Beint í efni

Stjórnarfundir – 11. fundur 2003/2004

15.04.2004

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda

 

Ellefti fundur stjórnar LK starfsárið 2003/2004 var haldinn á hótel KEA 15. apríl 2004 og hófst hann klukkan 21:00. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Egill Sigurðsson, Jóhannes Ævar Jónsson, Kristín Linda Jónsdóttir og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, sem ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Hríseyjarnaut

Framkvæmdastjóri kynnti stöðu innheimtumála NLK ehf. gagnvart Hríseyjarnautum ehf. Þegar hefur verið gert árangurslaust fjárnám hjá f.v. stjórnarformanni sem var í persónulegum ábirgðum skuldabréfs fyrir kaupum Hríseyjarnauts ehf. á eigum NLK ehf. í Hrísey. Lögfræðingur LK átti fund með forsvarsmönnum Hríseyjarnauta ehf. í liðinni viku og þar kom fram tilboð um að greiða upp tæplega helmings skuldarinnar, kr. 2 milljónir. Framkvæmdastjóra var falið að yfirfara málið, meta eignastöðuna og senda skýrslu um málið til stjórnar.

 

2. Staða í samningamálum

Formaður greindi frá samningaviðræðum bænda og ríkisins, en haldnir hafa verið tveir samningafundir. Viðræður ganga vel og allt útlit er fyrir að samningar náist á næstunni. Rætt er um nokkrar breytingar á núverandi kerfi, en það var mat fundarmanna að ásættanlegar breytingar væru þar á ferð miðað við kröfur.

 

3. Undirbúningur aðalfundar LK 2004

a. Viðurkenningar

Ákveðið var að veita Ólöfu Hallgrímsdóttur, Vogum, viðurkenningu LK fyrir framsækið starf í þágu íslenskra nautgripabænda. Þá var ákveðið að veita Sverri Magnússyni, Efra-Ási viðurkenningu LK fyrir mikið og gott starf í jarðrækt og mjólkurframleiðslu.

 

b. Starfsmenn á fundinum

Framkvæmdastjóri greindi frá ráðningu Gylfa Orrasonar sem aðalritara LK fyrir aðalfundinn. Þá var ákveðið að leggja til við aðalfund að fundarstjórar á fundinum verði þeir Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ og Birgi L. Ingþórsson, Uppsölum.

Sem og að leggja til að Magnús Sigurðsson, Hnjúki, leiði kjörbréfa- og uppstillingarnefnd og að í henni sitji jafnframt Gunnar Eiríksson, Túnsbergi og Ásthildur Skjaldardóttir, Bakka.

 

4. Kjötframleiðendur ehf.

Formaður greindi frá stöðu fyrirtækisins, en útlit er fyrir að tap hafi orðið á rekstri fyrirtækisins árið 2003. Stjórnarformaður Kjötframleiðenda ehf. og fulltrúi LK í stjórn þess frá upphafi, Guðmundur Lárusson, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram og því þarf að velja annan fulltrúa í hans stað. Jafnframt þarf að ræða tilgang þess að LK eigi hlut í fyrirtækinu og hvert stefna eigi með fyrirtækið.

 

5. Reikningar LK

Framkvæmdastjóri kynnti reikninga LK og fór yfir þá. Stjórn samþykkti reikningana.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 23:20

Næsti stjórnarfundur: óákveðinn

Snorri Sigurðsson