Beint í efni

Stjórnarfundir – 4. fundur 2002/2003

29.01.2003

 

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda

 

Fjórði fundur stjórnar LK starfsárið 2002/2003 var haldinn miðvikudaginn 29. janúar 2003 og hófst hann klukkan 10:00. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Egill Sigurðsson, Jóhannes Jónsson og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, sem ritaði fundargerð. Kristín Linda Jónsdóttir var forfölluð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Stefnumótunarvinnan

Formaður kynnti greinargerð Bernhards Þórs Bernhardssonar, lektors við Viðskiptaháskólann á Bifröst og sérfræðings í stefnumótunarvinnu. Þá velti hann upp frágangsmálum á stefnumótuninni og hvort stefna beri að því að klára stefnumótunina fyrir n.k. aðalfund. Allir fundarmenn voru á því að stefna beri að því að klára alla vinnu við stefnumótunina fyrir aðalfund.

            Þá var rætt um uppsetningu og frágang á texta og ákveðið að fá fagaðila til slíkrar vinnu.

 

2. Undirbúningur Aðalfundar LK

Framkvæmdastjóri kynnti stöðu mála varðandi undirbúning aðalfundarins sem verður 10.-11. apríl. Í ljósi breytinga á fundartíma, var ákveðið að stefna að eftirfarandi dagskrá:

 

Fimmtudagurinn 10. apríl

10:00   Skipun starfsmanna (fundarstjórar, ritari og kjörbréfanefnd)

10:15   Skýrsla stjórnar og stefnumótun (varaformaður)

11:15   Ávörp gesta

12:00            Hádegismatur

13:00            Niðurstöður kjörbréfanefndar

13:10            Umræður um skýrslu stjórnar og stefnumótun

15:00   Kaffi

15:30   Tvö erindi og umræður, annað um alþjóðamál og hitt um innlendan fjármálamarkað.

18:00   Skipað í nefndir, tillögur lagðar fram

18:10   Fundi frestað (nefndarvinna)

 

20:00            Kvöldverður með boðsgestum og ávarpi boðsgests

 

Föstudagurinn 11. apríl

09:00            Nefndarvinna

12:00            Hádegisverður

13:30            Afgreiðsla mála

17:00            Fundarslit

19:30            Fordrykkur fyrir árshátíðargesti

20:00            Árshátíð kúabænda

 

3. Markaðsmál nautakjöts

Framkvæmdastjóri fór yfir sölu- og framleiðslutölur síðasta árs, en fram kom að þrátt fyrir mikla samkeppni við annað kjöt á markaðinu þá hélt nautakjötið sömu sölu á milli ára. Þá kynnti hann hugmyndir vinnuhóps um mögulegar leiðir til að styðja kjötframleiðslu með holdakúm og framleiðslu nautakjöts í flokkunum Úrval A og B. . Sagt hafði verið frá umræddum hugmyndum í fjölmiðlum og því taldi stjórnin óhjákvæmilegt að kynna þær á vef LK og í Bændablaðinu, til að fá viðbrögð bænda við þeim. Þar sem fram kom á fundinum að hluti þeirra bænda sem eiga holdakýr kynni að vera andvígur umræddum hugmyndum, var ákveðið leita sérstaklega eftir afstöðu þeirra. Jafnframt var ákveðið að leita viðhorfs aðalfundarfulltrúa Landssambands kúabænda. Stjórnin taldi ekki tímabært að taka afstöðu til hugmyndanna fyrr en á næsta fundi.

 

 

4. Markaðsmál mjólkur

Formaður fór yfir sölumál mjólkurvara og útlit með greiðslumark næsta árs. Eins og staðan er í dag er útlit fyrir að greiðslumark verði skorið niður á ný niður í 103 milljónir lítra, eða um 2,8%. Miklar umræður urðu um hugsanlegar ástæðan fyrir þessu samdrætti. Ákveðið var að senda áskorun til Markaðsnefndar mjólkuriðnaðains og mjólkursamlaganna í landinu um að gera samræmt átak í markaðsmálum mjólkur og mjólkurafurða.

Jafnframt var ákveðið var að gera bændum grein fyrir því í næsta Bændablaði hvert stefni varðandi þróun greiðslumarksins. Einnig að gera kunnugt með afgerandi hætti hvernig útlitið sé með greiðslu á umframmjólk og álagsgreiðslur á mjólk framleidda á sumarmánuðunum.

 

 

5. Mjólkursamningur

Formaður greindi frá stöðu mála, en landbúnaðarrráðuneytið hefur ekki enn  kallað eftir tilnefningum í starfshópinn sem vinna skal stöðumatið og stefnumörkunina. Aðilar hafa þó hittst óformlega.

 

 

7. Innsend erindi og bréf og efni til kynningar

a. Ályktun frá fulltrúaráðsfundi MBF frá 16. desember.

 

b. Innra eftirlit á kúabúum

Framkvæmdastjóri greindi frá erindi yfirdýralæknis þar sem óskað var samstarfs við að þróa innra eftirlit á kúabúum, samkvæmt ákvæðum Aðbúnaðarreglugerðarinnar. Ekki var tekin formleg afstaða til málsins

 

 

8. Önnur mál

a. Verkefnið “Gullið heima”

Stjórn fagnaði nýju verkefni sem kynnt var um miðjan janúar og kallað er Gullið heima. Kristín Linda Jónsdóttir er ein af þeim sem unnið hefur að verkefninu.

 

b. Ferð á Agromek 2002

Nýverið lauk árlegri ferð á landbúnaðarsýninguna í Herning og var hún vel sótt kúabændum. Voru Snorra færðar þakkir fyrir þetta verkefni sem hann hefur staðið að undanfarin ár.

 

c. Fundur með stjórn DÍ

Framkvæmdastjóri greindi frá viðræðum hans við stjórn DÍ, þar sem fjallað var um nýtt frumvarp forsætisráðherra um m.a. breytingar á högum héraðsdýralækna. Allar líkur eru á því að ef frumvarpið verður að lögum, þá muni sverfa mjög að starfsmöguleikum dýralækna, einkum í fámennari byggðum landsins og þar með muni dýralæknaþjónusta versna til muna. Á fundinum var jafnfram rætt um möguleika dýralækna á að taka að sér sæðingar, hugsanlega viðhorfskönnun meðal kúabænda ofl.

 

d. Réttur til samnýtingar á greiðslumarki

Formaður greindi frá því að erindi hefur borist Framkvæmdanefnd frá héraðsráðunaut um heimild til samnýtingar á greiðslumarki. Í þessu sambandi hafa vaknað spurningar um samnýtingu á greiðslumarki tveggja jarða í samrekstri um eina kennitölu. Velt var  upp þeirri spurningu hvort ekki sé nauðsynlegt að fá skýr svör við því hver réttarstaðan er í þessum tilfellum.

 

e. Undirbúningur fyrir búnaðarþing

Ákveðið að halda undirbúningsfund búnaðarþingsfulltrúa 20. febrúar nk.

 

f. Um útreikninga á alþjóðlegum stuðningi við íslenskan landbúnað

Spurt var um hvernig útreikningar fara fram á stuðningi við íslenskan landbúnað og kom fram að forstöðumaður Hagþjónustu landbúnaðarins er að taka saman hefti um efnið fyrir stjórn LK

 

g. Um sameiginlegan fund stjórnar LK og SAM um samningsmarkmið

Formaður greindi frá því að erfitt hafi reynst að finna hentugan fundartíma, en stefnt væri á fundinn upp úr miðjum febrúar.

 

 

Að lokum þakkaði formaður fundarmönnum fyrir góðan fund og sleit svo fundi.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 15.00

Næsti stjórnarfundur: 20. febrúar 2003

Snorri Sigurðsson