Beint í efni

Stjórnarfundir – 2. fundur 2005/2006

30.05.2005

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda

 

Annar fundur stjórnar LK starfsárið 2005/2006 var haldinn mánudaginn 30. maí 2005 og hófst hann klukkan 13:00. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Egill Sigurðsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhannes Jónsson og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, sem ritaði fundargerð. Á fundinn mætti Jón Baldur Lorange, sviðsstjóri tölvudeildar BÍ, undir fjórða lið fundarins.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Framleiðslustýring í mjólkurframleiðslu

Formaður rakti ferli ákvarðanatöku um framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslu en upp hafa komið spurningar um stýringuna eftir ræðu landbúnaðarráðherra á aðalfundi LK í vor. Í ræðunni kom fram að búvörulög banni ekki greiðslumarkslausum framleiðendum að leggja inn mjólk í afurðastöð, til vinnslu fyrir innlendan markað.

            Í búvörulögunum er fjallað um réttarstöðu mjólkur sem framleidd er umfram griðslumark og lögð í afurðastöð. Í greinargerð með lögunum, sem Halldór Blöndal þáverandi landbúnaðarráðherra lagði fram síðla hausts 1992 þegar núverandi form framleiðslustýringar í mjólkurframleiðslu var tekið upp, segir m.a.: ”Í greiðslumarki lögbýla felst í raun að lögbýlið öðlast hlutdeild í markaði mjólkurvara innan lands og hlutdeild í fjárframlagi sem ríkissjóður leggur fram til að tryggja framleiðendum að hluta fullt verð fyrir framleiðsluna. Í hugtakinu felst því ekki framleiðsluheimild eða framleiðsluréttur vegna þess að ekkert stendur í vegi fyrir því samkvæmt búvörulögum eftir 1. september 1992 að framleiðendur og/eða afurðastöðvar geri samning um útflutning á framleiðslu sem er umfram greiðslumark lögbýla eða framleiðslu þeirra sem ekki hafa greiðslumark”. Í nefndaráliti landbúnaðarnefndar, sem lagði til nokkrar breytingar á frumvarpinu sagði m.a. annars: “Breytingartillagan við 2. málslið áréttar að mjólk, sem framleidd er umfram greiðslumark, eigi ekki að koma til sölu innanlands nema brýn þörf komi til. Markmiðið er að koma í veg fyrir að bændur freisti þess að framleiða umfram greiðslumark nema til útflutnings.

Þá er lagt til að lokamálsliður greinarinnar falli brott. Ekki er talin þörf á að landbúnaðarráðherra setji sérstakar reglur um uppgjör fyrir mjólk, umfram greiðslumark sem ekki fellur innan heildargreiðslumarks. Ráðstöfun þeirrar mjólkur verður alfarið á ábyrgð framleiðenda og mjólkursamlaga. Þeirra er að semja um uppgjör fyrir þá framleiðslu”. Undir þetta álit rituðu m.a. annarra Guðni Ágústsson, Össur Skarphéðinsson og Einar Kr. Guðfinnsson.

               Það verður með hliðsjón af framansögðu að telja alveg ljóst að þegar búvörulögunum var breytt í desember 1992, var ætlunin að í greiðslumarki til mjólkurframleiðslu fælist forgangur að innanlandsmarkaði. Þrátt fyrir þennan ásetning virðist ekki hafa tekist að orða lögin þannig að þau verði skilin á þennan veg nú.

 

2. Ákvörðun greiðslumarks til mjólkurframleiðslu næsta ár

Ljóst er að greiðslumark komandi verðlagsárs mun engin áhrif hafa á útgjöld ríkisins og þar með snýr ákvörðun um magn greiðslumarks eingöngu að kúabændum og afurðastöðvum. Samkvæmt útreikningum sem taka tillit til söluspáa og söluþróunar á liðnum misserum ætti greiðslumarkið að vera 110 milljónir lítra, ef miðað er við óbreytta aðferð við útreikninga á greiðslumarki. Ef horft er til þess að miða við próteinþörf iðnaðarins á komandi verðlagsári, myndi greiðslumarkið fara í 113 milljónir lítra. Fram kom í máli fundarmanna að þessar hugmyndir hafa aðeins verið ræddar og nokkuð ólíkar skoðanir eru um málið. Jafnframt hefur verið rætt um að breyta skipulagi á A-, B- og C-greiðslum. Sú skoðun kom fram í umfjöllun um málið að því fylgdu ýmsir kostir að miða við efri efnaþátt mjólkurinnar hvað stærð greiðslumarksins snertir. Einnig var lýst efasemdum um að breyta bæði útreikningum á greiðslumarki og skiptingum á A-, B- og C-greiðslum. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar er talið að greiðslumarkið yrði 112 eða 113 ef miðað yrði við efri efnaþáttinn. Stjórnin taldi ekki fært að breyta skipulagi á A-, B- og C-greiðslum á þessu verðlagsári.

 

3. Reglugerð um greiðslumark næsta verðlagsár

Formaður fór yfir drög að reglugerð um greiðslumark mjólkur á lögbýlum verðlagsárið 2005-2006, en drögin byggja á reglugerð nr. 523 frá 2004. Ljóst er að breyta þarf all verulega reglugerðinni, enda mun hún taka yfir fyrsta verðlagsár í nýjum mjólkursamningi. Fram koma að m.a. þarf að bæta við 3. gr., um nýtingu greiðslumarks, ákvæði um ráðstöfun á umframmjólk. Í 5. grein kemur nýr texti um skilgreiningu á beingreiðslum og hugsanlega þarf að skerpa á texta í 6. grein, um handhafa beingreiðslna. Jafnframt var rætt um að bæta við 8. grein skýrari ákvæðum um upplýsingaskyldu og skoða hvort hægt sé að setja skýrari viðurlög ef upplýsingagjöf er takmörkuð.

 

4. Framkvæmd næsta mjólkursamnings

Fram kom að greiðslur vegna kynbóta- og þróunarstarfsemi byrja frá og með verðlagsárinu 2005/2006. Beðið er tillagna frá BÍ um málið. Þá verða greiddar gripagreiðslur frá og með 1. september 2006, sem byggja mun á skráningu gripa frá 1. september 2005. Í dag virðast enn vera ýmis ljón í veginum fyrir góðri skilvirkni á gagnagrunninum sem verður undirstaða greiðslnanna, m.a. er vitað um dæmi þess að gripir sem búið er að slátra hafi áfram verið inni í grunninum. Ljóst er að lítill hvati er til þess hjá notendum kerfisins að leiðrétta slíkar upplýsingar, enda myndi viðkomandi gripur skapa réttindi til greiðslna. Ábyrgð á eftirliti með gripagreiðslum liggur hjá Embætti yfirdýralæknis og var ákveðið að óska eftir fundi með yfirdýralækni. Fram kom í máli Jóns að verið sé að vinna að forriti sem mun halda utan um sláturgripi og að sú vinna sé unnin í samráði við Landssamtök sláturleyfishafa.

 

5. Framleiðslumöguleikar og útflutningsáhugi

Formaður fór yfir stöðu með sölu mjólkurafurða innanlands og þeim góða árangri sem náðst hefur til þessa. Jafnframt hefur áhugi vaknað á útflutningi íslenskra mjólkurvara til Bandaríkjanna. Fram kom að sk. útflutningshópur mjólkuriðnaðarins hefur hittst einu sinni og rætt um þessi mál.

 

6. Önnur mál

a. Erindi Hagþjónustu landbúnaðarins

Lagt fram bréf frá Hagþjónustu landbúnaðarins um söfnun búreikninga. Óskaði forstöðumaður aðstoðar LK við söfnun þeirra og ákvað stjórn að verða við þeim óskum.

 

b. Ályktun frá BSSL

Lögð fram til kynningar ályktun frá BSSL um nautastöðvarmál.

 

c. Aðalfundur LK 2006

Framkvæmdastjóri kynnti að næsti aðalfundur verður haldinn á hótel Íslandi, enda hafði stjórn LK ákveðið að hafa fundinn í Reykjavík í tilefni af 20 ára afmæli LK. Árshátíð kúabænda verður á Broadway. Stjórn ákvað að skipa þrjá bændur í afmælisnefnd LK.

 

d. Kýr 2005

Framkvæmdastjóri kynnti áætlun Skagfirðinga um að halda landbúnaðarsýningu  á Sauðárkróki í ágúst. Fram kom að jafnhliða verður haldin kúasýning og var ákveðið að LK komi að slíkri sýningu með hefðbundnum hætti.

 

e. Gæði einstaklingsmerkjanna

Framkvæmdastjóri fór yfir niðurstöður fundar hans og fulltrúa merkjaframleiðandans Os, sem sér um að framleiða öll nautgripamerki fyrir innanlandsmarkaðinn hér. Gæðin hafa verið döpur á þessum merkjum og endingin misgóð. Merkjaframleiðandinn taldi að nú væri búið að komast fyrir vandamálið og það ætti að vera úr sögunni með haustinu. Jafnframt bauð merkjaframleiðandinn að senda ókeypis merki til þeirra sem lent hafa í vandamálum vegna þessa.

 

f. Slit Landbúnaðarháskólans

LK hefur verið boðið að senda fulltrúa á fyrstu slit Landbúnaðarháskóla Íslands og var ákveðið að framkvæmdastjóri myndi fara til skólaslitanna.

 

g. Endurmenntunarmál og staða þeirra

Formaður greindi frá því að framundan væri fundur hans og framkvæmdastjóra með endurmenntunarstjóra LBHÍ til að ræða þau mál greinarinnar.

 

h. Svör við efnagreiningum á leiðinni

Framkvæmdastjóri greindi frá svörum fulltrúa LBHÍ við áskorun LK um bætta þjónustu við heyefnagreiningar. Samkvæmt svörunum lofar skólinn mun betri þjónustu en verið hefur undanfarin ár.

 

i. Ársfundur NMSM

Framkvæmdastjóri greindi frá því að ársfundur NMSM yrði haldinn um miðjan júní, að þessu sinni í Hróarskeldu, og mun hann taka þátt í fundinum ásamt Jóni Baldurssyni frá SAM.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 15:30.

Næsti stjórnarfundur: óákveðinn

Snorri Sigurðsson