Beint í efni

Stjórnarfundir – 4. fundur 2001/2002

25.10.2001

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda

 

Fjórði fundur stjórnar LK starfsárið 2001/2002 var haldinn fimmtudaginn 25. október 2001 og hófst hann klukkan 11:00. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Gunnar Sverrisson, Egill Sigurðsson, Birgir Ingþórsson, Kristín Linda Jónsdóttir og Sigurgeir Pálsson. Einnig var á fundinum Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð. Á fundinn mættu einnig Erna Bjarnadóttir, sviðsstjóri BÍ á félagssviði og Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri BÍ.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Kynningarfundir LK og BÍ

Farið var yfir lista BÍ um fundartíma og staði og ákveðið að senda eftirfarandi fulltrúa á fundina:

Þórólfur Sveinsson verði með framsögu fyrir hönd LK á fundunum á Kjalarnesi, Borgarnesi, Blönduósi, Varmahlíð, Akureyri og í Breiðumýri í S-Þing. Gunnar Sverrisson verði með framsögu á Snæfellsnesi og í Dalasýslu. Birgir Ingþórsson verði með framsögu í Víðihlíð. Egill Sigurðsson verði með framsögu á Selfossi og Kristín Linda Jónsdóttir með framsögu á Vopnafirði. Snorri Sigurðsson verði með framsögu á Héraði, Höfn, Kirkjubæjarklaustri, Ísafirði og Patreksfirði.

 

2. Rannís-skýrslan

Rætt um þá umfangsmiklu skýrslu sem unnin hefur verið og þá stefnumótun sem vinna þarf í framhaldi þessarar skýrslu.

            Ákveðið var að framkvæmdastjóri kynni sér með hvaða hætti danskir kúabændur hafa unnið þá stefnumörkun sem þar hefur verið unnin með góðum hætti. Í framhaldi þess muni stjórn ákveða hvernig unnið verður að stefnumörkunini hér.

 

3. Uppgjör mjólkurinnleggs 2000-2001

Undir þessum lið mætti Erna Bjarnadótir. Fram kom að Framkvæmdanefnd búvöru hefur óskað þess af BÍ að fá staðfestingu samlaga á innleggstölum nokkurra bænda og hefur bréf þegar verið sent samlögunum. Fram kom í máli Ernu að svör samlaga liggja ekki fyrir í dag og því erfitt að gefa upp hvenær uppgjörið muni liggja fyrir. Þá hafa einnig vaknað spurningar um andmælarétt. Alls voru sendar fyrirspurnir til 7 samlaga um 92 bú.

 

4. Kosningar um NRF

Undir þessum lið mætti Sigurgeir Þorgeirsson. Rætt var um framkvæmd fyrirhugaðra kosninga og ákveðið að gagnvart kjörgengi ætti að miða við gildandi greiðslumarksskrá eins og hún liggur fyrir 20. október og þannig að starfandi bændur 1. nóvember muni geta kosið um verkefnið.

            Þá var samþykkt tillaga um að í yfirkjörstjórn verði Sigurgeir Þorgeirsson, BÍ og Snorri Sigurðsson og Þórólfur Sveinsson frá LK.

Ennfremur var ákveðið að kjörskrár muni liggja frammi á búnaðarsamböndum viðkomandi svæða 1.-10. nóvember og að kærufrestur verði til 12. nóvember. Kosningar fari svo fram og skuli lokið 25. nóvember og talningu lokið 1. desember.

 

5. Verðlagsmál

Þórólfur kynnti stöðu mála en verðlagsnefnd hefur nú náð sátt um hækkun mjólkur frá og með fyrsta nóvember nk. Mjólk hækkar til bænda um 6,98% en heildsöluverð mun ekki breytast fyrr en um áramót. Verð til bænda verður þá 76,04 kr/ltr.  Þá hefur einnig verið gengið frá viðaukasamningi við samninginn um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu, en þar var ákvæði greinar 6.3. um afnám verðlagningar mjólkurvara á heildsölustigi, frestað til 30. júní 2004.

 

6. Önnur mál

Lán framleiðnisjóðs til NLK ehf.

Framkvæmdastjóri skýrði frá viðræðum hans og framkvæmdastjóra FL um frágang á rekstrarlánum NLK ehf. frá 1995. Samkomulag er um að ef hætt verður við sk. NRF-verkefni þá verði gerð endurgreiðsluáætlun um borgun lánsins, en ella verði lánunum breytt í styrk. Samningum um þetta skal lokið fyrir áramótin.

 

Lyfjareglugerðin

Greint var frá stöðu mála en enn hefur ekki fengist breytingar á reglugerðinni og víða meðal kúabænda mikil óánægja með stöðu mála. Fram kom að erfitt hefur verið að fá fundi með til þess bærum aðilum, en áfram verður unnið markvisst að málinu.

 

Framvinda einstakra mála frá Búnaðarþingi 2000

Rætt var um stöðu einstakra mála frá síðasta búnaðarþingi.

 

Sæðingamál

Birgir ræddi um sæðingamál og taldi þau í ólestri víða um land. Samþykkt var að fyrsta skrefið væri að safna saman upplýsingum um sæðingastarfsemina um landið allt, sérstaklega kostnaðarhlið hennar, og var framkvæmdastjóra falið að gera slíkt.

 

Styrkur til LBH

Samþykkt var tillaga Framleiðnisjóðs um frágang á styrk til LBH vegna fjóss á Hvanneyri.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 15:00

Næsti fundur: Óákveðinn.

Snorri Sigurðsson