Stjórnarfundir – 1. fundur 2001/2002
04.09.2001
Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda
Fyrsti fundur stjórnar LK starfsárið 2001/2002 var haldinn þriðjudaginn 4. september 2001 og hófst hann klukkan 11:30. Mættir voru: Þórólfur Sveinsson, Gunnar Sverrisson, Birgir Ingþórsson, Egill Sigurðsson. Kristín Linda Jónsdóttir og Sigurgeir Pálsson. Einnig var á fundinum Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð.
Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.
1. Val í trúnaðarstöður
Varaformaður var kosinn leynilegri kosningu og var Gunnar kosinn með fjórum atkvæðum. Stjórn LK lýtur svo á að allir stjórnarmenn hafi jafna ábyrgð, þrátt fyrir að einstakir stjórnarmenn séu valdir sem varaformaður, gjaldkeri og ritari skv. ákvæðum í samþykktum LK. Kristín Linda var kjörin gjaldkeri og Birgir ritari.
2. Verðlagsmál
Formaður fór yfir stöðu mála, en landbúnaðarráðherra hefur nú samþykkt tillögur verðlagsnefndar um að auka greiðslumarkið um eina milljón lítra. Fram var lagt bréf frá landbúnaðarráðuneytinu, þar sem fram kemur að réttaróvissa er um verðmiðlunarákvæði búvörulaganna vegna álits Samkeppnisstofnunar frá því fyrr í sumar. Fundarmenn ræddu málið ítarlega og var megn óánægja með þá stöðu sem upp er komin. Þá var rætt um þörf kúabænda fyrir verðhækkun mjólkurinnar og þau viðbrögð sem orðið hafa í kjölfar frétta af aðalfundi LK, þar sem fram kom að þörf væri á hækkun mjólkur. Formaður kynnti að í dag væri hækkunarþörfin komin í um 9% og lagði fram gögn um þann kostnað sem íslenskir kúabændur lenda í ef hækkun um 8% verði frestað til áramóta. Þá var samþykkt að senda ályktun til Verðlagsnefndar um málið.
3. Afkoma kúabænda
Formaður fór yfir fjárhags- og greiðslustöðu kúabænda og ræddi um framboð og eftirspurn eftir kvóta. Fundarmenn ræddu málið ítarlega og ljóst er að framundan eru erfiðir tímar fyrir marga bændur, með hækkandi vöxtum og aukinni skuldsetningu greinarinnar. Fram kom hjá fundarmönnum að ekki bæri enn á erfiðleikum við öflun fjármagns til kaupa á kvóta, en augljóslega farið að þyngjast um fjármagnsmöguleika hjá öðrum stéttum.
4. Afdrif ályktana aðalfundar LK
1. ályktun:
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku við Mývatn 21.-22. ágúst 2001, gerir þá kröfu til Bændasamtaka Íslands að gert verið átak til að bæta forritið Ískýr þannig að það vinni eins og til er ætlast og nái þeirri útbreiðslu meðal kúabænda sem nauðsynleg er m.a. vegna skyldumerkingu nautgripa og gæðastýringar.
Ákveðið að senda ályktunina til Bændasamtakanna og Fagráðs í nautgriparækt.
2. ályktun:
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku við Mývatn 21.-22. ágúst 2001, beinir því til stjórnar LK að hún beiti sér fyrir auknum fjárframlögum til nautgripasæðinga og stuðli þannig að eflingu kynbótastarfsins.
Greinargerð:
Undanfarin ár hafa opinber framlög til nautgripasæðinga farið ört lækkandi. Á sama tíma hefur kokstnaður við rekstur bifreiða og laun frjótækna hækkað mjög. Allt þetta hefur kallað á svo miklar hækkanir á verðlagi þjónustunnar að ætla má að notkun hennar sé stefnt í nokkra tvísýnu. Dragi veruleg úr notkun sæðinganna verður resturinn enn erfiðari og gæti þróun af þessu tagi orðið verulegur hnekir fyrir kynbótastarfið, sem stendur og fellur með þátttöku i sæðingunum.
Sá árangur í kynbótum, sem sæðingarnar hafa skilað, kemur öllum kúabændu til góða og því telur fundurinn að vandfundinn sé sá farvegur fyrir fjárframlög, þar sem þau nýtast betur en þar.
Ákveðið að taka málið upp með landbúnaðarráðherra og fulltrúum Bændsamtakanna.
3. ályktun:
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku við Mývatn 21.-22. ágúst 2001, skorar á landbúnaðarráðherra og aðra þá er að málinu koma að, í kjölfar RANNÍS-skýrslunnar verði gerðar nauðsynlegar breytingar á fagþjónustu landbúnaðarins. Fundurinn ítrekar fyrri ályktanir sínar um uppbyggingu þróunarseturs fyrir nautgriparæktina að Hvanneyri og leggur áherslu á að ekki verði frekari tafir á að byggt verði þar nýtt fjós. Jafnframt verði þess gætt að námsefni og kennsluhættir í nautgriparækt hérlendis séu ekki lakari en hjá nágrannaþjóðum.
Einnig skorar fundurinn á LBH og RALA, í ljósi fyrri ályktana LK og samstarfssamnings LBH og RALA (frá 1997), að ganga frá sameiginlegri stefnumótun í rannsóknum og kennslu í nautgriparækt. Þá telur fundurinn brýnt að gerður verði samstarfssamningur LBH, RALA og BSSL um starfsemi tilraunastöðvarinnar að Stóra-Ármóti.
Ákveðið að senda ályktunina til landbúnaðarráðherra, LBH, RALA og BSSL.
4. ályktun:
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku við Mývatn 21.-22. ágúst 2001, ályktar eftirfarandi um ráðstöfum beinna greiðslna: Svonefndar C-greiðslur, sem eru 15% beinna greiðslna, verða á næsta verðlagsári greiddar þannig að 12% verða greiddar á innvigtun í nóvember til febrúar, 1% á innvigtun í júlí og 2% í ágúst.
Fundurinn leggur áherslu á að ráðstöfun C-greiðslu sé jafnan með þeim hætti að innvigtun mjólkur falli sem best að þörfum markaðarins á hverjum tíma.
Ákveðið að taka málið upp á næsta stjórnarfundi LK, þar sem þá munu væntanlega liggja fyrir upplýsingar um innvigtun mjólkur í september 2001 þessum mánuði.
5. ályktun:
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku við Mývatn 21.-22. ágúst 2001, beinir því til stjórnar LK að vinna að sameiningu leiðbeiningaþjónustunnar í 2-3 leiðbeiningamiðstöðvar. Jafnframt verði skoðuð hagkvæmni og faglegur ávinningur þess að flytja starfsgildi landsráðunauta í nautgriparækt í þær stöðvar.
Greinargerð:
Búnaðarþing 2001 fól stjórn BÍ að skipa nefnd sem hefði m.a. það hlutverk að endurskoða skipulag ráðgjafaþjónustu í landbúnaði og nýtingu búnaðargjalds. Skyldi nefndin skila áliti sínu fyrir næsta búnaðarþing.
Mikið hefur verið rætt um sameiningu leiðbeiningaþjónustu búnaðarsambandanna sem leið til að styrkja fjárhagslega og ekki síður faglega stöðu þeirra. Hinsvegar verður sá hluti leiðbeiningarþjónustunar ekki endurskoðaður án þess að jafnframt verði stöður landsráðunauta endurmetnar, eigi ásættanlegur árangur að nást.
Hjá BSSL hefur á undanförnum árum verið unnið markvisst að uppbyggingu leiðbeininga í nautgriparækt með góðum árangri. Þar er nú starfandi hópur ráðunauta og sérmentaðra dýralækna sem sameiginlega taka á þeim verkefnum sem til falla. Engum vafa er undirorpið að frumkvæði verður meira og vinna markvissari þegar starfað er í slíku umhverfi en á einmenningssvæðum. Staðsetning landsráðunautar í hópi sem þessum myndi án efa efla starf hans, auk þess sem önnur svæði nytu þá jafnframt góðs af starfi hópsins í heild.
Ákveðið að senda ályktunina til fagráðs í nautgriparækt.
6. ályktun:
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku við Mývatn 21.-22. ágúst 2001, felur stjórn Landssambands kúabænda að láta fara fram atkvæðagreiðslu um tilraunainnflutning á NRF fósturvísum í samvinnu við stjórn Bændasamtaka Íslands, eigi síðar en 20. nóvember 2001. Fundurinn samþykkir að kjörskrá verði unnin á sömu forsendum og gert var vegna kosninga um mjólkursamninginn 1998. Verkefnið verði kynnt í samvinnu við aðildarfélög Landssambands kúabænda og Bændasamtök Íslands fyrir októberlok.
Formanni og framkvæmdastjóra falið að vinna að undirbúningi málsins í samvinnu við BÍ og aðildarfélögin, en fundarmenn lögðu áherslu á að hugað yrði vel að framsetningu efnis, hverjir leggi málið fram og að fundirnir verði ekki of margir og smáir.
7. ályktun:
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku við Mývatn 21.-22. ágúst 2001, samþykkir að lokamálsliður greinar 5.3. í samþykktum LK verði þannig:
“Fjöldi fulltrúa skal vera einn fyrir hverja þannig reiknaða 40 félagsaðila eða brot af þeirri tölu.”
Ályktunin ekki rædd.
8. ályktun:
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku við Mývatn 21.-22. ágúst 2001, treystir loforði Landssímans hf. um að allir sveitabæir eigi kost á ISDN tengingu fyrir árslok 2002 en bendir jafnframt á að víða næst ekki viðunandi tenging vegna takmarkaðrar flutninsgetu símalínanna. Fundurinn leggur áherslu á að úr þessu verði bætt.
Ákveðið að senda ályktunina til Landssímans hf. og samgönguráðherra.
9. ályktun:
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku við Mývatn 21.-22. ágúst 2001, beinir því til stjórnar L.K. að hún hlutist til um að unin verði ítarleg greinargerð um starfsemi Goða hf., nú Kjötumboðsins hf., síðustu misseri. Þar verði m.a. leitt í ljós hvernig staðið var að rekstri félagsins og ákvörðunum um að taka við sláturgripum eftir að ljóst mátti vera að ekki yrði hægt að greiða bændum fyrir afurðirnar.
Komi fram vísbendingar um saknæmt athæfi verði farið fram á opinbera rannsókn. Eðlilegt er að leitað verði amstarfs við aðrar kjötgreinar um verkefnið.
Þegar hefur verið unnið að þessu verkefni og lögfræðingar félagsins að vinna að úttektinni. Þá samþykkti stjórn að fela formanni og framkvæmdastjóra fulla heimild til þess að óska opinberrar rannsóknar ef minnsta vísbending komi fram um saknæmt athæfi varðandi starfsemi Goða hf., nú Kjötumboðsins hf.
10. ályktun:
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku við Mývatn 21.-22. ágúst 2001, beinir því til stjórnar að beita sér fyrir lækkun flutningskostnaðar sláturgripa á svæðum þar sem flytja þarf gripi um langan veg til slátrunar.
Ákveðið að senda ályktunina til Landssambands sláturleyfishafa og landbúnaðarráðherra. Jafnfram ákveðið að taka upp viðræður við LS um staðlaðar reglur varðandi flutninga á stórgripum.
11. ályktun:
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku við Mývatn 21.-22. ágúst 2001, skorar á landbúnaðarráðaherra að setja hið fyrsta reglugerð um skyldumerkingar nautgripa. Málið hefur verið lengi í undirbúningi og nú liggja fyrir drög að reglugerð. Skyldumerkingar nautgripa eru nauðsynlegar til að tryggja rekjanleika og til að gefa margvíslegar upplýsingar til hagsbóta fyrir kúabændur.
Ákveðið að senda ályktunina til landbúnaðarráðherra.
12. ályktun:
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku við Mývatn 21.-22. ágúst 2001, leggur til við heilbrigðisráðherra að 17. grein reglugerðar nr. 539/2001 verði breytt með þeim hætti að dýralæknum verði gert kleyft að afhenda bændum sýklalyf til að meðhöndla bráðatilvik auk geldstöðumeðhöndlunar mjólkurkúa, enda séu þau einungis notuð í samráði við dýralækni búsins og að jafnframt sé haldin skrá um notkun þeirra. Auk þess verði með reglugerðinni bændum leyft að eiga og nota snefilefna- og fjölvítamínblöndur til að koma í veg fyrir efnavöntun í nautgripahjörðinni og bændum verði gert kleyft að nálgast bórkalk og magnesíum án lyfseðils í lyfjaverslun. Jafnframt verði hugað að markvissri fræðslu til bænda um lyfjanotkun, þ.e. meðferð lyfja og afleiðingar lyfjanotkunar.
Ákveðið að senda ályktunina til heilbrigðisráðherra.
13. ályktun:
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku við Mývatn 21.-22. ágúst 2001, krefst þess að embætti yfirdýralæknis fylgi því eftir að héraðsdýralæknar framfylgi lögum og reglugerðum um fjósaskoðun. Staðreynt er að hjá mörgum bændum hafa fjós ekki verið skoðuð til fleiri ára.
Ákveðið að senda ályktunina til yfirdýralækni.
14. ályktun:
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku við Mývatn 21.-22. ágúst 2001, beinir því til sláturleyfishafa að standa saman um að borga framleiðendum viðmiðunarverð LK, einnig beinir fundurinn því til stjórnar LK að beita sér fyrir stórauknu framboði á unnu nautakjöti í verslunum í samráði við kjötvinnslur og smásöluverslanir.
Ályktunin rædd og ákveðið að vinna hratt að framgangi málsins.
5. Minnisblað til SAM
Formaður fór yfir minnisblað sem hann hafði gert varðandi ályktanir aðalfundar sem beinast að mjólkuriðnaðinum. Annarsvegar er það spurningin um fyrirkomulag á C-greiðslu ásamt frágangi á uppgjöri síðasta verðlagsárs vegna próteinbirgða og hinsvegar um afstöðu mjólkuriðnaðarins um hugsanlega sérstöðu íslenskra mjólkurvara í tengslum við kúakynið.
Stjórn taldi vel koma til greina að kaupa hluta af próteini síðasta verðlagsárs sem er umfram greiðslumark, í tengslum við þarfir markaðarins fyrir prótein. Endanleg ákvörðun um þetta þarf að liggja fyrir áður en bókhaldi ársins 2000-2001 verður lokað.
6. Tilnefning í fagráð nautgriparæktar til þriggja ára.
Ákveðið var að skipa til þriggja ára: Þórólf Sveinsson, Þórarinn Leifsson í Keldudal og Sigurð Loftsson í Steinsholti sem aðalfulltrúa og Gunnar Sverrisson og Kristínu Lindu Jónsdóttur sem varamenn.
7. Tilnefning í Búvörusamninganefnd.
Ákveðið var að skipa í nefndina Þórólf Sveinsson, formann LK, og Egil Sigurðsson, Berustöðum. Þá komu nokkur nöfn upp í umræðum um sameiginlegan mann LK og BÍ. Ákveðið var að formaður myndi ræða við formann BÍ um sameiginlegan mann, á grundvelli umræðna stjórnar LK.
8. Önnur mál
Námskeiðsmál
Nú í upphafi á nýju starfsári var fjallað um þörf námskeið sem halda þarf fyrir kúabændur og komu þar upp vangaveltur um fjármála-, afleysinga- og tölvukennslunámskeið. Samþykkt var að beina því til fagráðs að koma slíkum námskeiðum á.
Sæðingar kvígna
Rætt var um þann mikla vanda að fyrsta kálfs kvígur séu of lítið notaðar í ræktunarstarfinu. Allt of margir bændur noti heimanaut á kvígurnar sínar og því vanti inn ferskt erfðaefni inn í ræktunarstarfið. Samþykkt var að fela framkvæmdastjóra og formanni að skoða málið fyrir næsta stjórnarfund.
Rannís-nefndin
Nú sér loks fyrir endann á vinnu nefndarinnar og var samþykkt að skýrsluna yrði að senda til allra starfandi kúabænda. Ákveðið var að senda skýrsluna á alla greiðslumarkshafa með mjólk.
Merki LK
Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir vinnunni sem unnin hefur verið.
Viðbrögð við netinu
Framkvæmdastjóri kynnti viðbrögð bænda við neti LK, sem eru mjög góð.
Markaðsstarf með mjólkurafurðir í USA
Framkvæmdastjóri kynnti það starf sem unnið hefur verið varðandi mjólkurvörur í USA, en framundan er kynning á íslenskum mjólkurvörum á matvælasýningu í Bandaríkjunum. Þá mun framkvæmdastjóri fara til USA á sýninguna til kynninga á vörunum, sem og til að kynnast lífrænum búskap.
Ráðstefna í Danmörku
Framkvæmdastjóri greindi frá boði sem hann hefur fengið um að halda erindi á ráðstefnu í Danmörku um nýjungar í fjósbyggingum á Norðurlöndum. Á ráðstefnunni verða fremstu fjóshönnuðir og rannsóknarmenn á Norðurlöndum. Samþykkt var að heimila framkvæmdastjóra að sækja þessa ráðstefnu.
Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 09:30
Næsti fundur óákveðinn.
Snorri Sigurðsson