Beint í efni

Stjórnarfundir – 16. fundur 2000/2001

20.08.2001

 

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda

 

Sextándi fundur stjórnar LK starfsárið 2000/2001 var haldinn mánudaginn 20. ágúst 2001 og hófst hann klukkan 21:00. Mættir voru: Þórólfur Sveinsson, Gunnar Sverrisson, Birgir Ingþórsson, Egill Sigurðsson og Sigurgeir Pálsson. Einnig var á fundinum Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Viðurkenningar LK

Ákveðið var að veita félagsbúinu að Baldursheimi viðurkenningu LK árið 2001 fyrir fádæma miklar afurðir til margra ára. Ýmsar fleiri hugmyndir komu fram, en ákveðið að veita einungis ein verðlaun LK að þessu sinni.

 

2. Verðlagsmál

Formaður gerði grein fyrir vinnu Verðlaganefndar, bæði hvað varðar framleiðenda- og heildsölustigið. Ljóst er að verulegur vandi er framundan þar sem tilkostnaður bænda hefur vaxið verulega vegna verðbólgu, og enn er algjör óvissa um túlkun samkeppnislaga gagnvart búvörulögum.

Stjórnin taldi óhjákvæmilegt að fara fram á leiðréttingu mjólkurverðs til bænda 1. október nk.

 

3. Framlag Framleiðnisjóðs til fjóss á Hvanneyri

Formaður kynnti viðræður hans og framkvæmdastjóra FL varðandi styrk sjóðsins til LBH vegna byggingu kennslufjóss á Hvanneyri. Talið var eðlilegt að uppsafnað fé úr gamla kjarnfóðursjóðnum verði notað til að styrkja skólann varðandi skólafjósið. Í tengslum við umræður undir þessum lið dreifði framkvæmdastjóri drögum skýrslu frá Rannís-nefndinni, “Skýrslu um stöðu og þróunarhorfur í nautgriparækt á Íslandi”. Miklar umræður urðu um rannsóknaraðstöðu í nautgriparækt á landinu og framtíðarhorfur með rannsóknir í nautgriparækt. Ákveðið var að fresta umræðum um málið fram yfir aðalfund.

 

4. Tillögur stjórnar LK til aðalfundar LK 2001

Aðalfundur Landssambands kúabænda 2001, haldinn í Mývatnssveit 21. og 22. ágúst 2001, ályktar:

 

1. Tillaga

Fundurinn ítrekar fyrri ályktanir sínar um nauðsyn þess að símakerfi í dreifbýlinu verði komið í það horf að viðunandi sé.

 

„Aðalfundur LK, haldinn á Selfossi 23. – 24. ágúst 2000, ítrekar fyrri ályktanir um nauðsyn á bættu símkerfi í sveitum og krefst þess að öllum notendum símkerfisins verði tryggð viðunandi tenging við Netið.

 

Greinargerð:

Sú þróun sem orðið hefur undanfarið í rafrænum samskiptum skapar nýja og stórkostlega möguleika á fjölmörgum sviðum og getur gjörbreytt möguleikum fólks til atvinnu, menntunar og dægrardvalar óháð búsetu. Ekki er annað sýnna en að í náinni framtíð verði í ríkum mæli treyst á þessa tækni í miðlun hverskyns upplýsinga og ráðgjafar, ekki síst í hinum dreifðu byggðum. Þeir sem ekki hafa tök á að nýta þessa tækni verði því í óviðunandi stöðu að þessu leyti.

Enn er stór hópur bænda sem ekki á kost á viðunandi tengingu við Netið vegna takmarkana í símkerfinu og fer því á mis við þá möguleika sem þarna er boðið upp á. Er slík staða að sjálfsögðu með öllu óþolandi og í eyrum þessara manna næsta holur hljómur í hástemmdum yfirlýsingum ráðamanna um að þessi nýja tækni muni bjarga hinum dreifðu byggðum.

Því setur fundurinn þessa kröfu fram af fullum þunga.“

 

 

2. Tillaga

Fundurinn skorar á landbúnaðarráðaherra að setja hið fyrsta reglugerð um skyldumerkingar nautgripa. Málið hefur verið lengi í undirbúningi og nú liggja fyrir drög að reglugerð. Skyldumerkingar nautgripa eru nauðsynlegar til að tryggja rekjanleika og til að gefa margvíslegar upplýsingar til hagsbóta fyrir kúabændur. Því er skorað á landbúnaðarráðherra að setja reglugerð um merkingarnar sem fyrst.

 

 

3. Tillaga

Fundurinn felur stjórn Landssambands kúabænda, í samvinnu við stjórn Bændasamtaka Íslands, að láta fara fram atkvæðagreiðslu í nóvembermánuði 2001 um tilaunainnflutning á NRF-fósturvísum. Vísað er til samþykktar búnaðarþings um hvernig verði spurt og fundurinn samþykkir að kjörskrá verði unnin á sömu forsendum og gert var vegna kosninga um mjólkursamninginn 1998. Kynning verkefnisins fari fram 15.-31. október um allt land, í samvinnu við BÍ og aðildarfélög LK.

 

Samþykkt búnaðarþings:

Tilraunainnflutningur á NRF-fósturvísum

Búnaðarþing 2001 ályktar eftirfarandi um tilraunainnflutning á NRF-fósturvísum:

1. Verkefninu verði frestað eftir að töku fósturvísa í Noregi lýkur.

 

2. Nefnd sú sem umsækjendur og landbúnaðrráðherra hafa skipað sameiginlega leggi fram áætlun um framkvæmd samanburðartilraunarinnar. Sú áætlun liggi fyrir í síðasta lagi 20. júní n.k.

 

3. Fyrir aðalfund LK sem haldinn verður í ágúst n.k. leiti stjórnir BÍ og LK samráðs um undirbúning að almennri atkvæðagreiðslu meðal kúabænda. Í þeirri atkvæðagreiðslu verði spurt hvort sá sem atkvæði greiðir vilji að sú tilraun fari fram sem gert er grein fyrir í lið 2.

Svari meirihluti já, fer verkefnið af stað.

Svari meirihluti nei, verður hætt við verkefnið.

Í kynningu fyrir atkvæðagreiðsluna verði leitast við að sem flest sjónarmið er málið varða komi fram.

 

4. Um framkvæmd atkvæðagreiðslu sbr. lið 3 verði horft til framkvæmdar á atkvæðagreiðslu um samning um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Kjörskrá verði unnin svo vel sem kostur er og vandað til kynningar á henni.

 

5. Búnaðarþing 2001 samþykkir að erfðaefni úr NRF-kyninu verði ekki tekið í notkun hjá bændum fyrr en að undangenginni atkvæðagreiðslu þar um meðal kúabænda að tilraun lokinni.

 

 

4.Tillaga

Aðalfundur LK 2001, telur eðlilegt að 15% beinna greiðslna verði notaðar til að stuðla að innvigtun mjólkur falli sem best að þörfum markaðarins á hverjum tíma.

 

5. Tillaga

Fundurinn skorar á landbúnaðarráðherra og aðra þá er að málinu koma að, í kjölfar RANNÍS-skýrslunnar verði gerðar nauðsynlegar breytingar á fagþjónustu landbúnaðarins. Fundurinn ítrekar fyrri ályktanir sínar um uppbyggingu þróunarseturs fyrir nautgriparæktina að Hvanneyri og leggur áherslu á að ekki verði frekari tafir á að byggt verði þar nýtt fjós.

 

6. Tillaga

Aðalfundur LK 2001 leggur til við heilbrigðisráðherra að 17. grein reglugerðar nr. 539/2001 verði breytt með þeim hætti að dýralæknum verði gert kleyft að afhenda bændum sýklalyf til að meðhöndla bráðatilvik auk geldstöðumeðhöndlunar mjólkurkúa, enda séu þau einungis notuð í samráði við dýralækni búsins, sem getur farið fram í síma, og að jafnframt sé haldin skrá um notkun þeirra. Jafnframt verði hugað að markvissri fræðslu til bænda um lyfjanotkun, þ.e. meðferð lyfja og afleiðingar lyfjanotkunar.

 

Greinargerð:

 1. Að því er best verður séð þrengir 17. grein reglugerðar nr. 539/2000 möguleika dýralækna til að ávísa lyfjum, frá því sem kveðið er á um í lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr nr. 66/1998, sbr. 7. og 8. grein, en þar segir:
  1. 7. gr. Eingöngu þeir dýralæknar sem hafa leyfi til að stunda dýralækningar mega framkvæma læknisaðgerðir á dýrum. Undanþegnar eru þó minni háttar aðgerðir og lyfjameðferð í samráði við dýralækni.
  2. 8. gr. Dýralækni er einungis heimilt að afhenda eða ávísa lyfseðlisskyldum lyfjum handa dýri þegar hann hefur greint sjúkdóminn.
  3. Í greinargerð til Alþingis með frumvarpinu segir um 8. grein: Greinin er nýmæli í dýralæknalögum en er í samræmi við ákvæði lyfjalaga. Henni er ætlað að skapa meira aðhald og árvekni um meðferð lyfja. Í flestum tilkvikum verður að reikna með að sjúkdómsgreining byggist á skoðun, en greining á rannsóknastofu eftir heimsókn dýralæknis eða eftir símaviðtal þar sem dýralæknir hefur farið yfir einkenni og gang sjúkdómsins með eiganda eða umráðamanni dýrsins telst einnig fullnægjandi sé ekki um nokkurn vafa að ræða af hálfu dýralæknis.

 

 1. Í 20. gr. reglugerðar nr. 539/2000 segir að hún sé sett með hliðsjón af tilskipun 81/851/EBE, sem sé hluti af samningum um Evrópska efnahagssvæðið. Í þessari tilskipun er engin fyrirmæli um hvernig ávísun og afgreiðslu dýralyfja skuli háttað nema hvað mælt er fyrir um hvað skuli standa á lyfjaumbúðum.  Þvert á móti í grein 50 í niðurlagi kafla 7 (Merking dýralyfja og fylgiseðlar með dýralyfjum) segir svo:

Article 50

The requirements of Member States concerning conditions of supply to the public, the marking of prices on medical products for veterinary use and industrial property rights shall not be affected by the provisions of this chapter.

 

Þessi grein hlýtur að skiljast svo að ESB setji aðildarlöndunum engar fastar reglur um hvernig ávísun og gjöf dýralyfja skuli háttað. Þvert á móti, aðildarlöndin skuli sjálf ákveða það, hvert fyrir sig. Þetta endurspeglast í því að mismunandi reglur gilda um þessi mál í aðildarlöndum ESB.

 

3.      Reglugerðinni fylgir aukinn kostnaður, a.m.k. til skemmri tíma litið. Til marks um það er m.a. eftirfarandi:

  1. Til niðurgreiðslu á aksturskostnaði dýralækna (akstur+ferðalaun) var búið að verja 2.470 þús. kr.  í lok maí 2000 en 3.970 þús. kr. í lok maí 2001. Hækkunin er rúm 60%. Aksturstaxti og launavísitala hækkaðu á sama tíma um 9-10%.
  2. Á síðasta ári var veitt 8,2 millj. króna til niðurgreiðslu á aksturs- og ferðakostnaði dýralækna. Fjárveitingu vantaði v/desember + nokkra mánuði umfram það hjá einum dýralækni. Sótt hefur verið um 4 millj. kr. aukalega fyrir yfirstandandi ár og 4 millj.kr þar til viðbótar á næsta ári en alls óvíst er um auknar fjárveitingar til þessa verkefnis. Ljóst er að fjárþörf ræðst að hluta af ákvæðum reglugerðarinnar.
  3. Ætla má að þessi aukni ferðakostnaður endurspegli fjölgun læknisverka sem bændur bera kostnaðinn af. Í ljósi ofangreindra upplýsinga um aukinn ferðakostnað dýralækna og af viðtölum við kúabændur má áætla að hækkunin útgjalda vegna vitjana dýralækna, geti legið á bilinu 30-40%.

Á grundvelli könnunar LK frá febrúar 2001 meðal 35 kúabænda á öllu landinu var meðalkostnaður við vitjun og læknisverk eftirfarandi, allar tölur án vsk:

Vitjunargjald kr. 1.996.

Meðhöndlun júgurbólgu kr. 634.

Meðhöndlun súrdoða kr. 739.

  1. Hafa verður í huga að aðgengi að dýralæknaþjónustu hér á landi er misjafnt eftir landshlutum og víða ósambærilegt við það sem gerist í þeim löndum sem sett hafa reglur sambærilegar þeim er að finna í núgildandi reglugerð s.s. Danmörk. 

Þá er sú staða stundum uppi að verðmæti grips er lægra en kostnaður við að kveðja til dýralækni til að meðhöndla ýmis bráðatilvik. Getur því ýmist dregist eða jafnvel ekki orðið af því að dýralæknir sé fenginn til að meðhöndla viðkomandi grip. Slíkt hlýtur að vera í bága við dýravelferðarsjónarmið.

 

 1. Tilgangur með þrengingu á heimildum bænda til að hefja sýklalyfjameðferð var að bæta sýklalyfjameðferð hjá bændum. BÍ og LK lýsa fullum stuðningi við þau sjónarmið sem lögð voru til grundvallar við samningu reglugerð-arinnar og lúta að því að koma í veg fyrir misnotkun lyfja og stuðla að sem réttastri notkun þeirra. Samtökin vilja hins vegar að leitað verði leiða til að ná þessu markmiði með öðrum aðferðum sem jafnframt verði ódýrari fyrir landbúnaðinn.

 

7. Tillaga

Aðalfundur LK 2001 gerir þá kröfu til Bændasamtaka Íslands að gert verið átak til að bæta forritið Ískýr þannig að það vinni eins og til er ætlast og nái þeirri útbreiðslu meðal kúabænda sem nauðsynleg er m.a. vegna skyldumerkingu nautgripa og gæðastýringar.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 22:30

Næsti fundur 21.08. kl. 9:00.

Snorri Sigurðsson