Beint í efni

Stjórnarfundir – 3. fundur 2002/2003

28.11.2002

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda

 

Þriðji fundur stjórnar LK starfsárið 2002/2003 var haldinn fimmtudaginn 28. nóvember 2002 og hófst hann klukkan 11:00. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson, Egill Sigurðsson, Jóhannes Jónsson, Kristín Linda Jónsdóttir og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Nýr samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar

Formaður fór yfir stöðu mála í samningaviðræðum milli aðila. Taldi hann ekki forsendur til samninga að svo komnu máli þar sem stutt væri í kosningar og núverandi stjórnarflokkar myndu varla vilja binda hendur næstu ríkisstjórnar hvað þetta snertir. Viðræður eru þó hafnar um endurskoðun samningsins og sú vinna í ákveðnum farvegi en aðilar vinnumarkaðarins hafa sýnt áhuga á að koma að stöðumati og stefnumörkun vegna mjólkursamnings. Stjórn LK gerði ekki athugasemdir við þá aðkomu.

 

Í tengslum við endurskoðunina hefur verið rætt um áhrif innanlandsstuðnings á skuldbindingar Íslands á alþjóðavísu. Þessa dagana er verið að reikna út stuðningsgildi Íslands í þessu sambandi og niðurstaðna að vænta á næstu vikum.

 

2. Verðlagsmál

Formaður fór yfir stöðu málsins og niðurstöður Verðlagsnefndar. Kynnt var svofelld fréttatilkynning um málið:

,,Verðlagsnefnd búvara – Sexmannanefnd –  hefur samþykkt nýjan verðlagsgrundvöll fyrir kúabú,         með gildistöku 1. nóvember s.l. Niðurstöður nefndarinnar eru byggðar á gildandi verðlagsgrundvelli,  verðkönnunum Hagstofu Íslands og öðrum gögnum. Þá hefur nefndin ennfremur tekið ákvörðun um meðalbreytingu á heildsöluverði mjólkur og mjólkurafurða frá og með 1. janúar 2003 er byggir á úttekt á afkomu mjólkuriðnaðarins.

 

Samkvæmt þeim verðlagsgrundvelli sem nefndin hefur samþykkt hækkar verð á mjólk til bænda frá 1. nóvember s.l. um 3,69% eða um kr. 2,81 kr. á lítra mjólkur frá því verði sem tók gildi 1. nóvember 2001. Hækkun á verði til bænda á sér meginskýringar í kostnaðarhækkun rekstrarvara og hækkun á launakostnaði við mjólkurframleiðsluna.

 

Við ákvörðun á vinnslu- og heildsölukostnaði mjólkur og mjólkurafurða varð samkomulag í nefndinni um að reikna með kostnaðarhækkun um 2,69% frá því sem ákveðið var 1. janúar 2002.  Þessi hækkun tekur gildi frá og með 1. janúar 2003 en þá fyrst hækkar heildsöluverð á mjólk og  mjólkurafurðum.

 

Vegna hækkunar á verði mjólkur til bænda og hækkunar á vinnslu- og dreifingarkostnaði mjólkur, hækkar heildsöluverð mjólkur og mjólkurafurða um 3,36 % að meðaltali. Verð nýmjólkur í eins lítra umbúðum mun hækka um 3 kr. á lítra, eða um 3,53 % frá því verði sem hefur gilt frá 1. janúar 2002 að óbreyttu hlutfalli álagningar í smásölu.

Þessi hækkun samsvarar 0,1% hækkun á vísitölu neysluverðs“.

 Þá kom það fram að hækkunarþörf skv. framreikningi var 6,01 %, og að vísitala neysluverðs hækkaði frá nóvember 2001 til október 2002 um 2,94 %. Einnig að hækkun til bænda að meðtöldum beingreiðslum frá 1.nóvember er ca. 3,98 %, og ca. 4,3 % að meðtalinni allri hækkuninni frá 1. nóvember.

Í tengslum við þessa umræðu var rætt um grunnforsendur verðlagsgrundvallarins og hvort ekki væri nauðsynlegt að uppreikna  grunnforsendur á tilteknu árabili.

Þá var jafnframt rætt um sk. umhverfisgjald, en áformað er að um næstu áramót verði gjaldið slagt á. Gjaldið hefur m.a. áhrif á kostnað við rúllubaggaplast og samkvæmt áætlun hefur gæti umhverfisgjaldið haft hækkunaráhrif um 0,20 – 0,25% hjá kúabændum. Hækkunaráhrif gjaldsins eru veruleg hjá mjólkuriðnaðinum og gert ráð fyrir að iðnaðurinn fái leiðréttingu á verði vegna þess í vetur. Í ljósi þess að gjaldið er sett á með stjórnvaldsaðgerð var lögð á það áhersla að kúabændur fái það bætt með leiðréttingu á verði mjólkur á sama tíma.

 

3. Haustfundir LK

Formaður kynnti þátttöku og viðbrögð kúabænda um land allt í tengslum við haustfundi LK, en á þessum 12 fundum voru um 300 þátttakendur. Mikil umræða varð á fundunum um mjólkurreglugerðina og hvað snertir skyldumerkingarnar var fyrst og fremst rætt um framkvæmdaatriði. Áberandi var hve mikil gagnrýni kom fram á fjósaskoðun héraðsdýralækna. Nýr mjólkursamningur var talsvert ræddur og kom fram fullkomin samstaða fundarmanna um að byggja framhaldið á núgildandi samningi og greiðslumarki hverrar jarðar. Nokkrir fundarmenn vildu meiri þáttöku forsvarsmanna LK í opinberri umræðu, sem og meiri virkni fréttasíðu LK á netinu. Mikið var rætt um nautakjötið, en engin úrræði tiltæk til lausnar. Þær raddir heyrðust þó að ástandið væri ekki svo slæmt í nautakjötsframleiðslunni.

            Stefnumörkunin var einnig rædd og veltu fundarmenn fyrir sér hvernig þessi stefnumörkunardrög passi við nýjan búvörusamning. Þá var rætt um ímynd kúabændanna og m.a. lögð áhersla á góð tengsl við fjölmiðla. Kynbætur og skýrsluhald voru talsvert til umræðu og lögð áhersla á að auka virkni skýrsluhaldsins. Nokkuð var gagnrýnt hve mikið af upplýsingum liggja í tengslum við skýrsluhaldið á persónulegum eða lögbýlatengdum grunni. Þjónusta dýralækna var jafnframt rædd og oftar en ekki í neikvæðu samhengi.

            Almennt var niðurstaða fundanna sú að kúabændur hafi verið jákvæðir og tiltölulega bjartsýnir og sáttir við störf Landssambands kúabænda.

 

Fundasókn fundanna var mjög góð, sérstaklega á kvöldfundina og var það mat stjórnarmanna að betra væri að hafa fundina á kvöldin – þó bundið hefðum á ákveðnum svæðum. Fyrir fundinum lág ennfremur ályktun frá Nautgriparæktarfélagi Austur-Skaftfellinga þar sem mótmælt var þeim áformum að halda haustfundi LK einungis annað hvert ár í minni félögunum. Ákveðið var að stefna að því að halda fundina hér eftir hjá öllum aðildarfélögum.

 

Í lok umræðunnar kynnti framkvæmdastjóri niðurstöður könnunar á haustfundunum (sjá nánar á vef LK: www.naut.is)

 

4. Stefnumörkunin

Fram kom að ekki hefur verið unnið í stefnumótuninni frá því fyrir haustfundi LK. Ákveðið var að senda bréf til aðildarfélaganna og óska eftir athugasemdum þeirra við stefnumörkunina og að setja inn töluleg markmið þar sem það á við. Þá verði leitað til fagfólks varðandi frágang og uppsetningu á stefnumörkuninni. Tímamörk eru eftirfarandi: 1. janúar skuli athugasemdir frá aðildarfélögum vera komnar í hús. 1. mars skuli endanleg drög að stefnumörkun tilbúin til meðferðar auglýsingastofu og 11. mars skuli afrit frá auglýsingastofu sent út til aðalfundafulltrúa.

 

5. Mál fyrir búnaðarþing 2003

 

a. Ályktun um söfnun, vörslu og birtingu persónuupplýsinga:

Minnispunktar: Hvaða upplýsingum á/þarf að safna ? Hvaða reglur gilda um birtingu og vörslu ?

 

b. Ályktun um endurskoðun á jarða- og ábúðarlögum (Byggt á ályktun frá aðalfundi LK)

 

c. Ályktun um evrópumál (Byggt á ályktun frá aðalfundi LK)

 

d. Álytkun um þjónusta við nautgriparæktina (allar búgreinar) m.a. með þýðingum á erlendu efni (Byggt á ályktun frá aðalfundi LK)

 

e. Álytkun um viðbragðsáætlun vegna hugsanlegra smitandi búfjársjúkdóma (Byggt á ályktun frá aðalfundi LK)

 

f. Álytkun um endurskoðun á búnaðarsamninginum

Minnispunktar: Styrkja frágang á frárennsli, gera kröfu um samþykkt bygginganefnda vegna frágangs á frárennsli gripahúsa við nýbyggingar ofl.

 

g. Álytkun um búnaðargjald (Lagfæring á lögum ?  Hugsanlega komið í lag.).

 

 

6. Málefni Bjargráðasjóðs

Innsent erindi frá Bjargráðasjóði um endurútreikninga á styrkjum til kúabænda. Málið rætt og ákveðið að Sigurður og Snorri sendi tillögur til stjórnarmanna.

 

 

7. Innsend erindi og bréf og efni til kynningar

Frá Vinnuhóp um ræktunarmál

Egill kynnti vinnu innan hópsins og lýsti drögum að nýjum áherslum í ræktunarstarfinu. Fram kom að lagt er til að nýr eiginleiki sé tekinn inn í kynbótastarfið, ending. Drögin gera ráð fyrir 8% áherslu á endingu og á móti að minnka vægi á aðra eiginleika. Jafnframt gerði hann grein fyrir vinnu við samræmdar reglur um val á nautum inn á nautastöðina og hyllir undir að slíkar reglur séu að verða að veruleika. Fundarmenn veltu því fyrir sér mismunandi áherslum og gildi einstakra eiginleika. Jafnframt var rætt um verðmæti einstakra eiginleika og ákveðið að beina því til Fagráðs í nautgriparækt að beita sér fyrir því að gert verði verðmætamat á eiginleikunum.

 

Innsent bréf frá SAM

LK hefur borist bréf frá SAM þar sem óskað er eftir viðræðum við LK um framtíð mjólkurframleiðslunnar í tengslum við nýjan samning við ríkið. Framkvæmdastjóra var falið að boða fund aðilanna.

 

Skýrsla um Írlandsferð

Fyrir fundinn var dreift til kynningar skýrslu um ferð sendinefndar til Írlands.

 

 

8. Önnur mál

Sameining vefja SAM og LK

Framkvæmdastjóri kynnti óformlegar viðræður á milli LK og SAM um sameiningu á vefjum LK og SAM. Stjórn fagnaði þessari vinnu og töldu fundarmenn mjög jákvætt að sameina með þessu í einn vef sérhæfðar upplýsingar um nautgriparækt. Jafnframt myndi slíkur vefur tengja bændur og afurðastöðvar betur en nú er. Stjórn tók undir sjónarmið framkvæmdastjóra og hvatti til frekari vinnu við verkefnið.

 

Fulltrúafundur MS 15. nóv. 2002

Formaður kynnti helstu niðurstöður fundarins, en fram kom m.a. að enn er samdráttur í sölu ferskmjólkur og söluaukning mjólkurvara minni en áætlanir gerðu ráð fyrir.

 

Fundur í Búnaðarráði

Formaður kynnti helstu niðurstöður fundarins, en fram kom m.a. að alífuglakjöt hefur verið selt með tapi sl. ár en á sama tíma stórunnið markaði. Nautgripakjötið hefur haldið magnsölunni, en kindakjöt tapað verulega markaði. Ljóst er að staðan er mjög alvarleg á kjötmarkaðinum.

 

Um kjötframleiðslustyrki

Framkvæmdastjóri kynnti viðræður við landbúnaðarráðuneytið um niðurgreiðslur til holdanautabænda. Málið er í góðum farvegi og verður kynnt stjórn betur á næstu dögum.

 

Niðurstöður haustfunda LK

Kristín Linda lýsti ánægju með breytt fundaform og hvað mætinguna mjög ánægjulega. Fundaferðin styður stefnu LK og hefur ýtt kúabændum landsins enn frekar saman í öflugustu bændastétt landsins.

 

Áhrif alþjóðaskuldbindinga á íslenska nautgriparækt

Rætt var um það vandamál að mjög fáir innan landbúnaðarins þekkja gjörla hvernig áhrif stuðningur í landbúnaði hefur á útreikninga á skuldbindingum Íslands gagnvart WTO (Alþjóðlegu viðskiptastofnuninni). Í kjölfar umræðna var framkvæmdastjóra falið að koma á námskeiði fyrir stjórn LK, og hugsanlega fleiri áhugasama aðila, um málið.

 

Um upplýsingamál

Fram komu óskir frá stjórnarmönnum að fá oftar upplýsingar frá fulltrúum LK í hinum ýmsu nefndum, t.d. hvað varðar stöðu einstakra málefna.

 

Upplýsinga- og kynningarfulltrúi

Rætt var um hvort ekki væri ástæða fyrir íslenskan mjólkuriðnað, í samstarfi við LK, að ráða upplýsinga- og kynningarfulltrúa sem eingöngu hafi af því atvinnu að kynna iðnaðinn og koma fram fyrir hann sem talsmaður. Ákveðið var að vinna að málinu.

 

Vatnsveitueftirlit

Lagt var fram til kynningar afrit af bréfi til bónda um kostnað við vatnseftirlit. Málið var rætt og ákveðið að leita nánari upplýsinga um málið.

 

Viðræður um WTO

Framkvæmdastjóri kynnti afstöðu Evrópusambandsríkjanna til viðræðna í landbúnaðarhluta WTO-viðræðnanna. Þar kom fram að lögð verður m.a. áhersla á að innflutningur landbúnaðarafurða sé háður uppeldisskilirðum og dýravelferð. Ljóst er að málið er mikið hagsmunamál fyrir kúabændur á Íslandi. Barst í tal fundarmanna að ljós stefna íslenska ríkisins í landbúnaðarhluta viðræðnanna væri ekki þekkt og því ákveðið að óska eftir stefnunni.

 

Áburðarmál

Rætt var um þann slag sem nú er í gangi á milli áburðarsalanna hérlendis og um fullyrðingar sölumanna í allar áttir. Ákveðið var að beina því til Fagráðs í nautgriparækt að gerð verði könnun á áburðardreifingu og gæðum mismunandi áburðar sem er í boði hérlendis.

 

Afurðastöðvamál

Jóhannes velti upp fyrirsjáanlegum vanda komi til breytinga á verkaskiptingu á milli afurðastöðvanna. Hvað hann ákveðna hættu á að aðstæður bænda geti breyst verulega með breytingum á verkaskiptingu, sér í lagi ef til kemur innflutningur mjólkurafurða. Ákveðið var að ræða málið á sameiginlegum fundi LK og SAM eftir áramót.

 

Að lokum þakkaði formaður fundarmönnum fyrir góðan fund og sleit svo fundi.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 18.00.

Næsti stjórnarfundur: óákveðinn.

Snorri Sigurðsson