Beint í efni

Stjórnarfundir – 3. fundur 2004/2005

14.10.2004

Þriðji fundur stjórnar LK starfsárið 2004/2005 var haldinn í fundarsal Osta- og smjörsölunnar fimmtudaginn 14. október 2004 og hófst hann klukkan 10:00. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Egill Sigurðsson, Kristín Linda Jónsdóttir, Jóhannes Jónsson og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, sem ritaði fundargerð.
 
Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Fundur með landbúnaðarráðherra
Formaður fór yfir þau atriði sem hann og framkvæmdastjóri ræddu við landbúnaðarráðherra á fundi þeirra 8. september sl. Á fundinum var farið yfir ályktanir frá aðalfundi LK og ýmiss önnur mál. Aðalverkefni fundarins var þó að ræða um nautakjötsmál og mögulega styrki þar til gripagreiðslur koma til sögunnar næsta haust. Engin ákveðin niðurstaða fékkst í málið.

 

2. Fundur með forsvarsmönnum BÍ
Formaður og framkvæmdastjóri hittu að máli forsvarsmenn BÍ til að ræða ýmis sameiginleg mál. Ljóst er að taka þarf upp verkaskiptasamninginn á milli LK og BÍ. Stjórn ákvað að fela formanni og varaformanni að leiða þá vinnu fyrir hönd LK ásamt framkvæmdastjóra. Þá var rætt um skipulag lífdýrasölu hérlendis, en margrætt hefur verið um að eftirlit og opinbert skipulag er ekki í nógu góðu lagi. Ýmis önnur mál voru rædd s.s. eignarhald á Nautastöð BÍ, einstaklingsmerkingar ofl.

 

3. Mjólkuruppgjörið 2003/2004.
Formaður fór yfir forsendur mjólkuruppgjörsins vegna verðlagsársins 2003/2004 og dreifði í því sambandi yfirliti frá SAM. Í kjölfarið var rætt um uppgjörsferil umframmjólkurinnar, en fram kom í máli Egils Sigurðssonar, fulltrúa LK í samráðsnefnd SAM, að BÍ hafi borist upplýsingar frá síðustu afurðastöð 13. september vegna innveginnar mjólkur í ágúst. Þá hafi BÍ sent uppgjör sitt til SAM 24. september og SAM afgreitt málið frá sér 5. október sl. Nokkur umræða varð um málið enda margir bændur ósáttir við drátt málsins emda eri í ágúst og september margir kúabændur tekjulitlir vegna stöðu með framleiðslurétt. Til að draga úr þessu vandamáli var ákveðið að leggja til við BÍ og SAM að sú mjólk eða próteinhluti umframmjólkur er samlögin ákveða að kaupa af framleiðendum verði greidd í hlutfalli við greiðslumark hvers framleiðanda eins og framleiðsla innan greiðslumarks. Með því móti geti þeir framleiðendur umframmjólkur fengið greitt fyrir umframmjólkina að stærstum hluta strax við fyrstu útborgun afurðarstöðvar í september. Þá var ákveðið að hvetja báða aðila til að hraða eftir föngum uppgjörsferlilnu.

 

Þá ræddi Egill um sk. Verðmiðlunarsjóð, en í hann hefur safnast fjármagn undanfarið og innheimtur verið meiri en útgjöld. Tekjuflæði til sjóðsins byggir á sk. auragjaldi sem rukkað er á hvern innveginn lítra í afurðastöð.

 

4. Viðbrögð SAM við beiðni um stuðning vegna mjólkursamningavinnu
Í september fór LK fram á stuðning SAM vegna vinnu LK við nýgerðan mjólkursamning. Óskað var eftir tveggja milljón króna stuðningi og var hann samþykktur.

 

5. Mjólkursamningurinn

a. Afnám auragjaldsins
Ljóst er að nýr mjólkursamningur kallar á að sk. auragjald vegna ræktunarmála verði afnumið.

 

b. Óframleiðslutengdur stuðningur
Ákveðið var að óska bréflega eftir því við landbúnaðarráðherra. Þá var rætt um óframleiðslutengdan stuðning og hugsanleg framlög til ræktunar. Framundan er vinna við að útfæra þetta fyrirhugaða kerfi og var ákveðið að óska eftir viðræðum og viðbrögðum annarra búgreina sem nýta jörðina til matvælaframleiðslu.

 

c. Samstarf um skoðun á greiðslumarksskrá
Vegna vinnu sem framundan er um greiðslumarkið og skráningu þess var ákveðið að bjóða BÍ samstarf um þetta verkefni við að yfirfara núverandi gögn.

 

d. Gripagreiðslur
Farið var yfir stöðu einstaklingsmerkinga nautgripa í dag og kom fram að þegar hafa um 900 kúabú hafa pantað merki hjá BÍ og standa því um 250 bú enn utan kerfisins. Ljóst er að frá og með 1. september 2005 munu kúabændur þurfa að vera þátttakendur í einstaklingsmerkingarkerfinu. Ákveðið var að kynna fyrir kúabændum í Bændablaðinu nánar með gildistöku og uppbyggingu merkinganna.

 

e. Áhersluatriði á haustfundum LK
Rætt var um nýtingu þess fjár sem mun færast frá núverandi beingreiðslum og ljóst að erfitt er að koma með endanlegar tillögur í þessum efnum þar sem viðræðum um nýjan alþjóðasamning standa enn yfir. Rætt var m.a. um flutningsjöfnun mjólkur og lækkun sæðingargjalda.

 

f. Vinnureglur um birtingu upplýsinga um verð á greiðslumarki
Í dag liggja ekki fyrir tillögur um hvaða vinnureglur gildi um birtingu upplýsinga um verð á greiðslumarki. Ákveðið var að leggja til við BÍ og landbúnaðarráðherra að birtar verði upplýsingar um vegið meðalverð á greiðslumarki á síðustu milljón lítrum og að birta skuli upplýsingarnar einu sinni í mánuði.

 

6. Verðlagsmál

a. Verðkönnun SAM, Ísland í samanburði við Skandinavíu
Formaður dreifði upplýsingum frá SAM um verðkönnun forsvarsmanna SAM á Íslandi og í Skandinavíu.
 
b. Síðasta verðlagningin skv. gildandi mjólkursamningi og búvörulögum
Formaður gerði grein fyrir því að verðlagning samkvæmt gildandi mjólkursamningi ferð að líða undir lok og kemur opinber verðlagning væntanlega til að gilda út ágústmánuð 2005. Framreikningur liggur ekki fyrir en að loknum umræðum var gerð eftirfarandi stjórnarsamþykkt: Stjórn LK telur óhjákæmilegt, að vegna hækkandi tilkostnaðar mjólkurframleiðenda, verði mjólkurverð til framleiðenda leiðrétt frá og með 1. janúar 2005 að telja. Ákveðið var að senda samþykktina til Verðlagsnefndar.

 

7. Mál tengd fagráði

a. Rannsóknarverkefni um smákálfadauða
Verkefni Rala, LBH og BÍ um rannsóknir á ástæðum smákálfadauða er nú farið í gang og er þess að vænta að fyrstu niðurstöður muni liggja fyrir í byrjun næsta árs.

 

b. Uppbygging tækni á Stóra-Ármóti
Fram kom á síðasta stjórnarfundi LK að umsókn Stóra-Ármóts ehf. um styrk vegna heilfóðurvagns var hafnað af Fagráði. Formaður fór lauslega yfir málið og gat þess að ný umsókn liggur nú fyrir frá fyrirtækinu. Ekki hefur verið fjallað um nýja erindið á vegum Fagráðs. Egill gagnrýndi harðlega afgreiðslu Fagráðs og hvað mismunun hafa komið fram á milli einstakra umsókna hjá Fagráði. Hvatti til þess að fulltrúar LK í Fagráði gættu að stjórnsýslu í afgreiðslum ráðsins.

 

Varaformaður tók undir orð Egils og minnti á sérálit hans við afgreiðslu Fagráðsins. Þá velti hann fyrir sér skipun Fagráðsins og hvort ástæða væri til að breyta Fagráðinu. Formaður tók undir þetta og gat þess að það vantaði t.d. fulltrúa mjólkuriðnaðarins inn á fundi Fagráðs.

 

c. Málþing um ræktunarmál
Rætt hefur verið um að halda málþing um ræktunarmál í kjölfar ráðstefnu um markaðsmál mjólkur og hafa komið upp hugmyndir um að halda málþingið í tengslum við ársfund Fagráðs.

 

8. Ráðstefna um markaðsmál mjólkur
Formaður ræddi ráðstefnuhugmyndir um markaðsmál mjólkur og vísaði í fundargerð síðasta stjórnarfundar. Framkvæmdastjóra og Kristínu Lindu hefur verið falið að gera tillögu um ráðstefnu um markaðsmál mjólkur. Kristín gat þess að ákveðið hafi verið að funda með formanni Markaðsnefndar mjólkuriðnaðarins (MMÍ) og taka upp málið á næsta fundi MMÍ. Ljóst er að mörg viðfangsefni eru í deiglunni s.s.:
– Hvernig er hugsað fyrir þörfum einstaklinga og einstæðra foreldra við vöruþróun og ákvörðun um stærð pakkninga?
– Hvernig er markaðsvöktun mjólkuriðnaðarins gagnvart ferðaþjónustu á landsbyggðinni ?
– Hvernig er markaðsvöktun mjólkuriðnaðarins gagnvart morgunverðarborðum hótelanna ?
Ákveðið var að Kristín Linda og framkvæmdastjóri vinni frekar að verkefninu.

 

9. Áhrif af jarðakaupum fjársterkra aðila á mjólkurframleiðslubúum
Rætt var um hugsanleg áhrif af jarðakaupum fjársterkra aðila sem áður voru utan landbúnaðarins, en eru nú að kaupa upp kúabú. Ljóst er að margar spurningar vakna um mögulega aðild starfsmanna/eigenda að aðildarfélögum LK og að afurðastöðvum kúabænda. Framkvæmdastjóra og formanni var falið að yfirfara ofangreinda réttarstöðu og fleiri atriði þessu máli tengt.

 

10. Innsend erindi og bréf

a. Reglur um flutninga nautgripa á Suðurlandi.
Svarbréf héraðsdýralæknis á Suðurlandi til FKS varðandi reglur um flutninga nautgripa á Suðurlandi. Lagt fram til kynningar.

 

b. Verðlagning afurða- og gripatjóna í nautgriparækt
Bréf frá Bjargráðasjóði þar sem óskað er eftir tillögum LK um verðlagningu vegna afgreiðslu almennra afurða- og gripatjóna í nautgriparækt árið 2004. Varaformaður fór yfir fyrirliggjandi reglur og lagði fram tillögu um breytingar á úthlutunarreglum, en sjóðurinn á í dag rúmlega 70 milljónir vegna nautgriparæktar. Lagt var til að hækka styrk vegna afurðatjóna úr 15% í 20% af afurðastöðvaverði og að lækka hámarkssjálfáhættu úr 120 þúsund í 100 þúsund. Þá var rætt um hvort ekki væri ástæða til að lækka hlutdeild sjóðsins í búnaðargjaldi, en í dag fær sjóðurinn 0,15%.

 

c. Uppgjör umframmjólkur
Lögð fram ályktun frá Félagi kúabænda á Suðurlandi um uppgjör umframmjólkur um að uppgjöri skuli lokið eigi síðar en 20. september ár hvert. Vísað til málsliðar nr. 3 á fundinum.

 

d. Endurskoðun á verkaskiptasamningi BÍ og LK
Lögð fram ályktun frá Félagi kúabænda á Suðurlandi um endurskoðun verkaskiptasamnings LK og BÍ. Vísað til málsliðar nr. 2 á fundinum.

 

e. Reglur um flutninga nautgripa á Vesturlandi
Lagt fram til kynningar bréf frá Mjólkurbúi Borgfirðinga um takmarkanir á flutningi nautgripa til lífs á milli bæja/svæða.

 

f. Umsókn LK um styrk til forvarna meðal kúabænda landsins
Lögð fram til kynningar umsókn LK um stuðning Bjargráðasjóðs um styrk til forvarnastarfs meðal kúabænda. Um er að ræða þrjú aðskilin verkefni; útgáfa endurmenntunarbæklinga um júgurbólguvarnir, endurútgáfa smitvarnarbæklings og hönnun og dreifing smitvarnarskiltis. Alls var sótt um kr. 1.065 þúsund og fékkst stuðningur í öll verkefnin.

 

g. Kaup Tanksins ehf. á nautgripakjöti vegna Burger King veitingastaðanna
Lagt fram til kynningar bréf frá Tankinum ehf. þar sem óskað er samstarfs til að tryggja nautgripakjöt til Burger King veitingastaðanna. Þegar hefur verið brugðist við bréfinu og viðunnandi lausn talin vera fundin.

 

h. Meðferð trúnaðarupplýsinga
Lagt fram svarbréf frá Félagssviði BÍ vegna ályktunar LK um meðferð trúnaðarupplýsinga.

 

i. Fræðaþing landbúnaðarins
Lagt fram til kynningar bréf frá BÍ um Fræðaþing landbúnaðarins, sem haldið verður í febrúar 2005.
 
11. Önnur mál

a. Nautastöðvar BÍ
Fjallað var um þá aðstöðu sem er til uppeldis nauta að Þorleifskoti og var ákveðið að óska eftir því að stjórn LK fái að koma í heimsókn og skoða aðstöðuna. Þá er ljóst að ræða þarf um eignarhald og meðhöndlun erfðaefnisins og ráðstöfun þess.

 

b. Námskeiðahald
Framkvæmdastjóri kynnti stöðu endurmenntunarinnar meðal kúabænda og viðræður hans við endurmenntunarstjóra LBH og rektors LBH. Tekið verður saman minnisblað um málið.

 

c. kjot.is
Kristín Linda greindi stuttlega frá stöðu mála með neytendavef LK. Vefurinn gengur vel og fær tíðar heimsóknir.

 

d. Afleysingasjóður
Framkvæmdastjóri greindi frá því að Afleysingasjóður kúabænda væri nú tómur, eftir að hafa verið starfræktur frá árinu 1991. Alltaf hafi verið stefnt að því að tæma sjóðinn og nú væri hann allur, eftir að hafa þjónað kúabændum vel.

 

e. Áætlaðar tekjur af Framleiðsluráðssjóði
Formaður greindi frá því að áætlaðar tekjur LK af sk. Framleiðsluráðssjóði myndu fyrirsjáanlega dragast verulega saman á árinu vegna lækkandi vaxta. Þetta myndi vafalítið koma niður á rekstri LK ef ekki finnast leiðir til að mæta tekjusamdrættinum.

 

f. Afmæli Félags kúabænda á Suðurlandi
Sigurður greindi fra því að Félag kúabænda á Suðurlandi verður 20 ára á næsta ári. Af því tilefni verður gefið út veglegt afmælisblað og haldin mikil hátíð í tengslum við aðalfund LK á Selfossi í apríl nk.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 17:45
Næsti stjórnarfundur: ekki bókaður
Snorri Sigurðsson