Beint í efni

Stjórnarfundir – 7. fundur 2003/2004

19.12.2003

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda

 

Sjöundi fundur stjórnar LK starfsárið 2003/2004 var haldinn í fundarsal Osta- og smjörsölunnar 19. desember 2003 og hófst hann klukkan 13:00. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Egill Sigurðsson, Kristín Linda Jónsdóttir, Jóhannes Jónsson og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, sem ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Staða samningamála

Formaður fór yfir stöðu mála og fór yfir útsent minnisblað um helstu málefni sem unnið hefur verið að innan undirbúningshóps mjólkursamnings. Haldnir hafa verið 13. formlegir fundir undirbúningshópsins og skipaðir tveir minni vinnuhópar sem eru að yfirfara textadrög og tölfræðigrunn vinnunnar. Næsti fundur er fyrirhugaður 22. desember nk. Á fundinum var gerð grein fyrir þeim þáttum sem mest hafa verið ræddir í nefndastarfinu.

 

Fundarmenn ræddu málið frá ýmsum hliðum og munu samningamenn LK nýta þær umræður við áframhaldandi farsælli lausn fyrir kúabændur landsins.

 

2. Undirbúningur fyrir Búnaðarþing 2004

Rætt var um hugsanleg mál sem senda mætti til Búnaðarþings en engar formlegar tillögur voru lagðar fram. Fram kom að ýmis mál eru brýn hvað snertir heildarhagsmuni bændastéttarinnar, s.s. öflun traustari grunns hvað snertir upplýsingaöflun um búrekstur, fjármögnun í landbúnaði, stöðu Bjargráðasjóðs, ýmsir smáskattar og gjöld sem lögð eru á landbúnað (s.s. úrvinnslugjald, virðisauki á flutninga ofl.).

 

3. Nautakjötsverkefnið

Formaður greindi frá niðurstöðum vinnu við sk. nautakjötsverkefni, en niðurstaðan varð sú að verkefnið verður fjármagnað af Framleiðnisjóði (5 milljónir), Þróunarsjóði búvörusamnings (2 milljónir) og Verðskerðingarsjóði nautgripakjöts (allt að 2 milljónir). Þessi leið var farin eftir að í ljós kom að landbúnaðarráðherra greindi frá því að ekki væri hægt að koma með fé beint frá ríkinu, en beindi málinu í þennan farveg.

 

Sala nautgripakjöts hefur lagast undanfarna mánuði og hefur orðið söluaukning síðustu 3 mánuði. Þá kom fram í máli framkvæmdastjóra að um áramótin verður töluvert auglýst í fjölmiðlum til að minna á nautakjöt og jafnframt hafa verið sendir í dreifingu 22.500 uppskriftabæklingar í helstu verslanir landsins.

 

Varaformaður greindi frá ályktun sem send var til slátuleyfishafa á Suðurlandi til að minna á möguleikana á hækkunum, en þegar hafa tveir sláturleyfishafar hækkað verð til framleiðenda og fréttst hefur að fleiri sláturleyfishafar séu farnir að huga að hækkunum.

 

Rætt var um endurskoðun á kjötmatinu og ákveðið að taka upp viðræður við Yfirkjötmatið. Auk framkvæmdastjóra komi að þeirri vinnu Kristín Linda, Jóhannes og Gunnar Jónsson, varamaður í stjórn.

 

4. Gæðamál mjólkur

Fyrir fundinum lágu upplýsingar um frumutölumál hjá félagsmönnum LK, en frá gildistöku nýju mjólkurgæðareglugerðarinnar hafa allmörg bú lent í vanda,. Fyrir setningu reglugerðarinnar benti LK á fyrirséðan vanda og sætti mikilli gagnrýni fyrir. Gögn sem liggja fyrir í dag sýna að forsendur LK stóðust algerlega hvað þetta snertir og vandi búa vegna hárrar frumutölu er verulegur en vonandi minnkandi. Áfram verður unnið að auknum gæðum mjólkurinnar og málið m.a. rætt við yfirdýralækni.

 

5. Aðalfundur LK 2004

Ákveðið var að halda aðalfund LK 2004 16. og 17. apríl nk. á Norðurlandi. Jafnframt að halda árshátíð kúabænda í kjölfarið. Skipað verður í árshátíðarnefnd á næsta stjórnarfundi.

 

6. Önnur mál

a. Innsendar ályktanir frá Nautgriparæktarfélagi Austur Skaftfellinga

Lagðar voru fram til kynningar tvær ályktanir frá Nautgriparæktarfélagi Austur Skaftfellinga um samningamál annarsvegar og um markaðsmál mjólkurvara hinsvegar og var ákveðið að senda erindi til Markaðsnefndar mjólkuriðnaðarins vegna þessa.

 

b. Stofnun nýs aðildarfélags holdanautabænda

Fyrirspurn frá áhugahópi um stofnun nýs aðildarfélags að LK. Ljóst að félagið myndi vinna á landsgrunni. Stjórn ákvað að beina fyrirspurninni til aðalfundar og jafnframt að bjóða fulltrúa hópsins að fylgja fyrirspurninni eftir á aðalfundinum.

 

c. Dagur landbúnaðarins

Framkvæmdastjóri kynnti hugmyndir um dag landbúnaðarins, hann situr í undirbúningsnefnd ásamt Gunnari Sæmundssyni (BÍ) og Özuri Lárussyni (LS). Fyrstu hugmyndir ganga út á að festa í sessi einn dag að sumrinu sem tilheyri degi landbúnaðarins þar sem bændur og aðrir tengdir aðilar haldi hátíðlegan einn dag og kynni starfsemi sína fyrir öðrum íbúum landsins. Stjórn LK fagnar framkomnum hugmyndum og felur framkvæmdastjóra að vinna áfram að málinu.

 

d. Sala á sæði út fyrir hefðbundið dreifingarkerfi

Fyrirspurn um kaup á frosnu sæði frá Dýralæknaþjónustu Suðurlands. Lögð fram til kynningar.

 

e. Aðalfundur FKS

Sigurður greindi frá því að ákveðið er að halda aðalfund félagsins 27. janúar að Laugalandi í Holtum.

 

f. Útdeiling verkefna til stjórnar

Rætt var um að, sökum anna formanns, framkvæmdastjóra og Egils við samningamál, að deila út fleiri verkefnum til annarra stjórnarmanna. Ákveðið var að skiptast á skoðunum um málið með tölvupósti.

 

h. Málefni nautgriparæktarráðunauta.

Fram hefur komið hugmynd um að ráðunautar í nautgriparækt hittist og ráði ráðum sínum og miðli af reynslu sinni. Stjórn telur málið mikilivægt og var ákveðið að bjóða Hagsmunafélagi héraðsráðunauta að tengja slíka vinnu við aðalfund LK. Framkvæmdastjóra falið að fylgja málinu eftir.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 18:00

Næsti stjórnarfundur: óákveðinn

Snorri Sigurðsson