Stjórnarfundir – 5. fundur 2001/2002
22.11.2001
Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda
Fimmti fundur stjórnar LK starfsárið 2001/2002 var haldinn fimmtudaginn 22. nóvember 2001 og hófst hann klukkan 11:00. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Gunnar Sverrisson, Egill Sigurðsson, Birgir Ingþórsson, Kristín Linda Jónsdóttir og Sigurgeir Pálsson. Einnig var á fundinum Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð.
Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.
1. Mjólkuruppgjörið
Formaður fór yfir stöðu mála, en gerðar voru leiðréttingar á innleggi mjólkur hjá nokkrum hópi bænda.
Fram kom að landbúnaðarráðuneytið sé komið með forsjá þessa máls og hefur því tekið það úr höndum BÍ.
Þá var ennfremur rætt um aðferðafræði sem notuð var við að finna þá sem hugsanlega fengu ofgreiddar beingreiðslur. Stjórn var því sammála að mikilvægt væri að gæta jafnræðis milli bænda þegar unnið er að slíkum málum.
2. Stefnumörkun nautgriparæktarinnar
Formaður kynnti fyrstu hugmyndir um aðferðafræði við að móta stefnuna í kjölfar Rannís-skýrslunnar. Lagðar voru fram tillögur um þetta og veltu fundarmenn fyrir sér mismunandi leiðum. Ljóst er að þær leiðir sem farnar hafa verið í nautgriparækt í nágrannalöndum okkar eru mjög mismunandi. Erfitt verður því að líta nákvæmlega til eins lands og því mikilvægt að skoða margar mismunandi leiðir til sköpunar framtíðarsýnar.
Ákveðið var að vinna hratt að fyrstu drögum málsins.
3. Ráðstöfun beinna greiðslna næsta verðlagsár
Rætt var um með hvaða hætti eigi að huga að breytingum á reglugerð um úthlutunina. Fundarmenn fóru yfir innvigtunartölur mjólkur og var það mat manna að til að sporna við frekari minnkun innvigtunar mjólkur í september þá sé ráðlegt að leggja til að 2% C-greiðslna fari á innvegna mjólk í september á ári komandi. Samhliða væri ástæða til að hækka C-greiðslur á júlí og ágúst 2003 upp í 1,5% og 2,5%. C-greiðslur fyrir vetrarmánuðina lækki sem þessu nemur, þ.e. niður í 9%.
4. Umsókn um styrk frá Auði Arnþórsdóttur
Fyrir fundinum lág umsókn um stuðning LK við ferða- og fundakostnað ofangreindrar vegna gæðastýringarfundar í janúar nk. á vegum Norænna samtaka afurðastöðva. Samþykkt að vísa málinu til fagráðs í Nautgriparækt.
5. Málefni Goða
Formaður kynnti að BÍ hefur heimilað að gengið verði til nauðasamninga. Greitt verður 61% krafna, sem greiðist þannig: 19,5% greiðist í peningum innan 3ja mánaða frá staðfestingu samnings, 19,5% greiðist í peningu innan 6 mánaða frá staðfestingu samnings, 19,5% greiðist í peningu innan 12 mánaða frá staðfestingu samnings og 41,5% krafna greiðast með afhendingu hluta í Norðlenska matborðinu ehf.
Fram kom að formaður var á stjórnarfundi BÍ þar sem þetta mál var rætt og þar hreyfði formaður við mótmælum við þessari leið, enda sýnt að hlutabréf í Norðlenska væru ekki góð söluvara í dag.
Þá var ennfremur rætt um lögfræðiálitið varðandi úttekt á tilurð og starfsháttum Goða, en vinnu við það er ekki lokið. Fram kom að full ástæða sé til að fylgjast vel með þróun næstu vikur.
7. Önnur mál
Merki LK
Framkvæmdastjóri kynnti fyrir stjórn nýjar tillögur að merki LK. Samþykkt var að vinna áfram að endanlegri hönnun þess.
Nautakjötsmálefni
Rætt var ítarlega um stöðu á nautakjötsmarkaði og hvaða leiðir væri hægt að fara. Lagt var til að framkvæmdastjóri fari og hitti fulltrúa afurðastöðvanna og ræði um þá verðþróun sem verið hefur raunin undanfarin misseri.
Ennfremur var samþykkt að uppreikna nýtt viðmiðunarverð og fara og kynna öllum afurðastöðvum.
Kvótaverð
Framkvæmdastjóri greindi frá nýjustu verðum með greiðslumark og gat þess að verðið hafi verið að síga niður undanfarnar vikur.
Sæðingamálefni
Rætt var um sæðingar kúa á landsvísu og var samþykkt að setja allar upplýsingar á veraldarvefinn til að auðvelda bændum landsins að bera saman sæðingakerfið hérlendis.
Stjórnarlaun LK
Rædd var tillaga formanns um stjórnarlaun. Samþykkt var að frá og með næstu áramótum fái stjórnarmenn greidd föst laun sem svarar andvirði 100 lítra mjólkur á mánuði. Eingreiðsla fyrir síma, tölvu og annað tilheyrandi verði 50.000 á ári.
Um málefni NLK ehf.
Samþykkt að ef niðurstaða atkvæðagreiðslu verður neikvæð sé því beint til stjórnar NLK ehf. um að bústjóra verði sagt upp samdægurs (30. nóv. 2001).
Forritamál
Tryggja að samhengi sé milli forrita BÍ og hægt verði að keyra saman upplýsingar milli mismunandi forritum.
Formannafundur
Rætt um að hafa hann í febrúar nk. og að þar verði meginefni stefnumörkun nautgriparæktar.
Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 15:00
Næsti fundur: Óákveðinn.
Snorri Sigurðsson