Stjórnarfundir – 4. fundur 2004/2005
06.12.2004
Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda
Fjórði fundur stjórnar LK starfsárið 2004/2005 var haldinn í fundarsal Búnaðarsambands Suðurlands mánudaginn 6. desember 2004 og hófst hann klukkan 11:00. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Egill Sigurðsson, Kristín Linda Jónsdóttir, Jóhannes Jónsson og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, sem ritaði fundargerð. Undir 1. og 2. lið dagskrárinnar tóku Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdastjóri BSSL og Þorfinnur Þórarinsson, formaður stjórnar BSSL þátt í fundinum.
Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og þakkaði fyrir góðar móttökur BSSL og því næst var gengið til dagskrár.
1. Skoðun á aðstöðu tilraunafjóssins að Stóra Ármóti
Fundurinn byrjaði með því að tilraunafjósið að Stóra Ármóti var skoðað og kynnti framkvæmdastjóri BSSL starfsemina. Fram kom að nýtt fóðrunarkerfi kostaði 8 milljónir og að með tilkomu þess hafi verið unnt að framkvæma nákvæmnisfóðrun með heilfóður í fjósinu. Fjósið var síðan skoðað í heild sinni og að því loknu haldið til höfuðstöðva BSSL á Selfossi.
2. Fundur með forsvarsmönnum BSSL
Rætt var um mögulega þjónustu BSSL yfir stærra svæði en nú er gert og var í því sambandi rætt um þær breytingar sem eru að verða með tilkomu Landbúnaðarháskóla Íslands. Fram kom að nú þegar eru starfandi landsráðunautar sem eru staðsettir hjá og/eða í tengslum við einstök búnaðarsambönd og ljóst að aukin notkun á tölvum gerir landið minna og auðveldar ráðgjöf langt út fyrir viðkomandi svæði. Jafnframt kom fram að núverandi uppbygging á ráðgjöf til bænda, þ.e. landsráðunautur – héraðsráðunautur – bóndi, virðist ekki vera nógu skilvirk. Í sumum fögum liggi jafnvel við að héraðsráðunautar standi landsráðunautum framar í viðkomandi fagsviði og/eða ráðgjöfin á landsvísu sé burðarlítil. Vinna þurfi að því að gera þessa ráðgjöf skilvirkari.
3. Skoðun á aðstöðu nautaeldisfjóssins að Þorleifskoti
Stjórn og framkvæmdastjóri fóru að Þorleifskoti og var aðstaða ungu nautanna skoðuð. Auk bústjóranna að Þorleifskoti, tóku héraðsdýralæknirinn á Suðurland, Katrín Andrésdóttir, og Jón Guðbrandsson dýralæknir á móti fulltrúum LK. Fram kom í máli bústjóranna að nautkálfarnir sem koma á stöðina eru í mjög misgóðu ásigkomulagi og þurfi þarna að bæta verulega úr. Jafnframt var öllum fulltrúum LK ljóst að aðstaða nautanna í Þorleifskoti er ekki viðunandi eins og hún er í dag og full ástæða til að bæta verulega úr aðbúnaði nautanna. Jafnframt kom á óvart hve lítið hefur verið gert í að tæknivæða verkþætti við daglega vinnu í fjósinu.
4. Verðlagning mjólkur
Formaður fór yfir aðdraganda og helstu niðurstöður varðandi ákvörun Verðlagsnefndar um verðlagningu mjólkur frá áramótunum 2004/2005. Fram kom að greinargerð um málið liggur fyrir og hefur verið birt á vef LK. Samkomulag náðist í nefndinni um að leiðrétta verð til framleiðenda með hliðsjón af breytingum á vísitölu neysluverðs frá 1. september 2003 til 1. september 2004, eða um 3.4 %. Verð á mjólk til bænda hækkar því frá 1. janúar 2005 um kr. 2,75 og fer úr kr. 80,74 í 83,49 á lítra mjólkur. Jafnframt var ákveðið að ekki muni koma til verðbreytinga á heildsöluverði mjólkur og mjólkurafurða frá og með 1. janúar 2005. Þá lýstu fulltrúar mjólkuriðnaðarins því yfir að ekki komi til hækkunar á sérvörum þeirra að svo komnu máli.
Fundarmenn voru því sammála að þrátt fyrir að kostur hefði verið að sækja verðhækkanir út á markaðinn, hafi verið skynsamlegt eins og staðan er á markaði nú um stundir, að fresta verðhækkunum til neytenda. Þá kom jafnframt fram sú skoðun stjórnar LK að eðlilegt sé að horfa til eðlilegrar ávöxtunar eigin fjár af afurðastöðvunum umfram það lágmarksverð sem greitt er í dag til bænda.
5. Helstu niðurstöður haustfunda LK 2004
Haustfundir LK voru haldnir um allt land og var þátttaka mjög góð á fundina. Á fundunum var farið yfir helstu málefni búgreinarinnar og urðu ávalt mjög góðar umræður um stöðu mjólkur- og kjötframleiðslunnar, sem og um framtíðina með nýjum mjólkursamningi.
Formaður gerði grein fyrir nokkrum minnisatriðum frá haustfundum Landssambands kúabænda haustið 2004. Þessi atriði þurfi stjórn LK að ræða og eftir atvikum móta tillögur út frá þeim fyrir aðalafund Landssambands kúabænda 2005.
Ø Er þörf á/mögulegt að setja efri mörk á fjölda jarða sem einn aðili getur átt ?
Ø Er ástæða til að/hægt að binda í lög að handhafi beinna greiðslna skuli eiga lögheimili á þeirri jörð sem greiðslumarkið tilheyrir ?
Ø Er ástæða til að setja efri mörk, t.d. 1 % af heildargreiðslumarki, á það magn sem einstakir aðilar geta átt og/eða er í einu fjósi ?
Ø Er ástæða til að setja hámark á það magn sem færa má af greiðslumarki inn á hvert lögbýli á hverju ári ? (Er í danska kerfinu )
Ø Upplýsingar um afkomu kúabænda eru óviðunandi
Ø Er ekki kominn tími til að Landssambands kúabænda geri almenna skoðanakönnun um hin ýmsu hagsmunamál kúabænda ?
Ø Af hverju eru svona litlar upplýsingar um ný lyf á sama tíma og hvers kyns ,,náttúrulyf“ eru kynnt með með auglýsingum ?
Ø Hvað er framundan á lánamarkaðnum ?
Ø Eru erlend lán vænlegur kostur ?
Ø Ef greiðslur eiga að lækka vöruverð, þurfa þær að nýtast framleiðendum.
Ø Hefur RM ekki löggildingu til að rannsaka vatnssýni ?
Ø Er rétt að greiða sérstakan stuðning á sæddar kvígur ?
Ø Hvað má nautakjötsverð fara hátt með hliðsjón af mögulegum innflutningi ?
Ø Er rétt að fara að kaupa mjólkina við fjósvegg ?
Ø ,,Ég er búinn að kaupa hlutdeild í þeim stuðningi sem á að gera minna markaðstruflandi. Þessi hluti stuðningsins gæti verið 8 til 10 % af launum mínum“.
Ø ,,Síðustu aurarnir skapa tekjurnar“
Almennt var það mat stjórnarmanna að á fundunum hafi verið reifuð flest þau mál sem eru að gerjast meðal umbjóðenda LK og jafnframt hve mikilvægt væri að halda góðum og sterkum tengslum við grasrótina. Þá kom jafnframt fram að nokkur áherslumunur hafi komið fram um örfá atriði á milli forrystu LK og BÍ á haustfundum þeirra síðarnefndu en ekki væri fyrirséð að sá áherslumunur myndi koma niður á kúabændum landsins á komandi tímum. Í því sambandi var bent á nýjan mjólkursamning og gildistíma hans.
6. Málefni Lánasjóðs landbúnaðarins
Formaður greindi frá því að nú hefð Landbúnaðarráðherra ákveðið að skipa verkefnisstjórn sem á að skila til hans greinargerð og ráðgjöf um kosti og galla þriggja skilgreindra leiða varðandi framtíð Lánasjóðs landbúnaðarins.
Verkefnisstjórnin verður skipuð tveim fulltrúum frá landbúnaðarráðuneytinu, einum frá Lánasjóði landbúnaðarins og tveim frá Bændasamtökum Íslands. Miðað er við að verkefnisstjórnin ljúki störfum með tillögum til landbúnaðarráðherra fyrir lok febrúar 2005. Miklar umræður urðu um málefni sjóðsins og þá einkum hvort ekki væri óhjákvæmilegt að hætta töku búnaðargjalds til sjóðsins.
7. Áherslur í viðræðum um verkaskiptasamning LK og BÍ
Formaður og varaformaður kynntu drög að áherslum varðandi nýjan verkaskiptasamning á milli LK og BÍ. Töluverðar umræður urðu um málið og var formanni og varaformanni síðan falið að vinna áfram að málinu á líkum nótum og kynnt var.
8. Lögfræðiálit á uppbyggingu gjaldskráa búnaðarsambanda vegna þjónustu við kúabændur
Kynnt var og farið yfir drög að áliti lögfræðinga á uppbyggingu gjaldskrám búnaðarsambanda vegna þjónustu við kúabændur. Í álitinu er bent á nokkur atriði sem ekki standast samþykktir BÍ og Búnaðarlög og var ákveðið að ræða málið við fulltrúa landbúnaðarráðuneytisins, en ráðuneytið sér um staðfestingu á gjaldskrám búnaðarsambanda.
9. Búnaðarþingsmál
Fundarmenn fóru yfir afdrif tillagna LK til búnaðarþings 2004, en tillögur LK frá búnaðarþingi 2004 féllu undir eftirfarandi ályktanir:
– mál 3-3 um stefnumótun í landbúnaði
– mál 9-3 um flutning á starfsemi BÍ
– mál 15-2 um hagtölusöfnun í landbúnaði
– mál 30-3 um tryggingaþörf og Bjargráðasjóð
– mál 32-2 um lánsfjármögnun í landbúnaði
Ákveðið var að vinna að tillögum LK til búnaðarþings 2005 á eftirfarandi grunni:
- Ályktun um sölu á hótelum í eigu BÍ.
- Ályktun um lagfæringar á aðbúnaði í Þorleifskoti.
- Ályktun um viðbragðsáætlun ef upp kemur grunur um smitsjúkdóm.
- Ályktun um samþykktarbreytingar
- Ályktun um eftirlit með innfluttu kjöti og matvælaöryggi.
- Ályktun um lækkun fóðurtolla.
10. Rammasamkomulag WTO
Framkvæmdastjóri greindi frá helstu niðurstöðum fundar sem BÍ stóð fyrir um málefni WTO, en á þeim fundi fór Guðmundur B. Helgason ráðuneytisstjóri landbúnaðarráðuneytisins yfir málið.
11. Fjármögnun MARK
Formaður fór yfir stöðu málsins en gagnagrunnsforritið MARK hefur nú verið búið til af BÍ samkvæmt samkomulagi við landbúnaðarráðuneytið. Nú er komin upp sú staða að landbúnaðarráðuneytið kveðst ekki fá fjármagn til að greiða Bændasamtökum Íslands fyrir vinnu BÍ við gerð gagnagrunnsins, en kostnaður við smíði gagnagrunnsins virðist hafa farið verulega fram úr fyrstu áætlunum. Málið hefur verið tekið upp á vettvangi Framkvæmdanefndar búvörusamninga og í framhaldi af því í fagráði nautgriparæktarinnar. Á fundi formanns og framkvæmdastjóra LK, ásamt framkvæmdastjóra BÍ og yfirmanni tölvudeildar, sem og deildarstjóra í landbúnaðarráðuneytinu var ákveðið að vinna að lausn málsins á eftirgreindum forsendum:
Áætlaður heildarkostnaður | 17.500.000 |
– Þegar greitt til BÍ af landb.ráðuneyti | 3.500.000 |
– BÍ gefur eftir af kröfu | -2.000.000 |
Samtals | 12.000.000 |
| |
Áætlun um greiðslur: | |
Embætti Yfirdýralæknis | 2.800.000 |
Nautgriparæktin | 3.000.000 |
Sauðfjárræktin | 3.500.000 |
Sótt um til Framleiðnisjóðs – almenningi | 3.000.000 |
Samtals fjármagnað | 12.300.000 |
Í kjölfar töluverðra umræðna um málið ákvað stjórn LK eftirfarandi: “Mælt er með ráðstöfun á þróunarfé samkvæmt samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar 1998-2005, kr. 3.000.000,- til að kosta gerð gagnagrunnsins MARK”.
Fundi var frestað til kl. 9:30 7. des.
12. Málefni Kjötframleiðenda ehf.
Formaður fór yfir kauptilboð í hluta af eign LK, sem hefur borist frá starfsmanni fyrirtækisins. Bráðabirgðauppgjör til og með október í ár ber með sér slaka niðurstöðu, en þó vantar enn upp á ýmsa tekjuliði. Stjórn er hlynnt því að selja hlut LK í fyrirtækinu fáist ásættanlegt verð. Ljóst er að kauptilboðið er mjög mikið háð rekstrarniðurstöðu ársins 2004 og því getur slök afkoma í ár leitt af sér lágt söluverð. Tilboðið ber með sér kaup á 32,5% eignarhlut LK af 39,5%. Ákveðið var að leggja fram gagntilboð með sk. gólfi og formanni falið að vinna frekar í málinu.
13. Ályktanir aðalfundar 2004 – staða mála
1. Endurskoðun verkaskiptasamnings LK og BÍ.
Þegar búið að skipa samningafulltrúa beggja aðila en fyrsti fundur ekki verið haldinn.
2. Uppstokkun og endurskoðun á fagþjónustu landbúnaðarins.
LBÍ verður að veruleika um áramótin komandi, en enn nokkur óvissa um hvernig ný stofnun mun starfa.
3. Aukið vægi eftirfylgni áætlana við úthlutun framlaga til “markmiðstengdra búrekstraráætlana”.
Fagráð í hagfræði fékk ályktunina en eftir því sem best er vitað hefur ekki verið kallað til fundar fagráðsins.
4. Endurskoðun reglna um Nautastöð Bændasamtaka Íslands.
Viðræður um málið eru ekki hafnar.
5. Rannsóknir á ástæðum kálfadauða og frjósemisvandamála í íslenska kúastofninum.
Verkefni hafið hjá helstu fagstofnunum landbúnaðarins og fyrstu niðurstaðna að vænta á ráðunautafundi 2005. Málið er á forgangslista hjá fagráði í nautgriparækt.
6. Verklagsreglur um meðferð trúnaðarupplýsinga á kennitölugrunni.
Ályktunin var send til stjórnar BÍ og Fagráðs í nautgriparækt og jafnframt hefur verið óskað eftir samstarfi við BÍ um smíði verklagsreglna um málið. Ekki hefur verið unnið að slíkum verklagsreglum enn.
7. Bætt upplýsingagjöf um stöðu álagðs og innheimts búnaðargjalds.
Ákveðið var að senda ályktunina til stjórnar BÍ og til ríkisskattstjóra. Ekki hefur enn fengist bætt úr slakri upplýsingagjöf um stöðu álagðs búnaðargjalds.
8. Skuldajöfnun við beingreiðslur mótmælt.
Ákveðið var að senda ályktunina til stjórnar BÍ og að óska jafnframt eftir viðræðum um málið. Viðræður hafa ekki farið fram en málið viðrað við forsvarsmenn BÍ.
9. Sameiginleg vörumerking fyrir alla íslenska matvöruframleiðslu.
Ákveðið var að senda ályktunina til landbúnaðarráðherra. Ekki hefur verið frekar aðhafst í málinu.
10. Einföldun og samræming eftirlits með nautgripahaldi og mjólkurframleiðslu.
Ákveðið var að senda ályktunina til landbúnaðarráðherra. Ráðherra hefur skipað vinnuhóp sem hefur það hlutverk að yfirfara eftirlit og eftirlitskostnað í landbúnaði. Ekki er ljóst hvenær vinnhópurinn skilar niðurstöðu í málinu.
11. Hraðað verði gerð nýs samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar og að hann byggi á sömu grundvallarforsendum og gildandi samningur.
Frágengið mál.
12. Nautakjötsframleiðendur öðlist rétt til að senda einn fulltrúa á aðalfund LK.
Unnið er að framgangi ályktuninnar en álitamál hafa vaknað um hvernig velja skuli slíkan fulltrúa.
13. Endurskoðun á matsreglum nautakjöts og samræming matsins á milli sláturhúsa.
Ákveðið var að senda ályktunina til landbúnaðarráherra og óska eftir því við ráðherra að skipaður verði starfshópur um málið. Málið hefur verið rætt við landbúnaðarráðherra og kynnt landbúnaðarnefnd. Beðið er skipunar starfshóps um málið.
14. Stuðningur við nautakjötsframleiðslu.
Unnið hefur verið framgangi ályktuninnar. Hugsanlegt er að eftirstöðvar af framlögum ríkisins sem nú eru í vörslu Bændasamtaka Íslands, fáist til að greiða nokkurn gripastuðning árin 2005 og 2006. Sá stuðningur yrði þá væntanlega greiddur á skráðar holdakýr.
15. Kannað verði hvort rétt sé að breyta töku verðskerðingargjalds af nautgripakjöti.
Málið verður skoðað þegar upplýsingar um rekstur ársins 2004 liggja fyrir.
16. Reglugerðir og lagastoðir yfirdýralæknis við sölu á nautgripum á milli bæja.
Ákveðið var að óska eftir aðstoð BÍ varðandi málið og taka upp viðræður við yfirdýralækni í framhaldi þess. Jafnframt að óska eftir upplýsingum frá aðildarfélögum LK um stöðu mála hjá hverju aðildarfélagi. Unnið er að málinu.
17. Aðgerðir gegn kálæxlaveiki.
Ákveðið var að senda ályktunina til stjórnar BÍ og landbúnaðarráherra og telst ályktunin afgreidd.
18. Samræming félagaskráningar aðildarfélaga LK.
Ákveðið var að senda ályktunina til allra aðildarfélaga LK með ábendingum um hvernig hægt sé að standa að skráningu félaga. Samþykktarbreytingar, ef einhverjar eru, verða væntanlega gerðar á aðalfundum aðildarfélaga LK seinnipart vetrar.
14. Umsögn um reglugerð um aflífun dýra
Ákveðið var að senda sameiginlega umsögn með öðrum búgreinafélögum og BÍ. Framkvæmdastjóra falið að ganga frá málinu.
15. Hagnýting upplýsinga úr MARK
Formaður fór yfir málið. Ákveðið var að fela formanni og framkvæmdastjóra að ræða málið við landbúnaðarráðuneytið.
16. Samþykktir LK og fyrirtæki sem stunda búrekstur
Formanni og framkvæmdastjóra var falið að yfirfara samþykktir LK gagnvart aðild fyrirtækja sem stunda búrekstur. Ákveðið var að ganga frá minnisblaði um málið og senda til stjórnar.
17. Innsend erindi og bréf
a. Bændasamtök Íslands: Ábendingar um hindranir í viðskiptum
Kynnt bréf frá forstöðumanni félagssviðs BÍ um málið.
b. Bændasamtök Íslands: Endurskoðun verkaskiptasamnings
Bréf frá framkvæmdastjóra BÍ um að stjórn BÍ hafi skipað Harald Benediktsson, formann BÍ og Gunnar Sæmundsson, varaformann BÍ og Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóra BÍ til að annast endurskoðun verkaskiptasamnings af hálfu BÍ.
c. Embætti yfirdýralænis: Umsjón og eftirlit með dýravernd
Bréf frá aðstoðaryfirdýralækni lagt fram til kynningar, en í því er bent á að Umhverfisstofnun skuli ætlað umsjón og eftirlit með framkvæmd reglugerðar um aflífun búfjár en ekki embætti yfirdýralæknis. Embættið hefur mótmælt þessu formi og óskar stuðnings við málið. Ákveðið var að senda stuðningsyfirlýsingu við málið til umhverfisráðherra og landbúnaðarráðherra.
d. Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði: Um mjólkuruppgjör 2003/2004
Bréf frá framkvæmdastjóra SAM vegna ábendinga LK um leiðir til að flýta mjólkuruppgjöri. Í bréfinu er bent á að SAM mun skoða þær leiðir sem færar eru til að flýta greiðslum til mjólkurframleiðenda eins og kostur er fyrir umframmjólk.
18. Önnur mál
a. Hækkun á fóðurverði
Framkvæmdastjóri kynnti stöðu vinnu við úttekt á verðþróun með kjarnfóður hér og á hinum Norðurlöndunum. Fram kom í máli hans að töluvert hefur verið um að kúabændur hafi haft samband við skrifstofu LK vegna hás verð á kjarnfóðri. Áfram verður unnið að úttektinni og leitað samráðs við fleiri hagsmunaaðila í málinu.
b. Ræktunarafmæli
Formaður minnti á að nú væri öld liðin frá lagasetningu um ræktun nautgripa og rétt væri að minnast þeirra tímamóta. Unnið verður að málinu.
c. Gripagreiðslur
Formaður kynnti samkomulag sem náðst hefur við Embætti yfirdýralæknis um merkingar kúa sem fæddar eru fyrir 1. september 2003. Beðið er eftir breytinga á reglugerð um merkingar sem stendur til að gera seinnipartinn í desember.
d. Tillaga LK um verðmætamat gripa vegna Bjargráðasjóðs
Framkvæmdastjóri fór yfir tillögur sem sendar hafa verið til stjórnar Bjargráðasjóðs um verðmætamat gripa. Niðurstaða stjórnar Bjargráðasjóðs við tillögum LK liggja ekki fyrir.
d. Útflutningur mjólkurvara
Framkvæmdastjóri viðraði málið en fram kom að lítið markvert væri verið að gera varðandi útflutning mjólkurvara og það sem verið væri að gera væri á grundvelli einstaklingsframtaks einstakra afuraðstöðva en ekki heildar. Ákveðið var að taka málið upp við stjórn SAM.
e. Mat og endurmat sláturgripa
Framkvæmdastjóri kynnti málið en á einum af haustfundum LK kom fram að vegna nýrra vinnubragða við slátrun og úrbeiningu nái umbjóðendur LK oft tæplega að bregðast við sláturmati á nautgripum. Ákveðið var að óska eftir samstarfi Landssamtaka sláturleyfishafa um málið og var framkvæmdastjóra falið að vinna að málinu.
f. Fundur með fulltrúa Lífsvals
Formaður fór yfir helstu niðurstöður af fundi hans og framkvæmdastjóra með forsvarsmanni fyrirtækisins Lífsval ehf., sem hefur verið nokkuð stórtækt í uppkaupum á jörðum og stundar mjólkurframleiðslu á tveim jörðum. Fyrirtækið virðist fremur sækjast eftir jörðum en hlutdeild í búvöruframleiðslu.
g. Fjármál og fjármögnun
Egill lagði fram til kynningar gögn um fjármál og fjármögnun frá ráðunauti BSSL.
h. Fyrstu drög að ályktun fagráðs í nautgriparækt um forgangsverkefni í rannsóknar- og þróunarstarfi í nautgriparækt í næstu ár
Formaður lagði fram til kynningar fyrstu drög að ályktun fagráðs um forgangsverkefni í rannsóknar og þróunarstarfi.
19. Ferð í MBF
Í lok fundarins fór stjórn og framkvæmdastjóri í skoðunarferð til Mjólkurbús Flóamanna. Birgir Guðmundsson, mjólkurbússtjóri tók á móti hópnum og kynnti fyrirtækið og starfsemi þess. Ljóst er að Mjólkurbúið hefur verið mjög vel rekið og er eitt þýðingarmesta fyrirtækið sem kúabændur landsins tengjast. Að lokinni kynningu á fyrirtækinu bauð MBF til hádegisverðar.
Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 13:30
Snorri Sigurðsson