Stjórnarfundir – 10. fundur 2001/2002
31.07.2002
Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda
Tólfti fundur stjórnar LK starfsárið 2001/2002 var haldinn í Bændahöllinni miðvikudaginn 31. júlí 2002 og hófst hann klukkan 11:00. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Gunnar Sverrisson, Egill Sigurðsson, Birgir Ingþórsson, Kristín Linda Jónsdóttir og Sigurgeir Pálsson. Einnig var á fundinum boðsgestur, sem sat fundinn undir fyrsta lið dagskrár: Arinbjörn Þórarinsson, sölustjóri Kjötbankans Einnig var á fundinum Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð.
Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.
1. Endurmótaðar steikur
Arinbjörn greindi frá þróunarverkefni Kjötbankans, sem Verðskerðingarsjóður nautgripa styrkti um 500.000 kr. Verkefnið snýst um að taka verðminni hluta nautgripakjöts (gúllas), rífa og hakka og endurmóta sem steikur. Verkefnið var kynnt, aðdragandi, vöruþróun og markaðssetningaráætlun. Þegar hefur verið unnið með 5 mötuneytum og viðtökurnar mjög góðar. Í lok kynningar kom matreiðslumaður á staðinn og gaf stjórnarmönnum að prófa nautakjötið með þessum nýstárlega hætti. Mæltist þetta mjög vel fyrir hjá stjórn og er ljóst að framsetning á nautgripakjöti með þessum hætti er mjög jákvæð.
a. Tillögur stjórnar um ályktanir fyrir aðalfundinn.
Drög ályktana voru rædd ítarlega og eftir lítilsháttar breytingar var samþykkt að eftirfarandi tillögur verði sendar frá stjórn LK.
1a. Tillaga
Aðalfundur Landssambands kúabænda 2002, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst, leggur mikla áherslu á að sem fyrst verði gerður nýr samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar, með gildistöku 1.9.2005.
Greinargerð:
Núgildandi samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar var gerður í desember 1997 og gildir fyrir tímabilið frá 1.9.1998 til 31.8.2005.
Í samningnum segir:
“Að fjórum árum liðnum frá upphafi gildistíma samningsins skulu samningsaðilar kanna framkvæmd hans og í framhaldi af þeirri könnun hefja viðræður um áframhaldandi stefnumótun og gerð nýs samnings. Við þá vinnu skal m.a. lagt sérstakt mat á stöðu kvótakerfisins og hvort, hvernig og þá hvenær leggja á það niður og hvað taki þá við”.
Samkvæmt þessu ákvæði samningsins á vinna við könnun á framkvæmd samningsins að hefjast í haust og í framhaldi af þeirri könnun skal hefja vinnu við gerð nýs samnings. Nú hafa Landssamband kúabænda og Bændasamtök Íslands óskað formlega eftir því að þessu ferli verði nokkuð flýtt og að því stefnt að nýr samningur liggi fyrir á þessu ári.
Í samningi bænda við ríkisvaldið er samið um stuðning ríkisins við mjólkurframleiðsluna, tollvernd, og helst leikreglur framleiðslustýringar í greininni, en þetta eru grundvallaratriði fyrir bændur í allri ákvarðanatöku sinni og að sjálfsögðu skiptir það nautgriparæktina mjög miklu máli að hafa á hverjum tíma sem skýrasta framtíðarsýn.
Margt virðist óljóst varðandi starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar á komandi árum. Þannig ríkir veruleg óvissa um hvernig staðið verður að heildsöluverðlagning mjólkurvara eftir 30. júní 2004 og hvaða áhrif áformuð niðurfelling opinberrar verðákvörðunar hefur á stöðu mjólkuriðnaðarins gagnvart samkeppnislögum. Í því sambandi er mikilvægt að ljóst sé hvaða möguleika mjólkuriðnaðurinn hefur á verkaskiptingu sín í milli með þeirri hagræðingu sem því getur fylgt.
Þá er óvissa er um þróun WTO samninga og því óljóst um áhrif þeirra varðandi stuðning við landbúnað. Einnig fram nú fram víðtæk umræða um landbúnaðarstefnu Evrópusambandsinsins. Allt þetta eykur þá óvissu sem íslenskir mjólkurframleiðendur standa frammi fyrir þegar núgildandi samningur um starfsskilyrði rennur út.
Lögð er áhersla á að samningurinn verði framlengdur óbreyttur hvað varðar stuðning við mjólkurframleiðsluna og tollvernd. Sama gildir um leikreglur framleiðslu-stýringar, en fundurinn telur ástæðu til að skoðaðar verði eftirfarandi breytingar:
q Viðskiptahættir með greiðslumark verði teknir til endurskoðunar.
q Sveigjanleiki við verðlagsáramót verði aukinn.
q Heimilaður verði samrekstur greiðslumarkshafa þannig að hægt sé að nýta greiðslumark eins lögbýlis að hluta eða öllu leyti með framleiðslu á öðru lögbýli.
Sett verði ákvæði í samninginn um að nefnd samningsaðila geti gert breytingar innan rammans, ef um það næst full samstaða. (Samningsaðilar eru: Landbúnaðarrráðneyti, Fjármálaráðneyti, Landssamband kúabænda og Bændasamtök Íslands). Með þessu fyrirkomulagi væri óvissu kúabænda að mestu eytt og jafnframt haldið opnum þeim möguleika að gera breytingar innan rammans ef samningsaðilar verða sammála um það.
1b. Tillaga
Aðalfundur Landssambands kúabænda 2002, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst, felur stjórn að vinna áfram að stefnumörkun fyrir nautgriparæktina. Byggt verði á RANNÍS-skýrslunni, innsendum athugasemdum og þeirri vinnu sem unnin hefur verið nú þegar. Málið verði síðan tekið fyrir á næsta aðalfundi.
2. Tillaga
Aðalfundur Landssambands kúabænda 2002, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst, lýsir óánægju sinni með að ekki skuli hækkuð verð á bestu flokkum kýrkjöts og nautakjöts. Líkt og spáð var í vor er framboð nú mjög lítið og lýsir aðalfundurinn furðu sinni á því að lögmál framboðs og eftirspurnar skuli ekki gilda í viðskiptum með nautgripakjöt.
Samkeppni er vissulega hörð á kjötmarkaði en nautakjötið skipar vissan sess og er neysla þess mjög stöðug og svipuð síðustu 10 til 12 ár þrátt fyrir samkeppni við aðrar greinar. Nú um allnokkurt skeið hefur skilaverð til bænda ekki staðið undir framleiðslukostnaði. Fundurinn krefst þess að sláturleyfishafar endurskoði verð til bænda og jafnframt er óskað liðsinnis landbúnaðarráðuneytisins til að tryggja framleiðsluöryggi greinarinnar.
3. Tillaga
Aðalfundur Landssambands kúabænda 2002, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst, leggur mikla áherslu á að jafnan sé tiltæk viðbragðsáætlun um hvað gera skuli ef grunur kemur upp um smitsjúkdóma í búfé, eða ef alvarlegur smitandi sjúkdómur er staðfestur. Slík viðbragðsáætlun þarf að taka til allra þátta málsins s.s. viðkomandi bónda, opinberra aðila, afurðastöðva og þjónustuaðila.
4. Tillaga
Aðalfundur Landssambands kúabænda 2002, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst, telur aðild Íslands að Evrópusambandinu ekki koma til greina, hvorki af viðskiptalegum ástæðum eða menningarlegum.
5. Tillaga
Aðalfundur Landssambands kúabænda 2002, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst, telur nauðsynlegt að endurskoða lög og starfsreglur Lánasjóðs landbúnaðarins. Taka þarf í meira mæli mið af þeim miklu breytingum sem eru að verða á því rekstrarformi í landbúnaðnum. Þá telur fundurinn óeðlilegt að Lánasjóður landbúnaðarins sé skyldaður til að krefjast 1. veðréttar í eignum sem veðsettar eru vegna óniðurgreiddra lánveitinga
6. Tillaga
Aðalfundur Landssambands kúabænda 2002, haldinn að Laugum í Sælingsdal 20.-21. ágúst, ákveður að aðalfundur næsta árs verði haldinn fyrir lok apríl 2003. Stefna skal jafnframt að því að halda árshátíð kúabænda í beinu framhaldi af fundinum.
3. Ársreikningur LK
Framkvæmdastjóri kynnti sundurliðaðan kostnað LK við stjórn og framkvæmdastjóra og að því loknu voru reikningar afgreiddir og verða sendir til skoðunar hjá skoðunarmönnum LK.
4. Beiðni um mjólkursamning
Formaður kynnti bréf sem hann og formaður BÍ hafi undirritað og sent til ráðherra þess efnis að farið verði af stað með vinnu við nýjan mjólkursamning.
5. Málefni nautakjöts
Framkvæmdastjóri kynnti tölur um slátrun og framleiðslu á nautgripakjöti í júní sl. Þá kynnti hann helstu tölfræði úr upplýsingum um slátrun sl. 12 mánuði.
Þá kynnti Kristín Linda viðræður hennar og aðstandenda Heilsudags Hreyfingar um hugsanlega aðkomu nautakjötsins að þeim degi. Ákveðið var að vinna að því máli.
Rætt var um viðræður LK við ráðuneytið um hugsanlega styrki til bænda í framleiðslu á nautakjöti. Ljóst er að ákvörðun um þetta mál verður vart tekin fyrr en á haustdögum, en einnig að ef til alvarlegra viðræðna komi á milli LK og ráðuneytisins þá verði nautakjötsbændur kallaðir saman til viðræðna og undirbúningsstarfs.
6. Verðlagsmál mjólkur
Formaður greindi frá stöðu mála en nýr formaður er kominn í nefndina, Ólafur Friðriksson deildarstjóri landbúnaðarráðuneytis.
7. Innsend erindi og bréf
Engin erindi eða bréf bárust skrifstofu LK fyrir fundinn.
8. Til kynningar
Ársskýrsla Lánasjóðs landbúnaðarins
Skýrsla Matra um einfalda leið til að auka meyrni íslensks nautakjöts
9. Önnur mál
a. Mjólkurframleiðsla á ríkisjörðum
Rætt var um stöðu mjólkurframleiðslunnar í landinu og vöknuðu við það spurningar um hve margar ríkisjarðir eru í mjólkurframleiðslu og hve mikil framleiðsla sé á þessum jörðum. Ákveðið var að óska upplýsinga um stöðu þessara mála fyrir næsta stjórnarfund.
b. Réttindi einstaklinga
Rætt var ítarlega um stöðu Lánasjóðsins og úthlutunarreglur, sérstaklega réttindi einstaklinga annars vegar og sambúðar- og hjónafólks hins vegar. Ákveðið var að auk tillögu að ályktun fyrir aðalfund, þá skuli framkvæmdastjóri senda stjórnarmönnum fyrirliggjandi upplýsingar um réttindi fólks með hliðsjón af hjúskaparstöðu samkvæmt stjórnsýslulögum.
c. Drög að ályktunum
Auk þeirra tillagna stjórnar sem getið er um í lið 1 var rætt um að undirbúa ályktanir um eftirlit með verðskrá dýralækna, verðlagsmál og um takmarkaða þjónustu BÍ í nautgriparækt.
d. Prótein í nautakjöti
Fjallað var um hollustu kjöts og þá staðreynd að nautakjöt er próteinríkara en annað kjöt. Ákveðið var að óska eftir nánari upplýsingum um samanburð á kjöttegundum.
e. Frárennslismál
Egill vakti athygli á því að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga bera ábyrgð á eftirliti með frárennslismálum, gæðum neysluvatns og sorphreinsun í sveitarfélögunum. Samþykkt var að fela framkvæmdastjóra að senda Sambandi Íslenskra Sveitarfélaga erindi um málið frá stjórn LK.
Fleira ekki bókað.
Næsti stjórnarfundur: 19. ágúst 2002.
Snorri Sigurðsson