Beint í efni

Stjórnarfundir – 05. f. 1999/2000

31.01.2000

 

Fundargerð 31. janúar 2000


Símafundur stjórnar LK var haldinn mánudaginn 31. janúar 2000 og hófst hann klukkan 15:05. Á línunni voru Þórólfur Sveinsson, Birgir Ingþórsson, Hjörtur Hjartarson, Gunnar Sverrisson og 1. varamaður Egill Sigurðsson. Þá var einnig á línunni Snorri Sigurðsson og ritaði hann fundargerð.

Þórólfur bauð menn velkomna á línuna og setti fund. Því næst var gengið til boðaðrar dagskrár og var eftirfarandi tekið fyrir:

1. Erindi LK til búnaðarþings 2000
Stjórnarmenn höfðu fengið send drög að tillögum LK að erindum til búnaðarþings 2000. Tillögurnar voru ræddar ítarlega og eftir nokkrar breytingar voru eftirfarandi tillögur samþykktar:

1. Ráðgjafaþjónustu í nautgriparækt þarf að endurskoða frá grunni og koma því svo fyrir að hún lúti markaðslegum forsendum. Sú þjónusta sem hægt er að veita frá starfsstöðvum með 1-2 starfsmenn er ekki fullnægjandi. Ítrekuð er tillaga um að taka búnaðargjalds til búnaðarsambanda lækki og þess í stað verði farið að selja þjónustu. Seinagangurinn í máli þessi er ekki ásættanlegur.

2. Fyrir ríflega ári síðan komu fram tillögur svokallaðarar ,,Lífskjaranefndar“. LK ítrekar stuðning við tillögur nefndarinnar um félagsleg málefni og einkum þann þátt er snýr að samgöngum og fjarskiptum.

3. Lagt er til að hafin verði sala hlutabréfa í Hótel Sögu. Að mati LK er vænlegast að ráðstafa þeim hluta söluandvirðis, er ætla má að tilheyri nautgriparæktinni, á þann hátt að arður af söluandvirðinu verði notaður til að fjármagna nauðsynjamál innan greinarinnar s.s. að veita stuðning í alvarlegum veikinda- og slysatilfellum og bæta lífeyrisrétt bænda.

4. Þess er krafist að unnin verði sundurliðun um álagt og greitt búnaðargjald, þannig að skýrt komi fram hvað hver búgrein á að greiða og hvað hún hefur greitt. Það er algjörlega óviðunandi að þetta skuli ekki liggja fyrir, ríflega tveim árum eftir að núgildandi skipulag var tekið upp.

2. Önnur mál.
a) Kosningamál til búnaðarþings voru mikið rædd og velt vöngum yfir sjálfstæði búgreinafélaga yfir kjörtíma sinna manna. Samþykktir LK ganga út frá eins árs kjöri, en samkvæmt reglum um búnaðarþing skulu menn kosnir til þriggja ára. Menn voru því sammála að skoða þyrfti þessar reglur með það að leiðarljósi að samræming verði milli kerfanna.

b) Þórólfur kynnti lauslega niðurstöður fundar hans og Snorra með landbúanaðrráðherra frá því fyrr um morguninn, en þar var á dagskrá hækkun verðskerðingargjalds nautgripa, skildumerkingar nautgripa og almenn landbúnaðarpólitísk mál. Ráðuneytismenn tóku vel í hækkun verðskerðingargjalds úr 400 kr pr. skrokk í 800 krónur, enda sýnt að fjárþörf LK vegna markaðsaðgerða með nautakjöt mun vaxa verulega á árinu. Varðandi skildumerkingar var ákveðið, að í samráði við yfirdýralækni, yrði málinu fundinn farvegur og málinu hraðað eftir megni. Á fundinum kom einnig fram skoðun ráðuneytismanna að skoða þyrfti þá þróun sem er að verða í íslenskri nautgriparækt, hvað snertir bústærð. Í þessu sambandi var Guðna afhent minnisblað frá LK, þess efnis að stjórnin telji ekki ástæðu til að hreyfa við núverandi beingreiðslukerfi, þar sem greinin sé að hreyfast í átt að aukinni hagræðingu.

c) Áburðarslagurinn, sem nú geysar í fjölmiðlum, var ræddur sem og þau ummæli sem fallið hafa í tengslum við málið. Formaður LK hefur sett spurningarmerki við setningu reglugerðar um Kadmíum, þar sem reglugerðin virðist hafa verið sett án nokkurs rökstuðnings rannsóknarmanna og/eða samráðs ráðuneytis við rannsóknastofnanir þess.

d) Ákveðið var að halda stjórnarfund LK fimmtudaginn 24. febrúar kl. 11 og að halda formannafund í kjölfarið, kl. 13.

Fleira var ekki bókað og sleit formaður fundi um kl. 14:10.

Snorri Sigurðsson