Stjórnarfundir – 7. fundur 2001/2002
05.02.2002
Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda
Sjöundi fundur stjórnar LK starfsárið 2001/2002 var haldinn í fundarsal MS þriðjudaginn 5. febrúar 2002 og hófst hann klukkan 11:00. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Gunnar Sverrisson, Egill Sigurðsson, Birgir Ingþórsson, Kristín Linda Jónsdóttir og Sigurgeir Pálsson. Einnig voru á fundinum fagráðsfulltrúar LK; Sigurður Loftssonar og Þórarinn Leifsson (í síma), sem og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð.
Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.
1. Stefnumótun fyrir nautgriparæktina
Fyrir fundinn voru öllum fundarmönnum send þau drög að stefnumótun sem unnin hefur verið síðan á síðasta fundi og kynnti formaður lauslega stöðu verkefnisins. Rætt var um með hvaða hætti væri ráðlegast að setja efnið fram, en fyrirkomulagið sem komið er nú er þannig að vitnað er í Rannís-skýrsluna á annari síðu opnu og svo mat og túlkun á hinni síðu opnunar. Fundarmenn voru ánægðir með þessa framsetningu og töldu hana skýra.
Markaður fyrir mjólk og mjólkurafurðir
Töluverðar umræður urðu um markaðsmál mjólkur og framtíðarsýn í tengslum við það. Sérstaklega rætt um að tengja mjólkuriðnaðinn við kynbótastarfið sem beinum hætti. Fram kom að mjólkuriðnaðurinn spáir fyrir um prótein og fitusölu og fundarmenn veltu fyrir sér hvort ekki mætti tengja kynbótastarfið við spáhlutfall sem iðnaðurinn setur fram.
Samkeppni frá innflutningi
Rætt var um forsendur þess að setja fram áætlun eða stefnu um innflutning, þegar slíkt atriði ræðst af mestu af alþjóðasamningum og stefnu ríkisstjórnar.
Útflutningur
Málið rætt og lögð áhersla á að hugað sé að möguleikum íslenskra mjólkurvara á erlendri grundu.
Mjólkuriðnaðurinn
Ljóst að ytra umhverfi iðnaðarins, s.s. samningar við ríkisvaldið, eru undirstöðuatriði um framtíðarþróun iðnaðarins. Mikilvægt er í þessu samhengi að samningar við ríkið þurfa að vera til langs tíma til að tryggja stöðugleika.
Eignarhald, rekstrarform og fjármögnun í nautgriparækt
Fjallað var um eignarhaldið og hvaða form á eignarhaldi skuli stefnt að. Fram kom að fjölmargar leiðir eru færar og í framtíðinni muni verða breytilegra eignarform á kúabúskap en er í dag.
Breytingar á ytra umhverfi mjólkurframleiðslunnar og opinberra aðgerða
Miklar umræður urðu um málið og kom m.a. fram að samtök bænda mættu ekki mismuna félagsmönnum sínum eftir búsetu. Fundarmenn voru sammála um að leggja beri áherslu á að skilja á milli umræðna um byggðamál og mjólkurframleiðslu. Byggðamálefni lúti að ýmsum öðrum þáttum en mjólkurframleiðslu, s.s. barnabóta, samgangna, skólamála, flutningskostnaðar ofl.
Þá var rætt um hugsanlegt framhald mjólkurframleiðsluumhverfisins og var það mat fundarmanna að hugsanlega þurfi þegar á næsta ári að framlengja núgildandi samning óbreyttan í nokkur ár, t.d. til 5 ára. Þetta kunni að verða nauðsynlegt m.a. í ljósi þess að á næsta ári fari óvissa um framhaldið að verða til óþæginda fyrir kúabændur, mjólkuriðnaðinn og fleiri er málið varðar, og að vegna ástandsins í alþjóðamálum muni WTO II ekki kominn í þann farveg að sá samningur muni móta komandi samning í íslenskri mjólkurframleiðslu.
Innra umhverfi mjólkurframleiðslunnar
Fundarmenn ræddu um ýmsa þá þætti er lúta innra umhverfi búsins og þarna þyrfti m.a. að setja markmið sem hægt væri að mæla með beinum eða óbeinum hætti. Setja mætti upp áætlun um árangur, s.s. með skilgreiningu á endurmenntun ofl.
Markaður fyrir nautgripakjöt og –afurðir
Fjallað var um stöðu og horfur og rætt um hvort bæta megi gæði kjöts á markaði með markvissari upplýsingum til bændanna um uppruna og eldi á gripunum.
Rannsóknir og ráðgjafastarfsemi
Fram kom undir þessum lið að leggja þurfi aukna áherslu á hagrannsóknir auk þeirra atriða sem getið var í drögum stefnumótunarinnar. Hvort rannsóknir væru stundar á einum stað eða öðrum væri ekki aðalatriðið, heldur afurðir rannsóknanna og miðlun þeirra til bænda. Þá var rætt um möguleika Íslendinga á því að sækja þekkingu erlendis og heimfæra á hérlenda grund án mikils kostnaðar. Þá var rætt um hina eiginlega ráðgjafastarfsemi og ljóst að margir ofangreindir kaflar tengjast því málefni. Ennfremur rætt um þýðingu afurðastöðva mjólkur í ráðgjöf, s.s. ráðgjöf sem lýtur að mjólkurgæðum og júgurheilbrigði.
Kröfur til fræðslu
Rætt var um drögin sem fyrir lágu og fundarmenn nokkuð sammála um tillögu formanns um útfærslu á þessum drögum.
Félagskerfi kúabænda
Fundarmenn voru sammála að þau drög og sú hugsun sem fram kemur í drögunum, sé góð.
2. Formannafundur LK
Ákveðið var að halda formannafund LK miðvikudaginn 27. febrúar kl. 11. Staður ákveðinn síðar. Ennfremur verði boðaðir á fundinn búnaðarþingsfulltrúar LK.
3. Vinna í Endurskoðunarnefnd BÍ
Formaður greindi frá stöðu vinnu nefndarinnar. Þar er að nást samstaða um framtíðarstefnu fyrir BÍ og næstu skref að útfæra betur vinnu nefndarinnar. Þá hefur verið rætt innan nefndarinnar um ýmis önnur mál sem væntanlega munu skýrast á næsta og síðasta fundi nefndarinnar fyrir Búnaðarþing.
4. Búnaðarþing 2002
Tillögum fyrir búnaðarþing 2002 var dreift meðal fundarmanna og lagðar fram til kynningar.
5. Önnur mál
Verðlagsáramót
Rætt var um sveigjanleika um verðlagsáramót við innvigtun mjólkur og var rædd sú hugmynd um að flytja mætti yfir verðlagsáramótin 7 daga fram og til baka. Samþykkt var að gera það að tillögu stjórnar um að 7 daga sveigjanleiki verði innan greiðslumarksáramóta. Samþykkt var að fela fulltrúa LK í samstarfsnefnd SAM og BÍ að fylgja tillögu stjórnar eftir.
Sala á greiðslumarki mjólkur
Rætt var um sölu á greiðslumarki mjólkur af ríkisjörðum og var samþykkt að óska skýringa frá landbúnaðarráðuneyti á því hvernig verklagsreglurnar eru við sölu og ekki síður endurúthlutun greiðslumarksins. Ennfremur í hvaða tilfellum þetta hafi verið gert og hvenær.
Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 17:30
Næsti stjórnarfundur: Óákveðinn.
Snorri Sigurðsson