Stjórnarfundir – 6. fundur 2001/2002
09.01.2002
Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda
Sjötti fundur stjórnar LK starfsárið 2001/2002 var haldinn miðvikudaginn 9. janúar 2002 og hófst hann klukkan 11:00. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Gunnar Sverrisson, Egill Sigurðsson, Birgir Ingþórsson, Kristín Linda Jónsdóttir og Sigurgeir Pálsson. Einnig var á fundinum Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð. Undir lið 3 kom Sigurborg Daðadóttir, gæðastjóri Móa, á fundinn og undir lið 6 kom Jóhann Gíslason, hönnuður, á fundinn.
Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.
1. Stefnumótun fyrir nautgriparæktina
Formaður kynnti hugmyndir um stefnumörkun, með hvaða hætti á að vinna að málinu og hvernig huga beri að framsetningu. Í þessu sambandi hafði fyrir fundinn verið send út fyrstu drög að stefnumörkun. Rætt var um ýmsar leiðir í þessu sambandi og veltu fundarmenn fyrir sér hve ítarleg slík stefnumörkun á að líta út. Reifaðar voru ýmsar hugmyndir í þessu sambandi og dreift var afriti af markmiðsáætlun (í gildi frá 2002) frá Dansk Kvæg (nautgriparæktarstofnun, sem á bak við stendur félag kúabænda, félag fjölskyldubænda, félag sláturhúsa, búnaðarfélög í Danmörku og samtök afurðastöðva í mjólk). Rædd voru ýmis atriði sem fundarmenn töldu ástæðu til að taka með í vinnuna.
Samþykkt var að stjórn og fulltrúar LK í fagráði nautgriparæktar sjái um grunnvinnu við stefnumörkunina.
2. Nautakjötsmál
Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir ferðalagi sínu í byrjun desember ásamt stjórnarmönnum. Þar var farið í heimsóknir til allra sláturhúsa og forsvarsmenn þeirra. Ástandið er mjög misjafnt eftir svæðum og á meðan hugur er í sumum forsvarsmönnu er framtíðarsýn annarra döpur.
Framkvæmdastjóri fór yfir síðustu tölur um slátrun nautgripa, þar sem fram kemur að ungkálfaslátrun hefur minnkað í september, október og nóvember miðað við sama tíma og í fyrra. Samhliða sýna tölur frá skýrsluhaldi BÍ að fæðingar kálfa eru færri í ár en í fyrra ásamt því sem ásetningur er minni í ár en í fyrra. Sölutölur eru ekki góðar og ljóst að bregðast þarf við. Framundan er söluátak í verslunum Bónus og á því átaki að vera lokið fyrir næstu mánaðarmót. Ennfremur mun verða leikur á Bylgjunni næstu vikur, þar sem LK, Hótel Saga og Bylgjan vinna saman að því að safna uppskriftum og veita verðlaun.
Kristín Linda kynnti viðræður hennar við forsvarsmenn Kjarnafæðis um hugsanlega markaðssetningu á forsteiktu nautahakki. Viðbrögð voru góð og lagði hún ennfremur fram hugmynd um að stjórn LK varðaði leið fyrir ákveðna vöruþróun með því að bjóða hærri auglýsingastyrki í ár vegna sérstakra markaðsaðgerða.
Í tengslum við þetta að þá rædd breyting á úthlutun úr verðskerðingarsjóði og samþykkt að veita hærri hlutfallslega styrki í auglýsingar á nýjungum á markaði unnum úr hakki og gúllasi. Ennfremur ákveðið að hækka framlag til auglýsinga upp í 60% á nautakjöti 1. febrúar til 1. maí.
3. Málefni NLK ehf.
Fyrir fundinum lág erindi frá Sigurborgu Daðadóttur, fulltrúa áhugahóps um rekstur holdastöðvar í Hrísey. Sigurborg greindi frá áformum áhugahópsins um að reka einangrunarstöðina áfram og að starfrækja í Hrísey stofnræktun holdanauta og þangað verði flutt inn til landsins holdasæði til endurnýjunar stofnsins. Hugmyndirnar ganga út á að fjölga kúnum í fjósinu í Hrísey og selja kálfa til ásetnings í land. Fram kom að þegar er komin þörf á að endurnýja erfðaefnið í Angus og Limósín til hreinræktunar. Ljóst er að tiltækt erfðaefni úr Angus og Limósín í dag er nægjanlegt til einblendingsræktunar, en ekki til hreinræktunar holdastofnanna.
Rætt var um, í ljósi þess að ef af framangreindum áformum yrði, möguleika annarra en þeirra sem standa myndu að áformunum til að nýta sér hugsanlegt nýtt erfðaefni. Sigurborg taldi að slíkt ætti að vera möguleiki, enda tilgangurinn að stofna fyrirtæki með hagnaðarvon í huga. Í lok umræðna yfirgaf Sigurborg fundinn.
Fundarmenn ræddu málið ýtarlega, kosti þess og galla við að fela einkafyrirtæki hugsanlegan innflutning holdakynja. Samþykkt var að fela framkvæmdastjóra að ganga til samninga við ofangreinda aðila um huganleg kaup á eigum NLK ehf. í Hrísey. Ákveðið var að auglýsa allar kýr í Hrísey til sölu í næsta Bbl., og þar verði greint frá að ekki sé hægt að fara með hluta af þessum kúm í land.
4. Verðlagning mjólkur og verðtilfærsla mjólkurafurða
Formaður kynnti stöðu mála og gerði grein fyrir þeirri vinnu sem farið hefur fram á vegum Verðlagsnefndar.
Birgir greindi frá verðlagsmálum á innfluttri kálfamjólk, en verð á henni er mjög hagstætt miðað við íslenska framleiðslu. Ákveðið var að skoða verðmyndun á innfluttri og á íslenskri kálfamjólk. Framkvæmdastjóra falið að vinna að málinu.
5. Formannafundur LK
Ákveðið var að halda formannafund LK 14. febrúar nk. kl. 11. Efni fundarins verður stefnumörkun nautgriparæktarinnar og önnur mál.
6. Merki LK
Undir þessum lið kom á fundinn Jóhann H. Jónsson, sem unnið hefur að hönnun á nýju merki fyrir LK. Samþykkt var ein af tillögum hans og framkvæmdastjóra falið að vinna að frágangi málsins með Jóhanni fyrir formannafund LK í febrúar nk.
7. Aðalfundur LK 2002
Framkvæmdastjóri kynnti tilboð sem borist hafa varðandi aðalfund í ágúst nk. Hagstætt boð hefur borist frá Hótel Eddu, Laugum í Sælingsdal í Dölum og var ákveðið að taka því tilboði.
8. GOÐA-málið
Formaður greindi frá viðræðum hans og Ólafs Björnssonar lögfræðings og Magnúsar Brynjólfssonar lögfræðings, en sá síðarnefndi vinnur að skýrslu fyrir LK um málefni Goða. Frekari fréttir af málinu er að vænta á næsta stjórnarfundi.
9. Búnaðarþing 2002
Tillögur LK frá síðasta stjórnarfundi voru sendar til BÍ fyrir áramót eins og skylt er að gera. Rætt var um hvort búnaðarþingsfulltrúar LK ættu að hittast og var ákveðið að kalla þá saman sama dag og búnaðarþing verði sett.
Þá gerði formaður grein fyrir vinnu nefndar um búnaðargjald. Þar hafa verið reifaðar ýmsar leiðir og taldi formaður að samkomulag muni væntanlega nást um tillögu til breytinga.
Egill ræddi um byggðamálin og hvað nauðsynlegt að taka þau fyrir á búnaðarþingi. Framundan væri úthlutun ríkisins á 7.500 ærgildum í sauðfé, sem úthluta á að teknu tilliti til búsetu og mjög mikilvægt væri að bændur tæku forustu í þessum málum í stað stjórnmálamanna.
10. Innsend erindi
a. Erindi búgreinaráðs BSE
Erindi um lyfjareglugerðina, lagt fram til kynningar.
b. Erindi FKS
Erindi um mjólkuruppgjör og rannsóknir, skipulag og kennslu í nautgriparækt, sem og ráðgjöf í nautgriparækt, lagt fram til kynningar.
c. Fyrirspurn um aðstæður nautakjötsbænda í Evrópusambandinu.
Fram hefur komið fyrirspurn til LK um aðstæður nautakjötsbænda í Evrópusambandinu og styrkjamöguleika þeirra. Samþykkt var að fela framkvæmdastjóra að afla upplýsinga um þetta fyrir næsta stjórnarfund.
11. Önnur mál
a. Skoðanakönnun LK og DÍ
Framkvæmdastjóri greindi frá viðræðum hans og hluta stjórnar DÍ um ýmis mál, m.a. áhuga þeirra á því að standa saman með LK að viðhorfskönnun. Málið hefur verið rætt við LBH og um hvort nemendur geti sinnt þessu. Svör eru væntanleg og verður nánar greint frá málinu á næsta stjórnarfundi.
b. Hagfræðileg úttekt á kvótakaupum og kvótasölu í mjólkurframleiðslu.
Samantekt unnin af Daða Kristóferssyni og Birki Þór Guðmundssyni. Lögð fram til kynningar.
c. Afurðir kúa 2001
Framkvæmdastjóri greindi frá fyrstu upplýsingum um meðalafurðir 2001, en samkvæmt upplýsingum frá BÍ munu meðalafurðir árið 2001 liggja á milli 4.900-5.000 lítrar.
d. Verkaskiptingasamningur LK og BÍ
Rætt var um verkaskiptasamninginn, en bent hefur verið á að LK er í dag að framkvæma mun meira en samningurinn gefur tilefni til. Ákveðið var að ræða málið við framkvæmdastjóra BÍ.
e. Sæðingamálefni
Birgir lagði til að LK færi þegar í viðræður við BÍ um rekstur nautastöðvarinnar á Hvanneyri, með það að leiðarljósi að sameina báðar nautastöðvar aðilanna. Formanni og framkvæmdastjóra falið að undirbúa málið.
f. Bjargráðasjóður
Framkvæmdastjóri greindi frá viðræðum hans og framkvæmdastjóra Bjargráðasjóðs um framsetningu reglna og umsóknarblaða á vef LK.
g. Árshátíð kúabænda 2002
Framkvæmdastjóri greindi frá stöðu mála, en unnið er að því að fá hótel og samkvæmissal til að hýsa fyrirhugaða hátíð.
h. Ársfundur fagráðs 2002
Formaður greindi frá ákvörðun fagráðs í nautgriparækt að halda ársfund þann 21. febrúar 2002. Fundurinn verður haldinn í Rangárvallasýslu, en nánari staðsetning ekki komin.
i. Flutningar á fósturvísum
Rætt hefur verið víða um land að skola fósturvísa úr kúm og ná þannig góðum árangri í ræktun. Jafnframt hafa komið fram efasemdir um aðferðina. Stjórnin ákvað að beina fyrirspurn til fagráðs í nautgriparækt um málið.
Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 17:30
Næsti fundur: Óákveðinn.
Snorri Sigurðsson