Beint í efni

Stjórnarfundir – 10. fundur 2003/2004

17.03.2004

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda

 

Tíundi fundur stjórnar LK starfsárið 2003/2004 var haldinn í fundarsal Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 17. mars 2004 og hófst hann klukkan 13:00. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Egill Sigurðsson, Jóhannes Ævar Jónsson, Kristín Linda Jónsdóttir og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, sem ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Staða í samningamálum

Formaður greindi frá viðræðum hans og framkvæmdastjóra með forsætisráðherra og formanni landbúnaðarnefndar. Þá greindi hann jafnframt frá viðræðum hans og landbúnaðarráðherra. Á framangreindum fundum var rætt um samningamál, tímaþátt samningaferils og fleiri atriði. Ljóst er að stutt er í þinglok og brýnt að vinna hratt að málinu. Fundarmenn ræddu ýmis mál sem snertir nýjan samning um starfskilyrði mjólkurframleiðslunnar, s.s. útfærslu á beingreiðslum, skipulagningu á greiðslumarkinu, samningstíma og hugsanlegar grænar greiðslur.

 

2. Einstaklingsmerkingar

Framkvæmdastjóri gerði stuttlega grein fyrir stöðu merkingarmála á landinu en framvinduskýrsla verður send til LK á næstu dögum.

 

3. Aðalfundur LK

a. Afhending verðlauna/viðurkenningar LK

Fundarmenn ræddu um hvaða aðilum ætti að veita verðlaun á aðalfundi LK og var ákveðið að veita nokkrum aðilum slíka viðurkenningu. Framkvæmdastjóra var falið að sjá um frekari framvindu málsins.

 

b. fulltrúi nautakjötsframleiðenda

Ákveðið var að bjóða einum tengilið við holdanautabændur til aðalfundarins. Lagt var til að bjóða Snorra Erni Hilmarssyni, Sogni í Kjósarsýslu, að mæta til fundarins fyrir hönd þessara aðila.

 

c. Fyrirlestur á aðalfundi

Rætt var um hugsanlegan fyrirlestur á aðalfundi og ákveðið að fela formanni málið til frekari vinnslu.

 

4. Reikningar LK fyrir árið 2003

Framkvæmdastjóri fór yfir drög að ársreikningi vegna ársins 2003. Niðurstaða ársins er í samræmi við væntingar en verulegur kostnaðarauki varð á árinu 2003 miðað við fyrri ár, enda fór mikill tími og kostnaður í undirbúning nýs mjólkursamnings. Stjórn ákvað að færa á Verðskerðingarsjóð eina milljón króna umfram fjárhagsáætlun vegna aukins kostnaðar við markaðsmál og samninga.

 

5. Mál fyrir aðalfund LK

Rætt var um að leggja fram á aðalfundi LK í apríl nk. mál sem snúi að nýtingu búnaðargjalds, verkaskiptasamningi og tekjustofnum LK, menntun, endurmenntun og rannsóknir í landbúnaði.

 

6. Niðurstöður úr afurðaskýrsluhaldi nautgriparæktarinnar

Formaður fór yfir umræður sem spunnist hafa í kjölfar birtinga á niðurstöðum afurðaskýrsluhaldsins. Birtingar á upplýsingum svotil allra aðila í skýrsluhaldinu er umdeilanleg og spurning hvaða tilgangi jafn ítarleg upplýsingagjöf þjónar. Ákveðið var að beina því til aðalfundar LK að taka afstöðu til málsins.

 

7. Niðurstöður búnaðarþings

Formaður ræddi helstu niðurstöður búnaðarþings og þróun mála. Niðurstaða stjórnarkjörs BÍ væri vel ásættanleg og að meðal stjórnarmanna endurspegluðust flestar skoðanir þeirra sem landbúnað stunda. Nú sætu í stjórn BÍ tveir fulltrúar búgreinafélaga og væri það vel. Þá var rætt um samskipti LK við stjórn BÍ og ákveðið að treysta vel samskipti við stjórnina og var formanni falið að vinna að málinu.

 

8. Samstarf búgreinafélaga

Í aðdraganda búnaðarþings hittust ýmsir fulltrúar búgreinafélaganna til að ræða um framtíð landbúnaðar og félagskerfisins á Íslandi. Áður hafa verið ræddar hugmyndir um að treysta betur samstarf búgreinanna og var ákveðið að fara vandlega yfir það mál og ræða við önnur búgreinafélög.

 

9. Framtíð kjot.is

Áður hefur verið rætt um að ráða nýjan ritstjóra vefsins, en Kristín Linda hefur sinnt ritstjórn vefsins frá upphafi en hefur lýst áhuga á því að hverfa að öðrum störfum. Ljóst er að vefurinn er mjög öflugur og nær til margra neytenda og mikið sóknarfæri bundið í vef kúabænda. Bent var á að hægt væri að halda úti vefnum með annarskonar hætti en nú er gert, án þess að breyta miklu í rekstri vefsins. Ákveðið var að skoða ýmsar leiðir til að halda úti neytendavef kúabænda og var Kristínu Lindu falið að fara yfir málið með framkvæmdastjóra.

 

10. Önnur mál

a. Mjólkurgæði

Framkvæmdastjóri fór yfir áhrif mjaltaþjóna á mjólkurgæði og þá stöðu að beiskja í mjólk getur orðið vandamál í framtíðinni. Jafnframt hefur komið í ljós að líftala er heldur hærri í fjósum með mjaltaþjónum. Fram kom að full ástæða er til að fylgjast náið með framvindu málsins.

 

b. Nautastöð LK ehf.

Rætt var um ársuppgjör NLK ehf. vegna síðustu ára en verið er að ganga frá uppgjöri vegna ársins 2003. Síðastliðin ár hafa verið erfið fyrir rekstur NLK ehf. vegna sölu á eignum í Hrísey til Hríseyjarnauta ehf. sem ekki hafa greitt skuldir til NLK ehf. Ákveðið var að halda fund með endurskoðanda, bókara og lögfræðingi fyrirtækisins til að fara yfir stöðu og framtíð fyrirtækisins og halda jafnframt aðalfund í leiðinni. Þá var samþykkt að kjósa Jóhannes Ævar Jónsson í stjórn NLK ehf. í stað Birgis Ingþórssonar, Uppsölum, fyrrverandi stjórnarmanns LK.

 

c. Fundargerðir LK

Stjórn ræddi um framsetningu fundargerða og var ákveðið að dreifa fundargerð fyrri fundar á næsta fundi á eftir til undirritunar, enda sé fundargerðin bókuð og færð í samræmi við framkomnar óskir og athugasemdir þeirra fundarmanna sem sátu viðkomandi fund.

 

 

d. Umsögn um tillögu til þingsályktunar um búvöruframleiðslu og stuðning við byggð í sveitum

Tillagan var afgreidd á búnaðarþingi með ályktun nr. 4030047 og ákvað stjórn að taka í megindráttum undir þau sjónarmið sem fram koma í ályktun búnaðarþings og var eftirfarandi ályktun samþykkt:

 

Landssamband kúabænda hefur kynnt sér “Tillögur til þingsályktunar um nýjan grundvöll búvöruframleiðslunnar og stuðning við byggð í sveitum.” Í tillögunni er m.a. fjallað um: “…hvernig útfæra megi búsetutengdan grunnstuðning sem hluta af stuðningi við landbúnað og búsetu í sveitum”. Landssamband kúabænda leggur áherslu á að ekki verði hróflað við núverandi stuðningi við landbúnaðinn, heldur komi nýtt fjármagn til þessa byggðaverkefnis. Að öðru leyti tekur Landssamband kúabænda ekki afstöðu til efnisatriða tillögunnar, en reiknar með henni sem innleggi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í fyrirhugaða stefnumótunarvinnu fyrir landbúnaðinn, sem landbúnðaðarráðherra hefur boðað.

 

Framkvæmdastjóra var falið að senda umsögnina til landbúnaðarnefndar.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 17:45

Næsti stjórnarfundur: óákveðinn

Snorri Sigurðsson