Beint í efni

Stjórnarfundir – 4. fundur 2005/2006

18.10.2005

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda

 

Fjórði fundur stjórnar LK starfsárið 2005/2006 var haldinn sem símafundur 18. október 2005 og hófst hann klukkan 11:00. Mætt voru á línuna: Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Egill Sigurðsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhannes Jónsson og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, sem ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Ráðning framkvæmdastjóra

Formaður fór yfir drög að samningi við nýjan framkvæmdastjóra, Baldur Helga Benjamínsson, og hafði áður verið sendur til stjórnar og samþykkti stjórnin ráðninguna og gaf formanni heimild til undirritunar samningsins.

 

2. Staðsetning skrifstofu LK

Formaður kynnti hugmynd nv. framkvæmdastjóra um að efla samstarf LK og SAM með því að flytja skrifstofu LK til Osta og smjörsölunnar sf. að Bitruhálsi 2. Hugmyndin hefur verið rædd við forsvarsmenn SAM og Osta- og smjörsölunnar sf. og verið vel tekið. Var framkvæmdastjóra falið að ganga til viðræðna við forstjóra Osta- og smjörsölunnar sf. varðandi aðstöðu fyrir skrifstofu LK.

 

3. Búnaðargjaldsbreyting

LK hafði borist fyrir fundinn tillaga stjórnar BÍ um skiptingu búnaðargjaldsins, byggð á 1,20% búnaðargjaldi (tillaga B frá 3. stjórnarfundi LK). Stjórn BÍ hafði þó breytt tillögu LK um að lækka framlagið til Bjargráðasjóðs og auka tekjur LK og hafði haldið Bjargráðasjóði í 0,10% í stað þess að vera í 0,05% og dregið 0,05% af LK í staðinn. Þessi niðurstaða stjórnar BÍ er bæði í ósamræmi við niðurstöðu stjórnar LK um skiptingu búnaðargjalds frá kúabændum, sem og niðurstöðu aðalfundar kúabænda um niðurlagningu Bjargráðasjóðs. Af þessum sökum er ljóst að stjórn LK getur ekki fellt sig við breytingar á tillögu sinni um skiptingu búnaðargjaldsins og var framkvæmdastjóra falið að ítreka tillöguna til framkvæmdastjóra BÍ með tilheyrandi rökum.

 

4. Önnur mál

20 ára afmæli LK verður á næsta ári og óskaði framkvæmdastjóri eftir tilnefningum fundarmanna í afmælisnefndina. Tilnefningum verður komið til hans á tölvupósti.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 11:40

SnorriSigurðsson