gripagreiðslur haustið 2006 verða byggðar á upplýsingum úr MARK, er gríðarlega mikilvægt að kerfið virki í heild sinni. Afar mikilvægt er í þessu sambandi að eftirlitskerfið virki og var formanni og framkvæmdastjóra falið að ræða eftirlitsmálíð við yfirdýralækni og fleiri hlutaðeigandi aðila s.s. Landssamtök sláturleyfishafa.

 

8. Nýting greiðslumarks

Í tengslum við vinnu LK við skýrslu um fjósgerðir, hafa vaknað spurningar um nýtingu greiðslumarks hjá einstaka kúabúum. Var formanni og framkvæmdastjóra falið að skoða málið.

 

9. Sjóðagjöldin og verðskerðingargjaldið

Stjórn BÍ hefur lagt fram tillögu sína um breytingar á búnaðargjaldi, en í tillögu stjórnar BÍ er farin leið B úr tillögu stjórnar LK varðandi nautgriparæktina. Vegna þessa var formanni og framkvæmdastjóra falið að ræða við landbúnaðarráðherra um afnám verðskerðingargjaldsins um komandi áramót.

 

10. Þingmál sem tengjast nautgriparækt

Formaður kynnti frumvarp til laga frá Jóni Bjarnasyni um breytingu á búvörulögunum, sem og fyrirspurn Sigurjóns Þórðarsonar til landbúnaðarráðherra um beingreiðslur til kúabænda.

 

11. Afkoman 2004

Formaður kynnti niðurstöður frá Hagþjónustu landbúnaðarins um afkomu nautgriparæktarinnar árið 2004. Haldinn var kynningarfundur Hagþjónustunnar með fulltrúum landbúnaðarins þar sem farið var yfir drög að niðurstöðum fyrir árið 2004 og komu þar fram ýmsar ábendingar til Hagþjónustunnar um það sem betur mátti fara og var tekið vel í ábendingarnar. Formaður fór jafnaframt yfir yfirlit um fjárfestingar á kúabúum síðustu árin þar sem fram kemur m.a. að fjárfestingar í vélum og tækjum voru 2,2 milljarðar en inn í þeirri tölu eru m.a. fjárfestingar í mjaltabúnaði.

 

12. Reglugerð um mjólk og mjólkurvörur

Framundan eru breytingar á reglugerðinni eftir að í ljós kom að reglugerðin gengur lengra en gerist og gengur í nágrannalöndunum. Nýjar tillögur frá SAM hafa ekki borist LK til umsagnar.

 

 

13. Þróun fjósgerða síðustu 2 ár

Framkvæmdastjóri fór yfir skýrslu sem hann hefur unnið fyrir LK um þróun fjósgerða og mjaltatækni árabilið 2003-2005, en skýrslan verður gerð opinber miðvikudaginn 9. nóvember.

 

14. Starfslok fráfarandi framkvæmdastjóra

Fyrir liggur að Baldur Helgi Benjamínsson tekur við framkvæmdastjórastöðunni um komandi áramót og var ákveðið að hafa skörun sem mesta við núverandi framkvæmdastjóra svo að umbjóðendur LK finni fyrir sem minnstum mun í þjónustu LK.

 

Í þessu sambandi var því velt upp hvort fráfarandi framkvæmdastjóri gæti tekið að sér að koma að undirbúningi 20 ára afmælishátíðar LK. Ákveðið var að skipa afmælishátíðarnefnd sem í sitji Jóhannes Jónsson, stjórnarmaður LK, Ólöf Ólafsdóttir, Tannstaðabakka og Birna Þorsteinsdóttir, Reykjum. Nefndin komi með hugmyndir um hvernig halda eigi upp á afmælið fyrir næsta stjórnarfund LK.

 

15. Önnur mál

a. Kjarnfóðurverð

Framkvæmdastjóri greindi frá því að vinna við skoðun á þróun kjarnfóðurverðs og tengdra mála muni fara fram á næstu vikum, auk viðræðna LK við aðra stórnotendur á kjarnfóðri.

 

b. Flutningar gripa, tækja og fóðurs yfir varnarlínur

Fram kom á nokkrum haustfundum LK að ekki væru til skýrar reglur um flutninga gripa, tækja og fóðurs yfir varnarlínur. Þannig hafi tæki á búum ekki sömu réttarstöðu og t.d. jarðýtur og skurðgröfur og kalli bændur nú eftir einum skýrum varnarreglum sem byggðar séu á rökum. Ákveðið var að framkvæmdastjóri riti yfirdýralækni bréf og óski skýringa á því hvaða reglur séu í gildi í dag og hvaða faglegu forsendur liggi fyrir þeim reglum.

 

c. Frjálsar fitusýrur í mjólk

Framkvæmdastjóri kynnti stöðu samstarfsverkefnis LK, SAM og LBHÍ um rannsókn á frjálsum fitusýrum í mjólk. Verkefnið er langt komið og mun ljúka næsta sumar.

 

d. Erindi frá Félagi kúabænda á Suðurlandi

Varaformaður lagði fram til kynningar erindi frá FKS um breytingar á samþykktum félagsins. Var formanni falið að senda formanni FKS svar við erindinu.

 

e. Námskeið fyrir kúabændur vorið 2006

Framkvæmdastjóri kynnti helstu niðurstöður könnunar LK á haustfundunum um hvaða námskeið séu æskilegust á komandi vori. Eftirfarandi námskeið verða væntanlega í boði hjá LBHÍ:

–         Fóðrun til hámarksafurða

–         Beit og beitarstjórnun

–         Vinnuhagræðing í fjósum

–         Nýjungar í kornrækt

 

f. Saga LK

LK býr yfir ýmsum gögnum í 20 ára sögu félagsins og var ákveðið að athuga möguleika á því að fá styrk til þess að ráða sérfræðing til þess að yfirfara gögnin og skrá.

 

g. 20 ára afmæli LK árið 2006

Sjá lið 14

 

h. Niðurstöður samráðsnefndar SAM og BÍ

Varaformaður sat fundinn og greindi frá helstu niðurstöðum hans. Gat hann þess að uppgjör beingreiðslna fer fram innan hvers samlagssvæðis, en fram hafa komið hugmyndir um að gera þetta upp á landsvísu. Stjórn LK tekur undir þær skoðanir, en til þess að svo megi vera þarf að breyta reglugerð. Var formanni og framkvæmdastjóra falið að taka málið upp við landbúnaðarráðherra.

 

Jafnframt kynnti hann tilurð og stöðu verðmiðlunarsjóðs afurðastöðva, en vegna breytinga á umhverfi mjólkurframleiðslunnar hefur þörfin fyrir sjóðinn minnkað verulega.

 

i. Hugmyndir um sjúkdómaskráningarkerfi

Baldur Helgi kynnti nýjar hugmyndir um sjúkdómaskráningarkerfi fyrir bændur og dýralækna. Lagði hann áherslu á að málið væri enn á hugmyndastigi, en mikilvægt væri að halda í það að viðmótið væri einfalt og þægilegt.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 17:40

Snorri Sigurðsson