Beint í efni

Stjórnarfundir – 5. fundur 2003/2004

26.09.2003

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda

 

Fimmti fundur stjórnar LK starfsárið 2003/2004 var haldinn í Bændahöllinni, 26. september 2003 og hófst hann klukkan 8:30. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Egill Sigurðsson, Kristín Linda Jónsdóttir, Jóhannes Jónsson og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, sem ritaði fundargerð. Undir lið 5 sat Snorri Örn Hilmarsson, bóndi á Sogni í Kjósarsýslu, fundinn og undir lið 6 sat Svanhvít Axelsdóttir, lögfræðingur frá LOGOS – viðskiptaaðila LK, fundinn.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár fundarins.

 

1. Verðlagsmál

Formaður kynnti nýafstaðinn fund verðlagsnefndar, sem haldinn var í gær. Á fundinum kom fram að afkoma samlaganna á síðasta ári var hátt í 400 milljónir og ljóst að erfitt verður að sækja hækkun á mjólkurverði annað en þangað á meðan slík staða er, ekki er útlit fyrir að sátt náist við fulltrúa neytenda um annað. Samræmd niðurstaða allra samlaga er mun betri en árið 2001 og skýringin á því fyrst og fremst tvíþætt, annarsvegar bætt afkoma vegna fjárhagsliða og hinsvegar bætt heildarafkoma vegna lokunarafurðastöðva. Hækkunarþörf til framleiðenda samkvæmt verðlagsgrundvelli 1. september 2002 til sama tíma í ár, án þess að endurskoða vexti, reiknast 2,4%. Rætt var um hugsanlegan tíma fyrir hækkun, og helst horft til 1. nóvember nk. í þeim efnum.

 

2. Mjólkursamningar

Formaður kynnti stöðu mála, en fyrir liggur í dag fundaáætlun sem gerir ráð fyrir að fundum ljúki fyrir byrjun nóvember. Í kjölfarið verður svo farið í samningaviðræður og stefnt að ljúka þeim snemma næsta árs. Niðurstaða WTO var eins og kunnugt er ósamstaða aðildarlandanna, sem gerir það að verkum að erfitt er að spá í framtíðarþróun alþjóðamála og skuldbindinga Íslands. Rætt var um mögulegar leiðir sem færar eru ef skera þarf niður greiðslur byggðar á grundvelli framleiðslutengingar.

 

3. Stefnumörkun

Framkvæmdastjóri fór yfir útgáfustöðuna, en eftir helgi verður stjórnarmönnum send próförk til síðasta yfirlestrar fyrir prentun. Ákveðið var að boða til blaðamannafundar til að kynnna þjóðinni stefnu íslenskra kúabænda á næstu árum. Framkvæmdastjóra falið að vinna að málinu.

 

4. Umsögn um frumvarp til nýrra jarðalaga

Undanfarið hefur verið unnið að umsögn starfshóps BÍ og LK um drög að nýjum jarðalögum. Sami starfshópur mun jafnframt taka drög að nýjum ábúðarlögum til athugunar. Nokkuð vel hefur unnist í starfshópnum og allt útlit fyrir að samstaða geti náðst á milli BÍ og LK um málið. Töluverðar breytingar hafa verið unnar á drögunum í vinnu hópsins.

 

5. Nautakjötsmál

Formaður fór yfir stöðu málefna nautakjötsins, en afkoma nautakjötsframleiðenda er mjög slæm og nú liðnir hátt í 6 mánuðir frá því formlega var farið fram á stuðning ríkisins við greinina. Rætt hefur verið við fjölmarga aðila innan ríksins og hafa komið upp ýmis vandamál við úrvinnslu málsins. Nýjasta útspilið í stöðunni er að setja upp þriggja ára gæðaverkefni. Grunnhugmyndafræði verkefnisins er að setja upp kerfi sem ýti undir framleiðslu á hágæðanautakjöti og að fá stuðning hins opinbera við slíkt verkefni. Í ljósi þess að fyrri hugmyndum hefur verið fálega tekið innan stjórnkerfisins, hefur verið unnið að þessu máli út frá þeirri hugmyndafræði að búgreinin sjálf leggi málinu lið, með þróunarfé nautgriparæktar, verðskerðingarsjóði og þróunarfé búvörusamnings.

 

Mikið var rætt um málið og ýmsum atriðum velt upp, m.a. skoðanamun á milli nautakjötsframleiðenda með mjólkurframleiðslu og nautakjötsframleiðenda án mjólkurframleiðslu.

 

Ákveðið var að fundarmenn fari yfir hugmyndirnar og sendi athugasemdir til formanns næstu daga. Jafnframt var samþykkt að leggja upp verkefnið með þeim hætti að hluti kostnaðar komi frá verðskerðingarsjóði, þróunarfjár búvörusamningsins og þróunarfjár nautgriparæktarinnar (innan FL).

 

6. Hríseyjarnaut ehf.

Farið var yfir stöðu sölumáls eigna NLK ehf. til Hríseyjarnauta ehf. Tekist hefur að innheimta 1,25 milljónir kr. af 5,5 milljónum, en skilaboð frá fulltrúum Hríseyjarnauta ehf. er í dag þau að ekki séu til peningar til að greiða meira. Í stöðunni eru því tvær leiðir, annarsvegar að fara í fjárnámsaðgerðir og hinsvegar að rifta samningum.

 

Rætt var um gjaldþrotaleiðina og fór lögfræðingurinn vandlega yfir það mál, kosti og galla. Eins var rætt um réttarstöðu NLK ehf., þar sem NLK ehf. er enn skráð fyrir eignunum í Hrísey. Áætlaður kostnaður, ef farið verður alla leið og jafnframt ef krefjast verður gjaldþrotaskipta, má áætla lögfræðikostnað upp á um 500 þúsund, sem sótt verður jafnframt til skuldara.

 

Varðandi riftun samningsins, þá er ljóst að verulega vanefndir á samninginum kalla á riftun. Í slíkum málum er hægt að fá sk. vangildisbætur.

 

Ákveðið var að heimila LOGOS að fara með málið í hefðbundna innheimtu og að sækja málið alla leið.

 

7. Réttarstaða innleggjenda með lítil innlegg

Fyrir fundinum lá erindi frá bónda á Suðurlandi, sem hefur mjög litla framleiðslu og er í þeirri stöðu að mjólkursamlagið hefur ákveðið að hætta að sækja mjólk til viðkomandi vegna lítils magns mjólkur í hvert skipti sem mjólkin er sótt. Formanni var falið að vinna að umsögn um málið og verður bóndanum svarað skriflega, sem og afurðastöðinni ef þurfa þykir.

 

8. Umsögn um reglugerð

Fyrir fundinum lágu drög að nýrri reglugerð um sæðingar og fósturvísaflutninga. Ákveðið var að safna athugasemdum stjórnarmanna næstu daga og senda umsögn til ráðuneytisins á grundvelli framkominna athugasemda.

 

9. Haustfundir LK og aðildarfélaga

LK hefur boðað til haustfunda með aðildarfélögum, en í ljósi núverandi stöðu samningamála er ólíklegt annað er að þau mál verði í brennidepli. Slíkt er þó mjög erfitt að ræða, þar sem málin verða væntanlega á viðkvæmu stigi. Af framansögðu er ljóst að draga verður fundina fram yfir viðræður við ríkið. Ákveðið var því að fresta væntanlegum fundum ótímabundið.

 

10. Önnur mál

a. Skólamjólk

Framkvæmdastjóri kynnti árangur af alþjóðlega skólamjólkurdeginum sem haldinn var 24. september sl. Skólabörnum um allt land var gefin mjólk í tilefni dagsins, alls 45 þúsund börnum, og jafnframt var haldin ráðstefna á Hótel Sögu um skólamjólk í víðu samhengi. Það er mat mjólkuriðnaðarmanna að dagurinn hafi heppnast vel.

 

b. Afleysingasjóður

Framkvæmdastjóri kynnti athugasemdir sem borist hafa skrifstofu LK þess efnis að þeir sem eru félagar LK, en ekki mjólkurframleiðendur, eiga ekki rétt á afleysingastyrk. Í ljósi þess að afleysingasjóðurinn hafi komið til með samningnum 1992 og var til þess að styðja við tilurð afleysinga á mjólkurbúum, liggur fyrir að aðrir en mjólkurframleiðendur eiga ekki rétt á afleysingastyrk.

 

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 13:40

Snorri Sigurðsson