Beint í efni

Stjórnarfundir – 06. f. 1999/2000

24.02.2000

Fundargerð 24. febrúar 2000


Fimmti fundur stjórnar LK var haldinn í Bændahöllinni fimmtudaginn, 24. febrúar 2000 og hófst hann klukkan 11. Fundinn sátu Þórólfur Sveinsson, Gunnar Sverrisson, Egill Sigurðsson, Kristín Linda Jónsdóttir, Hjörtur Hjartarson og Birgir Ingþórsson. Einnig sat fundinn Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð.

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til boðaðrar dagskrár:

1. Umsókn frá NÖK um styrk vegna fundar í sumar
Snorri kynnti erindi frá Íslandsdeild NÖK, sem eru norræn áhugasamtök um nautgriparækt, um að LK myndi styrkja aðalfund samtakanna sem haldinn verður hérlendis í sumar. Áætlað er að um 200-250 þátttakendur komi á fundinn, frá öllum Norðurlöndunum. Samþykkt var að veita samtökunum 100.000,- í styrk vegna fundarins.

2. Tryggingar stjórnarmanna LK
Í ljós hefur komið að stjórnar- og varamenn LK eru ekki tryggðir á ferðum sínum og hugsanleg bótaskilda gæti hvílt á LK vegna möglegra slysa í tengslum við vinnu þeirra fyrir félagið. Ákveðið var því að LK tryggi bæði stjórnar- og varamenn sína er þeir eru að sinna erindum félagsins.

3. Aðalfundir aðildafélaga LK
Fyrir liggur að framundan eru aðalfundir allra aðildarfélga LK og er vilji bæði framkvæmdastjóra og formanns að koma að þessum fundum til að kynna ýmis málefni greinarinnar. Fulltrúar aðildarfélaganna eru hvattir til að hafa samband við skrifstofu LK vegna þessa.

4. Ýmiss bréf og erindi til afgreiðslu og kynningar
· Samhæfing sæðingastarfsemi í landinu.
Nokkuð hefur borið á kvörtunum bænda til skrifstofu LK vegna aðstöðumunar á sæðingum á landinu. Augljóst er að þrátt fyrir að aðferðarfræði yrði samhæfð, verður ódýrara fyrir kúabændur á stórum svæðum að sæða kýrnar. Einnig hefur verið kvartað yfir vöntun á sæði og að erfitt er að panta sæði úr ákveðnum nautum. Nokkrar umræður urðu um málið og kom m.a. fram að ástæða gæti verið til að taka upp komugjöld vegna sæðinganna. Einnig var rætt um það hvort LK eigi að koma með virkari hætti að rekstri sæðingarstarfsemi í landinu öllu. Ákveðið var að fela formanni og framkvæmdastjóra að vinna að málinu í tengslum við þær viðræður sem framundan eru milli LK og BÍ um hugsanlega yfirtöku LK á nautastöð BÍ.

· Rannsókn á hreinleika mjólkur.
Þórólfur kynnti umsókn frá MATRA um að endurtaka þá rannsókn sem gerð var 1991-1992. Starfsmenn SAM eru að kanna hvernig og hve títt sambærilegar rannsóknir eru unnar erlendis og verður í framhaldi af því tekin ákvörðun um áframhaldið. Stjórnin taldi málið mjög jákvætt.

· Smitgát á kúabúum.
Snorri kynnti og lagði fram drög frá yfirdýralækni um smitgát á búum. Mikilvægt er að samstaða sé um þessi mál meðal LK, yfirdýralækni og afurðastöðva Mikil umræða varð um málið og ljóst að vandamálið er til staðar og nauðsynlegt að gera ráðstafanir. Með því að setja verklagsreglur varðandi smitgát fyrir alla aðila sem þjónusta bændur, nnæst vonandi að komast fyrir þá smitandi sjúkdóma sem nokkuð hefur borið á, s.s. veiruskitu og salmonellu. Einnig þarf um leið að setja verklagsreglur varðandi heimkomu bænda frá útlöndum og heimsóknir útlendinga í fjós hérlendis. Framkvæmdastjóra var falið að vinna að framgangi málsins.

· Breytingar á reglum Bjargráðasjóðs.
Þórólfur kynnti aðkomu LK að breytingum á reglum um styrki Bjargráðasjóðs vegna stóráfalla s.s. vegna salmonellusmits á Suðurlandi í haust. Ljóst er að núverandi reglur sjóðsins geta enganvegin komið til móts við þann kostnað sem verður í svona stórtjónum. Breyta þarf reglunum og um leið eðlilegt að skoða hvernig bæturnar vegna júgurbólgutjóna eigi að vera. Á sínum tíma voru júgurbólgureglurnar settar til aðlögunar þegar nýja frumtölumatið var sett. Miklar umræður urðu um málið mat margra að fella hreinlega út júgurbólgutjón sem bótahæf. Ákveðið var að leggja til breytingar sem muni trappa niður styrk í júgurbólgutjónum á næstu þremur árum og niður í núll. Einnig verða gerðar tillögur til þess að nálgast betur hin raunverulegu afurðatjón sem verða. Formanni og framkvæmdastjóra falið að vinna áfram að málinu.

· Breytingar á viðmiðunarverðum í nautakjöti.
Snorri kynnti hvernig staðan er á nautakjötsmarkaðinum í dag og ljóst er að viðmiðunarverð LK á K-flokkum er í hærra lagi. Nýtt viðmiðunarverð verður skoðað á næstunni.

· Fundur kjötbænda.
Snorri kynnti hugmynd sem fram kom hjá nautgripabændum í Kjósinni, að kalla saman fund þeirra sem eru áhugamenn um nautakjötsframleiðslu. Þessi hópur bænda er að mörgu leiti að vinna með aðra hluti en þeir sem eru eingöngu í mjólkurframleiðslu og því brýnt fyrir þá að hittast og skiptast á skoðunum. Ákveðið var að halda fundinn 16. mars og kynna hann í Bændablaðinu.

· Umsókn um veikindastyrk.
Borist hafði umsókn frá kúabónda um styrk vegna veikinda og kostnaðar vegna þeirrar afleysingar sem nauðsynleg væri vegna veikindanna. Stjórn LK hafnaði þessari umsókn enda var reglum Afleysingasjóðs breytt um síðasta áramót til að geta komið til móts við tilfelli sem þetta. Í þessu sambandi var einnig ákveðið að kanna hvernig kúabændur geti tryggt sig betur gegn áföllum sem þessum og var formanni falið að fylgja málinu eftir.


5. Önnur mál.
Umsóknareyðublöð fyrir Afleysingasjóðinn
Egill spurði hvort ekki væru til umsóknareyðublöð fyrir afleysingasjóðinn og hvort ekki væri mögulegt að hafa slík eyðublöð á netinu. Ákveðið var að gera slíkt og framkvæmdastjóra falið að ganga frá málinu.

Kaup á greiðslumarki
Birgir velti því upp hvort aðkoma afurðastöðva að greiðslumarkskaupum væri holl fyrir viðskipti með greiðslumark. Kenna mætti jafnvel afurðastöðvunum um hið háa verð sem virðist vera í dag, þar sem sumar greiddu niður hluta af greiðslumarki og aðrar lánuðu á mjög hagstæðum lánum. Fundarmenn voru sammála því að aðkoma LK að þessu máli væri fyrst og fremst á sviði fræðslu. Greinilegt væri að oft vantaði hreinlega fjármálaráðgjöf í tengslum við kaup á greiðslumarki og LK þurfi að koma með einhverjum hætti að málinu. Formanni og framkvæmdastjóra falið að vinna að málinu.


Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 12:30

Snorri Sigurðsson