Stjórnarfundir – 3. fundur 2001/2002
21.09.2001
Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda
Þriðji fundur stjórnar LK starfsárið 2001/2002 var haldinn föstudaginn 21. september 2001 og hófst hann klukkan 21:00. Mættir voru á línuna: Þórólfur Sveinsson, Gunnar Sverrisson, Egill Sigurðsson, Birgir Ingþórsson og Sigurgeir Pálsson. Einnig var á línunni Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð. Kristín Linda Jónsdóttir var forfölluð.
Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til eina dagskrárliðs fundarins.
Verðlagsmál
Formaður fór stuttlega yfir þá vinnu sem unnin hefur verið að undanförnu. Á þriðjudag áttu formaður og framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda fund með landbúnaðarráðherra og var umræðuefnið verðhækkanir á mjólk 1. október. Fundurinn skilaði ekki niðurstöðu um málið. Síðan hafa verið haldnir nokkrir smærri fundir milli fulltrúa verðlagsnefndar en samkomulag um hækkun fyrsta október ekki í farvatninu. Þessu samhliða er verið að vinna að nýju verðtilfærslukerfi, ásamt því að finna leið til að leysa réttaróvissuna um afnám heildsöluverðlagningar.
Formaður útilokaði ekki að hægt væri að ná samkomulagi innan nefndarinnar um hækkun mjólkurinnar fyrir áramót en lagði á það áherslu að það kæmi fyrst í ljós þann 24. september, þegar næsti verðlagsnefndarfundur verður, hvort mögulegt sé að ná sátt innan nefndarinnar um hækkun.
Önnur mál
Gunnar Sverrisson greindi frá verklagi við uppgjör verðlagsáramóta, þar sem nú er verið að bíða með uppgjör til bænda þar til endurskoðendur afurðastöðva eru búnir að fara yfir innlegg bændanna á síðasta verðlagsári.
Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 22:00
Næsti fundur: Óákveðinn.
Snorri Sigurðsson