Beint í efni

Stjórnarfundir – 2. fundur 2003/2004

04.06.2003

 

Annar fundur stjórnar LK starfsárið 2003/2004 var haldinn miðvikudaginn 4. júní 2003 og hófst hann klukkan 10:30. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Egill Sigurðsson, Kristín Linda Jónsdóttir, Jóhannes Jónsson og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, sem ritaði fundargerð. Undir lið 4 mætti á fundinn Áskell Þórisson, forstöðumaður útgáfu og kynningarsviðs BÍ.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.

 

 

1. Mjólkurhópur landbúnaðarráðuneytis

Formaður greindi frá stöðu mála í viðræðum bænda, aðila vinnumarkaðarins og ríkisins um málefnagrundvöll vegna komandi samningaviðræðna á milli kúabænda og ríkisins. Þegar hafa verið haldnir þrír fundir og er einn fyrir hugaður til viðbótar fyrir sumarfrí. Fram kom í máli hans að ágætt samkomulag sé í hópnum og hafi umræðan verið málefnaleg til þessa. Samkomulag sé jafnframt á milli aðila að greina ekki frá einstökum efnisþáttum viðræðnanna og afstöðu aðila innan hópsins. Þó sé ljóst að allt stefnir í að niðurstaða hópsins muni markast af stöðu alþjóðasamninga (WTO), en óljóst er í dag hvert stefnir með WTO og þá hvenær viðræðunum lýkur. Stefnt er að því að samningaviðræður geti hafist í lok ársins eða byrjun næsta árs.

 

Fram kom í umræðum að fulltrúar bænda þurfi að kynna sér vel matvælaverð í nágrannalöndunum og að kanna sérstaklega hve innfluttar vörur, sem koma hingað án tolla, kosta í nágrannalöndunum. Þá var jafnframt rætt um stöðu greinarinnar í dag og hvort samstaða sé um mat á stöðu greinarinnar. Í máli fundarmanna kom fram eindreginn vilji til að standa vörð um núverandi kerfi.

 

 

2. Verðlagsmál

Formaður greindi frá stöðu mála í verðalagsnefnd. Í byrjun september mun liggja fyrir sá framreikningur sem stuðst verður við þegar metið verður hvort hækka þarf mjókina um næstu áramót.

 

 

3. Greiðslumark mjólkur

Framkvæmdanefnd um búvörusamning hefur gert tillögu til landbúnaðarráðherra um að skerða greiðslumark kúabænda niður um eina milljón lítra á næsta greiðslumarksári, eða niður í 105 milljónir lítra. Útlit var fyrir um tíma að skerða þyrfti greiðslumarkið meira, en söluaukning síðuastu mánuði og söluspá fyrir komandi misseri gera hinsvegar það að verkum að skerða þarf minna en útlit var fyrir.

 

Fram kom í máli fundarmanna að mjólkuriðnaðurinn þurfi nauðsynlega að fylgja þessum söluáætlunum eftir, þannig að tryggt sé að greiðslumarkið geti vaxið frá næsta verðlagsári en ekki haldið áfram að minnka.

 

Þá var rætt um þá stöðu að enn hefur ekki verið afgreitt frá ráðuneytinu svar við fyrirspurn um hvað megi og hvað megi ekki gera varðandi nýtingu greiðslumarks. Þessu erindi hefur ekki verið svarað en verður vonandi svarað fyrir sumarfrí.

 

Í tengslum við þetta mál var rætt almennt um markaðssetningu á mjólkurvörum og hvað sé til ráða varðandi sölumál mjólkurvara. Í því sambandi voru nefndir til sögunnar ýmsir möguleikar, s.s. niðurgreiðslur á mjólkurvörum á ákveðnum tímum ofl. Þá kom fram að markaðssetning er oft á tíðum ekki nógu markviss og sundurlaus á milli afurðastöðvanna og því bendir margt til þess að sameiginlega sölustarfið þyrfti að vera öflugra. Margt bendir því til þess að auka eigi framlag afurðastöðvanna til Markaðsnefndarinnar og draga úr sjálfstæði afurðastöðvanna við markaðssetningu.

 

Ákveðið var að virkja markaðshóp LK, sem þegar hefur verið skipaður, og að tengja þann hóp á veraldarvefnum þar sem hugmyndabanki vegna markaðssetningar getur blómstrað.

 

 

4. Stefnumörkunin

Framkvæmdastjóri kynnti vinnu við söfnun tilboða í uppsetningu á stefnumörkuninni. Ákveðið hefur verið að semja við útgáfu og kynningardeild BÍ um málið. Áskell fór yfir tillögur að meðhöndlun efnis og uppsetningu. Ákveðið var að stjórnarmenn hugleiði uppsetningu og sendi athugasemdir sínar beint til Áskels.

 

 

5. Reglugerð um mjólk og mjólkurvörur

Formaður kynnti þá vinnu sem unnin hefur verið varðandi verðskerðingarmál mjólkur vegna nýju reglugerðarinnar sem tekur gildi 1. júlí nk. Ákveðin niðurstaða hefur náðst varðandi verðskerðingarmálin og munu ný skerðingarákvæði taka gildi samhliða gildistöku reglugerðarinnar. Þá verður sett sekt á lyfjamengaða mjólk og henni verður hent.

 

 

6. Hríseyjarnaut ehf.

Framkvæmdastjóri greindi frá innheimtuaðgerðum LK vegna sölu á eignum NLK ehf. í Hrísey. Lögfræðingar LK hafa málið til meðferðar og hefur innheimta þegar borið árangur. Eftir 20. júní nk. er gert ráð fyrir að drög liggi fyrir um samkomulag lögfræðinga Hríseyjarnauta ehf. og lögfræðinga LK um lok málsins.

 

 

7. Kjötframleiðendur ehf.

Formaður greindi frá niðurstöðum aðalfundar Kjötframleiðenda ehf., en útlit er fyrir tap fyrirtækisins á þessu ári. Ástæðan er sú að gengisþróun hefur verið afar óhagstæð og verð til bænda mjög lágt á t.d. hrossakjöti. Nokkuð hefur verið flutt út af dilkakjöti og einnig svínakjöti og óljóst með framhald slíks útflutnings.

 

 

8. Fagráð í nautgriparækt

Formaður greindi frá því að margar umsóknir um styrki voru afgreiddar á síðasta fundi fagráðsins. Bæði hafa farið út fjármunir frá Átakssjóðnum og frá nautgriparæktarhluta Framleiðnisjóðs. Ekki hefur verið úthlutað jafn miklum fjármunum í nokkur ár.

 

 

9. Markaðsmál nautakjöts

Framkvæmdastjóri greindi frá verkefni LK og Kjötframleiðenda ehf. um markaðsrannsókn á nautakjötsmarkaðinum. Verkefnið er farið í gang og eru verklok áætluð í ágúst.

 

Sala á nautakjöti hefur gengið þolanlega og verðið hækkað á kúm en heldur sigið niður á ungnautum. Framundan er mikill sölutími á öðru kjöti í tengslum við grillvertíðina og ljóst að nautakjöt mun eiga sess þar inni og eru nokkrir söluaðilar að koma með nautakjöt á grillmarkaðinn.

 

Þá hafa forsvarsmenn frá Agli Skallagrímssyni lýst eftir áhuga á samstarfi við LK um sölu á nautakjöti og rauðvíni. Nánar verður unnið að málinu.

 

 

10. Önnur mál

a. Úrbeiningarlína Norðlenska

Framkvæmdastjóri greindi frá því að þann 11. júní nk. verður tekin í notkun ný úrbeiningarlína hjá Norðlenska á Akureyri og er stjórn boðið að koma á staðinn við það tilefni.

 

b. 100 ára ræktunarafmæli á Íslandi

Í ár eru liðin 100 ár frá því að ræktun kúa hófst hérlendis með formlegum hætti. Vaknað hafa hugmyndir um að draga saman upplýsingar á veggspjöld um söguna og komu fram hugmyndir um að opna sýningu á slíkum verkum í t.d. Kringlunni í haust í tengslum við samráðsfund LK og SAM.

 

c. Útflutningur á sæði úr íslenskum nautum

Framkvæmdastjóri kynnti hugmyndir um útflutning á sæði úr íslenskum nautum til sænskra bænda. Hugmyndir hafa vaknað um að nýta NLK ehf. til verkefnisins.

 

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 14:45

Næsti stjórnarfundur: 7. ágúst  2003

Snorri Sigurðsson