Beint í efni

Stjórnarfundir – 1. fundur 2005/2006

19.04.2005

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda

Fyrsti fundur stjórnar LK starfsárið 2005/2006 var haldinn þriðjudaginn 19. apríl 2005 og hófst hann klukkan 11:00. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Egill Sigurðsson, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhannes Jónsson og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, sem ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og sérstaklega nýjan stjórnarmann LK, Guðnýju Helgu Björnsdóttur og því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Skipting verka stjórnar og val fulltrúa LK í trúnaðarstöður

Gengið var til leynilegra kosninga samkvæmt samþykktum LK og var niðurstaðan eftirfarandi: Sigurður Loftsson var kjörinn varaformaður með fjórum greiddum atkvæðum. Guðný Helga Björnsdóttir var kjörin ritari.

 

Þá var Þórólfur Sveinsson kjörinn sem aðalmaður LK í Verðlagsnefnd og Sigurður Loftsson til vara.

 

Þórólfur Sveinsson var jafnframt kjörinn aðalmaður LK í Framkvæmdanefnd búvörusamninga og Sigurður Loftsson til vara.

 

Sigurður Loftsson var kjörinn fulltrúi LK í Samstarfsnefnd SAM og BÍ og Guðný Helga Björnsdóttir til vara. 

 

Ákveðið var að sömu fulltrúar sitji í samninganefnd vegna frágangs mjólkursamningsins og sátu fyrir hönd LK í samninganefndinni sjálfri, þ.e. Þórólfur Sveinsson og Egill Sigurðsson. Jafnframt leggur stjórn LK til að Þórarinn Leifsson verði áfram sameiginlegur fulltrúi LK og BÍ.

 

2. Ályktanir aðalfundar LK 2005

 

  1. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, beinir því til samningsaðila um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar að hefja sem fyrst viðræður um ráðstöfun þess fjár sem skilgreint er sem óframleiðslutengdur stuðningur í samningnum. Jafnframt beinir fundurinn því til fulltrúa bænda í samninganefndinni að þeir beiti sér fyrir því að þessir fjármunir komi að sem bestum notum fyrir greinina og nýtist til lækkunar vöruverðs til neytenda. Fundurinn leggur áherslu á að drög að samkomulagi um ráðstöfun á óframleiðslutengdum/minna markaðstruflandi stuðningi verði kynnt á aðalfundi LK 2006.

 

Ákveðið var að senda álykunina til BÍ og landbúnaðarráðherra.

 

  1. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, skorar á landbúnaðarráðherra að standa við viljayfirlýsingu þá sem hann undirritaði 10. maí 2004 í tengslum við undirritun samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu um að láta kanna hvort hægt sé að samnýta greiðslumark tveggja eða fleiri lögbýla. Bendir fundurinn á að með samnýtingu greiðslumarks í mjólkurframreiðslu geti bændur náð fram mikilli hagræðingu í rekstri og frítíma frá vinnu þar sem staðhættir og landfræðilegir kostir eru.

 

Ákveðið var að senda ályktunina til landbúnaðarráðherra.

 

  1. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, beinir því til stjórnar LK að vinna að því að móta stefnu hvað varðar hámarks bústærðir. Tekið verði tillit til öryggisþátta við framleiðsluna með hagsmuni heildarinnar í huga.  Jákvæð ímynd greinarinnar og byggðasjónarmið verði  jafnframt höfð að leiðarljósi í hvívetna. Stefnt verði að því að tillaga að stefnumótun LK í þessum málaflokki verði lögð fyrir aðalafund félagsins 2006.

 

Ákveðið var að bíða með úrvinnslu ályktunarinnar til haustsins, þ.e. þegar fyrsti hluti vinnu við frágang mjólkursamningsins verður að baki. Þá var Jóhannesi falið að safna saman upplýsingum um aðferðir, bæði það sem verið er að framkvæma og það sem aðrar þjóðir hafa þegar lagt af. Framkvæmdastjóri verði honum jafnframt til aðstoðar.

 

  1. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, beinir því til stjórnar BÍ að fullt samráð verði haft við stjórn LK um endanlega ákvarðanatöku í málefnum Nautastöðvar BÍ. Ákvörðun liggi fyrir ekki seinna en 1. september 2005. Að öðrum kosti verði þegar farið í endurbætur á núverandi aðstöðu Uppeldisstöðvarinnar, þannig að hún uppfylli ákvæði aðbúnaðarreglugerðar.

 

Ákveðið var að senda ályktunina til BÍ og þá var framkvæmdastjóra falið að vinna að úrlausn málsins innan þeirrar skipulagsnefndar sem stjórn BÍ hefur skipað til að gera tillögur um málið.

 

  1. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, leggur ríka áherslu á að sem nánast samstarf takist með LK og LBHÍ um endurmenntun kúabænda. Tryggt verði að þörf þeirra sem starfa í greininni verði ætíð höfð að leiðarljósi við val og uppsetningu á námskeiðum.

 

Ákveðið var að senda ályktunina til LBHÍ og óska eftir viðræðum um málið. Þá var Guðnýju Helgu og framkvæmdastjóra falið að taka saman yfirlit yfir haldin námskeið á undanförnum árum og ákjósanleg námskeið til framtíðar litið.

 

  1. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, fagnar samþykkt stjórnar SAM um markvissa vinnu að öflun markaða fyrir íslenskar mjólkurvörur erlendis. Fundurinn hvetur til góðs samstarfs framleiðenda og afurðastöðva um þetta verkefni.

 

Ákveðið var að taka málið upp á næsta stjórnarfundi.

 

  1. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, leggur þunga áherslu á að íslensk stjórnvöld leiti allra leiða til að nýjir alþjóðasamningar, túlkun þeirra og útfærsla, verði sem léttbærastir fyrir íslenskan landbúnað og tryggi að íslenskir neytendur geti hér eftir sem hingað til haft aðgang að innlendum matvörum.  Lögð verði áhersla á rétt þjóðarinnar til matvælaöryggis og varðveislu matarmenningar. Sérstaklega þarf að huga að möguleikum á undanþágu fyrir einangruð smáríki til að styðja framleiðslu fyrir heimamarkað. Er í þessu sambandi sérstaklega minnt á ,,íslenska ákvæðið“ í Kýótó-bókuninni.

 

Ákveðið var að senda ályktunina til landbúnaðar- og utanríkisráðherra, sem og landbúnaðarnefndar.

 

  1. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, ítrekar ályktun um eftirlit vegna mjólkurframleiðslu frá síðasta aðalfundi sem send hefur verið landbúnaðarráðherra. Telur fundurinn að einfalda og samræma beri eins og hægt er það eftirlit sem tilheyrir nautgripahaldi og mjólkurframleiðslu. Þá krefst fundurinn þess að LK eigi fulltrúa í þeirri nefnd sem skipuð hefur verið til að fjalla um þessi mál þar sem eftirlitsþættir í landbúnaði tilheyra að stærstum hluta mjólkurframleiðslu.

 

Ákveðið var að senda ályktunina til landbúnaðarráðherra.

 

  1. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, mótmælir því að ekki skuli ætlaðir meiri fjármunir til niðurgreiðslu á akstri dýralækna. Óviðunandi er út frá dýraverndunarsjónarmiði að mikill kostnaður við akstur dýralækna komi niður á dýravelferð.

 

Ákveðið var að senda ályktunina til umhverfis- og landbúnaðarráðherra, sem og BÍ.

 

  1. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, leggur áherslu á að hagsmunir skuldara hjá Lánasjóði landbúnaðarins verði tryggðir svo sem kostur er við niðurlagningu/sölu sjóðsins. Söluandvirði sjóðsins renni til Lífeyrisjóðs bænda. Jafnframt hvetur fundurinn til þess að fjármálaráðgjöf á vegum BÍ og ráðgjafaamiðstöðva verði stórefld. Þetta er sérstaklega nauðsynlegt nú í gjörbreyttu viðskiptaumhverfi.

 

Fram kom í máli formanns að lagafrumvarp um sölu á Lánasjóði landbúnaðarins hafi þegar verið lagt fram á Alþingi og muni væntanlega koma til LK til umsagnar. Umsögn LK byggi á framangreindri ályktun. Þá var ákveðið að senda ályktunina til BÍ, búnaðarsambanda landsins, landbúnaðarráðherra, landbúnaðarnefndar og Lífeyrissjóðs bænda.

            Þá ákvað stjórn að í ljósi tillögu landbúnaðarráðherra um breytingar á lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald, þurfi að endurskoða uppbyggingu búnaðargjaldsins í heild. Þarna verði hver búgrein að leggja stefnu fram fyrir næsta haust.

 

  1. Aðalfundur LK haldinn á Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005 átelur þann seinagang sem orðið hefur á framkvæmd sjúkdómsskráningarkerfi nautgripa.  Bendir fundurinn á að gagnagrunnur nautgripasjúkdóma innan einstaklingsmerkingakerfisins í MARK verði best tryggður með rafrænni sjúkdóms og lyfjaskráningu dýralækna á vettvangi.  Skorar fundurinn á Landbúnaðarráðuneytið og embætti yfirdýralæknis að finna leiðir til að fjármagna þetta verkefni.

 

Ákveðið að senda ályktunina til landbúnaðarráðherra og Embættis yfirdýralæknis.

 

  1. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, bendir á mikla uppsöfnun af búnaðargjaldstillagi nautgriparæktarinnar í B-deild Bjargráðasjóðs og breyttar þarfir nautgriparæktarinnar fyrir tryggingavernd. Miðað við núverandi útgreiðslur bóta úr sjóðnum munu þessir fjármunir endast næstu 3-4 ár. Því leggur fundurinn til að inngreiðslum af búnaðargjaldi greinarinnar verði hætt.  Jafnframt verði leitað eftir breytingum á lögum um Bjargráðasjóð á þann veg að tryggingar taki við af þeirri vernd sem Bjargráðasjóður hefur veitt.  Stjórnar LK vinni að málinu og leggi skýrslu og tillögu fyrir næsta aðalfund.

 

Ákveðið var að kynna tryggingarfélögum landsins vilja kúabænda í þessu sambandi og var Sigurði og Agli falið að vinna að framgangi ályktunarinnar í samstarfi við framkvæmdastjóra.

 

3. Merkingar búfjár

Nokkur umræða hefur verið um það að merkja skuli nautgripi í bæði eyru en skiptar skoðanir verið um málið. Mjög stutt reynsla er komin með notkun á merkjunum og lítið verið um endurpantanir merkja vegna tapaðra merkja. Stjórn LK telur því ekki ástæðu til þess að gera kröfu um að merki séu sett í bæði eyru að svo komnu máli. Stjórn LK leggur þó áherslu á að ef reynsla af notkun merkjanna verði á þá leið að veruleg brögð verði að endurpöntunum á merkjum, þá verði þessi afstaða endurskoðuð.

 

4. Útreikningur greiðslumarks

Rætt hefur verið um að breyta reiknireglu um útreikninga á greiðslumarkinu, en í dag er greiðslumarkið reiknað út með þeim hætti að margfalda sölu mjólkurvara á próteingrunni með 0,75 að viðbættu margfeldi sölu mjólkurvara á fitugrunni með 0,25. Nokkuð hefur verið fjallað um hvort breyta eigi reiknireglunni á þann veg að miða eigi við próteingrunn eingöngu. Með því myndi greiðslumarkið aukast í u.þ.b. 110 milljónir lítra miðað við sölu síðustu tólf mánaða og ætti verð á greiðslumarki því að lækka sem þessu næmi. Með sama hætti myndu uppkaup afurðastöðva á umframmjólk minnka. Þá er ljóst að nýr mjólkursamningur með nýju greiðslufyrirkomulagi breytir jafnframt tengingu kúabænda við greiðslumarkið. Eftir ítarlega umfjöllun um málið var ákveðið að taka ákvörðun um málið á næsta stjórnarfundi í byrjun júní, en ákvörðun þarf að taka á þeim fundi. Agli og Þórólfi var falið að afla upplýsinga um afstöðu stjórnar SAM til málsins.

 

5. Samþykktabreytingar vegna nautakjötsframleiðenda

Vegna stofnfundar félags holdanautabænda þarf að huga að breytingum á samþykktum LK í samræmi við ályktun frá aðalfundi LK 2004.

 

6. Framkvæmd nýs mjólkursamnings

Formaður kynnti tvö óleyst mál sem tengjast Framkvæmdanefnd um nýjan búvörusamning vegna nýja mjólkursamningsins, sem eru gripagreiðslur og lögformlegur frágangur þess og kynbótastyrkur vegna brottfalls auragjaldsins. Komið hafa upp nokkur atriði sem fara þarf yfir og leysa.

 

7. Framleiðslustýring mjólkur

Runólfur Sigursveinsson og Valdimar Bjarnason mættu til fundarins kl. 14:15. og ræddu nokkur atriði varðandi framleiðslustýringuna.

 

8. Önnur mál

a. Aðalfundur LK

Ákveðið var að halda aðalfundinn 7. og 8. apríl 2006 og í Reykjavík. Í tilefni 20 ára afmælis LK á næsta ári verði jafnframt skipuð afmælisnefnd sem sjái um undirbúning árshátíðarinnar.

 

b. Verð á greiðslumarki

Nokkur umræða hefur verið um hátt verð á greiðslumarki og hafa vaxið umræður um kvótamarkað. Samkvæmt bókun BÍ við nýja mjólkursamninginn verður komið á fót miðlun með greiðslumark en það hefur þó ekki orðið enn. Búast má við því að ályktun berist frá aðildarfélagi LK um málið á næstu vikum.

 

c. Kýr 2005

Til hefur staðið að halda kúasýningu í ár á Norðurlandi. Ekki hefur verið mikið unnið með málið enn, en ákveðið var að fela framkvæmdastjóra að kanna áhuga á sýningunni á Norðurlandi.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 15:30.

Næsti stjórnarfundur: byrjun júní 2005

Snorri Sigurðsson