Beint í efni

Stjórnarfundir – 8. fundur 2003/2004

15.01.2004

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda

 

Áttundi fundur stjórnar LK starfsárið 2003/2004 var haldinn í fundarsal Osta- og smjörsölunnar 15. janúar 2004 og hófst hann klukkan 15:30. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Egill Sigurðsson, Kristín Linda Jónsdóttir, Jóhannes Jónsson og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, sem ritaði fundargerð. Þá sátu undir fyrsta lið fundarins þau Erna Bjarnadóttir, Eggert Pálsson og Ari Teitsson, sem sitja auk fulltrúa frá LK í mjólkurhópnum svokallaða.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Staða samningamála

Formaður fór yfir þá vinnu sem unnin hefur verið í mjólkurhópnum frá síðasta stjórnarfundi, en farið er að sjá fyrir endann á vinnu mjólkurhópsins. Samkomulag ríkir um flest atriði í skýrslunni sem hópurinn mun skila til landbúnaðarráðherra, en enn er þó verið að útfæra einstök atriði. Enn hvílir trúnaður á vinnu hópsins, en væntanlega verður hægt að létta þeim trúnaði á næstu vikum. Eftir framsögu formanns ræddu fundarmenn um stöðuna, fóru yfir helstu atriði sem eru í skýrslu­drögunum og ræddu þau atriði sem enn eru óleyst.

 

2. Tillögur til Búnaðarþing 2004

Fyrir fundinum lágu drög að tillögum LK til búnaðarþings og var farið yfir þær og gerðar ýmsar lagfæringar.

a.       Tillaga um hugsanlegan flutning höfuðstöðva BÍ og skipulag ráðgjafaþjónustu í landbúnaði, byggt á ályktunum frá Búnaðarþingi 2002 um hugsanlegan flutning höfuðstöðva BÍ og um skipulag ráðgjafaþjónustu í landbúnaði.

b.      Tillaga um grundvallarskoðun á því hvernig lánsfjárþörf landbúnaðarins verði best mætt.

c.       Tillaga um ítrekun ályktunar frá Búnaðarþingi 2003 um alþjóðasamninga, að viðbættum kröfum um að fá sérstöðu Íslands viðurkennda.

d.      Tillaga um eflingu upplýsingasöfnunar varðandi rekstur og afkomu rekstrareininga í Íslenskum landbúnaði.

e.       Tillaga um skipun vinnuhóps til að meta tryggingaþörf í landbúnaði.

 

Ákveðið var að senda drögin til búnaðarþingsfulltrúa LK og í framhaldi af umsögn þeirra að senda tillögurnar til Bændasamtaka Íslands fyrir 20. janúar, sem er síðasti skiladagur tillagna fyrir Búnaðarþing 2004.

 

3. Aðalfundur LK 2004

Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir tilboði sem borist hefur frá hótelum vegna fyrirhugaðs aðalfundar og hefur tekist samkomulag við KEA-hótel á Akureyri um að halda aðalfundinn og árshátíð kúabænda þar. Þá var ákveðið að fá erindi á aðalfundinum með og á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu.

 

Ákveðið var að velja í árshátíðarnefnd einn Skagfirðing, einn Eyfirðing og einn Þingeying og velja þá í samráði við aðildarfélög LK. Jafnframt var ákveðið að skipa Sigurgeir Hreinsson formann árshátíðarnefndar. Nefndin sjái um allan undirbúning og fjáröflun í samvinnu við LK.

 

Framkvæmdastjóri kynnti fjölda aðalfundafulltrúa og fram kom að hugsanlega þarf að endurskoða samþykktir vegna fjölda á aðalfundum á komandi árum. Formanni og framkvæmdastjóra var falið að gera tillögur um endurskoðaðar samþykktir. Jafnframt var framkvæmdastjóra falið að ráða ritara til að skrá fundargerð aðalfundarins.

 

4. Neytendasíða LK, www.kjot.is

Undanfarin tvö ár hefur LK rekið heimasíðuna www.kjot.is með góðum árangri og er síðan vinsæl og töluvert notuð af neytendum. Frá upphafi hefur Kristín Linda séð um ritstjórn síðunnar, en hefur hug á því að draga úr vinnunni við síðuna. Ákveðið var að fara vandlega yfir kosti og galla þess að halda úti neytendasíðu fyrir nautakjötið og ákvörðun um framtíð síðunnar var frestað.

 

5. Önnur mál

a. Erindi Dýralæknaþjónustu Suðurlands frá BÍ til Fagráðs í nautgriparækt

Framhald frá síðasta fundi. Dreift var reglum um Nautastöð Búnaðarfélags Íslands frá 1971, nú Nautastöð Bændasamtaka Íslands. Í stofnsamþykkt kemur fram að Nautastöðinni var komið á fót með stofnframlögum frá búnaðarsamböndum víða um land og ljóst að ekki er unnt að selja sæði frá Nautastöðinni án samþykkis eigenda, þ.e. búnaðarsambanda landsins. Erindi BÍ til Fagráðs varðandi málið verður svarað með vísan til ofangreindra upplýsinga.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 19:00

Næsti stjórnarfundur: óákveðinn

Snorri Sigurðsson