Beint í efni

Stjórnarfundir – 1. fundur 2003/2004

23.04.2003

 

Fyrsti fundur stjórnar LK starfsárið 2003/2004 var haldinn miðvikudaginn 23. apríl 2003 og hófst hann klukkan 10:30. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Egill Sigurðsson, Kristín Linda Jónsdóttir, Jóhannes Jónsson og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, sem ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Skipting verka stjórnar

Gengið var til leynilegra kosninga samkvæmt samþykktum LK og var niðurstaðan eftirfarandi:

Sigurður Loftsson var kjörinn varaformaður

Jóhannes Ævar Jónsson var kjörinn gjaldkeri

Kristín Linda Jónsdóttir var kjörin ritari

 

Þá var Egill Sigurðsson tilnefndur sem fulltrúi LK í samráðsnefnd BÍ og SAM og Sigurður Loftsson til vara.

 

2 Aðalfundur LK 2004

Farið var yfir reynsluna frá síðasta aðalfundi og jafnframt rætt um árshátíðina sem fylgdi í kjölfarið. Ákveðið var að halda næsta aðalfund LK í þriðju viku apríl 2004. Almennt voru fundarmenn sammála um að fundurinn hafi gengið vel, en þó vantaði betri tíma fyrir reikninga. Mikið álag var á prentun og fjölritun, sem þarf að skoða og jafnvel að staðsetja tölvur í hverja nefnd. Jafnframt að setja fyrirfram í möppurnar sem mest af gögnum til að minnka álag á fundinum sjálfum og/eða með því að senda viðkomandi gögn til fundarmanna fyrir fundinn. Þá flytjist síðasti fundur stjórnar fyrir aðalfund frá kvöldfundi fyrir aðalfund fram um 7-10 daga. Ekki var tekin ákvörðun um stað fyrir aðalfund LK 2004 og var framkvæmdastjóra falið að athuga málið. Þá var ákveðið að fela einu eða tveimur aðildarfélögum LK að sjá um næstu árshátíð kúabænda, skipulagningu og undirbúning. Jafnframt var ákveðið að árshátíðin skuli verða fjárhagslega sjálfstæð og óháð fjárhag LK.

 

3 Ályktanir aðalfundar 2003

1.      Ályktun um frestun afnáms opinberrar verðlagningar. Ákveðið að senda ályktunina til landbúnaðarráðherra.

2.      Ályktun um gjaldskrá yfirdýralæknis. Ákveðið að senda ályktunina til yfirdýralæknis og landbúnaðarráðherra, sem og að óska jafnframt eftir viðræðum LK, embættis yfirdýralæknis og etv. fleiri aðila um framkvæmd fjósaskoðunar, sem og fleiri skoðana sem fara fram á kúabúum landsins s.s. forðagæslu. Ákveðið að auk formanns og framkvæmdastjóra muni Egill koma að vinnu við þessa ályktun.

3.      Ályktun um breytingar á útreikningi greiðslumarks. Ályktuninni var beint til stjórnar. Töluvert var rætt um tillöguna og ýmsar útfærsluleiðir. Þá var fjallað um arð af próteinframleiðslu, sem til skamms tíma lendir hjá bændum en til lengri tíma hjá afurðastöðvum. Ákveðið var að afla upplýsinga frá nágrannalöndum Íslands sem einnig hafa greiðslumark um hvernig greiðslumarksgrunnur er fundinn í viðkomandi löndum.

4.      Ályktun um breytingar á framleiðslutengdum beingreiðslum. Formaður kynnti útreikninga á A, B og C-greiðslum. Ákveðið að taka málið upp að loknu núverandi verðlagsári og taka beingreiðslukerfið til skoðunar í kjölfar þess.

5.      Ályktun um jöfnun aksturskostnaðar. Ákveðið að taka málið upp við BÍ.

6.      Ályktun um lífeyrismál. Ákveðið að senda ályktunina til BÍ.

7.      Ályktun um stefnumörkun ASÍ í velferðarmálum. Ákveðið að senda ályktunina til ASÍ.

8.      Ályktun um undirbúning aðalfundar. Ákveðið að vinna að undirbúningi næsta aðalfundar samkvæmt ályktuninni.

9.      Ályktun um aðalfund og árshátíð. Ákveðið að skoða málið og taka fyrir á næsta stjórnarfundi.

10.  Ályktun um stuðning við nautakjötsframleiðsluna og nýtt kjötmat. Ákveðið að senda ályktunina til landbúnaðarráðherra, BÍ, Landssamtaka sláturleyfishafa og Yfirkjötmatsins.

11.  Ályktun um nautgripasæðingar. Ákveðið að taka saman upplýsingar um sæðingamál fyrir næsta stjórnarfund.

12.  Ályktun um endurmenntun kúabænda. Ákveðið að senda ályktunina til LBH, Fagráðs í nautgriparækt og Framleiðnisjóðs.

13.  Ályktun um sölu búvara á ferðaþjónustubýlum. Ákveðið að senda ályktunina til Embættis yfirdýralæknis og Hollustuverndar.

14.  Ályktun um ráðstöfun söluandvirðis hótela BÍ. Ályktuninni var beint til stjórnar og verður unnið að framgangi málsins.

 

4. Stefnumótun nautgriparæktarinnar

Stærstur hluti stefnumótunarinnar var samþykktur og var ákveðið að vinna áfram í textanum og að koma endanlegum texta til umbrotsmanna fyrir mæðradaginn.

 

Ákveðið að ræða við nokkra aðila um frágang og uppsetningu stefnumótunarinnar og sér framkvæmdastjóri um það.

 

5. Umsagnir LK um jarða- og ábúðarlög

Formaður kynnti drög að jarða- og ábúðarlögum sem þegar höfðu verið send fundarmönnum fyrir fundinn. Formaður er í nefnd á vegum BÍ og hefur sú nefnd ekki starfað til þessa. Egill fór yfir nokkur atriði sem snerta sambýli sveitarfélaga og þessara draga að lögum. Ákveðið var að bíða niðurstöðu nefndar BÍ og freista þess að skila sameiginlegu áliti BÍ og LK í málinu. Framkvæmdastjóra falið að ræða málið við framkvæmdastjóra BÍ.

 

6. Greiðslumark næsta árs

Formaður minnti á að fljótlega þarf að huga að reglugerð næsta verðlagsárs varðandi stærð greiðslumarksins á næsta verðlagsári, sem og þarf að útfæra leiðir til að geta stundað samrekstur búa. Formanni var falið að ræða við fulltrúa landbúnaðarráðuneytisins varðandi útfærsluatriði.

 

7. Önnur mál

a. Málefni NLK ehf.

Í ljósi þess að ekki hefur enn tekist að innheimta skuld Hríseyjarnauta ehf. vegna sölu LK á NLK ehf. var ákveðið að fela lögfræðingum LK að fara yfir málið og veita ráðgjöf um hvað best sé að gera í stöðunni. Niðurstaða liggi fyrir á næsta stjórnarfundi.

 

b. Gæðamál mjólkur

Rætt var um gæðamálefni mjólkur og var farið yfir tillögur LK í sambandi við gæðastuðla. Formaður greindi frá viðræðum hans og fulltrúa frá mjólkuriðnaðinum varðandi gæðakröfur sem gera á.

 

c. Markaðsmál mjólkurafurða

Rætt um stöðu markaðsmála mjólkurvara og jafnframt komu fram áhyggjur fundarmanna af þekkingu markaðsmanna á stöðu kúabænda. Ákveðið var að óska eftir því við SAM að haldinn verði þemafundur trúnaðarmanna bænda í stjórnum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, trúnaðarmanna LK og markaðsmanna í mjólkuriðnaði, þar sem rætt verði um tengsl kúabænda við framleiðsluna og samspil markaðssetningar mjólkurvara og afkomu kúabænda.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 14:45

Næsti stjórnarfundur: 4. júní 2003

Snorri Sigurðsson