Beint í efni

Stjórnarfundir – 1. fundur 2004/2005

05.05.2004

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda

 

Fyrsti fundur stjórnar LK starfsárið 2004/2005 var haldinn miðvikudaginn 5. maí 2004 og hófst hann klukkan 11:00. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Egill Sigurðsson, Kristín Linda Jónsdóttir, Jóhannes Jónsson og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, sem ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Skipting verka stjórnar

Gengið var til leynilegra kosninga samkvæmt samþykktum LK og var niðurstaðan eftirfarandi:

Sigurður Loftsson var kjörinn varaformaður

Kristín Linda Jónsdóttir var kjörin ritari

 

Þá var Egill Sigurðsson tilnefndur sem fulltrúi LK í samráðsnefnd BÍ og SAM og Sigurður Loftsson til vara.

 

Þá var ákveðið að hafa óbreytta skipan í Fagráði í nautgriparækt

 

2. Staða mjólkursamnings

Formaður dreifði upplýsingum um stöðu viðræðna bænda og ríkisvaldsins, en haldnir hafa verið fjórir formlegir fundir og fimmti fundur hefur verið boðaður mánudaginn 10. maí nk.

 

Farið var yfir helstu atriði sem rædd hafa verið og þau álitamál sem upp hafa komið. Þá leggja samningaaðilar mikla áherslu á að ferillinn gangi hratt fyrir sig og að unnt verði að kjósa um hugsanlegan samning fljótt. Í því sambandi var rætt um mögulegar aðferðir við kosningar.

 

3. Aðalfundur LK 2005

Farið var yfir reynsluna frá nýliðnum aðalfundi og jafnframt rætt um árshátíðina sem fylgdi í kjölfarið. Ákveðið var að halda næsta aðalfund LK 8. og 9. apríl 2005 og að hafa fundinn á Suðurlandi, enda verður þá 20. ára afmæli Félags kúabænda á Suðurlandi. Þá verði árshátíð kúabænda haldin að kvöldi 9. apríl. Ákveðið var, að tillögu FKS, að skipa Birnu Þorsteinsdóttur, Reykjum, formann árshátíðarnefndar og að með henni starfi Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey og Ólafur Kristjánsson, Geirakoti.

            Á aðalfundinum gekk vel að miðla upplýsingum um fundinn jafnóðum til fjölmiðla og öll fundargögn voru send út til fulltrúanna fyrir aðalfundinn. Ákveðið var að vinna að enn frekari útfærslu á þessu atriði á næsta aðalfundi.

 

4. Ályktanir aðalfundar 2004

Ákveðið að kynna allar ályktanir fyrir landbúnaðarráðherra.

 

1. Endurskoðun verkaskiptasamnings LK og BÍ.

Ákveðið að taka verkaskiptasamninginn til endurskoðunar í haust og hefja viðræður við BÍ um málið þá.

 

2. Uppstokkun og endurskoðun á fagþjónustu landbúnaðarins.

Ályktunin hefur þegar verið send til landbúnaðarnefndar Alþingis, en jafnframt var ákveðið að senda ályktunina til landbúnaðarráðherra og samrit til stjórnar BÍ, Rala og LBH.

 

3. Aukið vægi eftirfylgni áætlana við úthlutun framlaga til markmiðstengdra búrekstraráætlana.

Ákveðið að senda ályktunina til Fagráðs í hagfræði og stjórnar BÍ.

 

4. Endurskoðun reglna um Nautastöð Bændasamtaka Íslands.

Ákveðið að senda erindi til stjórnar BÍ um málið og óska eftir viðræðum á grundvelli ályktuninnar.

 

5. Rannsóknir á ástæðum kálfadauða og frjósemisvandamála í íslenska kúastofninum.

Ákveðið að senda ályktunina til stjórnar LBH, Rala, BÍ, Embættis yfirdýralæknis, Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, Fagráðs í nautgriparækt og Rannís. Jafnframt að vekja athygli á styrkmöguleikum meðal nemenda í dýralækningum og landbúnaðarfræðum.

 

6. Verklagsreglur um meðferð trúnaðarupplýsinga á kennitölugrunni.

Ákveðið að senda ályktunina til stjórnar BÍ og Fagráðs í nautgriparækt. Jafnframt að óska eftir samstarfi við BÍ um smíði verklagsreglna um málið.

 

7. Bætt upplýsingagjöf um stöðu álagðs og innheimts búnaðargjalds.

Ákveðið að senda ályktunina til stjórnar BÍ og til ríkisskattstjóra.

 

8. Skuldajöfnun við beingreiðslur mótmælt.

Ákveðið að senda ályktunina til stjórnar BÍ og óska jafnframt eftir viðræðum um málið.

 

9. Sameiginleg vörumerking fyrir alla íslenska matvöruframleiðslu.

Ákveðið að senda ályktunina til landbúnaðarráðherra.

 

10. Einföldun og samræming eftirlits með nautgripahaldi og mjólkurframleiðslu.

Ákveðið að senda ályktunina til landbúnaðarráðherra.

 

11. Hraðað verði gerð nýs samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar og að hann byggi á sömu grundvallarforsendum og gildandi samningur.

Unnið verður að framgangi ályktuninnar.

 

12. Nautakjötsframleiðendur öðlist rétt til að senda einn fulltrúa á aðalfund LK.

Unnið verður að framgangi ályktuninnar.

 

13. Endurskoðun á matsreglum nautakjöts og samræming matsins á milli sláturhúsa.

Ákveðið að senda ályktunina til landbúnaðarráherra og óska eftir því við ráðherra að skipaður verði starfshópur um málið.

 

14. Stuðningur við nautakjötsframleiðslu.

Unnið verður að framgangi ályktuninnar.

 

15. Kannað verði hvort rétt sé að breyta töku verðskerðingargjalds af nautgripakjöti.

Unnið verður að framgangi ályktuninnar.

 

16. Reglugerðir og lagastoðir yfirdýralæknis við sölu á nautgripum á milli bæja.

Ákveðið var að óska eftir aðstoð BÍ varðandi málið og taka upp viðræður við yfirdýralækni í framhaldi þess. Jafnframt að óska eftir upplýsingum frá aðildarfélögum LK um stöðu mála hjá hverju aðildarfélagi.

 

17. Aðgerðir gegn kálæxlaveiki.

Ákveðið að senda ályktunina til stjórnar BÍ og landbúnaðarráherra.

18. Samræming félagaskráningar aðildarfélaga LK.

Ákveðið að senda ályktunina til allra aðildarfélaga LK með ábendingum um hvernig hægt sé að standa að skráningu félaga.

 

5. Staða NLK ehf.

Framkvæmdastjóri LK

 

Framkvæmdastjóri LK fékk heimild til að ganga frá málinu á framansögðum forsendum.

 

6. Skyldumerkingar nautgripa

Formaður kynnti hvernig til hefur tekist með merkingar til þessa dags. Ljóst er að fresta þarf gildistöku sláturhluta reglugerðarinnar eitthvað enda ekki nema 539 gripir sem eru skráðir inn í kerfið, af fæddum gripum fyrir 1. september 2003. Alls eru um 24.600 gripir fæddir fyrir 1. september 2003, þannig að hlutfallið er mjög lágt. Ákveðið var að óska eftir því við landbúnaðarráðherra að fresta gildistökunni til 1. september 2005. Á þeim tímapunkti yrðu þá allir nautgripir í landinu merktir.

 

7. Greiðslumark næsta verðlagsárs

Formaður fór yfir málið, en vegna mikils skorts á mjólk á núlíðandi verðlagsári hafa vaknað upp spurningar um framleiðsluskilduna, sem er í dag 85%. Eftir nokkrar umræður var ákveðið að leggja til að hækka framleiðsluskilduna úr 85% í 90%.

            Þá var farið yfir sölumál og útlit með greiðslumark næsta verðlagsárs. Eins og staðan er í dag er stjórnin nokkuð bjartsýn á að greiðslumarkið haldist óbreytt á næsta verðlagsári.

 

8. Hækkun á fóðurverði

Egill vakti máls á því að kjarnfóður hafi hækkað verulega nýverið og hafi það vakið furðu margra bænda í ljósi þess að dollarinn hefur verið lágur. Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir samræðum hans og fulltrúa hjá Samkeppnisstofnun vegna málsins. Fram hefur komið að árangursríkasta leiðin er að veita framleiðendunum aðhald með upplýsingagjöf og verður áfram unnið að málinu á vegum LK.

 

9. Önnur mál

a. Mjólkursala

Framkvæmdastjóri ræddi um sölu mjólkur og neysluhegðun hérlendis. Ljóst er að margt er áhugavert varðandi neysluvenjur Íslendinga í tengslum við sölumál mjólkur.

 

b. Lífeyrissjóðsmál

Formaður greindi frá fundi sem hann sat á vegum Lífeyrissjóðs bænda þar sem fjallað var um stöðu sjóðsins og framtíð hans. Þar var m.a. rætt um mögulegan flutning hugsanlegs söluandvirðis hótela í eigu BÍ inn í lifeyrissjóðinn.

 

c. Kjötframleiðendur ehf.

Nýskipaður varaformaður vakti máls á þeirri stöðu sem fyrirtækið er í og þeirri lykilstöðu sem LK hefur varðandi framtíð fyrirtækisins. Til stendur að halda sameiginlegan fund eigenda til að ræða framtið fyrirtækisins.

 

d. Vinnuhópur Fagráðs í nautgriparækt

Framkvæmdastjóri fór yfir fulltrúalista sem hefur verið í vinnuhópi Fagráðs í nautgriparækt, en Egill Sigurðsson er fulltrúi LK í hópnum. Á aðalfundi LK var nokkuð rætt um að fjölga fulltrúum kúabænda í hópnum og ákvað stjórn að vísa því til Fagráðs í nautgriparækt að fjölga fulltrúum kúabænda í vinnuhópnum og að Sigurgeir Hreinsson, Hríshóli leysi þannig af einn fulltrúa ráðunauta.

 

e. Tilfærsla burðartíma

Kristín Linda vakti máls á tilfærslu burðartíma, hvað hugsanlega orsaki slíkt oþh. Margir bændur eru uggandi vegna málsins og full þörf er á að fá samandregnar upplýsingar um orsakir og afleiðinegar málsins. Framkvæmdastjóra var falið að taka saman þessar upplýsingar ásamt Agli.

 

f. Ferð til Nýja-Sjálands

Sigurður velti því fyrir fundinum hvort ekki væri ástæða til að skipuleggja ferð fyrir bændur til Nýja-Sjálands, til að kynnast því starfsumhverfi sem þar er. Fram-kvæmdastjóra var falið að skoða málið.

 

g. Framtíð nautastöðvanna

Egill vakti máls á því að uppeldisstöðin í Þorleifskoti sé orðin döpur og þarfnist endurnýjunar. Bæta þurfi aðstöðuna verulega. Fundarmenn tóku undir það og var ákveðið að vísa þessu máli til Fagráðs í nautgriparækt.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 16:50

Næsti stjórnarfundur: óákveðið

Snorri Sigurðsson