Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

Stjórnarfundir – 3. fundur 2005/2006

22.09.2005

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda

 

Þriðji fundur stjórnar LK starfsárið 2005/2006 var haldinn fimmtudaginn 22. september 2005 og hófst hann klukkan 11:00. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Egill Sigurðsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhannes Jónsson og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, sem ritaði fundargerð. Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri BÍ, sat fundinn undir lið 12a.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Ráðning framkvæmdastjóra

Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, hefur sagt starfi sínu lausu frá og með næstkomandi áramótum og þarf því að ráða nýjan framkvæmdastjóra í hans stað. Ákveðið var að stjórn íhugi málið fram að næsta fundi og skoði kostina sem eru í stöðunni.

 

2. Verðlagsmál

Formaður kynnti stöðu verðlagsgrundvallar en reikningar liggja fyrir miðað við 1. september. Hækkunarþörfin er veruleg og ljóst að sækja þarf fram með hækkanir og sé rétt að horfa þar til leiðréttingar á mjólkurverði til bænda í hlutfalli við hækkun á vísitölu neysluverðs. Verðbólguspár fyrir komandi mánuði benda einnig eindregið til þess að um áramótin þurfi að leiðrétta verð til kúabænda verulega. Ólíklegt er jafnframt að iðnaðurinn geti áfram búið við fast verðlag, en verð hafa ekki hækkað frá íslenskum mjólkuriðnaði í 2 ár. Hver sem niðurstaðan verður, er ljóst að LK mun leggja þunga áherslu  á að verja stöðu umbjóðenda sinna í komandi viðræðum.

 

3. Haustfundir LK

Hinir árlegu haustfundir LK verða haldnir síðustu tvær vikurnar í október nk. Ákveðið var að funda sem hér segir:

 

Fimmtudaginn 13. október

Fundur hjá Félagi kúabænda á Suðurlandi (Árnessýsla) kl. 20.30

 

Mánudaginn 17. október

Fundur hjá Mjólkurbúi Borgfirðinga kl. 13.30

Fundur hjá Mjólkurbúi Kjalarnesþings kl. 20.30

 

Þriðjudaginn 18. október

Fundur hjá Félagi Þingeyskra kúabænda kl. 20.30

 

Miðvikudaginn 19. október

Fundur hjá Félagi kúabænda á Suðurlandi (Rangársýsla), kl. 20.30

 

Fimmtudaginn 20. október

Fundur hjá Félagi kúabænda á Suðurlandi (V-Skaftafellssýsla) kl. 13.30

Fundur hjá Nautgriparæktarfélagi Vopnafjarðar kl. 13.30

Fundur hjá Nautgriparæktarfélagi Austur Skaftafellinga kl. 20.30

Fundur hjá Félagi nautgripabænda á Héraði og Fjörðum kl. 20.30

 

Laugardaginn 22. október

Fundur hjá Mjólkursamlagi Ísfirðinga kl. 13.00

 

Mánudaginn 24. október

Fundur hjá Búgreinaráði BSE í nautgriparækt kl. 20.30

 

Þriðjudaginn 25. október

Fundur hjá Félagi Skagfirskra kúabænda kl. 13.30

Fundur hjá Nautgriparæktarfélagi Vestur Húnavatnssýslu og Félagi kúabænda í Austur Húnavatnssýslu kl. 20.30

 

Miðvikudaginn 26. október

Fundur hjá Mjólkursamlaginu í Búðardal kl. 20.30.

 

Á fundunum munu forsvarsmenn LK ræða um ýmis mál sem lúta að nautgriparæktinni s.s. áhrif nýs mjólkursamnings á mjólkur- og nautakjötsframleiðslu, markaðs- og framleiðslumál nautgriparæktarinnar ofl. innri málefni greinarinnar.

 

 

4. Staðan í framleiðslu og sölu.

Formaður fór yfir innvigtunartölur mjólkur og hefur innvigtun verið of lítil miðað við fyrra ár. Margir kúabændur og ráðunautar hafa lýst áhyggjum með framleiðslu á þessu verðlagsári vegna tíðarfarsins í sumar og haust, sem og vegna útlits fyrir léleg hey hjá mörgum í vetur. Í dag bendir því margt til þess að erfitt geti reynst að framleiða allt greiðslumarkið fyrir mánaðarmótin ágúst/september á næsta ári. Vegna þessara aðstæðna telur stjórn Landssambands kúabænda nauðsynlegt að afurðastöðvarnar ákveði nú þegar að greitt verði fullt afurðastöðvaverð fyrir alla innlagða mjólk á þessu verðlagsári. Jafnframt þarf að hvetja til átaks í fóðrunarleiðbeiningum frá leiðbeiningakerfinu til kúabænda. Einnig þurfi leiðbeiningakerfið að vera vel í stakk búið að takast á við leiðbeiningar um sumarbeit næsta sumar. Ákveðið var að framkvæmdastjóri sendi bréf til hlutaðeigandi aðila vegna málsins.

 

Framleiðsla nautakjöts í ágúst var töluvert meiri en í ágúst árið 2004, en eftirspurnin hefur þó verið mikil og margir talað um skort á nautakjöti. Verð til bænda hefur hækkað undanfarna mánuði og bið eftir slátrun ekki til staðar. Vegna stöðunnar hefur landbúnaðarráðuneytinu borist erindi um innflutning á hakkefni umfram tollkvóta. Framkvæmdastjóri hefur verið í sambandi við bæði ráðuneytið og sláturleyfishafa og er beðið frekari upplýsinga um raunverulega þörf fyrir hakkefni, þannig að hægt sé að taka upplýsta ákvörðun varðandi málið.

 

5. Staða með ályktanir síðasta aðalfundar

Farið var yfir stöðu einstakra mála og í hvaða farvegi viðkomandi mál eru. Nokkuð misjafnt er með stöðu málanna, en mörg þeirra á góðum rekspöli. 

 

a. Um ráðstöfun óframleiðslutengdra greiðslna í nýjum mjólkursamningi

Málið er í bið en verður tekið upp í vetur á sameiginlegum fundum LK og BÍ. 

 

b. Um samnýtingu greiðslumarks

Landbúnaðarráðherra fékk ályktunina til úrvinnslu en ekki er vitað nánar um úrlausnir. 

 

c. Um hámarksbústærðir

Fram hefur komið við úrvinnslu ályktunarinnar að í nágrannalöndum Íslands eru takmarkanir á stærðum eingöngu bundnar við öryggisþætti s.s. umhverfissjónarmið. Unnið verður að tillögu á grundvelli þessa. 

 

d. Um málefni Nautastöðvar BÍ

BÍ hefur sett á laggirnar vinnuhóp um hönnun nýs fjóss fyrir nautgripi, en sá hópur hefur ekki lokið störfum. Þórólfur Sveinsson hefur verið skipaður af BÍ í stýrihóp verkefnisins. 

 

e. Um gæði forskráðra eyrnamerkja

Ályktunin var send til BÍ og er nú fullyrt að málið sér á réttri leið. 

 

f. Um framkvæmd sjúkdómsskráninga

Ályktunin var send til BÍ og er enn verið að vinna að betrumbótum á gagnagrunninum. Ekki liggur fyrir hvernær gagnagrunnurinn verður tilbúinn. 

 

g. Um Bjargráðasjóð

Málið hefur verið rætt við landbúnaðarráðherra og við BÍ. Beðið er niðurstaðna. 

 

h. Um endurmenntun kúabænda

LBHÍ hefur sýnt málinu mun meiri áhuga en áður hefur verið og er von til þess að framboð endurmenntunarnámskeiða verði meira á komandi misserum en verið hefur. 

 

i. Um öflun markaða fyrir mjólkurvörur erlendis

Í ljósi markaðsaðstæðna nú um stundir verður ekki lögð mikil áhersla á eftirfylgni þessarar ályktunar á þessu verðlagsári. 

 

j. Um undanþágur einangraðra smáríkja gagnvart WTO skilyrðum

Lítið hefur verið unnið í málinu en óskað hefur verið eftir fundi með utanríkisráðherra til að ræða málið. 

 

k. Um eftirlit með mjólkurframleiðslu

Óskað var eftir því við landbúnaðarráðherra að LK fengi aðgengi að nefndinni sem er verið að fjalla um eftirlitsmál í landbúnaði, en ekki hefur enn borist svar við því erindi. 

 

l. Um niðurgreiðslur á akstri dýralækna

Málið hefur bæði verið rætt við landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra með óskum um breytingum á kerfinu. Óljóst er á þessari stundu hver niðurstaðan verður. 

 

m. Um Lánasjóð landbúnaðarins og fjármálaráðgjöf

Sjóðurinn er sem kunnugt er í söluferli og því erfitt að leggja mat á fjármálaráðgjöf fyrr en söluferli sjóðsins er lokið.

 

6. Staða viðræðna við BÍ um verkaskiptasamning

Nokkrir fundir hafa farið fram en textabreytingar á núgildandi samningi hafa ekki verið gerðar. Enginn ágreiningur er þó um veigamestu atriðin og útlit fyrir að hægt verði að ljúka málinu á næstu mánuðum og fyrir aðalfund LK 2006.

 

7. Reglugerð um gripagreiðslur

Drög að reglugerð liggur fyrir en hún hefur þó ekki enn verið sett. Nokkur atriði þarf að ræða betur áður en svo verður og snúa þau atriði að útfærslum á greiðslum, sér í lagi gagnvart gripagreiðslum til nýbýlinga.

 

8. Fjárfestingar kúabænda og efnahagur þeirra

Fundarmenn fengu sent fyrir fundinn yfirlit yfir fjárfestingar í greiðslumarki undanfarin ár í samanburði við heildarfjárfestingar kúabúa. Svo virðist sem nokkrar breytingar hafa orðið á þessu hlutfalli á síðasta ári, en bíða þarf upplýsinga frá Hagþjónustu landbúnaðarsins um afkomu síðasta árs en þær upplýsingar hefðu átt að liggja fyrir í ágúst sl. Ljóst er að gagnagrunnurinn sem notaður er, hefur sín takmörk en þó er mikilvægt að ná að draga út úr gögnunum meiri úrvinnslu þeirra s.s. að finna hagkvæmnimörk kúabúa og var framkvæmdastjóra falið að koma þessari skoðun stjórnar LK til þeirra sem málið varða.

 

9. Búnaðargjaldið

Stjórn fjallaði um væntanlegar breytingar á búnaðargjaldinu vegna þess að Lánasjóður landbúnaðarins heyrir brátt sögunni til, sem og vegna tillögu aðalfundar LK um Bjargráðasjóð. Stjórn leggur því til eftirfarandi skiptingu búnaðargjaldsins:

Tillaga A

Landssamband kúabænda         0,15

Búnaðarsambönd                      0,50

Bændasamtök Íslands               0,35

Samtals búnaðargjald            1,00

 

Lagt er til að færa til fjármuni á milli BÍ og LK vegna verkefnastöðu og breyttra verkefna á liðnum misserum.

 

Til vara leggur stjórn til, ef ekki telst mögulegt að fella út gjald til Bjargráðasjóðs með öllu:

Tillaga B

Landssamband kúabænda         0,30

Búnaðarsambönd                      0,50

Bændasamtök Íslands               0,35

Bjargráðasjóður                        0,05

Samtals búnaðargjald            1,20

 

Verði tillaga B valin, mun Landssamband kúabænda óska eftir því við landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir breytingum á lögum nr. 99/1993 og fella út ákvæði um innheimtur á verðskerðingargjaldi á nautgripi. Með því móti munu álögur á nautakjötsframleiðendur lækka um 14-16 milljónir árlega.

 

 

10. Innsend erindi og bréf

a. Erindi ábúenda á Dýrastöðum í Norðurárdal

Ábúendur að Dýrastöðum óska stuðnings LK vegna krafna um undirgöng undir þjóðveg nr. 1. Ljóst er að víða getur skapast hætta vegna skorts á undirgöngum undir fjölfarna vegi og tekur stjórn heilshugar undir kröfur um slík göng. Ákveðið var að senda samgönguráðherra bréf vegna málsins og afrit til vegamálastjóra.

 

b. Endurskoðun tryggingasamnings BÍ við VÍS

Tryggingarsamningur BÍ og VÍS er nú í endurskoðun og vegna þess hefur BÍ óskað álits LK á málinu. Stjórn LK telur, í ljósi vilja aðalfundar um breytingar á tryggingavernd Bjargráðasjóðs, að með hliðsjón af breyttum aðstæðum sé best að farið verði í nýtt útboð á tryggingum fyrir landbúnað með það að markmiði að B-deild Bjargráðasjóðs geti lagst af.

 

12. Önnur mál

a. Niðurfelling auragjaldsins

Frá og með nýja mjólkursamninginum er ekki dregið auragjald af mjólkurinnleggi og í stað þess greiðast kynbótagreiðslur frá ríkinu til Bændasamtaka Íslands sem skulu deila út fjármununum til sæðingarstarfseminnar. Til greiðslu koma um 106 milljónir á verðlagsárinu og var ákveðið að leggja til við BÍ að skipta fjármununum niður á milli sæðingastöðvanna miðað við kúafjölda á hverju starfssvæði, byggt á gagnagrunninum MARK.

 

b. Gjaldskrá dýralækna

Framkvæmdastjóri greindi frá því að búið er að senda út til allra starfandi dýralækna að senda til LK gjaldskrár vegna þjónustu við nautgriparæktina. Nokkrar gjaldskrár eru þegar komnar í hús og væntanlega fleiri á leiðinni.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 17:30

Snorri Sigurðsson