Stjórnarfundir – 9. fundur 2001/2002
04.06.2002
Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda
Níundi fundur stjórnar LK starfsárið 2001/2002 var haldinn í Bændahöllinni þriðjudaginn 4. júní 2002 og hófst hann klukkan 11:00. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Gunnar Sverrisson, Egill Sigurðsson, Birgir Ingþórsson, Kristín Linda Jónsdóttir og Sigurgeir Pálsson. Einnig voru á fundinum boðsgestir, sem sátu fundinn undir fyrsta lið dagskrár: Þórarinn Leifsson (á vegum LK), Magnús H. Sigurðsson (á vegum SAM), Pálmi Vilhjálmsson (á vegum SAM), Erna Bjarnadóttir (á vegum BÍ), Ari Teitsson (á vegum BÍ) og Eggert Magnússon (á vegum BÍ). Einnig var á fundinum Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð.
Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.
1. Mjólkursamningurinn, staða og stefna
Formaður greindi frá stöðu mála og fór yfir helstu atriði sem huga þarf að í komandi viðræðum við ríkið, sem og velti hann upp hvaða atriði þarf að huga að í undirbúningi viðræðna.
Í gildandi mjólkursamningi segir:
9.2. Að fjórum árum liðnum frá upphafi gildistíma samningsins skulu samningsaðilar kanna framkvæmd hans og í framhaldi af þeirri könnun hefja viðræður um áframhaldandi stefnumótun og gerð nýs samnings. Við þá vinnu skal m.a. lagt sérstakt mat á stöðu kvótakerfisins og hvort, hvernig og þá hvenær leggja á það niður og hvað taki þá við.
Því er ljóst að viðræður um stöðu og stefnumótun eiga samkvæmt ákvæðum samningsins að hefjast í haust. Það hefur verið rætt hvort rétt væri að flýta þeirri vinnu en fátt bendir til að svo muni verða.
Markmiðum í gildandi samningi eru:
Að skapa rekstrarumhverfi í framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða sem leiði af sér
aukna hagkvæmni.
Að bæta afkomumöguleika í mjólkurframleiðslu svo að nauðsynleg nýliðun verði og eðlileg endurnýjun fjárfestinga geti orðið.
Að nýta á sem bestan hátt skilyrði til framleiðslu mjólkur fyrir markað innan lands og aðra þá markaði sem teljast hagkvæmir og viðhalda þeim stöðugleika sem náðst hefur milli framleiðslu og eftirspurnar.
Úr umræðum:
Ara taldi stöðuna þannig að ólíklegt væri að aðilar vinnumarkaðarins hafi hug á að koma að komandi viðræðum. Þá velti hann því upp að innan ESB séu hugmyndir um að hætta með greiðslumark í mjólkurframleiðslu, en ákvörðun um hvort af því verður á að taka nú í sumar. Hann velti því fyrir sér hvort íslendingar séu á réttri braut með því að halda í kvótakerfið, þegar nágrannaþjóðirnar séu hugsanlega að hverfa frá slíku kerfi.
Snorri benti á að ástæður þess að til greina komi að fella niður kvótakerfið í ESB væri sú staðreynd að mjólk og mjólkurvörur flæða þar á milli landa í opnum viðskiptum. Þar væru því bændur í samkeppni hverjir við aðra og því um algjörlega ósambærilegar aðstæður að ræða. Því til viðbótar væri veruleg andstaða innan helstu landbúnaðarlanda við niðurfellingu á kvóta, svo að alls óvíst væri hvort af þessum áformum yrði.
Pálmi lagði áherslu á að fulltrúar bænda og afurðastöðva vinni saman grunnvinnu og setji upp markmiðin, en benti einnig á að afurðastöðvarnar hafi ekki lagalega samningsstöðu gagnvart búvörusamninginum. Jafnframt benti hann á að hvernig sem staðið er að samningagerð þá verði mjög erfitt að klippa á samhengið á milli stuðnings til greinarinnar og verðlagningu til neytenda.
Magnús velti upp hugsanlegri aðkomu SAM að nýjum búvörusamningi. Tók undir orð Pálma um mikilvægi undirbúnings og samvinnu. Magnús gat þess að þegar hafi aðilar hitt landbúnaðar- og utanríkisráðherra og þar voru rædd ýmis málefni iðnaðarins og framtíðarsýn. Þá er fyrirhugaður fundur með fjármála- og landbúnaðarráðherrum, til að ræða þar sameiginlega sömu þætti.
Formaður velti upp hugmyndum að hugsanlegum áherslum í mjólkursamningi 2005 – 2012:
- Að viðhalda festu og rekstraröryggi í framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða, m.a. með því að halda möguleikum á verkaskiptingu og verðtilfærslu innan mjólkuriðnaðarins, og viðhalda vöruþróun og gæðum mjólkurvara.
- Að viðhalda afkomumöguleikum í mjólkurframleiðslu svo að nauðsynleg nýliðun verði og eðlileg endurnýjun fjárfestinga geti orðið.
- Að búgreinin hefur getað þróast eðlilega eftir þörfum og áhuga þeirra sem greininni stunda á hverjum tíma. Til að svo megi verða þarf stuðningur ríkisins að vera hlutlaus gagnvart bústærð og staðsetningu bús, eins og nú er. Þannig standa allir kúabændur jafnir gagnvart stuðningnum.
- Að nýta á sem bestan hátt skilyrði til framleiðslu mjólkur fyrir markað innanlands og aðra þá markaði sem teljast hagkvæmir, og viðhalda þeim stöðugleika sem náðst hefur milli framleiðslu og eftirspurnar.
- Stöðugleiki verður best tryggður með því að viðhalda núverandi greiðslumarkskerfi í mjólkurframleiðslunni. Jafnframt verður þannig best dregið úr óvissu og stuðlað að frekara framhaldi þeirrar hagræðingar sem orðið hefur í greininni.
- Í ljósi fenginnar reynslu af núgildandi samningi, verði lögð sérstök áhersla á að finna leiðir til að lækka verð á greiðslumarki í viðskiptum milli bænda.
Ari taldi að auðvelt væri að ná samkomulagi um fyrsta lið, þó með fyrir vara um álit frá samkeppnisyfirvöldum. Hvað snertir annan lið hvað hann áhöld um leiðir og taldi ekki nauðsynlegt að samninganefndin væri endilega sammála um alla liði fyrirfram. Þriðja lið taldi hann góðan, en staðan væri einfaldlega þannig í dag að kúabændur væru ekki jafnir gagnvart stuðninginum og þannig væru t.d. bændur á Vestfjörðum með verulega hærri framleiðslukostnað mjólkurinnar en t.d. á Suðurlandi. Ari taldi að ef stefnan væri sett á þennan póst (lið 3) þá væri ljóst að framleiðslan muni þróast til færri búa og stærri, á tiltölulega afmarkaðra landsvæða. Ari velti ennfremur upp hvort rétt væri að halda stuðningsforminu við framleiðsluna með beinum hætti og gat þess að sennilega væri hvergi í heiminum jafn hátt hlutfall styrkja sett á framleiðsluna.
Formaður sagði mikilvægt að gera sér grein fyrir því að í dag standi allir bændur jafnir gagnvart stuðningi, en stuðningurinn upphefji hinsvegar ekki breytileika í framleiðslukostnaði sem eðlilega er breytilegur eftir aðstæðum kúabænda. Þannig standi allir bændur jafnir gagnvart stuðninginum, en ekki gagnvart afkomumöguleikunum.
Kristín Linda fór yfir framsetta tillögu formanns um hugmyndir að mjólkursamningi og tók hún undir þær áherslur sem þar koma fram, en lagði til áherslu- og orðalagsbreytingar. Sérstaklega varðandi grein 2. en þar taldi hún að tryggja þyrfti afkomumöguleika í mjólkurframleiðslu þannig að viðhald, uppbygging og fjárfestingar í gætu orðið með eðlilegum hætti og afkoman tryggð þannig að greinin yrði samkeppnishæf um fólk, fjármuni og land. Hún lýsti sig andvíga því að fjalla í þessu samabandi um nýliðun fremur um afkomu þeirra sem greina stunda hverju sinni og uppbyggingu og framþróun og samkeppnishæfni atvinnugreinarinnar.. Hvað hún mikilvægt að ekki verði horft til staðsetningar búa við ákvörðun um stuðning, enda brýnt að halda jafnræði í styrkjaúthlutunum á milli bænda og benti jafnfram á að stuðningurinn væri til að tryggja neytendum íslenska mjólk en ekki að viðhalda ákveðnum fjölda fjölskyldna í dreifbýli. Þá velti hún því upp hvort hugsanlegt væri að skipta upp greiðslunum í annarsvegar stuðning við mjólkurframleiðsluna og hinsvegar að færa hluta að stuðninginum á einskonar framleiðslueiningar lands ef sú leið yrði ekki fær að binda stuðningin eingöngu áfram við framleiðslu.
Birgir lagði áherslu á að menn gangi til viðræðna með opinn hug og festi sig ekki í fortíðinni. Taldi núverandi kerfi hafa reynst ágætlega en engu að síður ljóst að greinin er í dag ekki samkeppnishæf þegar kemur að því að endurnýja þarf rekstrartækni, og vegur þar þyngst verðið á greiðslumarkinu. Hann gat þess einnig að í dag hafi fjölmargir bændur fjárfest í breytingum og greiðslumarki og náð þannig verulegri vinnuhagræðingu innan búsins, en afleiðingin er oft sú að annar aðili búsins fer að vinna utan bús, jafnvel til að greiða niður áðurnefnda vinnuhagræðingu. Þá varaði hann við því að tengja málefni Byggðastofnunar inn í fyrirhugaða samningagerð.
Egill lagði áherslu á að samningahópur bændanna sé samstilltur og var ekki sammála Ara með að fulltrúar bænda þurfi ekki endilega að fara til viðræðna sem ein heild og lagði áherslu á að bændurnir (fulltrúarnir í nefndinni) standi saman að samningi við ríkið og tók undir orð Pálma um mikilvægi undirbúnings. Þá gat hann þess að hann hafi farið fram á það innan stjórnar BSSL að gerð yrði könnun á stöðu nýliðunar kúabænda á Suðurlandi og niðurstaðan væri sú að 30% kúabúa sl. 10 ár hafi farið til nýliðunar. Það sé mjög ásættanlegt. Jafnframt tók hann undir orð formanns um mikilvægi þess að gæta jafnræðis í stuðninginum og tók sem dæmi að þrátt fyrir hærri framleiðslukostnað á ákveðnum stöðum, þá sé oft landverð verulega hærra á stöðum sem standa nær þéttbýli. Af þessum sökum þurfi að huga að heildarmyndinni við fjárbindingu á kúabúum, en ekki eingöngu horfa til takmarkaðra þátta.
Magnús velti upp vangaveltum um hvort halda eigi stuðningforminu óbreyttu eða setja í nýtt form. Hvað hann þetta geta verið mikilvægan þáttur, sérstaklega ef beingreiðslur eru orðnar háar á hvern einstakan framleiðanda og að erfitt geti orðið að verja slíkan stuðning t.d. gagnvart Alþingi. Magnús lagði áherslu á að að farið verði í samningagerð með það í huga að kúabændurnir standi jafnir gagnvart stuðninginum. Hvað hann stækkunaráform kúabænda vera hvergi nærri stoppuð og ljóst að fleiri og fleiri bændur horfi til stækkunar upp í um 300 þúsund lítra framleiðslu og taldi afar hæpið að ætla stuðningi við mjólkurframleiðslu að stýra hvar á landinu mjólkurframleiðslan fari fram.
Pálmi ræddi um hugsanlega breytingu á stuðningsforminu og taldi ekki ástæðu til að hrófla við núverandi kerfi nema ef til komi kvaðir annarsstaðar frá s.s. vegna WTO eða slíkra samninga. Ekki væri ástæða til að horfa á breytingar á núverandi kerfi án slíkra utanaðkomandi aðstæðna. Hvað hann að ýmsar ytri aðstæður hafi framkallað hærri framleiðslukostnað á ákveðnum landssvæðum s.s. hærri flutningskostnaður. Taldi hann að ef pólitískur vilji standi til þess að rétta hlut þessara bænda þá eigi það að vera hægt án þess að snerta það greiðslumarkskerfi sem notað er í dag.
Þegar þarna var komið við sögu fóru Magnús og Pálmi af fundi.
Gunnar lagði áherslu á að skipuleggja þurfi vel grunninn og hvort leggja eigi til að aðilar vinnumarkaðarins eigi að koma að samningagerðinni.
Erna minnti á að eins og staðan er í dag er stuðningur við mjólkurframleiðsluna á Íslandi við hámörk leyfilegs stuðnings gagnvart gildandi alþjóða samningum.
Eggert velti fyrir sér öðrum leiðum fyrir stuðning. Greiðslur út á gripi væri dýrt form, eftirlitslega séð og því slæmt form á stuðningi. Hann tók jafnframt undir þá skoðun fleiri fundarmanna að allir kúabændur eigi að vera jafnir gagnvart stuðninginum. Stóra málið væri að lækka fjárbindingu í greiðslumarki og að finna leiðir til að lækka verð á greiðslumarki. Þá tók hann undir orð Pálma um að samstarf við afurðastöðvar og að undirbúa þurfi vel málið áður en lagt er af stað.
Þórarinn taldi ekki að gripastuðningur væri form sem væri virkt og nefndi dæmi frá Noregi þar sem bændur fylltu fjós sín af gripum sem jafnvel standa afurðalausir. Ennfremur væru ræktunarstyrkir erfiðir í framkvæmd og því væri núverandi kerfi gott og ætti að stuðla að óbreyttu kerfi, en gallinn væri hinsvegar að miklar greiðslur til einstakra búa geta spillt ímyndinni, jafnvel þrátt fyrir að á slíkum búum hafi margar fjölskyldur sitt viðurværi.
Kristín Linda hvað ákjósanlegast að fá stuðning beint á framleiðsluna, en hinsvegar væri ljóst að ef leið A – yrði ekki fær yrði leið B að vera tilbúin að hálfu trúnaðarmanna kúabænda og hugsanlega yrði ekki hægt að viðhalda núerandi kerfi vegna utan að komandi aðstæðna. Þá gat hún þess að í fyrri framsögu sinni átti hún ekki við hefðbundna ræktunarstyrki heldur að horft verði til annarra þátta svo sem sleginna túna, eða annarra slíkra leiða sem hvetja til aukinnar nýtingar á gæði landsins og síður til notkunar á innfluttu kjarnfóðri.
Egill nefndi í þessu sambandi að í ljósi nýs samnings um stuðning við garðyrkjuna fari háar greiðslur til einstakra framleiðenda, en ekki hafi verið sett út á það enn á meðal neytenda og virtist sem sátt væri um það kerfi.
Snorri tók undir þetta og benti á að svo virtist sem engum neytendum dyldist að styrkur til garðyrkjunnar væri til þess ætlaður að greiða niður verð á grænmeti. Svo væri auðvitað einnig með styrk til mjólkurframleiðslu, en neytendur væru ekki lengur eins meðvitaðir um tilgang styrkjanna eins og þeir eru með nýja styrki til garðyrkjunnar.
Birgir hvað hættu á því að ef breyta á stuðningsforminu þá gæti verið í því fólginn aukinn kostnaður við eftirlit ofl. þ.h. Leggja þurfi áherslu á að við samningagerð verði horft til þess að sambærileg kjör og vinnutími í samkeppni um starfsfólk náist.
Formaður taldi áhyggjur af greiðslum til einstakra búa vera of miklar og að ljóst væri að ef stuðningsformi væri breytt, þá myndu fjölmiðlar auðvitað finna út hvað hver er að fá – ef áhugi er til staðar á annað borð að finna slíkt út. Þá benti hann á að lögmál um framboð og eftirspurn virðist ekki gilda um kaup á greiðslumarki. Taldi hann skýringu á þessu geta m.a. legið í því að sumar afurðastöðvar kaupa inn greiðslumark og haldi því úr framleiðslu þar til kaupandi finnist. Þarna sé greiðslumarkið því geymt þar til kaupandi finnst að greiðslumarki á háu verði í stað þess að verðið falli í takt við eftirspurn. Ljóst væri að eins og staðan er í dag ætti kvótaverð að vera um 175 kr/kg ef ekki er litið til skattalegs hagræðis. Í dag er kvótaverðið því um 30 kr/kg hærra en raunhæft er. Þá væri ekki síður áhyggjuefni í dag að á meðan kvótinn liggur í afurðastöð og er ekki nýttur, er eðlilega ekki framleidd mjólk út á hann sem einmitt nú er brýn þörf á.
Þórarinn tók undir þetta og gat þess að aldrei hefur komið í raun umframframboð á greiðslumarki, þar sem afurðastöðvarnar hafa alltaf keypt upp greiðslumarkið til að taka af “kúfinn”. Þetta sé líkt og þegar ríkið hélt gengi á krónunni í skefjum með því að kaupa krónur.
Erna tók undir að markaðurinn er í raun mjög ófullkominn og ljóst að afurðastöðvarnar eru að trufla verðmyndun á greiðslumarki.
Sigurgeir tók undir þetta og benti jafnframt á að mikilvægt væri að koma böndum á viðskiptin með greiðslumark.
Birgir velti því fyrir sér hvort hægt væri að nota eftirlitskerfið hjá BÍ til að koma í veg fyrir að kvóti liggi hjá bændum sem ekki eru að framleiða mjólk en væntanlega búnir að selja til afurðastöðvar.
Ari lagði áherslu á að menn leggi fyrir sig hver grunnurinn er að stuðningi ríkisins, en ljóst er að stuðningurinn er niðurgreiðsla á matvöruverði til neytenda. Hinsvegar væri ljóst að stuðningurinn væri auðvitað líka stuðningur við byggð. Ennfremur benti hann á að núverandi samningur væri í raun ekki fullkláraður, þar sem hið frjálsa framsal væri í raun mál sem nefnd (samkvæmt samninginum) væri ekki búin að fjalla um til hlýtar. Þá velti hann fyrir sér hvort stærðarhagkvæmni væri ekki að skila sér í íslenskri mjólkurframleiðslu.
Formaður taldi eðlilegt að stefna óbreyttum samningi áfram, en gat þess að ef ekki verður farið í samningaviðræður mjög fljótlega og þær kláraðar næsta haust, þá sé ólíklegt að gengið verði frá samningi fyrr en í fyrsta lagi í árslok 2003 vegna kosninga og myndun nýrrar stjórnar í kjölfar þeirra.
Snorri tók undir þetta og hvað allar líkur á því að ef ekki verði búið að ganga frá framlengingu á þessum samningi fyrir nóvemberlok, þá væru litlar líkur á því að samið verði fyrr en í byrjun vetrar 2003. Þá benti hann á að í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum sl. haust hafi orðið ákveðin stefnubreyting hjá bandaríkjamönnum og er þarlendis í dag búið að stórauka styrki til landbúnaðar til að tryggja fæðuöryggi. Þar með gætu viðræður innan WTO þróast í aðra átt en menn gerðu ráð fyrir fyrir tveimur árum og því væri mikilvægt fyrir okkur að fylgjast vel með þróuninni erlendis og miða við nútímann í því sambandi.
Kristín Linda hvað stærðarhagkvæmni illa getað skilað sér í lægra verði pr. líter á meðan bændur eru að byggja upp og tók dæmi um uppbyggingu á verslun í sama samhengi. Þá benti hún á mikilvægi þess að senda rétt skilaboð út til bænda, þar sem í dag væru þegar bændur sem bíða eftir því að fá að vita hvað takið við eftir árið 2005, t.d. gagnvart byggingu á nýjum fjósum.
Eggert tók undir orð fundarmanna að ljóst er að markaðslögmál gilda ekki í dag í viðskiptum með greiðslumark.
Erna tók undir að orð Snorra um að búast megi að áherslan í næstu WTO viðræðum verði á afnám útflutningsbóta og aukinn markaðsaðgang. Í dag er heimild upp í 5% aðgengi en í dag er í raun einungis 1% virkt og því ljóst að þó ekki væri annað gert en að fylla þau 5% sem heimildir eru fyrir í dag, þá yrði það mikill sigur fyrir þau lönd sem berjast fyrir frjálsum viðskiptum á milli landa.
Sigurgeir tók undir vonir manna um að hægt verði að framlengja núverandi samning, en taldi ekki miklar líkur á því. Þá taldi hann hugsanlegt að horft verði til bústærðar í komandi samningum en benti á að margar fjölskyldur eða jafnvel hlutafélög standi að baki mjólkurframleiðslunni á einum bæ.
Egill lagði áherslu á að þegar farið verður af stað í samningaviðræður þá fari menn út í þær viðræður af hug og ákveðni og brýnt að samninganefndin leggi upp sókn en ekki vörn. Samheldinn hópur með skýrar áherslur og skýr markmið séu bestu leiðirnar til að leggja upp í samningaviðræður.
Gunnar mat það svo að fá þarf skýrt fram frá ríkinu hvort ástæða er til að fara út í þessa undirbúningsvinnu eða ekki. Það liggi í augum uppi að þegar kosningar eru í námd þá komi tómarúm í alla samningagerð og því mikilvægt að hraða hlutum eftir því sem kostur er.
Formaður tók undir orð Gunnars og hvað mikilvægt að ná viðsemjendum að borðinu og að hraða þurfi því ferli, enda ljóst að óvissan geti farið að vera áhrifavaldur varðandi ákvarðanir kúabænda strax í byrjun árs 2003.
2. Ársreikningar LK fyrir árið 2001
Framkvæmdastjóri kynnti drög að ársreikningi LK fyrir árið 2001 og útskýrði tekju- og kostnaðarliði. Fundarmenn ræddu ítarlega ársreikninginn og var ákveðið að sundurliða betur einstaka liði, s.s. stjórnunarkostnað og senda stjórn þannig aftur. Kristín Linda fór fram á að framvegis yrði það sett sem vinnuregla hjá LK að drög að ársreikningum bærust stjórn í hendur eigi síðar en í lok mars þannig að hægt væri að afgreiða ársreikinga um mánaðrmót mars, apríl og nýta upplýsingarnar strax til stefnumörkunar í vinnu LK. Tillaga hennar var samþykkt. Þá var, í ljósi minni tekna í ár, ákveðið að láta fara fram milliuppgjör reikninga þegar júní er liðinn.
3. Undirbúningur aðalfundar LK
Rætt var um hugsanleg erindi fyrir fundinn og var framkvæmdastjóra falið að bjóða þremur fyrirlesurum að koma á fundinn.
Fundarmenn ræddu um hugsanlegar ályktanir og var ákveðið að ganga frá þeim á næsta fundi stjórnarinnar.
Rætt var um að flytja fundinn á fyrri hluta ársins. vegna breytinga á félagslegu umhverfi, s.s. skólabyrjun. Ennfremur í sparnaðarskyni að flytja fundinn til Reykjavíkur og tengja hugsanlega við árshátíð. Ákveðið að taka þetta upp á aðalfundinum.
Heiðursverðlaun, rætt um hverjum eigi að veita viðurkenningu LK og var ákveðið að veita þau tveimur til þremur aðilum.
4. Goða-málið
Formaður kynnti endanlega niðurstöðu um opinbera rannsókn á fjármálum Goða hf. Ríkislögreglustjóri hafði hafnað beiðninni og því verið áfrýjað til ríkissaksóknara sem svo fyrir nokkrum dögum hafnaði einnig beiðninni, þannig að málið er þar með fallið niður.
5. Tilnefning í verðlagsnefnd
Í dag liggur ekki fyrir ósk um tilnefningu í verðlagsnefnd, en væntingar til þess að slík ósk komi fram fyrir næsta stjórnarfund. Ákveðið var að tilnefna Þórólf Sveinsson, formann LK, sem fulltrúa LK í nefndina.
6. Greiðslumark næsta árs
Formaður kynnti niðurstöðu fundar Framkvæmdanefndar búvörusamninga frá því fyrr í morgun og var niðurstaða fundarins að auka greiðslumarkið í 106 milljónir lítra (hækkun um 1,91%). Því er spáð að markaðurinn þurfi prótein úr 109 milljónum lítra næsta verðlagsár.
7. Innsend erindi og bréf
a. Frá Kjötframleiðendum ehf.
Formaður kynnti erindi frá stjórnarformanni og framkvæmdastjóra Kjötframleiðenda ehf. um áhuga starfsmanna á kaupum á auknum hlut í fyrirtækinu. Um tvær leiðir er að ræða; auka hlutafé eða með því að LK selji hluta af sínu hlutafé til starfsmannanna og reyndar einnig félags kúabænda. Ekki liggur endanlega fyrir mat á gengi félagsins og voru einnig uppi vangaveltur um stjórnarkjör í ljós hugsanlegra breytinga á stjórn.
Samþykkt var að bjóða hlut LK til sölu og var framkvæmdastjóra falið að senda tilvonandi kaupendum bréf.
8. Til kynningar
a. Ályktun frá Búnaðarsamtökum Vesturlands
Lögð var fram ályktun frá Búnaðarsamtökum Vesturlands, þar sem lagt er til að stjórn LK beiti sér fyrir breyttri ráðstöfun á framleiðslurétti í mjólk sem losnar á ríkisjörðum, jafnvel með þarfir frumbýlinga í huga.
b. Ályktun frá Félagi kúabænda í Skagafirði
Lögð fram ályktun frá aðalfundi Félags kúabænda í Skagafirði, þar sem lagt er til að LK og BÍ hefji sem fyrst viðræður við ríkisvaldið um framlengingu núverandi búvörusamnings í mjólk til að tryggja stöðuleika greinarinnar næstu árin.
13. Önnur mál
a. Verð á kjarnfóðri
Í ljósi verðs á kjarnfóðri hérlendis, var ákveðið að óska eftir því að fá skýringar á þróun kjarnfóðurverðs þrátt fyrir gengisbreytingar. Ennfremur að fá svör frá formönnum aðildarfélaga um kjarnfóðurverð sem þeir eru að fá og kjör.
b. Ræktunarhópur Fagráðs
Egill gerði grein fyrir vinnu í ræktunarhóp Fagráðs, en rætt hefur verið um að taka inn eiginleikann endingu og verður send tillaga þess efnis til Fagráðs á næstunni.
c. Birting niðurstaðna kjötsölu á vegum BÍ
Í ljósi mikilla sveiflna á tölum á milli mánaða, bæði með nautgripakjöt og kindakjöt var samþykkt að beina þeirri tillögu til BÍ að hætta að birta mánaðarlegar tölur og birta þess í stað þriggja mánaða- og 12 mánaðauppgjör.
Fleira ekki bókað.
Næsti stjórnarfundur: 31. júlí 2002.
Snorri Sigurðsson