Beint í efni

Stjórnarfundir – 07. f. 1999/2000

20.03.2000

Fundargerð 20. mars 2000


Símafundur stjórnar LK var haldinn mánudaginn 20. mars 2000 og hófst hann klukkan 13:10. Á línunni voru Þórólfur Sveinsson, Birgir Ingþórsson, Hjörtur Hjartarson, Kristín Linda Jónsdóttir, Gunnar Sverrisson og 1. varamaður Egill Sigurðsson. Þá var einnig á línunni Snorri Sigurðsson og ritaði hann fundargerð.

Þórólfur bauð menn velkomna á línuna og setti fund. Því næst var gengið til boðaðrar dagskrár og var eftirfarandi tekið fyrir:

1. Staðfesting á styrkjum til aðildarfélaga
Í samræmi við ákvörðun stjórnar LK frá 14.01.2000, voru eftirfarandi reglur samþykktar:
a) Öll aðildarfélög LK fái 20.000,- í styrk.
b) Fastri greiðslu til viðbótar er veittur 250,- kr styrkur á hvern félagsmann viðkomandi aðildarfélags, þó að hámarki kr. 500 á hvert lögbýli með greiðslumark í mjólk.
c) Aðildarfélög þurfa að fullnægja skilyrðum í 10 gr. samþykkta fyrir LK til að fá greiddan styrk.

2. Viðræður LK og landbúnaðarráðuneytis um innflutning á mjólkurafurðum
Þórólfur kynnti málið og fór lauslega yfir þróun málsins á liðnum misserum. 13. mars funduðu Þórólfur og Snorri með Guðna Ágústssyni og Sveinbirni Eyjólfssyni um samning Íslendinga og Norðmanna. Ljóst er að innflutningur mjólkurafurða er mjög vaxandi og því vart hugsanlegt að gera samkomulag við ráðuneytið og samþykkja þannig að felldir væru niður tollar á mjólkurafurðum. Í kjölfar mikillar umræðu, þar sem fram kom hörð gagnrýni á þau vinnubrögð sem ráðuneytið hefur haft í málinu, var ákveðið að formaður og framkvæmdastjóri kæmu athugasemdum LK um málið á framfæri við landbúnaðarráðuneytið og bændur.

3. Drög að nýjum reglum fyrir Bjargráðasjóð
Snorri kynnti drög að breyttum úthlutunarreglum, eftir lítilsháttar breytingar var framkvæmdastjóra falið að vinna að framgangi málsins með framkvæmdastjóra Bjargráðasjóðs.

4. Aðalfundur LK
Ákveðið var að halda aðalfund LK 2000 á Suðurlandi, viku 34 – gjarnan 23.-24. ágúst. Framkvæmdastjóra var falið að sækja tilboð vegna fundaraðstöðu og gistingu í samvinnu við Félag kúabænda á Suðurlandi.

5. Næsti stjórnarfundur LK
Ákveðið var að halda næsta stjórnarfund fimmtudaginn 13. apríl kl. 11:00 í Bændahöllinni.

Fleira var ekki bókað og sleit formaður fundi um kl. 14:55.

Snorri Sigurðsson